Blik 1969/Sumardvöl Dr. Helga Péturss

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Blik 1969


INGIBJÖRG ÓLAFSDÓTTIR, BÓLSTAÐARHLÍÐ:


Sumardvöl doktors Helga Péturs
í Eyvindarholti


Sögusvið mitt er gamall sveitabær og umhverfi hans. Hann stóð vestan í einum af túnhólunum. Meðfram bæjarhólnum rann lítill lækur. Út frá túnfætinum breiddust eggjarnar, að mestu leyti greiðfærar og sléttar.
Á þessum tímum þótti það mikill viðburður á afskekktum sveitabæ, ef hámenntaður og víðkunnur vísindamaður settist að á heimilinu, og mikil tilbreyting þótti það í fábreytni og hversdagsleika daganna. Jafnvel smáatburðir, sem við á tímum hraðans og véltækninnar mundum ekki veita athygli, festust í huga fólksins, urðu síðan að umtalsefni og að lokum greipt í minni þess.


Ingibjörg Ólafsdóttir frá Eyvindarholti.


Það bar við árið 1903. Þá höfðu foreldrar mínir búið tvö ár í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum. Þetta var í júlímánuði og komið að túnaslætti.
Einn daginn sást til mannaferða austan yfir Markarfljót. Þetta voru tveir ferðamenn, sem ráku með sér klyfjahesta. Eftir stuttan tíma voru þeir komnir heim á bæjarhlaðið og höfðu þar tal af foreldrum mínum.
Grannvaxni, fölleiti maðurinn var Doktor Helgi Pétursson, en leiðsögumaður hans var Ögmundur Sigurðsson, síðar þjóðkunnur maður sem ágætur skólastjóri við Flensborgarskólann í Hafnarfirði.
Dr. Helgi Pétursson kvaðst ætla að hefja jöklarannsóknir við Eyjafjallajökul, en vegna allra staðhátta hentaði sér vel að dveljast hér í námunda við jökulinn. Hann bað því um dvalarstað heima fyrir þá félaga, meðan hann starfaði að rannsóknum sínum.
Faðir minn sagði sem var, að heimilisfólkið væri margt, þar af 8 börn á aldrinum frá eins árs til þrettán ára. Það væri því miklum erfiðleikum bundið fyrir húsfreyjuna að taka á móti tveim dvalargestum um þetta leyti árs, þar sem hún væri ein með heimilisstörfin um sláttinn.
Að svo mæltu bað faðir minn fylgdarmanninn að taka farangurinn af hestunum og bauð gestunum í bæinn til að þiggja góðgjörðir. Þá vék Doktor Helgi sér að fylgdarmanni sínum og greindi honum frá því, að hann tæki ekki koffortin ofan af hestunum fyrr en úr því væri skorið, hvort tekið yrði á móti þeim til lengri dvalar eða ekki.
Síðan sagði hann við föður minn fremur hvatskeytlega: „Ólafur, hefur þú nokkurn tíma úthýst gestum þínum?“ Faðir minn kvað það ekki vera venjulegt á heimilinu, en nú yrði konan að ákveða það, þar sem það kæmi í hennar hlut að annast um gestina. Ennfremur sagði hann, að bærinn væri lélegur og því ekki viðunandi húsnæði fyrir gesti, sem betra væru vanir. Doktorinn taldi það ekki koma að sök, hvað sig snerti; hann svæfi í tjaldi, sem hann hefði meðferðis. Og hvað Ögmundi viðviki, þá væri hann vanur að sofa í sveitabaðstofu. Hann gæti þess vegna sofið þar sem piltarnir svæfu.
Nú kom til kasta móður minnar. Hún sagði eitthvað á þá lund, að hún hefði aðeins óbrotinn og algengan mat að bjóða, eins og hann gerðist almennt á sveitaheimilum. En gestirnir kváðu það einmitt vera þann mat, sem þeir óskuðu helzt eftir.
