Blik 1967/Póstmálin í Eyjum áður fyrr

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit Bliks 1967


ctr


I.
Eyjapóstur hér áður fyrr
eftir Harald Guðnason


Haraldur Guðnason, bókavörður.

Fyrsta tilskipun um póststofnun á Íslandi var dagsett 13. maí 1776, en kom ekki til framkvæmda fyrr en 10. febr. 1782. Er talið, að Jón Eiríksson hafi átt þar drjúgan hlut að máli. Í hinni merku ritgerð Jóns, forspjalli að ferðabók Ólaviusar, er kafli um póstmálin. Skortur á opinberum póstgöngum hefur valdið því, segir Jón að öll bréf stjórnarvalda og einstakra manna hefur orðið að senda með sérstökum sendimönnum eða tækifærisferðum. - Þetta sé mjög kostnaðarsamt og ferðalangar ýmsir hafi oft týnt bréfum, sem þeim voru falin.
Ýmsir menn hafi því stungið upp á því, að komið yrði á fót reglubundnum póstferðum, og loks hafi landsnefndin lagt fram tillögur um póstferðir. Póstar skyldu ganga að og frá Bessastöðum, aðsetri stiftamtmanns, í sýslur landsins. Thodal var þá stiftamtmaður, hinn fyrsti er bjó á Íslandi, fremur vinsæll embættismaður og framfarasinnaður. Var honum falið að gera áætlanir um póstferðir, en þær voru alllengi í athugun ytra og framkvæmdir drógust nokkur ár. Kostnaðinn átti að greiða úr ,,kóngsins kassa“, en helzt átti fyrirtæki þetta að bera sig er fram liðu stundir, og óskaði konungur tillagna um burðargjald.
Tilskipun um póststofnun á Íslandi er prentuð í Hrappsey 1782, útg. af Kristjáni konungi 7. Segir þar m.a., að konungi hafi ,,allra undirgefnast verið tjáð, að enn sé ekki til á Íslandi regluleg stofnun til þess að flytja bréf og einkabréf“, og vill konungur af góðvild sinni bæta hér um með staðfestingu á reglugerð Thodals stiftamtmanns. Póstur átti nú að fara þrisvar á ári úr öllum landsfjórðungum til Bessastaða, í byrjun maí, þá í byrjun júní og loks í þriðja sinn í októbermánuði.
Suðurlandspóstur hóf göngu sína í Norður-Múlasýslu og fór suður um. Sýslumenn voru póstafgreiðslumenn og sendu póstinn hver frá sér til næsta sýslumanns. Var söfnun bréfa hafin í janúar og haldið suður um. Sýslumaður Rangæinga átti ekki að senda póst frá sér fyrr en 22. febrúar, en í lok þess mánaðar skyldu bréf komin til Bessastaða.
Ari nokkur Guðmundsson fór fyrstu póstferðina til Vesturlands, og 1785 var Sigvaldi Sæmundsson ráðinn Suðurlandspóstur.
Í fyrstu gjaldskrá um póstsendingar frá 8. júlí 1779, er lægsta burðargjald ákveðið 2 skildingar fyrir bréf, sem vó eitt lóð (tæp 16 gr.), en hæsta gjald 21 skildingur. Þetta gjald gilti þó aðeins innan hverrar sýslu. Þá voru engin frímerki til. Þetta kerfi var svo flókið, að 1786 var gefið út konungsbréf til skýringar. Fyrsta frímerkið var gefið út 1840.
Árið 1873 voru samþykkt á Alþingi lög um frímerki á bréf og póststofa opnuð í Reykjavík. Sama ár voru sett ákvæði um 15 póstafgreiðslustaði, einn þeirra var í Vestmannaeyjum. Ýmiss ákvæði hinna eldri póstlaga koma nútímamönnum einkennilega fyrir sjónir. Samkv. lögum 4. nóv. 1881 mátti hlutur, sem var þyngri en eitt pund (hálft kg.) ekki flytjast með pósti. Þetta þóttu harðir kostir. Til dæmis þurfti maður á Norðurlandi að fá hlut sendan að sunnan, sem var lítið eitt yfir eitt pund. Varð hann að senda mann gagngjört suður til að sækja hlutinn. Á þingi 1889 var rætt allmikið um þetta ákvæði, og kom fram tillaga um að leysa vandann á þann hátt, að hækka verulega burðargjald fyrir það sem væri umfram 1 pund, eða úr 30 aurum í 1 kr. Sighvatur í Eyvindarholti var mjög á móti pakkasendingum í pósti, sagði m.a., að bréf tefðust vegna óþarfa sendinga.
Árið 1903 var burðargjald fyrir einfalt bréf 10 aurar, en síðar 20 aurar og hélzt svo alllengi, svo smáhækkandi í kr. 5,00.
