Blik 1969/Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969



Þorsteinn Þ. Víglundsson:


Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum


Baráttan við Fjárhagsráð og afturhaldið í Eyjum


Skammvinna ævi, þú verst í vök,
þitt verðmæti gegnum lífið er fórnin.
E.B.

Hér að framan í riti þessu birti ég greinarkorn um velgjörðarhjón Vestmannaeyjakaupstaðar og Eyjabúa í heild, fyrrverandi bæjarfógetahjón, Sigfús M. Johnsen og frú Jarþrúði Johnsen. Með vilja hefi ég þar ekki minnzt á þann þátt í starfi bæjarfógetans, er honum var falið að lögsækja mig fyrir frjálst framtak í þágu allra Vestmannaeyinga. Sá kafli fjallar um kæru Fjárhagsráðs á hendur mér fyrir sementseyðslu og sementskaup, er ég beitti mér fyrir byggingu gagnfræðaskólahússins í byggðarlaginu. Foringinn í þeirri lögsókn á hendur mér var formaður Fjárhagsráðs, Magnús Jónsson, guðfræðiprófessor. Fyrst svo atvikaðist, að ég gat ekki gengið framhjá þætti þessa fyrrverandi bæjarfógeta í máli þessu, afréð ég að skrifa hér sögu byggingarinnar í heild í stórum dráttum, því að málssókn Fjárhagsráðs er þáttur byggingarsögunnar. Deila mín við Fjárhagsráð og þess við mig er líka eilítið brot úr ævisögu minni, sem ég óska að Blik mitt geymi, og jafnframt dálítill kafli úr fræðslusögu byggðarlagsins, skólasögu Vestmannaeyja. Þá er frásögn mín einnig svolítill angi af þjóðfélagslýsingu.

Hér færðu svo frásögn mína í sem stytztu máli, lesari minn góður.

Árið 1934 tók ég að beita mér fyrir því, að byggð yrði sérstök gagnfræðaskólabygging í Vestmannaeyjum. Þá varð skólinn innan skamms að víkja úr skjólshúsi því, er barnaskóli kaupstaðarins hafði skotið yfir hann frá upphafi.
Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún í Eyjum hafði hugleitt með mér vel og vandlega teikningu af þeirri byggingu og gert hana, en hann hóf hér húsateikningar eftir að hafa lokið iðnskólanámi í Reykjavík árið 1931.
Teikning þessi mun enn vera til í fórum mínum.
Við Ólafur Á. Kristjánsson höfðum í sameiningu hugsað okkur skólahúsið suður af Landakirkju, ýmist á hæðinni þar eða þá flötinni vestan við hæðina, þar sem íþróttavöllurinn var síðar gerður. Þarna áttu hjónin í Ráðagerði (nr. 19 við Skólaveg), Ísleifur Sigurðsson, útgerðarmaður, og Valfríður Jónsdóttir, tún, sem þau tjáðu mér fús að selja bæjarsjóði fyrir kr. 3.800,00.

Páll V. G. Kolka.

Ein hin síðasta athöfn Kolka læknis í bæjarstjórn Vestmannaeyja, áður en hann flutti úr bænum (1934), var að koma því til leiðar, að kaupstaðurinn keypti þetta tún af hjónunum. Kaupsamningurinn er í mínum fórum, dagsettur 27. nóvember 1934, en túnið var afhent bænum fyrr á árinu.
Kolka læknir var eini fulltrúi meirihlutans í bæjarstjórn Vestmannaeyja þá, sem fékkst til þess að hlusta á orð mín og tillögur í framhaldsskólamálum Eyjanna, hlusta á áróður minn um bætt starfsskilyrði Gagnfræðaskólans og kveinstafi mína um aðbúnað allan þar. Ef til vill var ástæðan sú, að læknishjónin höfðu bæði verið kennarar hjá mér við skólann.
Svo liðu 10 ár í látlausu starfi og erfiðleikum öðrum þræði vegna slæmra starfsskilyrða í leiguhúsnæði skólans að Breiðabliki, þar sem skólinn starfaði alls 18 ár. Fjárhagskreppan fór vaxandi eftir því sem kreppuárunum fjölgaði. Svo hófst styrjöldin með „ástandi“ og ýmsum öðrum illra norna gusti. Þá skorti ekki andróður og svívirðingar kyrrstöðuaflanna í bænum, sem töldu Gagnfræðaskólann vinna gegn atvinnulífinu og ætti ekki að vera til, sízt undir minni stjórn. Ég spyrnti við fæti og beið rólegur, og þó ekki alltaf rólegur, komandi tíma. Það sefaði þó og jók vonir, að ég fann og vissi, að andstöðuöflin í bænum töpuðu æ meir fylgi fólksins ár frá ári.
Árið 1944 var svo Guðlaugur Gíslason látinn boða mér stríðsyfirlýsinguna frægu. Hinn 5. apríl 1944 birti hann grein í blaði andspyrnunnar, Víði, og hét greinin og heitir enn : Stefnan mörkuð. Efni greinarinnar er það, að meiri hluti bæjarstjórnar Vestmannaeyja leggi aldrei því máli lið að byggja yfir Gagnfræðaskóla kaupstaðarins, meðan ég sé þar skólastjóri. Endi greinarinnar er þannig:
„Það er því aðeins á valdi núverandi skólastjóra, hvort hann ætlar að verða þröskuldur í vegi þess, að viðunandi lausn fáist á þessum málum og þannig halda áfram að vera sá „kyrrstöðuhugur, sem í skugganum skalf, þá skin fór um lönd eða höf“, eins og hann svo skáldlega kemst að orði í síðasta tölublaði Framsóknarblaðsins. Guðl. Gíslas“.