Þannig bar það til, að foreldrar mínir tóku á móti gestunum þrátt fyrir örðugar ástæður að mörgu leyti.
Leiðsögumaðurinn tók koffortin ofan af hestunum. Þau höfðu öll sérlegt lag: voru hærri og mjórri en venjuleg koffort. Sennilega hafa þau með því lagi verið hentug og þægileg í flutningi á klyfjahestum á löngum ferðalögum.
Ég stóð þarna á hlaðinu ásamt systkinum mínum. Tvö koffort vöktu mikla athygli mína vegna þess, hve sérkennileg þau voru; þau voru yfirklædd með selkópaskinnum, og sneri hársvörðurinn út. Ég gat ekki stillt mig um að strjúka með hendinni yfir þennan mjúka, fallega feld og dáðst að öllum litunum, sem fóru svo vel saman, en ég hafði ekki séð selskinn fyrr. Að frásögn Ögmundar voru þau vatnsþétt. Í koffortunum voru geymd vísindatæki, bækur og ritgerðir Doktors Helga Péturssonar.
Strax fyrsta kvöldið bað Doktorinn föður minn um tjaldstæði á túninu í námunda við bæinn, og var það auðsótt mál. Síðan gekk hinn hálærði maður um nágrennið út frá bænum og fann sér loks stað, sem hann var ánægður með. Hann reisti tjald sitt á sléttum fleti í svokölluðum Svírabrókum. Það var á þeim stað í túninu, sem lengst var frá bænum. Þarna var svo kyrrlátt, að ekkert truflaði einveruna nema mildur niður frá Ljósá, sem rann fáa faðma frá tjaldstaðnum.
Doktor Helgi þjáðist mjög af svefnleysi. Einkum átti hann erfitt með að festa svefn á kvöldin.
Ögmundur mæltist til þess við foreldra mína, að við systkinin hefðum hljótt um okkur, svo að enginn hávaði bærist að tjaldinu á kvöldin. Foreldrar mínir grennsluðust eftir því hjá fylgdarmanninum, af hverju svefnleysið kynni að stafa. Hann hafði ekki hugmynd um það; Doktor Helgi hafði aldrei minnzt á það við hann.
Túnasláttur hófst venjulega í 14. viku sumars, og svo var einnig að þessu sinni. Þá var gott veður og ágæt heyskapartíð. Grasið var þurrt í rót, og sláttumennirnir fóru snemma til vinnu sinnar eða um 6-leytið á morgnana, sem sé áður en næturdöggin þornaði af grasinu. Þá urðu þeir varir við Doktor Helga. Hann var þá þegar kominn á fætur.
Þegar veður var gott og sólríkt, fór hann í bað í Ljósá. Hún er köld og svöl bergvatnsá, sprottin upp í Syðsta-Merkurfjalli, dágóða bæjarleið frá tjaldstaðnum. Þetta þótti bera vott um harðfengi hans gagnvart sjálfum sér, en hann var íþróttamaður á yngri árum sínum, eða svo var okkur tjáð. Venjulega fór hann til að drekka morgunkaffið, þegar engjafólkið var komið til vinnu sinnar. Eftir það fór hann í stutta ferð um nágrennið í rannsóknarskyni.
Morgunverður var snæddur eftir klukkan 10. Að því búnu var lagt af stað í jökul -eða jarðfræðileiðangurinn.
Ögmundur fylgdarmaður bar farangurinn í vatnsþéttri tösku úr grófu hvítu boldangi. Hún var létt og fyrirferðarlítil. Hann bar hana á annarri öxlinni í bak og fyrir. Í henni voru aðeins ritföng og vísindatæki.
Móðir mín bauð þeim að hafa með sér dálítið nesti í ferðalagið, en það afþökkuðu þeir. En súkkulaði höfðu þeir með sér, - annað ekki.
Þeir komu venjulega heim aftur um 5-leytið. Þó var það dálítið upp og niður eftir hentugleikum þeirra.
