Blik 1965/Aðventistasöfnuðurinn í Vestmannaeyjum 40 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



REYNIR GUÐSTEINSSON:


Aðventistasöfnuðurinn
í Vestmannaeyjum
40 ára


Blik vill geyma heimildir um allt, er varðar sögu og menningu Vestmannaeyja.
Þegar ég var drengur á Austurlandi, kynntist ég fjölskyldum, sem voru í trúarsöfnuði Aðventista. Ég veitti því þá þegar athygli, hversu þetta fólk næstum undantekningarlaust reyndi af fremsta megni að sýna trú sína í daglegu lífi, daglegri breytni. Það var reglusamt (neytti ekki áfengis), skyldurækið og góðviljað. Það tamdi sér sem sé mennilega hætti í daglegum samskiptum við náunga sinn. Þannig var yfir lífi þess mennilegur blær. — Hér hefur um 40 ára skeið lifað og starfað fjölmennur Aðventistasöfnuður. Trúað gæti ég því, að Eyjabúar yfirleitt gætu á það fallizt með mér, að allur þorri þessa fólks hafi kynnt sig eins og ég tel mig hafa kynnzt því á æskuárum mínum. Safnaðarstarf þessa fólks hefur yfir sér blæ trúrækni og menningar, samheldni og skyldurækni. Saga safnaðarins er þáttur í menningarsögu byggðarlagsins. — Þ.Þ.V.

O.J. Olsen.

Í nóvember árið 1922 kom hingað til Vestmannaeyja forstöðumaður S.D. Aðventista á Íslandi, O.J. Olsen. Olsen, eins og hann var jafnan nefndur, er fæddur í Farsund í Noregi 6. ágúst 1887, en fluttist 11 ára að aldri til Bandaríkjanna með foreldrum sínum.
Þar kynntist hann söfnuði aðventista og gerðist meðlimur hans tæplega nítján ára, árið 1906.
Hingað til lands kom O.J. Olsen ásamt fjölskyldu sinni 6. ágúst 1911. Ferðaðist hann víða um landið næstu árin, stofnaði söfnuði og byggði kirkjur. Jafnframt lagði hann sérstaka rækt við allt, sem hét íslenzka og íslenzk fræði og náði brátt slíku valdi á íslenzku máli, að engum ókunnugum kom til hugar, að þar færi úrlendur maður. Til Eyja kom Olsen einsamall í fyrstu, en flutti með fjölskyldu sína hingað um áramótin 1922—1923 og bjó í Ásum. Með honum kom þá einnig dönsk kona, frk. Kathy Henriksen, sem var útlærð hjúkrunarkona og nuddlæknir. Átti hún að veita forstöðu nudd- og baðstofu, sem síðar verður greint frá. Ekki fór hjá því, að koma þessa manns vekti nokkra athygli í jafn litlu byggðarlagi, og gengu háværar sögur í bænum um sérkenningar og kreddur þessa trúfélags. En forvitnin var vakin og þegar fyrsta samkoman var haldin í Goodtemplarahúsinu, var salurinn troðfullur. Flestir hafa að sjálfsögðu komið af forvitni, en nokkrir ungir menn voru sýnilega komnir í þeim tilgangi að draga dár að öllu saman. Sátu þeir ókyrrir mjög á innsta bekk með húfurnar á höfðinu. Kunni Olsen þessu illa, en vissi sem var, að færi hann að tala við þá, væri hann um leið búinn að kveikja í tundurþræðinum. Húfurnar vildi hann samt ofan og þekkti aðeins eitt óbrigðult ráð til þess að fá Íslending til að taka ofan. Kom sér nú vel, að Olsen var söngmaður góður. Hann stóð upp, gekk upp að ræðustólnum og söng með þróttmikilli barytonrödd: „Son Guðs ertu með sanni“. Húfumennirnir litu vandræðalega hver til annars og kjarkurinn sveik þá; húfurnar hurfu ein eftir aðra og voru ekki settar upp aftur, meðan á samkomunni stóð. Lýsir þetta litla atvik því vel, hve skjótráður Olsen var og úrræðagóður, þegar á þurfti að halda, og slyngur í sálfræðilegum ákvörðunum.
Voru samkomur síðan haldnar allan veturinn, fyrst í Goodtemplarahúsinu eins og áður er sagt, síðar í gamla Þinghúsinu, Borg, sem þá var kvikmyndahús. Á jóladag 1922 var enn flutt í stærra hús og voru samkomurnar eftir það haldnar í Nýja Bíó (við Vestmannabraut). — Samkomur þessar voru ætíð vel sóttar, oftast húsfyllir, og sá Olsen brátt árangur af starfi sínu. Söfnuður S.D. Aðventista í Vestmannaeyjum var svo formlega stofnaður 26. janúar 1924.
Stofnendur hans voru 32 og fara nöfn þeirra hér á eftir:

1. Bergþóra Magnúsdóttir, Bergholti. f. 10. maí 1910 í Búðarhólshjáleigu í Landeyjum. Gift Ólafi Önundarsyni, parketlagningarmanni. Býr í Kópavogi.
2. Guðbjörg Ingvarsdóttir, Geithálsi, f. 28. júní 1897 að Hellnahóli undir Eyjafjöllum. Eiginkona Sveinbjörns, sjá nr. 30 hér á eftir.
3. Guðmundur Einarsson, Uppsölum, f. 29. jan. 1864 í Hrútafellskoti undir Eyjafjöllum. Bjó í austurendanum á Uppsölum.
4. Guðný Elíasdóttir, Skipholti, f. 28. nóv. 1881 á Hrútafelli undir Eyjafjöllum. Kona Kristjáns, sjá nr. 14.
5. Guðríður Magnúsdóttir, Bergholti, f. 7. okt. 1908 í Búðarhólshjáleigu í Landeyjum. Gift Holberg Jónssyni, netagerðarm.
6. Guðrún Jónsdóttir, Þingeyri, f. 17. marz 1898 á Þorgrímsstöðum í Ölfusi. Ekkja eftir Gústav Pálsson, sem drukknaði við uppskipun hér á Víkinni.
7. Guðrún Magnúsdóttir, Svalbarða, f. 5. júní 1874 að Búðarhjáleigu í Landeyjum. Systir Magnúsar nr. 19. Var fyrsta forstöðukona Systrafélagsins Alfa í Vestmannaeyjum.
8. Guðrún Sveinbjarnard., Seljalandi, f. 11. nóv. 1868 að Oddastöðum í Flóa. Gift Guðmundi Sigurðssyni og bjuggu þau lengi í Mörk.
9. Guðrún Þorfinnsdóttir, Uppsölum, f. 2. júní 1861 á Múla undir Eyjafjöllum. Kona Guðmundar, sjá nr. 3.
10. Gyðríður Magnúsdóttir, Háaskála, f. 4. okt. 1866 á Skíðabakka í Landeyjum. Dvaldi síðustu æviárin hjá syni sínum Hirti í Hellisholti.
11. Ingi Sigurðsson, Merkisteini, f. 9. júní 1900 að Káragerði í Landeyjum. Var trésmiður og stundar þá iðn enn hér í bæ.
12. Ingibjörg Jónsdóttir, Sjávarborg, f. 27. febr. 1870 á Lindarbæ í Holtum. Móðir Sigríðar, sjá nr. 28.
13. Kathy Henriksen, Ásum, f. 18. júlí 1892 í Danmörku. Giftist síðar Oddi Þorsteinssyni, sem rak hér skóverzlun og skóverkst.
14. Kristján Þórðarson, Skipholti, f. 2. júní 1876 í Fíflholtshjáleigu í Landeyjum. Bjó lengi í Reykjadal. Dvelur nú í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.
15. Kristín Guðmundsdóttir, Ási, f. 27. maí 1899 í Sigluvík í Landeyjum. Bjó lengi í Bergholti.
