Blik 1965/För til Noregs fyrir 44 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



För til Noregs fyrir 44 árum


Að þessu sinni minnumst við þess á öðrum stað í ritinu, að einn nafnkunnasti og merkasti skóli sinnar tegundar á Norðurlöndum, lýðháskólinn í Voss í Noregi, er 70 vetra á þessu ári. Þennan skóla sóttu um 60 Íslendingar fyrstu 30 ár aldarinnar. Sumir hinna íslenzku nemenda skólans hafa verið þjóðkunnir menn um árabil og áhrifaríkir einstaklingar á ýmsum sviðum í íslenzku þjóðlífi. Þess vegna teljum við rétt að minnast skólans nú. — Í tilefni þeirra minningarorða langar mig að biðja Blik mitt að geyma fyrir mig frásögn um fyrstu ferð mína til Noregs, er leiddi til þess að ég hafnaði í skóla þessum. Ef til vill hefði Blik aldrei orðið til, ef örlögin hefðu ekki skákað mér inn fyrir veggi þessarar skólastofnunar fyrir tæpum 44 árum.
Ýmislegt hrærir muna og minni og ég læt „gamminn geysa“ í frásögn minni, sem m.a. er birt hér til að svala forvitni sumra vina minna, sem vita að ég er kominn á efri ár, — líka í ýmsum annarlegum skilningi — og trúa því, að ég eigi eitthvað í pokahorninu, sem ef til vill þykir frásagnarvert.

----


Það var vorið 1921. Ég hafði lokið búfræðiprófi fyrir tveim árum. Síðan stundað fjárræktarnám norður í Bárðardal veturinn 1919—1920. Þann vetur brann íbúðarhúsið heima til kaldra kola. Ég fór því heim um vorið 1920 til þess að stunda sjó með fóstra mínum, Vigfúsi Sigurðssyni frá Kúfhól í Landeyjum, — bróður Sigurðar Sigurðssonar í Frydendal hér í Eyjum, — og byggja nýtt íbúðarhús með honum um haustið og veturinn eftir. Það er húseignin Hóll í Norðfirði.
Vorið 1921 var byggingarframkvæmdum langt komið og fósturforeldrar mínir fluttir í húsið.
Þá afréð ég að fara til Noregs til þess að sjá mig svolítið um í veröldinni og kynnast norskum landbúnaði. Vinur minn frá Hvanneyrarárunum, Magnús Símonarson frá Brjánslæk á Barðaströnd, nú bóndi að Fellsöxl í Skilmannahreppi, vann þetta vor hjá bónda á Jaðri í Noregi. Þar gat ég líka orðið sumarmaður.
E/s Gullfoss hafði áætlun um þessar mundir frá Seyðisfirði til Kaupmannahafnar. Nú var hann einhvers staðar á höfnum Norðurlandsins, en hvar og hvenær væntanlegur, það vissi enginn, sem ég spurði. Eina ráðið var að fara norður til Seyðisfjarðar og bíða þar skipsins. Skipsferð þangað var engin. Ég arkaði því norður á Seyðisfjörð á tveim jafnfljótum og tók ferðin tvo daga. Hafurtask mitt bar ég í skreppu á bakinu.
Um vikutíma beið ég á Seyðisfirði eftir skipinu og bjó hjá hjónum nokkrum sem ég hafði engin kynni haft af áður. Ég tefldi við húsbóndann í leiðindum hans og mínum milli þess að hann var að orðhnubbast við nöldrið sitt. Ósamkomulag hjónanna snart svo sálarlíf mitt þessa einu viku, að sárindin segja enn til sín, þegar ég minnist þessarar dvalar.
Loks kom Gullfoss og lagði í haf m.a. með mig innanborðs.