Þegar þeir komu aftur heim í Eyvindarholt, snæddu þeir aðalmáltíð dagsins, heitan mat. Að því búnu settist Doktor Helgi við skriftir. Það var í þeirri stofunni, sem meir var ætluð gestum og þeir félagar höfðu út af fyrir sig. Doktorinn vann þá úr verkefnum dagsins, að því er ætlað var. Síðan var hann heima við fram að kvöldverði. En að honum loknum settist hann að í tjaldinu. Þetta endurtók sig flesta daga að undanteknum einum degi. Þá var mjög slæmt veður. Þann dag sat hann við skriftir í stofunni.
Ögmundur var leiðsögumaður vísindamannsins í rannsóknarferðunum. Hann var þá stundum dálítið þreytulegur, þegar þeir komu aftur til baka. Hann var ekki eins léttur í spori eins og ferðafélagi hans, sem ekki virtist taka nærri sér að ganga svo langa og brattgengna leið. Þetta var líka um hásumarið og hlýtt í veðri.
Eitt sinn spurði faðir minn Doktor Helga, hvers vegna hann tæki alltaf Ögmund með sér í björtu og einsýnu veðri. Hann fékk ágæta skýringu á því: Doktorinn kvaðst geta misstigið sig eða slasazt á annan hátt, og hvernig væri hann þá staddur einn uppi í óbyggðum og enginn vissi nákvæmlega, hvar hann væri að finna. Auk þess gæti skyndilega skollið yfir myrk þoka fyrirvaralaust, án þess að hann sjálfur veitti því athygli með hugann við störf sín, þá væri hreint ekki víst, að hann rataði á réttu leiðina heim. Þetta fannst föður mínum snjöll ályktun.
Auðsjáanlega bar Ögmundur mikla virðingu fyrir Doktor Helga og taldi hann merkan vísindamann og jarðfræðing og langt á undan samtíð sinni, - líka á ýmsum öðrum sviðum. Hann lýsti Doktornum sem alveg óvenjulega ómannblendnum manni; ekki væri hann stoltur, eins og ýmsir álitu, heldur væri þetta meðfædd skapgerð hans.
Það kom í ljós á ýmsa lund, og einnig það, að fátt í hinu daglega lífi okkar fór fram hjá honum.
Doktor Helgi hafði mjög lítið saman við heimilisfólkið að sælda. Hann talaði einna helzt við föður minn. Töluverður viðburður þótti það á heimilinu, ef hann ávarpaði þar aðra en föður minn eða móður mína.
Þetta var um sláttinn, og fólkið borðaði á öðrum matmálstíma en gestirnir. Og á kvöldin var hann farinn í tjaldið á túninu, þegar engjafólkið kom heim.
Móðir mín fékk aðstoð við heimilisstörfin, eftir að sláttur hófst. Tvær unglingsstúlkur unnu heima við fram eftir deginum, en sinn daginn hvor. Rétt þótti að skipta vinnunni þannig milli þeirra.
Guðríður Þóroddsdóttir var elzt okkar systkinanna. Hún var einkadóttir móður minnar af fyrra hjónabandi hennar og talin með fullorðna fólkinu.
Ég segi hér rétt til gamans frá atviki, sem þó er í raun og veru ekki í frásögu færandi, en lýsir á sinn hátt Doktor Helga Péturssyni.
Þannig hagaði til í bænum, að löng göng lágu milli stofunnar og búrsins, og allur matur var geymdur í búrinu og tilreiddur þar. Það var því erilsamt og seinlegt verk að leggja á gestaborðið í stofunni. En það var m.a. eitt af störfum stúlknanna að aðstoða móður mína við það verk.