16. Kristín Sigurðardóttir, Merkisteini, f. 15. júlí 1898 að Káragerði í Landeyjum. Átti heima í Merkisteini þar til fyrir fáum árum, að hún fluttist til Rvík.
17. Magnína Sveinsdóttir, Engidal, f. 24. nóv. 1897 að Grænagarði í Skutulsfirði. Kona Magnúsar, sjá nr. 18. Hefur lengi verið forstöðukona Systrafélagsins Alfa í Rvík.
18. Magnús Helgason, Engidal, f. 8. sept. 1896 í Grindavík. — Stundaði hér verzlunarstörf, en fluttist til Reykjavíkur og hefur í mörg ár verið gjaldkeri og ritari Íslandsdeildar S.D.A.
19. Magnús Magnússon, Bergholti, f. 4. febr. 1880 í BúðarhólshjáIeigu í Landeyjum. Hefur stundað trésmíði fram á þennan dag, en býr nú hjá syni sínum SveiniHvítingavegi 10.
20. Magnús Þórðarson, Sjávarborg, f. 13. júlí 1907 á Stokkseyri. Dó ungur. Sonur Ingibjargar nr. 12.
21. Margrét Gunnarsdóttir, Reynifelli, f. 13. febr. 1880 á Sperðli í Landeyjum. Fyrri kona Þorbjörns á Reynifelli.
22. María Hrómundsdóttir, Reynivöllum, f. 14. nóv. 1902 á Álftanesi.
23. Marta Sigurðardóttir, Merkisteini, f. 9. maí 1905 í Vestmannaeyjum. Systir þeirra Inga nr. 11 og Kristínar nr. 16.
24. Olsen, O.J., f. 6. ágúst 1887 í Farsund í Noregi.
25. Olsen, Annie, f. 4. júní 1883 í Noregi. Kona O.J. Olsen.
26. Pálína Einarsdóttir, Götu. Móðir Pálma frá Götu.
27. Sigríður Hróbjartsdóttir, Bergholti, f. 4. apríl 1882 að Rauðafelli undir Eyjafjöllum. Kona Magnúsar nr. 19 og móðir Bergþóru nr. 1 og Guðríðar nr. 5.
28. Sigríður Þórðardóttir, Sjávarborg, f. 3. nóv. 1899 á Stokkseyri. Kona Stefáns nr. 29.
29. Stefán Erlendsson, Sjávarborg, f. 24. júní 1888 að Skorrastað í Norðfirði. Stundaði sjómennsku í fjölmörg ár, var múrari. Býr nú á Faxastíg 2.
30. Sveinbjörn Einarsson, Geithálsi, f. 12. júní 1890 í Þorlaugargerði í Vestmannaeyjum. Húsasmiður, frábær sig- og fjallamaður. Býr nú í Rvík.
31. Sveinfríður Guðmundsdóttir, Götu. Kona Pálma Ingimundarsonar frá Götu.
32. Þóranna Guðmundsdóttir, Kirkjubóli.