Þau fjögur ár, sem ég gekk í barnaskólann í Norðfirði, var Valdimar Long, síðar kaupmaður í Hafnarfirði, skólastjóri. Hann var þjóðrækinn maður sérstaklega og brýndi fyrir okkur börnunum að rækja skyldur okkar við ættjörðina og móðurmálið. Hann bað guð að gefa okkur vizku og þroska til þess að forðast að bletta íslenzkuna með erlendum orðskrípum. Ég fann þá og mundi nú, að þær bænir höfðu áhrif. Þjóðernishiti ríkti þá með þjóðinni. Sambandsslit við Dani voru í aðsigi. Einhvern veginn fannst mér, að ættjarðarást eða þjóðernistilfinning væri mér í blóð borin. Þegar landið hvarf mér sjónum, varð ég gripinn tilfinningu, sem ég hafði ekki fundið fyrr. Ég stakk mér niður í klefa. Fátt var um farþega á skipinu.
Á leiðinni út varð ég þess áskynja, að furðu margir Danir gegndu störfum á skipinu. Einn a.m.k. vann í vél og tveir önnuðust matseld eða gengu um beina. Mér fannst þetta óviðfelldið á íslenzku skipi og það á sjálfum Gullfoss, skírasta tákni hins væntanlega frelsis okkar og sjálfstæðis.
Eitt sinn sá ég mér færi á að spyrja einn hásetann, hvernig á þessum Dönum stæði hér við störf á íslenzka skipinu. Svar hans var skynsamlegt og sannfærandi: Við Íslendingar erum enn svo ung siglingaþjóð á nútíðarvísu, að við eigum ekki nægilega marga lærða vélamenn og matsveina eða þjóna til þess að fullnægja dvergvaxna skipaflotanum okkar hvað þá meir. Mér varð rórra; ástæðurnar voru þá ekki af neinum óþjóðlegum toga! — Svona var ég eins og opin „þjóðerniskvika“ innvortis. Og það voru fleiri ungir Íslendingar en ég þá, sem betur fór.
Meðan á ferðinni stóð yfir hafið, gerðu einhverjir mér þann grikk að loka Íslandsbanka í Reykjavík. Hann var sagður gjaldþrota. Þetta bankahrun hitti mig illa, umkomulaust ungmenni á leið til Noregs, og olli mér miklum erfiðleikum, t.d. sárum sulti. Ég var nefnilega með sjö eða átta hundrað króna Íslandsbanka seðla í vasanum. Það var öll mín peningaeign og nú vildi enginn sjá þá í Höfn. Hjartagóður ungur Dani fór með mig í einn bankann af öðrum til þess að fá skipt peningum. Nei, þeir fussuðu og sveiuðu, þegar þeir sáu seðlana mína. Sama sagan endurtók sig í matsöluhúsunum, en þá gat Íslendingur greitt alla þjónustu í Höfn með íslenzkum peningum, skildist mér, væri allt með felldu um bankana heima. Skipsferð til Vestur-Noregs fékk ég eftir 2 daga. — Eitthvað þurfti ég að borða þá dagana. — Ég var tekinn að svelta sökum skorts á gildum íslenzkum peningum.
Neyðin kennir fleira en naktri konu að spinna. Það fékk ég nú að reyna í Kaupmannahöfn. Nú neyddist ég til þess að svíkja mér út mat. Það gjörði ég hvorki hugsunarlaust né tilfinningalaust. — Svik í viðskiptum, — ég, Íslendingur á erlendri grund! Gera þjóð minni þá sneypu, — skömm. Og hvað skyldi hann fóstri minn segja, heiðarlegasti maður, sem ég gat ímyndað mér. Nei, ég hélt áfram að svelta.
Sulturinn varð skerandi, — hann skar mig í merg og bein, fannst mér. Engan Íslending þekkti ég í Höfn og engin úrræði hafði ég önnur en viðskiptaprettinn, fannst mér, — fala mat og eta og bjóða síðan ógilda peninga til greiðslu á máltíðinni.

Sveltandi sonur œttjarðarinnar á Ráðhústorgiuu í Kaupmannahöfn 1921 sökum fávíslegrar stjórnar á bankamálum þjóðarinnar.