Fyrsti póstur fastráðinn var fyrrnefndur Sigvaldi Sæmundsson, sunnan póstur. Árslaun hinna fyrstu póstmanna voru. 24 rd., og 3 rd. eftirlaun eftir 12 ára dygga þjónustu sem konunglegur póstur. Skipunarbréf landpóstanna fyrstu er mjög ítarlegt. Er klykkt út með því, að pósturinn skuli varast, „seinlæti, tómlæti, athugaleysi og handvömm“ í starfi. Við því lá hegning og embættismissir. Sigvaldi póstur þreyttist brátt í hinu konunglega embætti. Hann skrifar 25. nóv. 1787 Levetzov stiftamtmanni. Segir hann, að hann hafi nú verið póstur í 2 ár og lætur hið versta af. ,,Afsegi ég svo hér með lengur við þessa póstgöngu að blíva eftir næst komandi nýtt ár utan ég fái hið ringasta 3 mark fyrir hverja þingmannaleið fram og til baka, eins sumar og vetur.
Forblív með stærstu undirgefni herra stiftamtmannsins auðmjúkur þénari. Sigvaldi Sæmundsson.“
Póstar fóru um fótgangandi og báru leðurtöskur. Um og eftir 1880 jókst mjög allur póstflutningur, prentað mál, Alþingistíðindi o.fl. Um aldamótin komu póstvagnarnir til sögunnar, en reyndust miður vel og voru ekki lengi í notkun.
Starf hinna konunglegu landpósta var erfitt og ekki eftirsóknarvert, svo sem dæmið um Sigvalda sannar. Einn hinna fyrstu sunnanpósta, Klemens að nafni, varð úti í Grafningnum. Lentu póstarnir oft í miklum mannraunum á ferðum sínum um fjöll og firnindi og yfir vond vatnsföll.
Póstferðir um Suðurand hófust árið 1784, sem fyrr segir. Póstleiðin austur í Rangárvallasýslu var þessi: Bessastaðir, Keflavík, Básendar, Grindavík, Eyrarbakki, Oddgeirshólar og að Móeiðarhvoli, sýslumannssetri Rangæinga.
Til austurferðar voru póstinum ætlaðir 12 dagar, en urðu oft miklu fleiri. Var lagt ríkt á við sýslumenn að tefja ekki póstana með óþörfu seinlæti, og ekki lengur en hálfa klukkustund í ferð. En oft mun hafa út af þessu brugðið. Og oft hafa póstarnir orðið að halda kyrru fyrir vegna illveðurs og vatnavaxta. Þess voru jafnvel dæmi, að póstur var 60 daga í þessari austurferð. Hefur sá trúlega verið all værukær.
Stiftamtmenn voru á þessu tímabili einskonar aðalpóstmeistarar, þ.e. á fyrri helmingi 19. aldar. Þá er fram leið, sótti sú hugsun að stjórnarvöldum í Kaupinhafn, að þetta væri helzt til óvirðulegt starf fyrir svo hátt setta embættismenn. Árið 1852 segir í stjórnarbréfi, að það sé hreint ,,upassende“, að stiftamtmaðurinn dundi við póstafgreiðslu og snúist í því m.a. að senda undirmönnum sínum stimpilsvertu og vinna önnur álíka verk.
Póstsamgöngur við útlönd voru hinar aumlegustu á þessum tíma. Á aldarfjórðungnum 1775 til 1800 var ein póstferð frá Danmörku árlega og ófriðarárin 1807 til 1814 voru ferðir fáar og óvissar, t.d. í hálft annað ár ekki nema þrjár ferðir erlendis frá. Árið 1826 fór póstskip frá Íslandi 6. maí og kom aftur 27. október.
Þá er fram í sótti fór að brydda á óánægju með seinaganginn í póstmálunum. Jón Sigurðsson ritaði í Ný félagsrit 1846 langa og skelegga grein um blaðleysi og póstleysi á Íslandi. Hann segir m.a.: „Oss vantar blað í landinu og oss vantar tíðari póstgöngur í landinu ... Almenn tíðindi og merkir viðburðir berast um landið á líkan hátt og bæjarskraf og - sveita, á skotspónum ... þar af leiðir þá, að tíðindin koma brjáluð og böguð þegar í næstu sveitir, stytt með gleymsku eða lengd með lygi ... Póstgöngur eru varla teljandi, nema í Sunnlendingafjórðungi, því það er aðeins tvisvar á ári, að póstur fer um hina fjórðungana. Það sem ber við í einhverjum landsfjórðungi þarf þessvegna misseri eða ár til að komast í hinn, og það er ekki allsjaldan, að tíðindin berast fyrst frá Khöfn í næsta landsfjórðung, svo það er orðið máltæki hjá öðrum þjóðum, að skemmsta leiðin milli fjórðunganna á Íslandi liggi um Khöfn ... Alþingistíðindin hefur orðið að senda til Khafnar til að koma þeim sem fljótast norður í Skagafjörð, eða austur eða vestur. Hvernig á nú nokkuð líf og andi að geta dafnað í landinu, meðan þessu fer fram?“