Grein þessi í heild sinni mun einstök í allri skólasögu þjóðarinnar. Ég eignaðist 10 eintök af henni. Þá vissi ég það. Alls ekki byggt yfir skólann, meðan ég væri við hann. Og ég var ekki á þeim buxunum að flýja af hólmi. Greinin opnaði svo að um munaði augu Eyjafólks. Andspyrnuöflin í bænum höfðu gert sálfræðilegt glappaskot. Greinin þessi hans Guðlaugs, sem þá var hin rísandi sól andspyrnuaflanna í bænum, verkaði á þorra Eyjabúa eins og hernám stórveldis á litla og friðelskandi þjóð, sem á sér einskis ills von og óskar þess eins að fá að starfa að velferðarmálum sínum og láta aðra í friði.
Nazisminn birtist í mörgum útgáfum og myndum. Enn voru Nazistarnir þýzku ekki ósigurstranglegir í styrjöldinni. Brúnstakkahreyfingin fór vaxandi innan viss stjórnmálaflokks í Vestmannaeyjum. Þessi nazistisku ungmenni fóru fylktu liði um götur kaupstaðarins með hrópum og digurbarkalátum. Í fundarsal þeirra var nazistamerkið þýzka skrúfað niður í fundarborðið, og stór, blár fáni á veggnum með nazistakrossinn rauða í miðju. Þessir ungu menn styrktir af hinum eldri og gætnari liðsmönnum flokksins, töldu það aðeins tímaspursmál, þar til þeir gætu tekið völdin og hreinsað þá til í bænum, svo að um munaði. Þar var ég einna efstur á skrá. Nazistabréfin og skjölin hrúguðust upp í vissu herbergi í bænum, hjá trúnaðarmanninum mikla. Upp af þeim steig svartur reykur svo sem ári eftir að Guðlaugur skrifaði greinina góðu. Allt á sína sögu, og allt bíður síns tíma. Vart hefðu ungnazistar þessir látið sér til hugar koma, að arfleifð þeirra bærist í mínar hendur og yrðu sögulegar minjar í fórum Byggðarsafns Vestmannaeyja, eins og staðreyndin þó er. Hún er stundum ömurleg, staðreyndin!
Árið 1946. Við bæjarstjórnarkosningarnar í janúar 1946 töpuðu andspyrnuöflin í bænum einum bæjarfulltrúa til hinna vinsamlegu afla Gagnfræðaskólans. Þá höfðu hin fjandsamlegu öfl eða konsúlavaldið í bænum tapað tveim fulltrúum í bæjarstjórn Vestmannaeyja á s.l. 20 árum. Þessi þróun gladdi mig innilega. Hún sannfærði mig um batnandi menningarástand í bænum og aukið víðsýni fólksins.
Í barnaskap mínum ímyndaði ég mér, að Eyjafólk hefði svift andspyrnu- og kyrrstöðuöflin í bænum völdunum til þess að byggingarhugsjón mín og skólans mætti rætast. Ég gat að minnsta kosti vel trúað því á Eyjabúa. Þannig hafði allur þorri þeirra reynzt mér og starfi mínu.
Við þennan kosningasigur vinstri aflanna í bænum skapaðist öllum hugsjónamálum mínum ný viðhorf.

Árni Guðmundsson.

Samstarfsmaður minn í Sparisjóði Vestmannaeyja, sem þá var aðeins þriggja ára stofnun og hugsjón mín, varð nú forseti hinnar nýju bæjarstjórnar Vestmannaeyja eftir kosningasigurinn. Það var vinur minn og fyrrverandi nemandi, Árni Guðmundsson frá Háeyri í Eyjum.

Eyjólfur Eyjólfsson.