Að þessu sinni var Guðríður systir okkar að bera fram matinn, þegar Doktor Helgi segir alúðlega: „Mikið ert þú alltaf hlýleg og góð við móður þína og litlu börnin,“ og um leið og hann segir þetta, réttir hann henni súkkulaðispakka, sem hann gefur henni. Þetta kom henni mjög á óvart, þar sem hann hafði ekki talað við hana fyrr. Þetta var líka í eina skiptið, sem hann ávarpaði hana að fyrra bragði þann tíma, sem hann var heima hjá okkur. Doktorinn setti eins konar met, með því að tala aldrei við Guðríði Andrésdóttur, sem var ágæt stúlka og hjálpaði móður minni annan daginn. Hann var alveg óvenjulega fáskiptinn maður, eins og fylgdarmaður hans hafði sagt.
Fiskasteinninn var beint fyrir framan stofugluggann, þar sem Doktor Helgi sat síðari hluta dagsins og vann að verkefnum sínum. Það var venja að berja harðfiskinn á steininum rétt fyrir kvöldmatinn. Oft var hann borinn á kvöldverðarborðið með öðru fleira. Eldri bræður mínir notuðu stóra, þunga sleggju til að berja harðfiskinn með. Einu sinni kom Doktorinn til þeirra og segir: „Þetta er of þung sleggja fyrir svona granna handleggi. Ég skal berja fiskinn.“ Og það gerði hann með mestu prýði, meðan hann spjallaði við þá og brýndi fyrir þeim að vinna þetta starf með hægð til þess að ofreyna ekki granna vöðva handleggjanna.
Stöku sinnum bar það við, að Doktorinn gekk afsíðis, svo að lítið bar á, og horfði á leiki okkar krakkanna. Þessu veitti móðir mín athygli og dró þá ályktun af, að í raun og veru væri hann barngóður maður undir þeirri skel, sem hann virtist vilja hylja sig.
Ég á margar kærar minningar um gamla bæinn. Hann hafði staðið þarna vestan í hólnum í rúm 70 ár. Það var eitthvað virðulegt við hann ennþá. Hann fór svo mæta vel við umhverfið þarna, sem hann stóð með grænu þökin og mörgu burstaþilin. Túnið umhverfis hann hafði verið slegið fyrir nokkru. Taðan angaði þar iðgræn og þurr og var hirt í hlöðu síðari hluta dagsins. Það var fyrsta hirðingin þetta sumarið.
Fólkið kom allt út á tún til vinnu sinnar. Jafnvel móðir mín kom með hrífu í hönd og rakaði heyinu saman. Hljótt var í bænum þessa stundina. Aðeins gestirnir sátu einir í stofunni.
Það var siður, þegar hirt var svona nálægt bænum, að sækja ekki áburðarhestana til að leggja á þá reiðing eða klyfbera, - þótti ekki taka því. Í næsta nágrenni við hlöðuna var böggunum velt að henni, annars voru þeir axlaðir og bornir að baggagatinu. Þetta allt var dálítið seinlegt verk fyrir karlmennina, og höfðu þeir því ekki við að sæta heyið úr múgunum.
Faðir minn rótaði heyinu saman í fyrirferðarmiklar hrúgur á hólnum. Þar áttu yngstu börnin að fá að leika sér, svo að þau yrðu ekki fyrir eða tefðu fólkið. Ég var elzt í þeim flokki, og það átti að heita svo, að ég liti eftir yngstu systkinum mínum. Allt umhverfi okkar iðaði af lífi og starfi, og ekki hvað sízt á umráðasvæði ungu kyns1óðarinnar. Þá kom Ögmundur Sigurðsson og spurði föður minn, hvort hann gæti ekki lánað Doktor Helga og sér hrífur, því að þeir héldust ekki lengur við einir í bænum í þessu yndislega veðri og glampandi sólskini. Þeir vildu hjálpa til að sæta heyið og hjálpa til við hirðinguna, þar sem múgarnir hrúguðust upp á túninu.