En hér var við ramman reip að draga, svo sem á flestum sviðum. Og það var táknrænt um sleifarlagið á póstmálum Íslendinga, að þá er Jón lézt og þriðjungur aldar hafði liðið frá því hann skrifaði þessa ritgerð, barst andlátsfregn hans ekki til Reykjavíkur fyrr en eftir tvo mánuði og þótti tiltakanlega fljótt.
Árið 1857 hófust fastar gufuskipaferðir milli Íslands og Danmerkur. Voru ferðir þá áætlaðar 6 á ári, og var nokkur framför, en hinsvegar sat allt í sama farinu með innanlandspóstinn.
Víkur nú sögunni að Vestmannaeyjapóstinum. Eyjapóstur var sendur austur í Rangárvallasýslu og var endastöðin lengi vel sýslumannssetrið. Raunar þurfti oft að auki að senda menn til lands með bréf eða boð, sem þoldu ekki bið. Var þá róið með sendimann upp í Landeyjasand, en hann hélt svo áfram ferð sinni gangandi eða ríðandi, og þá oftast til Reykjavíkur.
Fyrst var póststaður að Móeiðarhvoli, sem fyrr segir, en síðar að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Árið 1844 flutti sýslumaðurinn að Vatnsdal, sem er nær innsti bær í sömu sveit, en þar var mjög úrleiðis að hafa póstafgreiðslu. Varð þá Oddi á Rangárvöllum endastöð 1845. Þessi skipan var Eyjamönnum ærið óhagstæð. Er líklegt, að einmitt þessvegna hafi póstleiðin verið framlengd 1850 og eru þá Önundarstaðir í A.-Landeyjum endastöð Eyjapóstsins. Þetta var ákjósanlegur staður, því að framundan Önundarstöðum var að kalla stytzta leið milli lands og Eyja. Svona hélzt þetta nokkur ár, en 1868 er prestinum á Krossi, séra Sveinbirni Guðmundssyni, falin afgreiðsla Eyjapóstsins fyrir 4 rd. borgun á ári. Um 1870 eða fyrr varð Völlur í Hvolhreppi póststöð. Þess má geta, að þar eru stimpluð ein dýrustu frímerki, sem verið hafa í umferð hérlendis. Á Velli bjó Hermannius E. Johnson, sýslumaður frá 1861-90, og naut virðingar og vinsælda í héraðinu. Frá Velli var svo endastöð Eyjapóstsins flutt aftur að Odda 1879 og var þar síðasti aðalpóststaður Eyjapósts í Rangárvallasýslu. Frá Krossi var endastöð Eyjapóstsins flutt að Ljótarstöðum í sömu sveit, en þar var svo póstafgreiðslustaður um 20 ár eða lengur. Bóndi þar og bréfhirðingarmaður var Magnús Björnsson hreppstjóri, bróðir Þorvalds á Eyri, er landskunnur var á sinni tíð. Eyjapóstur skyldi fara frá Odda að Ljótarstöðum daginn eftir komu austanpóstsins frá Reykjavík, og sneri hann þegar aftur að Odda. Þegar pósttaskan kemur frá Vestmannaeyjum að Ljótarstöðum, skal henni komið það snemma að Odda, að hún komist á austanpóstinn á leið hans til Reykjavíkur.
Ljótarstaðir voru miður vel valinn póststaður fyrir Eyjamenn. Er alllöng leið þangað úr Sandinum og yfir blauta mýri að fara. Fór sendimaður Eyjamanna stundum á skautum upp að Ljótarstöðum, ef mýrin var frosin; þá þræddi hann sig eftir flóðum.
Eyjamenn voru ekki sérlega ánægðir með póstgöngurnar, og ekki að ástæðulausu. Brimasamt er við Landeyjasand og stundum ólendandi svo vikum og mánuðum skipti. Bárust þá engar fréttir út hingað, ef póstskipið kom ekki við í Eyjum. Kom þetta vandræðamál m.a. til umræðu á Alþingi. Þorsteinn Jónsson læknir, þingm. Vestm. 1887-89, hreyfði málinu á fyrsta þingi, er hann sat. Hann sagði, að 3-5 mánuðir liðu stundum unz fært væri milli lands og Eyja. á s.l. vetri, sagði hann, komu 6 póstar af landi í einu. ,,Vér fengum september-póstinn fyrst 8. marz, þar á meðal áríðandi embættisbréf.“