Jafnframt skipaði menntamálaráðuneytið nýjan formann skólanefndar, mann í áhrifaaðstöðu: Eyjólf Eyjólfsson, kaupfélagsstjóra, góðan dreng, framfarasinnað valmenni. Og svo gerðist Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún í Eyjum bæjarstjóri hinnar nýju bæjarstjórnar. Allt bar að sama brunni. Já, nú bar verulega vel í veiði fyrir skólahugsjón mína og byggingarframkvæmdirnar. Og svo var menntamálaráðherra þjóðarinnar, Brynjólfur Bjarnason, vinur og flokksbróðir áhrifaríkustu bæjarfulltrúanna hér. Ráðherrann var einnig í framboði til þings fyrir Vestmannaeyinga.
Nú var líka fljótt hafizt handa um byggingarframkvæmdirnar.
Hinn 24. apríl 1946 samþykkti meiri hluti bæjarstjórnar Vestmannaeyja 150 þúsund króna framlag úr bæjarsjóði til Gagnfræðaskólabyggingarinnar. Svo var ætlunin, að ég reyndi eftir megni að fá lán í lánastofnunum til bráðabirgða út á framlag bæjarsjóðs, og svo ríkisins, þegar til kæmi. En ríkissjóður átti samkvæmt gildandi lögum að greiða helming byggingarkostnaðarins.
Sumarið 1946 (28. júní) sat sjálfur menntamálaráðherra fund skólanefndar Vestmannaeyja. Þar batt hann sig þeirri skyldu að knýja sem fyrst fram til veruleika hjá húsameistara ríkisins teikningar af hinu væntanlega gagnfræðaskólahúsi í Vestmannaeyjum. Teikningarnar skyldu allar liggja fyrir um næstu áramót (1946/1947). - Jafnframt skyldi gjörð teikning af fimleikahúsi skólans.

Einar Sigurðsson.