Sulturinn lét ekki sefast. — Ég rölti inn í veitingahús og falaði góða máltíð. Ég át af hjartans lyst. Síðan kom reikningurinn. Ein króna og fimmtíu aurar, þakk. Ég rétti danska þjóninum 10 króna Íslandsbankaseðil, sem gilti þá jafnt 10 dönskum krónum, væri allt með felldu. Þjónninn hvarf með seðilinn, — en kom brátt aftur að vörmu spori. Seðillinn minn ógildur, sagði hann, bankinn gjaldþrota. Ég rétti fram báða lófa, hristi höfuðið og kvaðst ekki hafa aðra peninga. Aftur hvarf þjónninn frá mér. Hvað tók nú við? Mér fannst tilveran þarna, sem ég sat, lævi blandin. — Ekki bar mér nein skylda til að vita það, að Íslandsbanki hefði farið á hausinn, meðan Gullfoss brunaði austur hafið gegn kólgu og kylju. Fleiri sjálfsvarnir flugu fljótlega mér í hug, því að ég hafði vonda samvizku.
Aftur kom þjónninn og fékk mér 7 danskar krónur. Ég hafði sem sé greitt máltíðina tvöföldu verði og eignast gilda peninga til að greiða með gistinguna við Vesturbrúargötu. Mér hlýnaði um hjartaræturnar og ég brosti breitt. „Við vitum, að þú ert Íslendingur,“ sagði hann, „og við skiljum, að þú ert í vandræðum.“
Loks leið að burtfarartíma skipsins, sem ég ætlaði með til Noregs. Ég gekk í skrifstofu afgreiðslunnar til þess að greiða farmiðann. Ef þeir þar neituðu nú að taka greiðslu í Íslandsbankaseðlum, hvað tæki þá við fyrir mér? —
Ég reyndi að tala máli mínu eftir beztu getu og þó lítilli í dönsku máli. Og þarna mætti ég skilningi og göfuglyndi. Þeir tóku við fargjaldinu, Danirnir, í Íslandsbankaseðlum, eftir að þeir höfðu ræðst við hljóðlega þarna í skrifstofunni, og ég rölti um borð. Ég kannaðist við nafn skipsins, þegar um borð kom. Það hét Thyra, líklega eftir Þyri Haraldsdóttur Danakonungs Gormssonar, drottningu Ólafs konungs Tryggvasonar, og dallur þessi gengið um skeið við Íslandsstrendur á s.l. öld, enda var skipið fornfálegt. Ég var einn míns liðs á 3. farrými skipsins og hvergi varð ég var við nokkra farþega á því.
Matsveinninn tjáði mér, að ég ætti að snæða með yfirmönnum skipsins í borðsal þeirra. Mér skildist, að þannig yrði minnst fyrir mér haft. Ég tók þessu með þökkum. Og svo leið tíminn að miðdegisverði. Bjölluhljómur kvað við og ég arkaði aftur eftir þilfarinu og var vísað til sætis í salarkytru, sem rúma mundi á að gizka 10 menn til borðs. Og svo komu yfirmennirnir, hver af öðrum. Sá fyrsti, borðalagður, rak nefið inn í gættina, sá mig og hörfaði, — hvarf. Það var 1. stýrimaður. Svo kom annar og svo vélamenn, og allir hörfuðu út fyrir. Mér þótti þetta kynlegt háttalag. Hvað fældust þeir? Svo heyrði ég hvísl og hljóðskraf í ganginum framan við dyrnar. Aðeins eitt orð greindi ég: „Islender“. Svo þagnaði allt. — Matsveinninn kom inn til mín og tjáði mér, að yfirmennirnir neituðu að sitja til borð með Íslendingi; ég yrði því að víkja úr matsalnum, meðan þeir borðuðu.
Ég sat hugsi andartak og agndofa. Vangann eða hnefann? Enginn matur hafði verið borinn á borðið. — Ég rölti þegjandi fram á þilfarið. Það tók því þá fyrir þessa menn að miklast af stöðu sinni á þessum aldraða og skitna skipsdalli! Þeir áttu fremur að þakka forsjóninni fyrir það, að hann flaut með þá milli hafna.
Já, það tók því fyrir þessa yfirmenn að derra sig!