Þetta ár, 1887, fóru 672 borguð bréf til Eyja, 80 blaðabögglar, 16 óborguð bréf, 26 peningabréf, 52 bögglar, þyngd 148 póstpund. Flutt verðmæti alls kr. 1806,13.
Það dregur nær aldamótum og lítið breyttist til batnaðar um póstmál Eyjaskeggja. Var hvorttveggja, að mönnum þótti pósturinn ærið lengi á leiðinni og hitt, að Ljótarstaðir voru óheppileg endastöð og Magnús bóndi ekki nógu árvakur afgreiðslumaður.
2. febr. 1897 er birt bréf í Ísafold frá Skeggja. ,,Engar samgöngur við meginlandið síðan í október sakir óþrotlegs brims, og með síðustu ferðinni fengum við eigi póstinn, og kennum það hirðuleysi bréfhirðingarmannsins á Ljótarstöðum, svo nú liggja í landi 4 póstar og bráðum von hins 5. Telur bréfritari hyggilegast, að hætta að senda bréf og blöð með landpóstum, heldur með skipum. Þá kemur allt eftir rúman mánuð og oft strax. Bréfhirðingarstaðurinn að Ljótarstöðum er illa settur, langt uppi í sveit. Ætti að vera nær sjó, t.d. að Kirkjulandi, Önundarstöðum eða Hólmum.“ 27. sama mánaðar bætir hann við í bréfi til blaðsins: „Í gær varð loks brimlaus sjór og náðust þá allir póstarnir 4. Þótti flestum mál til komið.“
Magnús bóndi á Ljótarstöðum vildi ekki liggja undir ámæli þessu og svaraði í sama blaði 21. apríl. Segir hann, að engu hirðuleysi hans hafi verið um að kenna, hversu seint póstur komst út til Eyja. ,,Samstundis og vart varð við Eyjamenn, sendi ég í Sandinn með póstinn, en þegar sendimaðurinn var á miðjum sandi, sá hann, að skipið var lagt frá landi, svo að sú ferð virtist ekki gerð til þess að sækja póst.“ Þá segir Magnús, að tvo daga hafi verið bezta leiði eftir að tveir póstar voru komnir. Þá hafi maður verið sendur með póstinn að Önundarstöðum og beðið þar allan daginn eða framundir kvöld. Það er ný kenning, að Ljótarstaðir séu ekki heppilegur staður, því þau 20 ár, sem bréfhirðing hafi verið þar, hafi aldrei nein kvörtun komið.
Skeggi svarar Magnúsi í Ísafold 15. maí. Segir hann m.a., að Magnús hafi ekki sent Gísla Stefánssyni pósttöskuna, þá er hann var á ferð í Hólmum. En hann hafi þá fyrst sent hana ofan úr sveit, er fregn kom af Eyjamönnum, en ekki náð í sandinn. Of langt mál væri að telja syndir Magnúsar sem bréfhirðingarmanns og ekki þýði að sakast um orðinn hlut. Nú muni tengdasonur Magnúsar, Guðni Þórðarson, taka við sem póstafgreiðslumaður, og beri Eyjamenn hið bezta traust til hans sakir ötulleika. Hann muni greiða sem bezt fyrir póstsamgöngum til Eyja.
Póstferðir í Landeyjar voru oft svaðilferðir. Oft var sá háttur hafður á, að þá er leiði var, kveiktu Hólmhverfingar bál í tóft einni í túninu á Bakka í Austur-Landeyjum. Þar heitir enn Brennutóft. Var þetta merki til Eyjamanna, að þeir gætu komið upp. Í þessum landferðum voru 14-16 menn. Stundum kom það fyrir, að Eyjamenn komust ekki út aftur strax og tepptust þá uppi nokkra daga eða vikur, en ekki mun það hafa verið oft. Ekki voru ferðir þessar hættulausar, og ekki hent öðrum en þaulvönum sjómönnum að lenda og ýta við sandinn. Slys urðu fá, en stundum munaði mjóu. Í póstferð 6. jan. 1895 hvolfdi skipi Eyjamanna og skemmdist það talsvert, en slys urðu ekki á mönnum. Ekki voru launin freistandi, sem greidd voru fyrir þessar landferðir, 2 krónur.
Hér skal nú sagt frá einni póstferð upp í Landeyjar haustið 1880. Var farið til þess að sækja póst og einn farþega, Helga Jónsson verzlunarstjóra við Brydesverzlun í Eyjum. Formaður í þessari ferð var Hannes Jónsson, landskunnur sjósóknari á sinni tíð og hafnsögumaður. Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti segir svo frá samkvæmt því sem Hannes lóðs sagði honum (Gamalt og nýtt, II. 5. h.): „Þegar upp undir Sand kom, sáu þeir félagar strax, að ekki var lendandi. Braut langt út frá Sandinum á hverju rifi, svo að ekki varð komizt nærri landi.