Árið 1947. Í febrúar 1947 sendi síðan húsameistari ríkisins tvo menn sína til þess að mæla fyrir skólabyggingunni á hæðinni, þar sem hún stendur. Þar höfðum við Einar Sigurðsson, hraðfrystihússeigandi, sem var áhrifaríkur bæjarfulltrúi hér þá, valið byggingunni stæði, eftir að við sættumst heilum sáttum á v/b Gísla Johnsen á leið til Stokkseyrar síðla sumars 1944 eftir rimmuna miklu og langvarandi það ár. (Sjá bæjarblöðin 1944). Þá var orðið vonlaust, að ég viki úr stöðu minni til þess að hægt yrði að skammta skólanum tilveruna.
Þá hafði þessi gamli og góði félagi minn og húsbóndi, - því að ég var eitt sinn verkstjóri hjá honum, - komið aftur svífandi niður til jarðarinnar eftir að hafa dvalizt um skeið uppi í háloftunum. Þar hafði hann svifið með öðrum innfæddum úteyjafuglum andspyrnunnar milli hátimbraðra turna skýjaborganna, þar sem þeir létu sig dreyma um einn allsherjar samskóla í fæðingarbyggð sinni. Þar skyldu iðnnemar stunda nám með húsmæðraefnum kaupstaðarins og skipstjóraefnum. Þar skyldi Gagnfræðaskólinn líka fá inni. Allt skyldi þetta unga fólk nema þar og lifa í sama anda sakleysisins og friðarins eins og ríkti milli Adams og Evu fyrir syndafallið.
Skólahöll þessi átti að rísa í Heiðinni vestur af sjálfri Landakirkju. - Ekki skyldi leiðin löng til kirkjunnar! Að Stöng var heldur ekki leiðin löng!
Skólastjóri slíkrar menningarstofnunar skyldi vera bæði hálærður og hátitlaður, ef til vill helzt guðfræðiprófessor! Þannig datt þá skarfurinn út af sjálfu sér, enda aldrei verið neinn úteyjafugl!
Þegar leitað var álits Jónasar frá Hriflu um skóladraum þennan, á hann að hafa svarað því til, að hugsjónin væri fróm og góð, en markinu næðu þeir ekki, nema þeim tækist fyrst að skera tunguna úr skolti höggormsins.
Svar hugsjóna- og raunsæismannsins skildu fuglarnir ekki, enda ekki við því að búast, - héldu það vera eitthvað ljótt, helzt sneið til þeirra sjálfra. Við þá hugsun misstu þeir móðinn, vöknuðu til jarðlífsins aftur, og þar með var draumurinn búinn.
Andspyrnuforingjarnir voru nú sem sé komnir aftur niður á jörðina til okkar, og við Einar, vinur minn, höfðum fundið hvorn annan í innileik. Hér urðu vissulega fagnaðarfundir ekki síður en með syninum fræga og föður hans.
Síðar fundum við Einar Sigurðsson í sameiningu, samkvæmt samtali okkar á leiðinni til Stokkseyrar, stæði gagnfræðaskólabyggingarinnar. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá!“
Æ, þetta var útúrdúr hjá mér, lesari minn góður, en brot er það samt af skólasögu Vestmannaeyja. Fram hjá því verður ekki gengið. Eftir þetta snéri Einar Sigurðsson við blaðinu flokksbræðrum sínum til sárinda og andspyrnunni til mikils hnekkis, því að hann er jafnan liðtækur eins og kunnugt er. Eftir sættirnar studdi Einar Sigurðsson skólahugsjón mína drengilega, enda er hann drengur í gömlu og virðulegu merkingu orðsins, þegar hann lýtur svo litlu að dvelja með okkur andartak hérna niðri á jörðinni og leggur þá alla loftkastala á hilluna, blessaður!
Byggingarhugsjónin virtist nú sannarlega í heilli höfn og allt leika í lyndi fyrir mér.
Teikningar af skólahúsinu sjálfu og fimleikahúsinu bárust mér í hendur í febrúar 1947. Sú beiðni mín, að aðalinngangur hússins yrði í skjóli fyrir austan- og norðanáttinni, fyrir hinum hörðu og hvimleiðu veðrum í Eyjum og tíðu, hafði tafið. Slíkri firru kvaðst húsameistari ríkisins aldrei hafa kynnzt fyrr. Lét hann þó undan beiðni minni, blessaður, og hagaði svo tilhögun byggingarinnar innan veggja eftir því.
Hins vegar fékk ég því ekki ráðið, að port yrði byggt á skólahúsið, þar sem tök yrðu á að gera samkomusal til nota félagslífi nemenda. Allt þetta mikla húsrými undir þekjunni skyldi heldur gert að geymslurými. Mikið var það bölvað skran, sem gert var ráð fyrir!
Í febrúar 1947 var ýta látin ýta miklu af mold vestur úr hússtæðinu. Það flýtti mjög fyrir verkinu. Mjög djúpt er þarna á klöpp, allt að 6 metrar að vestan verðu, þar sem hinn stóri vatnsgeymir skólans er staðsettur og steyptur.
Síðan vann ég þar sjálfur með flokkum nemenda minna að því að flýta fullnaðargreftri. Sú vinna okkar stóð yfir öðru hvoru frá miðjum febrúar til aprílloka, en engan mann var að fá til þessa verks á vertíðinni. Enn er mér í minni, hversu nemendur mínir unnu kappsamlega að verki þessu og hve mikla ánægju við höfðum af samstarfinu þarna í moldargryfjunni miklu. Nokkurt fé sparaðist einnig með þessari vinnu, því að kauplaust unnum við auðvitað.
Eftir vertíðarlok unnu síðan nokkrir menn að því að ljúka uppgreftrinum og undirbúa að fullu steypuframkvæmdir á undirstöðu byggingarinnar.
Stjórn hinna ráðandi afla í bæjarfélaginu, meiri hluti bæjarstjórnar, gaf mér nú gjörsamlega frjálsar hendur um allar byggingaframkvæmdir, gæti ég sjálfur einhvern veginn klófest skólanum, byggingarsjóði skólans, fé og byggingarefni til þeirra. Að vísu kaus bæjarstjórn byggingarnefnd Gagnfræðaskólans, en hún var meir varnarveggur um hugsjónina og starfið en framkvæmdarafl. Hana skipuðu þessir menn: Árni Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar og kennari, Þorvaldur Sæmundsson kennari og bæjarfulltrúi og Herjólfur Guðjónsson frá Oddsstöðum, verkstjóri og bæjarfulltrúi.

Þorvaldur Sæmundsson.
Herjólfur Guðjónsson.