Mér flaug margt misjafnlega fagurt í hug, meðan ég beið eftir því, að Danirnir lykju við að kýla vömb sína. Aldrei hafði ég fyrr þurft að líða fyrir þjóðerni mitt. Ég var sár og reiður.
Nú kom sagan um D.D.P.A. stafina mér í hug. Þegar ég var ungur, var öll steinolía flutt til landsins á eikartunnum og margar þeirra voru merktar þessum fjórum stöfum (Det Danske Petroleum Aktieselskab). Verkamaður í Reykjavík hafði spurt Geir Zöega, útgerðarmann og kaupmann, hvað þessir stafir þýddu eiginlega, og Geir svaraði af sinni þjóðkunnu hnyttni: „Þeir þýða,“ sagði hann, „danskur djöfull pínir almúgann.“
— Brátt tók bræðin að sefast við það, að ég minntist hinna göfugu og vinsamlegu Dana, er mér lögðu lið í Höfn, ef til vill einmitt vegna þess, að ég var Íslendingur, sem bankahrun heima hafði gert að umkomulausum vesaling á erlendri grundu. Við þessar hugsanir meyrnaði hugurinn og augun vöknuðu. „Guð, ég þakka þér, að ég er Íslendingur, — fæddur af íslenzkri móður og á íslenzkuna að móðurmáli. Gefðu mér vizku og þroska til að forðast að flekka hið göfuga og fagra móðurmál mitt með erlendum orðskrípum.“ — Ég kunni þessa bæn orðrétta frá því ég gekk í barnaskólann.
Ég fann til metnaðar, — var stoltur af þjóðerni mínu. Aldrei skyldi ég láta bugast, þótt ég þyrfti að líða fyrir hatur og fyrirlitningu á þjóð minni. Aldrei á ævinni hef ég fundið jafnglögglega kraftinn og þann heilbrigða metnað, sem þjóðernistilfinning mín, heit og einlæg, vakti í sálu minni á þessari stundu.
Matsveinninn gaf mér merki og ég gekk reifur til máltíðarinnar, þar sem ég varð að gera mér að góðu matarleifar yfirmannanna dönsku. Síðan hef ég ávallt fundið til með þeldökku fólki í jafnréttisbaráttu þess.
Thyra sigldi inn að bryggju í Arendal í Suður-Noregi undir kvöldið. Tveir ungir tollþjónar komu um borð til þess að rækja skyldur sínar. Einhvern veginn fréttu þeir, að íslenzkt ungmenni væri farþegi á skipinu. Þann frænda sinn vildu þeir hitta að máli. Þeir tóku mér tveim höndum, eins og þeir ættu í mér hvert bein. Þeir byrjuðu á því að fara með mig í kaffihús og veita mér góðgjörðir. Síðan fóru þeir með mig á skemmtistað um kvöldið og fylgdu mér síðan um borð.
Ég satt að segja undraðist vinsemd og drenglund þessara ungu Norðmanna. Hvernig gat annars á þessu staðið? Höfðu þeir ef til vill frétt viðkynningu þá er ég átti við að búa á danska skipinu? Það fékk ég aldrei að vita. Ég skildi það mæta vel, að ég naut þess fyrst og fremst hjá norsku tollþjónunum, að ég var Íslendingur. Einstaklingur, þótt auralaus væri, var í rauninni ríkur og þurfti engu að kvíða, þar sem hann naut uppruna síns í svo ríkum mæli sem ég í Arendal.
Þegar ég hætti að hugsa um atburði dagsins og sofnaði í fleti mínu, var liðið fast að lágnætti og gamla Thyre hafði hjakkað 2—3 tíma vestur með suðurströnd Noregs á leið til Stafangurs. Þangað var ferð minni heitið með skipinu. — Þar steig ég svo á land daginn eftir. Við landgöngubrúna kom 1. stýrimaður skælbrosandi í áttina til mín til þess að kveðja mig, skildist mér. Þá voru mér hvorki bænir né þakkargjörðir í þanka. Ég hirði ekki um að greina hér þau tvö orð, er eg kastaði til hans, þar sem ég rölti upp landgöngubrúna í hægðum mínum með skreppu mína í annarri hendinni. Annað orðið var lýsingarorð og hitt þríatkvæðisnafnorð. Bæði orðin sögð á ómenguðu móðurmáli mínu. Veslings maðurinn virtist skilja þau og tuldraði meginstofn nafnorðsins að baki mér.