Margt manna beið í Sandinum. Meðal þeirra, sem þar voru, var Helgi verzlunarstjóri og Magnús bóndi á Kirkjulandi. Magnús var alvanur formaður og hafði vel vit á sjó. Hafði hann langa reynslu af lendingum við Sandinn í misjöfnu veðri.
Biðu þeir Hannes þarna fyrir utan Sandinn allan daginn, og varð aldrei lát á briminu.
Þegar komið var fram undir rökkur, vildu flestir þeirra manna, sem í Sandi voru, fara heimleiðis, svo að þeir, sem á skipinu voru, biðu ekki lengur. En Magnús vildi bíða enn um stund.
Sagði hann, að ef til vill yrði lát á með flóðinu, en mjög skammt var til flóðs. Hinir réðu þó, og héldu flestir burt úr Sandinum. Magnús og Helgi hinkruðu við.
Þegar Landeyingar voru horfnir upp fyrir kampinn, sá Magnús, að hlið gerði í brimgarðinn, og gaf hann bátsverjum merki um að vera tilbúnir. Lagðist hann síðan í Sandinn, þar sem hann vildi, að þeir reyndu lendingu.
Hélt Hannes nú skipinu inn yfir yztu brotin og gekk vel. Utan við innsta rifið beið hann lags um stund. Svo var skammt milli brotanna, að við lá, að ytra brotið skylli á skutnum, en innra brotið féll um stafninn. Urðu þeir því að halda skipinu nálega á sama blettinum.
Eftir nokkra stund gaf Magnús Hannesi merki um að taka landróðurinn. Hlýddi hann því, og var róið af miklu kappi. Heppnaðist lendingin með ágætum. Skipshöfnin byrjaði þegar að bera skipið til og búa það undir ýtinguna. Áttu þeir ólagt árar í keipa, þegar Magnús kallaði, að nú væri lagið út. Hannes sagði, að þeir væru ekki búnir enn og hreyfðu sig ekki fyrr en allt væri í lagi.
Innan stundar kallaði Magnús, að lag væri til útróðurs. Var þá ýtt samstundis og heppnaðist Vestmannaeyingum vel að komast á flot. Gátu þeir tekið útróðurinn í einni lotu, út fyrir öll brot. Mátti ekki naumara standa. Strax og þeir voru komnir á rúmsjó, komu ólögin hvert af öðru, og varð ekkert hlé úr því, þar til myrkur skall á.
Hafði lendingin og útróðurinn ekki tekið meira en fimmtán mínútur, og var þetta eini tíminn, sem fært var þann dag og næstu daga. Hannes og þeir félagar héldu síðan til Eyja með póstinn tví- eða þrígildan og Helga verzlunarstjóra.
Hafði ferðin tekizt hamingjusamlega.“
Af því sem hér hefur verið frá sagt er ljóst, að á ýmsu hefur oltið um póst Vestmannaeyinga. Skal nú að lokum drepið á einn þáttinn enn: flöskupóstinn. Þá er hafátt var á, létu menn bréf í flösku og oft tóbaksspöng með handa væntanlegum finnanda fyrir það að koma bréfinu til skila. Þá var flöskunni lokað vandlega og henni kastað út af Eiðinu. Stundum voru þessi bréf ótrúlega stuttan tíma á leiðinni til lands og dæmi þess, að bréf var komið í hendur hins rétta viðtakanda eftir 12 klukkustundir.
Á sundinu milli lands og Eyja skiptast straumar með sjávarföllum. Við útfall liggja straumar austur með landinu, en um aðfall vestur um. Reyndist Eyjamönnum bezt að varpa flöskum í sjóinn með aðfalli.
Heimildir eru um, að flöskubréf voru send frá Eyjum í byrjun 19. aldar, en líklegt er, að menn hafi notað þessa aðferð fyrr, ef svo bar undir. Hinsvegar mun Þorsteinn Jónsson læknir, sem oft var nefndur Eyjajarl, hafa endurvakið þessa aðferð laust fyrir 1880. Magnús sonur hans var prestur Landeyinga nokkur ár og sat að Bergþórshvoli. Sendi Þorsteinn læknir Magnúsi syni sínum oft flöskubréf og lá vel við. Og eitt Reykjavíkurblaðanna segir svo frá 9. marz 1887, að flöskubréf frá Vestmannaeyjum hafi rekið á Þykkvabæjarfjöru. Lýkur frétt blaðsins með þessum orðum: ,,Það er hinn algengi vetrarpóstur Vestmannaeyinga til meginlandsins.“