Andspyrnuöflin munu hafa uppgötvað það of seint, að Herjólfur Guðjónsson var þeim ekki þægur ljár í þúfu, þegar á reyndi um fjárframlög og framtaksafl varðandi byggingu skólans, því að velviljaður skapfestu- og drengskaparmaður, eins og hann var, gekk hiklaust á hólm við flokksbræður sína í byggingarmálinu, þegar svo bar undir, og fylgdi hann þá „mínum mönnum“ að málum, studdi hugsjónina. Í þessu sambandi er mér minnisstæður fundurinn í bæjarstjórn kaupstaðarins 10. apríl 1947. Liðið var fram á nótt. Þá samþykkti bæjarstjórn 150 þúsund króna framlag úr bæjarsjóði til Gagnfræðaskólabyggingarinnar á því ári. Tillaga þessi var samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum. Þarna fylgdi Herjólfur Guðjónsson meiri hluta bæjarstjórnar. Tveir flokksbræður hans og fulltrúar andspyrnunnar sátu hjá, en einn þeirra greiddi atkvæði gegn fjárveitingunni. Vegna afkomendanna óska ég ekki að birta nöfn þessara andspyrnumanna að sinni eða bæjarfulltrúa. Dagbókin mín geymir þau.
Þegar foringjar andspyrnuaflanna í bænum sáu það, að búið var að grafa fyrir gagnfræðaskólabyggingunni og fé til hennar veitt, voru þeim góð ráð dýr. Þá tók Gunnar Ólafsson, konsúll og kaupmaður, til að skrifa í Víði, blað andspyrnuaflanna. Frá byrjun aprílmánaðar (1947) og næstu 5 vikurnar birti hann ekki færri en 27 heildálka í þessu blaði andspyrnuhreyfingarinnar. Megin efni dálkanna, skrifanna, voru skammir á mig persónulega, skætingur um starf mitt og hugðarmál mín, skólamál, félagsmál og byggingarframkvæmdir. Öðrum þræði áttu skrif þessi að gefa valdhöfunum tóninn, ef ég skyldi dirfast að biðja um lán í bönkum eða beiðast opinberra framlaga til skólabyggingarinnar, enda reyndist það allt erfitt, þegar á reyndi.
Þegar svo loks var lokið við að grafa fyrir skólabyggingunni, þurfti að festa kaup á sementi í alla undirstöðuveggina. Ekkert smáræði þurfti af sementi í þá, 37,4 smálestir, eftir því sem hinir vísu byggingarfræðingar höfðu reiknað út.
En nú var vissulega komið babb í bátinn, töldu sumir. Á miðju sumri 1947, ef ég veit rétt, hafði íslenzka ríkisvaldið skipað nefnd til þess að skammta landsmönnum allt byggingarefni. Þessi nefnd var kölluð Fjárhagsráð og rak skrifstofubákn í Reykjavík. Enginn mátti kaupa eða selja byggingarefni nema með þess leyfi.
Fjárhagsráð starfaði undir forustu Magnúsar Jónssonar, guðfræðiprófessors, sem þá hafði þjónað guðskristni í landinu hálfan fjórða áratug.
En hér var ekkert að óttast, ályktaði ég, því að prófessorinn var einn af postulunum, þ.e.a.s. postulum hins frjálsa framtaks í landinu. Um hitt óska ég ekki að dæma! Kjörorð hans og sálufélaga hans utan heilagrar ritningar var þetta: Hið frjálsa framtak skal í heiðri haft, - það lifi, húrra! þetta vissi öll þjóðin. Þess vegna kveið ég ekki samskiptunum við formann Fjárhagsráðs. Hann hlaut að skilja hugsjón mína og skipta jafnt, - hann, sem fylgt sér hafði um tugi ára undir merki meistarans mikla og gengið í fararbroddi fyrir siðgæðishugsjónum hans hér á landi! Vitað var, að prófessorinn hafði sogið kenningar meistarans til mergs og blásið þeim síðan inn í sálarlíf prestsefna þjóðarinnar af mælsku mikilli og verulega innfjálgri andagift. - Nei, hér var ekki miklu að kvíða.
Postuli hins frjálsa framtaks hafði hér sem sé völdin um úthlutun alls byggingarefnis í landinu, og það lá alls staðar á lausu fyrir mér gegn leyfum Fjárhagsráðs.
Timbur keypti ég eftir þörfum, og þær voru miklar, hjá einum af timburkaupmönnunum í bænum og án allra leyfa. Þeirra þurfti ekki með, sagði timburkaupmaðurinn. Ég undraðist stórlega og keypti af honum timbur fyrir tugi þúsunda. En sementið þá? Bæjarstjóri úthlutaði því, og fyrir því þurfti leyfi frá æðri völdum, Fjárhagsráði.
Megin hluta sumarsins 1947 var ég síðan að dorga eftir sementi til þess að geta látið steypa undirstöður hússins. Mótin stóðu þar tilbúin, en ekkert sementsleyfi fáanlegt hjá Fjárhagsráði, svo að steypt yrði í þau. -
Hvað var nú orðið af kjörorðinu mikla?
Í september fór ég til Reykjavíkur til þess að gera síðustu tilraun til að herja út sementsleyfið. Ég færði fram þau rök, að veturinn færi í hönd, og þá fylltust allir skurðirnir okkar af mold. Tugum þúsunda í vinnulaunum yrði þannig kastað á glæ, ef engin yrðu tök á að steypa í mótin fyrir veturinn. Ég reyni ekki að lýsa píslargöngu minni milli Heródesar og Pílatusar þarna í vistarverum Fjárhagsráðs og svo út um allan bæ, þar sem ég leitaði stuðnings ýmissa manna við málstað skólans og Vestmannaeyinga. Einn maður er mér sérstaklega minnisstæður frá þessari för. Sá maður er Sigtryggur Klementsson, þá fulltrúi í Fjármálaráðuneytinu, síðar ráðuneytisstjóri þar. Nú einn af bankastjórum Seðlabankans. Velvild hans og hjálpsemi við málstað minn er mér og verður lengi í minni. Hann gerði allt, sem hann gat til þess að ég fengi sementsleyfi. Þar lagði einnig Finnur Jónsson, alþingismaður Ísfirðinga, mér liðsyrði. Hann var gamall góðkunningi minn. Sementsleyfi fékk skólinn þá, þó að ég fengi aldrei að sjá eða heyra formann Fjárhagsráðs í för þessari. Heim kom ég með ávísun á 37,4 smálestir af sementi.
Aðeins 20 smálestir af sementinu gátum við notfært okkur þetta haust. Frost og snjóar hindruðu, að meira yrði gert. Þá þóttumst við eiga 17,4 smálestir geymdar til vorsins. En það vildi formaður Fjárhagsráðs ekki viðurkenna næsta vor fyrr en í hart var komið. Skyldi hann þá hafa verið búinn að kynna sér efnið í hinum 27 blaðadálkum?
Um haustið nuddaði forusta andspyrnunnar í bænum látlaust á því við bæjarstjóra og fleiri ráðandi menn í kaupstaðnum, að aðrar framkvæmdir kölluðu meira að í bæjarfélaginu en þessi bygging Gagnfræðaskólans. „En nú verður tæpast aftur snúið,“ sagði bæjarstjóri og kímdi.