Auk þessara 32 stofnenda bættust svo 28 í hópinn áður en árið var liðið. Gerðust því samtals 60 manns meðlimir þessa safnaðar á fyrsta ári hans.
Snemma þótti bera á sterkri einingu meðal þessa fólks. Reyndi það að halda hópinn sem mest, jafnvel í daglegum störfum. Nokkrir iðnaðarmenn voru í fyrsta söfnuðinum og höfðu þeir trúbræður sína í vinnu við húsbyggingar og fleira. Enn aðrir bundust samtökum um að gera út bát. Keyptu þeir fimm saman vélbát, sem þeir nefndu Hebron og byggðu aðgerðarhús þar sem nú stendur Eyjabúð. Formaður á Hebron var í fyrstu Sveinbjörn Einarsson frá Þorlaugargerði, en síðar Magnús Helgason, Engidal.
Í janúar 1923 opnaði Kathy Henriksen, sem fyrr er nefnd, nuddlækningastofu í Valhöll. Kathy hafði stundað nám sitt á heilsuhæli S.D. Aðventista í heimalandi sínu, Danmörku, og var útlærð nuddlæknir. Var lækningastofa þessi mjög vel sótt þegar í upphafi og alla tíð. Um líkt leyti og nuddlækningastofa var opnuð, byrjaði O.J. Olsen að byggja BaðhúsiðBárugötu 15. Var það einnar hæðar hús með risi. Þar stendur bygging Sparisjóðs Vestmannaeyja nú og verzl. Sigurbj. Ólafsdóttur.
Neðri hæðinni var skipt í tvennt, eldhús og stofa að sunnan, en lækningastofa að norðan. Dyr voru fyrir miðju húsinu og gengið þaðan úr lítilli forstofu inn í hvorn helming hússins og upp á loftið. Einnig voru dyr á suðurgaflinum austanverðum inn í íbúðina. Á rishæðinni var samkomusalur að norðanverðu og voru samkomur safnaðarins haldnar þar fyrst eftir að hann var stofnaður, en í suðurendanum voru tvö svefnherbergi.
Haustið 1923 var Baðhúsið fullsmíðað og fluttist þá nuddlækningastofan þangað. Norðurendanum var skipt í tvennt og voru þrír bekkir fyrir ljósböð og nudd að vestanverðu, en baðker og steypiböð að austan.
Til baða var notaður sjór, því að vatn var þá af skornum skammti ekki síður en nú. Sjónum var dælt upp úr brunni, sem grafinn var í námunda við húsið. Rak Kathy Henriksen Baðhúsið af hinum mesta myndarskap, þar til hún hætti og giftist Oddi Þorsteinssyni, síðar skókaupmanni hér í bæ. Tóku þá við af henni systur hennar Sara og Emma. Sara dvaldi hér ekki lengi, en Emma hefur búið hér alla tíð síðan, fyrst í Baðhúsinu, en síðustu árin hefur hún starfrækt nuddlækningastofu í Arnardrangi.
Samkomusalur safnaðarins í Baðhúsinu var allt of lítill þegar í upphafi og sumarið 1925 var því byrjað á grunni kirkjubyggingar þeirrar, sem nú stendur við Brekastíginn. Sunnudagsmorgun einn í september kl. 6 var svo byrjað að hlaða veggi kirkjunnar. Þeir voru hlaðnir úr holsteini, sem safnaðarmenn höfðu steypt í frístundum sínum inni í Botni. Næsta föstudag kl. 3 síðdegis var húsið fokhelt með hurðum, og gleri í gluggum. Öll vinna var látin í té endurgjaldslaust. Þegar byrjað var á kirkjugrunninum, voru engir peningar til í sjóði, en safnaðarmeðlimirnir voru beðnir að skrifa á blað þá upphæð, sem þeir teldu sig geta látið til byggingarinnar og jafnframt hve mikið mánaðarlega. Með þessi skriflegu loforð var síðan farið til Helga Benediktssonar, sem rak hér byggingarvöruverzlun og lánaði hann allt, sem til þurfti.