Hér að framan birtir Blik útvarpserindi, sem Haraldur bókavörður Guðnason, flutti á sínum tíma. Blik færir bókaverðinum alúðarþakkir fyrir það að fá að birta erindi þetta lesendum sínum til fróðleiks. Jafnframt langar mig til þess að spinna hér eilítið aftan við erindi bókavarðarins og segja frá póstmálum í Vestmannaeyjum eftir 1872. Þ.Þ.V.

II.
Eyjapóstur eftir 1872


Hinn 26. febrúar 1872 staðfesti Kristján konungur IX. Tilskipan um póstmál á Íslandi. Póstkerfi landsins skyldi mótað samkvæmt þessari tilskipan.
Tilskipan þessi leiddi af sér auglýsingu um póstmál á Íslandi, sem dagsett var 3. maí 1872. Þar segir svo í 2. grein:
Á þeim stöðum, sem nú skulu taldir, skal setja póstafgreiðslumenn, og skal veita þeim árleg laun eins og hér segir:

Stykkishólmi 35 ríkisdalir
Akureyri 35 ---
Ísafirði 25 ---
Djúpavogi (Berufirði) 25 ---
Bæ á Barðaströnd 20 ---
Egilsstöðum 20 ---
Seyðisfirði 15 ---
Grenjaðarstað 15 ---
Miklabæ 15 ---
Sveinsstöðum 15 ---
Miklholti 15 ---
Hjarðarholti í Mýrasýslu 15 ---
Velli í Rangárvallas. 15 ---
Kirkjubæjarklaustri 15 ---
Vestmannaeyjum 15 ---

Árið 1875 var skipt um mynt hér á landi. Krónumyntin tók þá gildi. Þá urðu afráðnar 2 krónur í hverjum ríksdal (rd.).
Af skrá þessari má sjá, að Vestmannaeyjabyggð var lögð að jöfnu við hinar þéttsetnari sveitabyggðir, þar sem stórbýli, er lá miðsvæðis, var gert að póststöð. Ef til vill hefur þar nokkru um ráðið, að stórbýlið var prests- eða sýslumannssetur, og þá þannig hugsað, að embættismaðurinn yrði jafnframt póstafgreiðslumaður á hverjum tíma þar í byggð.
Ennfremur skyldi samkvæmt auglýsingunni stofna til bráðabirgða 54 bréfhirðingastöðva í hinum dreifðari byggðum landsins. Árslaun bréfhirðingarmanna þar skyldu vera 5-10 rd. eða 10-20 krónur. Landshöfðinginn var skipaður æðsti stjórnandi hinna íslenzku póstmála innanlands. Í Reykjavík var sett á stofn póstskrifstofa með póstmeistara, sem konungur sjálfur útnefndi. Árslaun hans skyldu vera 700 ríkisdalir. Samkvæmt framangreindri auglýsingu skrifaði landshöfðinginn yfir Íslandi, Hilmar Finsen, sýslumanninum í Vestmannaeyjum bréf og bauð honum póstafgreiðslustarfið.
Bréf þetta er svohljóðandi:

„Íslands Stiftamt.
Reykjavík, 12. sept. 1872.

Þar eð stofna skal póstafgreiðslu í Vestmannaeyjum frá 1. apríl 1873 samkvæmt auglýsingu 3. maí, þ.á. um póstfyrirkomulagið á Íslandi, leyfi ég mér hér með að biðja mér þóknanlegrar yfirlýsingar hr. sýslumannsins um, hvort þér séuð fús til að taka að yður starf þetta, sem er launað með 15 rd. árlega, og skal ég þar næst á sínum tíma senda yður bæði prentaðan leiðarvísi fyrir póstafgreiðslurnar er saminn mun verða samkvæmt auglýsingu 3. maí þ.á., og nauðsynleg póstáhöld. Skylduð þér ekki vera fús til að taka við þessu starfi, skal ég hér með þénustusamlega biðja yður að stinga upp á manni, sem þar til væri hæfur.