Helgi Benediktsson.

Sparisjóður Vestmannaeyja lánaði fé til framkvæmdanna þetta haust. Þar spyrnti fulltrúi andspyrnunnar við fæti eftir getu, en ég naut drengilegs stuðnings hinna í stjórn Sparisjóðsins, og þó sérstaklega Helga Benediktssonar, sem studdi byggingarmál skólans af fremstu getu. Það er bezt að ég geti þess strax, að Sparisjóður Vestmannaeyja lánaði samtals þau ár, sem byggingarframkvæmdirnar stóðu yfir, um eða yfir 900 þúsundir króna til skólabyggingarinnar. Án hans hjálpar hefði byggingin aldrei risið af grunni, því að allir bankar virtust lokaðir fyrir þvílíkum framkvæmdum, af hvaða ástæðum sem það kann að hafa verið. Þó er mér skylt að geta þess, að eitt sinn fékk ég háan víxil seldan í Landsbankanum til greiðslu á efni og vinnu við bygginguna, með því að ég samþykkti hann sjálfur persónulega. Þá kröfu undraðist ég stórlega, því að satt að segja átti ég þá ekki bót fyrir botninn á mér, sjálfur á kafi í skuldum eftir að hafa hrófað okkur upp húsi á undanförnum tveim árum, og það ekki meira en hálfgert. En það er samt bezt að segja það strax, svo að það gleymist ekki, að Landsbanki Íslands var eini bankinn, sem veitti mér einu sinni kost á láni til skólabyggingarinnar. Hvar sem ég ympraði á þeim annars staðar, fékk ég einbeitt nei.
Já, Sparisjóður Vestmannaeyja lánaði hundruð þúsunda til byggingar Gagnfræðaskólans eftir því sem hann þurfti með og fékk það svo greitt smám saman aftur eftir því sem ég gat kríað það út úr bæjar- og ríkissjóði. Þannig studdi ein hugsjónin aðra og efldi, og þannig launaði lífið mér fórnfúst áhugastarf. Eyjabúar efldu svo Sparisjóðinn með sparifé sínu. Þannig reis hann undir verkefnunum, og þannig skapaðist hið fegursta fordæmi, sem ég get hugsað mér, um samvinnu til eflingar velferðarhugsjón og framfaramáli, sem snerti allan almenning í bænum. (Hvað um Byggðarsafn Vestmannaeyja, ef Sparisjóðurinn hefði ekki skotið yfir það skjólshúsi?)
Árið 1948. Í febrúarmánuði 1948 fluttist mikið sement til Vestmannaeyja. Auðvitað var það erlent sement, því að íslenzka sementsverksmiðjan var þá ekki til.
Við lögðum drög að því að fá sement handa Gagnfræðaskólanum úr hinum mikla sementsfarmi. Svar við beiðni okkar barst frá Fjárhagsráði svohljóðandi: „Fjárfestingarleyfi gagnfræðaskóla afgreidd.“
Varð þá uppi fótur og fit. Bæjarstjóri, sem annaðist úthlutun alls sements í bænum fyrir Fjárhagsráð, lét þegar afhenda Gagnfræðaskólanum 50 smálestir af sementi til byggingarframkvæmdanna á komandi sumri. Jafnframt var pantað sement svo að skipti tugum smálesta.
Síðar kom í ljós, að í skeytinu frá Fjárhagsráði átti að standa orðið óafgreidd. Á „prentvillu“ þessari áttum við enga sök, en við vorum þó látnir „súpa seyðið“ af henni. Vitaskuld kom ekki til mála að lögsækja eða sakfella Landssímann fyrir hana!
Einhvern veginn sannfréttum við það, er á veturinn leið, að Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum skyldi gjörsamlega verða settur hjá um allt byggingarefni það ár. Þó varð það að ráði, að ég skyldi reyna að hitta valdhafana að máli um efnisleyfin, er ég gæti komið suðurferð við.
Um miðjan apríl (1948), er suðurferðin var afráðin, kom fyrir mig persónulega atvik sem ég gleymi aldrei.