Þegar Ögmundur hafði sett Doktorinn inn í embættið og kennt honum um leið helztu undirstöðuatriðin við að raka og saxa í föng, byrjuðu þeir að sæta. Bræður mínir rökuðu dreifina og hirtu rökin eftir múgana. Ögmundur var vanur heyvinnunni frá yngri árum sínum og var hún honum því leikur einn. Hann gekk líka rösklega að verki sínu. Doktor Helgi lét heldur ekki sitt eftir liggja. Hann saxaði heyið í föngin af mikilli snerpu. Sáturnar hans voru öðruvísi en hinar sáturnar á túninu. Því veittum við eftirtekt. Þær voru hærri og grennri. En þegar búið var að binda þær í kirfilega bagga, tók enginn eftir því.
Sumir sögðu, að Ögmundur Sigurðsson hefði sætt 11 sátur en Doktorinn 10, og hann hlaut viðurkenningu fólksins fyrir þessa frammistöðu, þar sem hann var algjör byrjandi í þessu starfi.
Þegar lokið var við að sæta heyið og binda það, hélt Ögmundur áfram með piltunum við að koma því í hlöðuna og hlaða úr því. Doktor Helgi settist norðan í bæjarhólinn hjá föður mínum og sat þar langa stund. Hann var þá alúðlegur og ræðinn að sögn föður míns, og fræddi hann um ferðir sínar erlendis. Þegar hann var einn á tali með föður mínum, var hann skemmtilegur og naut þess að vera gefandinn eða veitandinn. Þá var faðir minn þiggjandinn.
Venjulega var síðdegiskaffið sent á engjarnar um 6-leytið á daginn. Þá naut fólkið þess að fá hlé frá vinnunnni. Móður minni þótti kaffið bragðbetra, væri vatnið sótt ferskt í lækinn, sem spratt upp meðfram bæjarhólnum. Stutt var að sækja vatnið, en upp á móti brekkunni, þegar gengið var heim með það. Þegar eldri börnin voru ekki við látin, varð hún að sækja vatnið sjálf. Þennan dag voru þau ekki heima. Móðir mín tók vatnsgrindina og föturnar, áður en hún setti kaffiketilinn yfir hlóðareldinn í eldhúsinu. Þegar hún var að leggja af stað heimleiðis, kom Doktor Helgi til hennar og sagði: „Þetta er þreytandi fyrir þig, sem hefur svo mikið að gjöra. Leyfðu mér að bera vatnið heim.“ Síðan tók hann vatnsgrindina og tréföturnar og bar þær heim fyrir móður mína. - Þannig var hann, þessi þöguli og ómannblendni maður.
Upphaflega hafði bærinn verið byggður af stórhug og með miklum myndarbrag. Hann bar það með sér ennþá, þó að tímans tönn hefði sett mark sitt á hann.
Þannig háttaði til, að gengið var inn dyraganginn að vestan verðu. Hann var þiljaður innan með timbri í hólf og gólf. Úr honum var svo gengið í báðar stofurnar. Til hægri handar var hversdagsstofan, en til vinstri handar svokölluð betri stofa, þar sem Doktorinn hafði aðsetur. Hún var máluð í ljósbláum lit. Þar svaf Ögmundur Sigurðsson. Hann var á þessum árum einn kunnasti ferðamaður landsins. Þá hafði hann m.a. ferðazt 14 sumur víðsvegar um landið, aðstoðar- og leiðsögumaður Þorvaldar Thoroddsen. Ögmundur var kennari að menntun, hafði stundað kennaranám í Kaupmannahöfn og síðar í Chicagó, en þekktastur varð hann síðar og mikilsmetinn og vinsæll skólastjóri við Flensborgarskólann í Hafnarfirði, eins og áður er drepið á.