Hilmar Finsen
Til
sýslumannsins í Vestmannaeyjum.“

Þegar þetta bréf var skrifað, var sýslumaður í Eyjum Michael Marius Ludvig Aagaard, danskur að nafni og kyni. Hann tók við sýslumannsembættinu vorið 1872 og hafði því aðeins setið nokkra mánuði í embættinu, er honum var boðið póstafgreiðslustarfið.
Sýslumaður tók að sér starfa þennan og hafði hann á hendi meðan hann gegndi sýslumannsembættinu í Eyjum eða til vorsins 1891.
Þegar Aagaard sýslumaður flutti úr Eyjum, gerðist J.N. Thomsen póstafgreiðslumaður þar. Hann er „verzlunarmaðurinn,“ sem Sigfús M. Johnsen getur um í Vestmannaeyjasögu sinni að annazt hafi póstafgreiðslu í Vestmannaeyjum, eftir að sýslumenn afsala sér henni. Bæði Aagaard sýslumaður, og J.N. Thomsen, fulltrúi við Godthaabsverzlunina (Miðbúðina) munu hafa starfrækt póstafgreiðsluna í skrifstofu sinni.
Eftir því sem næst verður komizt samkvæmt launagreiðslu, hefir Sigfús Árnason á Vestri-Löndum hafið póstþjónustustörf sín í Vestmannaeyjum síðari hluta ágústmánaðar 1896. Það ár fær hann greidd laun fyrir starfið það ár og svarar það til 4 1/4 mánaða starfs. Alls voru Sigfúsi Árnasyni greiddar kr. 75,00 í árslaun fyrir póstþjónustustörfin flest árin a.m.k. sem hann hafði þau á hendi, en þau ár voru 8 (1896-1904). Eftir því sem ég veit bezt, er það með bréfi landshöfðingja dagsettu 21. des. 1896, sem Sigfús Árnason er skipaður póstafgreiðslumaður í Vestmannaeyjum. Hafði hann þá haft störfin á hendi í 4 mánuði.
Póststofa Sigfúsar Árnasonar var í vestri hluta íbúðarhúss hans að Vestri-Löndum. (sjá mynd á bls. 19).
Veturinn 1904 var það orðið lýðum ljóst í Eyjum, hversu sambúð hjónanna á Vestri-Löndum var orðin erfið. Það vor (26. maí) skrifaði Sigfús póstafgreiðslumaður yfirvöldum póstmálanna í landinu og sækir þar um leyfi frá póstafgreiðslustörfunum um stundar sakir. Jafnframt æskir hann þess, að mega fela Gísla J. Johnsen póststörfin fyrir sig að sinni.
Atburðir næstu daga og vikna með hjónunum á Vestri-Löndum leiddi til þess, að Sigfús Árnason innti aldrei framar af hendi póstafgreiðslustörf í Vestmannaeyjum, svo sem lesa má um í þætti hans á öðrum stað hér í ritinu. Þegar leið á sumarið 1904 afréð Sigfús Árnason að flytja burt úr Eyjum, þegar vissa var fengin fyrir því, að eiginkona hans vildi ekki una hjúskaparböndunum lengur.
Þann 9. nóvember 1904 skipaði „ráðgjafinn“ Gísla J. Johnsen póstafgreiðslumann í Eyjum (sbr. Ísafold 3. des. 1904).
Þessi þjónusta við almenning hafði kaupmaðurinn síðan á hendi eða starfsmaður hans á ábyrgð Gísla til ársins 1927, að Ólafur Jensson gerðist póstmeistari í Eyjum, en svo mun hann oftast hafa verið titlaður í starfinu. Um árabil var póstafgreiðsla Gísla J. Johnsen til húsa í Godthaab, einu allra elzta húsi bæjarins. Lét Gísli byggja við það hús, skilst mér, til þess að fá þar fyllra rými fyrir póstafgreiðsluna.
Árið 1927 hafði póstafgreiðslan verið flutt í húsið Þingvelli, sem þá stóð nokkru norðar en nú stendur það, og var gengið í póststofuna um dyr á norðurhlið hússins. Gísli J. Johnsen tjáði mér eitt sinn, að hann hefði ekki gefið stjórnarvöldunum kost á að taka að sér póstþjónustuna fyrir minni laun en tvöföld árslaun Sigfúsar Árnasonar eða kr. 150,00. Að þeirri kröfu hans hafði verið gengið.
Samkvæmt tilskipaninni um póstmál á Íslandi dagsett 26. febr. 1872, voru burðargjöld sem hér segir:

  • a) Undir venjulegt bréf allt að 3 kvintum (1 kv. = 5 grömm) 4 skildingar.
  • b) Bréf 3-25 kvint 8 skild.
  • c) Bréf 25-50 12 skild.
  • d) Undir hvert heilt pund (1/2kg.) í böggli og broti úr pundi, skyldu greiðast 16 skild.