Ég hafði fengið bréf utan af landi, þar sem þess var beiðzt, að ég leitaði fræðslu hjá vissri konu í bænum um afkomendur vissra foreldra. Nú lá þessi kona veik í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Leyfi fékk ég til þess að heimsækja hana á þeim tíma, sem hún gæti haft næði til að sinna erindi mínu. Konuna höfðum við hjónin þekkt og hennar nánustu frá því við fluttum í bæinn eða í 20 ár. Hún var í sértrúarflokki í bænum. Þegar ég hafði lokið erindinu og skrifað niður orð hennar um afkomendurna, beiddist hún þess að mega biðja fyrir mér og okkur hjónunum. Vitaskuld var ég konunni þakklátur fyrir það, því að ég trúi á máttinn þann.
Fyrst ávarpaði konan Jesú eins og vin og unnanda, sem sæti þarna á rúmstokknum hjá henni. Hún þakkaði honum fyrir ánægjulegar stundir, sem hún hafði átt með fóstru minni, er þær lágu saman í Sjúkrahúsinu þá fyrir nokkrum árum. Síðan minntist hún heimilis okkar hjóna og hjónabands okkar. Svo bað hún fyrir nýja íbúðarhúsinu okkar, sem við höfðum þá nýlega flutt í eða fyrir einu ári. Þá kom hún að skólanum. Minntist þess, að hún hefði átt barn eða börn sín þar við nám og þær stundir hefðu orðið þeim til gæfu. - Og nú færðist hún öll í aukana, fannst mér, bænin hitnaði og varð ákafari, - varð brennandi. Hún bað fyrir skólahugsjóninni í heild, fyrir framkvæmdunum við nýju bygginguna, bað þess, að mótdrægu öflin í bænum og utan hans mættu ekki ná marki sínu, að þessi framkvæmd yrði ekki hindruð af miður velviljuðum mönnum. Konan virtist vita allt, sem gerzt hafði í þessum efnum og orðaði bæn sína varfærnislega og hógværlega.
Ég á í rauninni engin orð til þess að lýsa áhrifum þessarar bænar, þó að ég beri það hér við. Mér fannst eins og stakkur eða brynja steyptist yfir mig, einskonar sigurkufl, vil ég orða það. Og brjóstið, hugskotið fylltist einhverskonar vissu, sigurvissu og óbilandi trausti, - trausti á málstaðinn og mennina, einhverja menn. - Nei, ég get ekki lýst því. Aðeins þetta eina: Ég var öruggur, var viss, stóð bjargfastur í trúnni á málstað minn og sigur.
Ég kvaddi þessa blessaða konu án allra orða. Mér var varnað máls. Það hefur hún víst fyrirgefið mér, því að hún sá, hvað mér leið.
Nokkrum dögum síðar fór ég til Reykjavíkur til þess að kræla mér út sementsleyfi. Timbur hafði ég yfirfljótanlegt frá timburkaupmanninum. Í Reykjavík gekk ég á milli ráðandi áhrifamanna næstu 5 dagana án alls árangurs. Þeir svöruðu úr og í, gáfu loðin svör og lítilvæg. Allt valdið var hjá guðfræðiprófessornum, sögðu þeir.
Við, sem komið höfum í snertingu við uppeldisstörf, vitum það, að drengir á gelgjuskeiðinu og eldri veita æði oft beiskju sinni og hugarstríði útrás með strákapörum og óknyttum. Einhverjar svipaðar gelgjuskeiðskenndir leituðu nú á huga minn í beizkju minni og hugarstríði, þó að ég væri nær fimmtugu. Mig langaði til að sprella svolítið, áður en ég héldi heim, eftir þessa 5 daga píslargöngu.
Jóhann Þ. Jósefsson, þingmaður kjördæmisins, var nú fjármálaráðherra. Ég vissi, að hann hafði á yngri árum sínum í fæðingarbyggð sinni leikið minni hlutverk í leikritum, sem sýnd voru í hinu sérlega og gamla leikhúsi Eyjamanna, Kumbalda, fisk- og saltgeymsluhúsi dönsku einokunarverzlunarinnar. Ég hafði líka einu sinni leikið Sigurð bónda í Hlíð í Manni og konu og tekizt miður vel, að mér fannst sjálfum. Þó vildi ég nú reyna annað hlutverk. Mér var þá um það kunnugt, að kirkjubækur sögðu mig bróðurson Kristjáns Þorgrímssonar, hins kunna og snjalla leikara í Reykjavík á sinni tíð, þó að ég hafi lengi verið sannfærður um, að fruman var af öðrum rótum runnin, var úr annarri skjóðu. Vissulega hafa oft íslenzkir öldungar veitt prestum sínum drengilega og nauðsynlega hjálp til þess að bjarga æru og hjónabandi. En þetta er allt önnur saga. Aðeins smálegur útúrdúr. En leika vildi ég samt. Ég lagði leið mína í fjármálaráðuneytið til þess að leika einskonar forspil að apaspili því, sem nú var að hefjast fyrir atbeina prófessorsins og að undirlagi andspyrnunnar í Vestmannaeyjum. Þingmaðurinn sjálfur skyldi nú verða dálítill þátttakandi í forspili apaspilsins fyrir opnum tjöldum.
