Blik 1969/Drýgðar dáðir

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1969Drýgðar dáðir


Undanfarna mánuði hafa Íslendingar naumast rætt um annað meir sín á milli en fjármálaöngþveitið í landinu og áfengisvandamál þjóðarinnar.
Orsök fjármálakreppunnar eftir góðærin á án efa einhverjar rætur að rekja til skaplyndis okkar Íslendinga og vanþroska okkar um meðferð fjár eða notkun, ef við þykjumst hafa nokkur fjárráð. Vissulega fær yngri kynslóðin sitt að heyra ýmist á bak eða brjóst, þegar þessi mál ber á góma. Víst er ástandið ömurlegt bæði um meðferð fjárins og neyzlu áfengisins. Um þetta mætti skrifa langt mál og e.t.v. miður geðfellt.
Annað er mér nú ríkara í huga. Það er sá hópur ungra manna hér í bæ, sem hefur áskotnazt mikið fé á undanförnum árum og notað það þannig, að til sannrar fyrirmyndar má teljast. Það er rétt eins og okkur sé annað eiginlegra en að ræða eða lofa drýgðar dáðir og þá ungu menn, er það gera. Hér á ég við þann hóp ungra manna, sem kostað hefur kapps um að eignast íbúðir eða heil hús fyrir háu launin sín á þessum velgengnistímum og notað til þess hverja lausa krónu af tekjum sínum. Þessir ungu menn eru sannarlega öðru ungu fólki til fyrirmyndar. Fáum mun kunnugra um atorku þessara ungu manna við byggingarframkvæmdirnar og það fjárhagslega hyggjuvit, sem þeir sýna og sanna í þessu dáðastarfi, en mér, sem þessar línur skrifa. Því veldur starf mitt í Sparisjóði Vestmannaeyja. Starf mitt í stofnuninni hefur veitt mér aðstöðu til að fylgjast með framtaki þessara ungu manna, með því að stofnunin hefur eftir megni reynt að lyfta undir hornið með þeim, veita þeim fjárhagslegan stuðning. Sú aðstoð hefur verið veitt með mikilli ánægju. Þeir drýgja dáðir, þessir ungu menn, og þjóðin öll nýtur framtaks þeirra og hyggjuvits, þó að fjölskyldur þeirra njóti dáða þeirra fyrst og fremst.
Já, þessir dáðadrengir eru mér jafnan efstir í huga, er mér berast sögur af ungu fólki, stúlkum og piltum, sem ekki virðast vita sitt rjúkandi ráð, ef því áskotnast fé umfram nauðþurftir. En jafnframt má á þá staðreynd minna, að fátt af þessum eyðsluskjóðum eru svo illa komnar, að þær eigi sér ekki viðreisnarvon, eigi ekki þess kost að sjá að sér. Mætti sem flest af því öðlast hið fyrsta vit og skilning á gildi sparsemi og fjárhyggju. Sá þroski mundi veita þeim hinum sömu mesta gæfu í lífinu, kenna þeim þannig að drýgja dáðir öllum til gengis og farsældar.

Vestm. 25. jan. 1969 - Þ.Þ.V.