Getum við gert okkur nokkra grein fyrir því, hvað þetta burðargjald samsvarar hárri upphæð nú í aurum? Einn ríkisdalur jafngilti 96 skildingum eða síðar 2 krónum. Þannig jafngilda 4 skildingar 8 1/3 eyris.
Ekki er mér fyllilega ljóst, hve mikið var greitt fyrir vinnustundina hér á landi árið 1872, en 10 árum síðar (1882) var hún greidd með 15 aurum hér í Eyjum. Eftir því hefur verkamaðurinn þá (1882) unnið fyrir burðargjaldi undir eitt bréf á tæpum hálftíma. Hátt þætti það burðargjald nú á dögum.
Ekki verður með sanni sagt, að póstþjónustustarfið í Vestmannaeyjum væri mikið eða tímafrekt fyrstu árin eftir að tilskipanin 1872 var gefin út eða þau árin, sem Aagaard sýslumaður hafði starfið á hendi.
Mjög margir þeirra vertíðarmanna, sem lögðu leið sína til Eyja úr byggðum Suðurlandsins, komu með kunningja - eða vinabréfin í brjóstvasanum og skiluðu þeim milliliðalaust til viðtakanda í Eyjum. Þó barst alltaf einhver póstur með skipinu. Og blöð og tímarit voru þá pöntuð á póstafgreiðslunum og öll afgreidd þar.
Á sýslumannsárum M.M. Aagaards, sýslumanns, féll jafnaðarlega ein póstferð á mánuði milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur eða til Reykjavíkur. Þó var 17 sinnum sendur póstur frá Eyjum til Reykjavíkur árið 1889, en svo aðeins 13 sinnum árið eftir.
Á þeim árum, sem J.N. Thomsen verzlunarfulltrúi, annaðist póstþjónustuna (1891-1896), fjölgaði árlegum skipsferðum milli Eyja og Reykjavíkur. Þannig afgreiddi hann póst 16 sinnum suður fyrsta árið, sem hann hafði starfið á hendi, og þó féllu aðeins þrjár póstferðir suður frá Eyjum 5 fyrstu mánuði þess árs (1891) eða alla vertíðina til maíloka.
Árið 1892 afgreiddi J.N. Thomsen 20 sinnum póst frá Eyjum til meginlandsins. Þar um bil hélzt þetta næstu 4 árin eða þar til J.N. Thomsen lét af starfinu. Fyrri hluta hvers árs eða á vetrarvertíðum voru þessar póstferðir mun strjálari, oft aðeins ein á mánuði, en fjölgaði, þegar á árið leið.
Um það bil, sem Sigfús organisti Árnason, gerðist póstafgreiðslumaður í Vestmannaeyjum (1896) fjölgaði skipaferðum mjög við strendur landsins miðað við það sem áður var. T.d. afgreiddu þeir báðir J.N. Thomsen og S.Á., 46 sinnum póst frá Eyjum til Reykjavíkur árið 1896. Árið 1898 sendi Sigfús frá sér póst 41 sinni og 53 sinnum árið eftir (1899). Frá áramótum 1903 til 30. sept. s.á. afgreiddi Sigfús póst 56 sinnum. Í apríl-mánuði einum það ár var 5 sinnum sendur póstur frá Eyjum til Reykjavíkur.
Þessar tölur eru dregnar fram af gömlum rykföllnum nótum, póstsendingarnótum, til að sanna, hversu samgöngur fóru vaxandi og póstferðum fjölgandi á landi hér og við strendur landsins með aukinni velmegun, þótt í smáu væri, vaxandi frelsisþrá og framtakshug.
Á þessum árum og síðar voru í gildi ákvæði um sérstaka fjárveitingu frá hinu opinbera til póstafgreiðslunnar í Vestmannaeyjum, kr. 100 á ári, til þess að greiða fyrir póstferðir frá Eyjum upp í Landeyjasand á opnum skipum. Stundum voru ferðir þessar farnar, ef langt leið milli skipaferða til Reykjavíkur, en fæstir vildu gefa kost á sér í ferðir þessar, svo lítið sem fyrir þær var greitt.

Þ.Þ.V.