Á leiðinni í fjármálaráðuneytið sótti illa á mig málsgreinin, sem kunn var innan lítils hrings valdamanna í Eyjum: „Fyrst þið þykizt hafa efni á að byggja svo alóþarfa byggingu eins og gagnfræðaskólabyggingin er, sé ég enga ástæðu til að leggja mig fram um fjáröflun til ...“
Ráðherrann var við látinn og samleikurinn hófst. Ég mæltist til þess með mínum fegurstu og blíðustu orðum, að hann sem áhrifaríkur þingmaður Vestmannaeyja og mikilsmetinn ráðherra (ó, mikið er nú lofið sætt og sefjandi!) beitti sér fyrir því, að við fengjum þá þegar nokkurt sementsleyfi, svo að við gætum haldið áfram með Gagnfræðaskólabygginguna á komandi sumri. Ráðherrann var alvarlegur, fannst mér. Honum stökk ekki bros, hversu ísmeygilegur sem ég reyndi að vera. Rullan tókst þó nokkuð vel hjá mér, hélt ég. Auðvitað lék hann sína rullu af snilld jafn þaulvanur sem hann var á þessum vettvangi og þjálfaður! Hann hefði naumast haldið þingmennskunni hjá Eyjabúum, ef svo hefði ekki verið!
Ráðherrann hringdi í einn af símum Fjárhagsráðs. Bragi nokkur Kristjánsson átti tal við ráðherrann. Sá „næst bezti“ frétti ég síðar. Formaðurinn var auðvitað beztur, en hann var ekki við látinn. Lengi ræddi ráðherrann við þennan „næst bezta“, og satt að segja bað hann manninn að greiða götu mína um sementsleyfið. Maðurinn sló úr og í, réði víst engu. Svo féll talið niður.
Eftir símtalið þakkaði ég ráðherranum auðmjúklega fyrir símtalið og þó sérstaklega fyrir það, að nú hefði hann sannfært mig um fylgi sitt við byggingarhugsjón þessa! Annað væri ómengaður rógur, sem verið væri að blása í eyru mér. Ráðherranum brá. Hann roðnaðí. Alvarlegur á svipinn spurði hann: „Hvenær hefi ég ...?“ - Steinhljóð. Ráðherrann stóð upp, glaðnaði við og tjáði mér, að ríkisstjórnin sæti fund með Fjárhagsráði seinna um daginn. „Þá skal sá pamfíll ekki sleppa,“ sagði ráðherrann og var hinn kumpánlegasti. Svo setti hann upp svip með nokkrum orðum, sem gáfu til kynna, að fleiri hefðu völdin þar í stjórnarráðspaufunum en „pamfíllinn“ einn.
Þetta upphaf apaspilsins mikla, sem nú fór í hönd, hafði tekizt alveg prýðilega. Líklega hafði ég bara töluverða leikarahæfileika eins og mótherjinn!
Vitaskuld var þessum samleik okkar þingmannsins hér með lokið að fullu. Aldrei barst mér orð frá ráðherranum. Aldrei við því búizt. Aldrei ráð fyrir því gert. Aldrei leitað eftir því. Hver þekkir ekki sitt heimafólk?
Úr þessari ferð kom ég heim vonsvikinn og framlágur. Megnaði nú bæn alþýðukonunnar ekkert gegn bænum guðfræðiprófessorsins og vilja? Vissulega flutti hann sínar bænir á sína vísu í starfi sínu gegn mér og málefni mínu. Gjörðir okkar mannanna, eru þær eitthvað annað en óskir okkar og bænir birtar í verki? Langoftast ekkert annað.
Var nú forsjónin tekin að fara í manngreinarálit? Hvar var nú sigurkuflinn, sem mér fannst blessuð konan steypa yfir mig með bæn sinni? - Jú, ég var í honum enn! Ég fann það, hvernig svo sem ég fann það. Því get ég ekki lýst. Ef til vill var það einskær trú eða ímyndun.

II. hluti