Ég kom mér í járnbrautarlest, sem brunaði suður á Jaðarinn og skilaði mér á Kleppstöðina. Þá leit ég fyrsta sinni land Erlings Skjálgssonar frá Sóla.
Vorið og sumarið leið í vellíðan við störf og strit. Við Íslendingarnir drógum vissulega ekki af okkur við vinnuna hjá norska bóndanum. Margir ungir landar okkar höfðu verið þarna áður við ýmis störf hjá bændum og getið sér lof og orðstír fyrir dugnað og mennilega framkomu. Vissulega vildum við ekki vera neinir eftirbátar þeirra um allt það, sem íslenzku þjóðinni mátti til sóma verða þarna í útlendu umhverfi. Við skildum og vissum að útlendingar, sem lítið eða ekkert þekktu til íslenzkrar menningar, myndu draga ályktanir sínar og gera sér hugmyndir um land og þjóð eftir kynnum þeirra af okkur. Þannig vakti þjóðernistilfinningin okkur heilbrigðan metnað sem við svo sjálfir nutum blessunar af.
Heimþrá mín var stundum sterk og kveljandi þetta sumar. Ekki æskti ég þó að hverfa heim aftur að sumrinu loknu, heldur dveljast lengur í þessu fagra landi áa minna, fyrst ég var þangað kominn.
Sunnudag einn lá ég úti í grasinu og horfði upp í léttskýjaðan himininn. Ýmislegt þóttist ég sjá í skýjunum, þó ekki það sem Pétur Gautur sá: „Svo undarlegt ský! Það er eins og fákur undir manni með beizli og týgjum. Kerling svífur á sófli í skýjum. Það sé ég er mamma. Hún æpir: „Strákur, — hundspottið Pétur.“ Þannig tjáir Ibsen okkur sýnir Gauts í skýjunum. Mínar sýnir voru á annan veg og satt að segja er ég búinn að gleyma þeim. Ef til vill hafa þær verið fremur innra með mér, framtíðarsýnir eins og gengur og gerist með unglingum. En eitthvað var það, sem rak mig upp úr grasinu og heim að bænum. Ég vildi ná tali af húsmóður minni. Þessi kona var heittrúuð heimatrúboðskona, ein af þeim fáu mannverum, sem ég hef kynnzt, er reynt hafa af fremsta megni að sýna trú sína í verkunum. Þess vegna dáði ég hana og treysti henni og bar virðingu fyrir trú hennar.
Ég sagði henni ákvörðun mína, að ganga í norskan lýðháskóla næsta vetur. Vildi ég nú leita ráða hennar um skólann. Þessi ákvörðun mín virtist gleðja hana mjög og hún var ekki lengi að afráða skólann: „Auðvitað lýðháskólann í Voss,“ sagði hún, „nafnkunnasta lýðháskóla í Noregi og skólastjóri hans, Lars Eskeland, einn af kunnustu lýðháskólamönnum á Norðurlöndum, skáld og fyrirlesari.“
Ég sótti þegar um skólavistina.
„Velkominn, velkominn,“ var svarið. Ekki gerði ég mér þá grein fyrir því, hversu mikilvæga ákvörðun ég hafði tekið, — ákvörðun, sem orkaði á alla framtíð mína.
Lesari minn góður. Geturðu trúað því með mér, að til sé afl í tilverunni, sem skákar til og skipar niður, ef því býður svo við að horfa og þá ráði enginn sínum næturstað? — Forlagatrú, segirðu, — örlagatrú, segirðu. Það þarf ekki að vera. Afskiptin geta gjörsamlega verið háð neistanum í sjálfum þér.

Þ.Þ.V.