Ögmundur Sigurðsson var alþýðlegur maður, og fór ekki hjá því, að hann kynntist á allt annan hátt en Doktor Helgi, enda var hann meira heima við og umgekkst fólkið daglega. Fyrsta verk Ögmundar á morgnana var að huga að hestunum. Hagarnir voru í hólunum stuttan spöl austur af bænum. Þar gengu þeir ásamt öðrum búfénaði. Hann hafði alltaf tvo þeirra í hafti í varúðarskyni, svo að þeir héldu betur saman og strykju ekki eitthvað út í buskann. Þegar hann tók þá úr haftinu, nuddaði hann varlega fótleggi þeirra, þar sem hnappeldan hafði legið, svo að þeir voru ekki eins aumir eða stirðir á eftir. Síðan hefti hann hesta, sem gengið höfðu lausir áður. Þetta var dagleg venja hans bæði kvölds og morgna. Ævinlega leitaði hann að bezta blettinum í haganum og flutti þá þangað. Hann var ágætur hestamaður, það leyndi sér ekki.
Við systkinin fengum stundum að vera honum samferða, þegar hann fór að líta eftir þeim. Einn hestinn átti hann sjálfur og hafði mikið dálæti á honum, enda hugsaði hann líka einstaklega vel um gæðinginn sinn.
Það var komið fram í ágústmánuð. Túnaslætti var lokið og fólkið farið að vinna á engjunum. Veðrið var yfirleitt ágætt, og Doktor Helgi hafði ekki sýnt á sér fararsnið fram að þessu.
Það er friðsælt og fagurt inni við jöklana á löngum, björtum sumar dögum, og engu líkara en einhver töframáttur seiði þá til sín, sem óbyggðunum unna.
Daginn, sem Doktor Helgi lagði af stað í rannsóknarferð austur í Skaftafellssýslu, kom hann heim í býtið um morguninn, en kvöldið áður vissi enginn heima um þessa ferð hans.
Hann kvaðst hafa kunnað vel við sig, og nú væri hann búinn að vera lengur en hann hefði ætlað sér í fyrstu. Þegar hann kvaddi, bað hann þess að mega dvelja hjá okkur svo sem vikutíma, þegar hann kæmi aftur að austan.
En nú reyndust veðurguðirnir ekki eins hliðhollir og áður. Veðrið var hlýtt og bjart fyrstu dagana eftir burtför þeirra ferðafélaganna, en svo brá til hafáttar og dimmviðris.
Þeir komu aftur eftir rúman hálfan mánuð. Þá tjaldaði Doktor Helgi á sama stað og áður í túninu. Um nóttina var skúraveður og næðingssamt. Sama veður hélzt næstu daga. Hann hafði orð á því við foreldra mína um morguninn, að sumri væri tekið að halla, og ekki líklegt að veður leyfði frekari rannsóknir uppi við jökulinn að þessu sinni. Ferðinni var því heitið áfram til Reykjavíkur.

Doktor Helgi Pétursson Péturss var fæddur í Reykjavík 31. marz 1872. Foreldrar hans voru Pétur Pétursson, bæjargjaldkeri, og kona hans Anna Sigríður Vigfúsdóttir Thorarensen.
Ævistarf hans var vísinda- og fræðslustarf. Rannsóknir hans eru taldar hafa komið jarðfræðirannsóknum Íslands í nýtt og betra horf.
Síðari ár sín vann Doktorinn að uppgötvun á eðli draumlífsins á vísinda- og náttúrufræðilegan hátt. Eftir áratuga langar athuganir á þessu sviði skrifaði hann Nýals-bækur sínar. Þær þóttu frumlegar og nýstárlegar, en voru á sínum tíma dálítið umdeildar.
Á þeim árum sat ég mig ekki úr færi að fræðast um allt það, sem varðaði Doktor Helga Péturss frá sumrinu, sem hann dvaldi á heimili foreldra minna.

Efni þessa greinarkorns hef ég átt lauslega skráð í fórum mínum og þá skrifað eftir minni.
Heimildir mínar hef ég frá foreldrum mínum og öðru heimilisfólki, sem þá dvaldist í Eyvindarholti.



ctr


Höfðabrekka í Mýrdal.