ctr

Séð inn í kór Aðventistakirkjunnar.

Þrátt fyrir stopula vinnu og lítil fjárráð manna yfirleitt, greiddu allir skilvíslega það, sem þeir höfðu lofað, og þegar kirkjan var tekin í notkun snemma árs 1926 var hún skuldlaus. Frá því kirkjan var byggð, hafa verið gerðar miklar breytingar á henni bæði að utan og innan og hafa safnaðarmeðlimir sjálfir kostað þær breytingar.
Haustið 1928 var ákveðið að gera tilraun til að koma á fót barnaskóla fyrir safnaðarbörnin. Skólahús var að vísu ekkert til, en kirkjan var þá nýbyggð, eins og fyrr segir, og hin vistlegasta á þess tíma mælikvarða. Stofnun skólans mætti í fyrstu nokkurri andstöðu, en þáverandi fræðslumálastjóri, Ásgeir Ásgeirsson, kvað hana niður. Var nú úr vöndu að ráða vegna húsnæðisskortsins, en það ráð tekið að lokum að hefja kennslu í kirkjunni.


Sigfús Hallgrímsson, fyrsti kennari við Barnaskóla S.D.A., f. 8. sept. 1904 að Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal. Foreldrar hans voru Hallgrímur Kristjánsson, bóndi í Ytra-Garðshorni og í Syðra-Holti í Svarfaðardal (f. 12. sept. 1863, d. 18. des. 1930 og k.h. Pálína Pálsdóttir Jónssonar í Syðra-Holti (f. 7. febr. 1866, d. 20. júní 1938).
Sigfús stundaði nám við Alþýðuskólann á Eiðum 1921—1923 og lauk síðan kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1934. Frá árinu 1928 hefur hann verið starfsmaður S.D. Aðventista og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, en lengst af verið kennari við barnaskóla þeirra í Vestmannaeyjum og í Reykjavík.
Sigfús Hallgrímsson er tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Kristín Sigurlaug Sigurðardóttir, bónda að Reit í Flókadal í Skagafjarðarsýslu Þorvaldssonar. Þau Kristín og Hallgrímur eignuðust 1 dóttur barna, Önnu, húsmóður, f. 14. marz 1930. —
Seinni kona Sigfúsar er Kristjana Steinþórsdóttir frá Þverá í Ólafsfirði.


Kennari þennan fyrsta vetur var Sigfús Hallgrímsson, ættaður frá Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal. Kenndi hann við skólann allt til ársins 1941, að undanteknu árinu 1934, er hann fór í Kennaraskólann og lauk þaðan prófi.
Heldur var skólinn fátækur af kennsluáhöldum og húsgögnum fyrst í stað. Skólatafla var engin; engin landakort né heldur náttúrufræðimyndir. Við reikningskennsluna notuðu sum börnin gömlu spjöldin með griflunum, en önnur pappírsblöð. Slegið var saman tveim löngum borðum og sátu börnin á kirkjubekkjunum við þau. Kolaofn var í kirkjunni, en heldur þótti hann varasamur, trekkti illa og spjó reyk í illviðrum. Mörgum þótti heldur fátæklega af stað farið, en hér sannaðist sem oftar hinn gamli málsháttur, að: „Tóftin aflar trjánna“.
Frumbýlingshátturinn hvarf skjótt og skólinn eignaðist nauðsynleg tæki og húsgögn.
Þennan fyrsta vetur voru 24 börn í skólanum í einni deild. Kaup kennarans og rekstrarfé fyrir skólann fékkst með því, að foreldrarnir greiddu kr. 4,00 fyrir hvert barn á mánuði. Kaup kennarans lækkaði svo að sjálfsögðu þá vetur, sem börnunum fækkaði, því að þetta var eina tekjulindin. Árið 1930 var svo tekin í notkun ný skólastofa, sem byggð hafði verið við suðurgafl kirkjunnar. Var skólastofan jafnlöng og kirkjan var breið og gengið inn í hana úr lítilli forstofu að vestan.



Barnaskóli S.D.A. í Vestmannaeyjum eins og hann leit út áður en hann var stækkaður og endurbættur í núverandi mynd. Gluggarnir þrír til hægri eru í skólastofunni, sem byggð var 1930 og sem var eina skólastofan í mörg ár, en glugginn lengst til vinstri var á lítilli skólastofu, sem byggð var síðar.



Gluggar voru þrír og sneru í suður. Hafa verið gerðar ýmsar stækkanir og endurbætur á skólahúsnæðinu og eru nú í því tvær kennslustofur og rúmgott félags- og tómstundaheimili. Barnaskólinn hefur ávallt staðið opinn nemendum án tillits til þess, hvort foreldrar þeirra hafa verið meðlimir safnaðarins eða ekki.
Allmörg undanfarin ár hefur skólinn notið styrks frá bæjarsjóði og nam sá styrkur árið 1964 kr. 40.000 Að öðru leyti er rekstur skólans byggður á skólagjöldum, sem er kr. 150,00 fyrir bam á mánuði og svo frjálsu framlagi safnaðarmeðlimanna.

ctr


Hluti af söfnuði S.D.A. í Vestmannaeyjum og gestir hans á 40 ára afmæli safnaðarins í janúar 1964. —
Aftasta röð frá vinstri: Jens Joensen, Elías Kristjánsson, Vignir Þorsteinsson, Erlendur Stefánsson, Arnmundur Þorbjörnsson, Sigurjón Jónsson, Ármann Sigurjónsson, Daníel Guðmundsson, Jóhann Kristjánsson, Gunnar Svendsen, Reynir Guðsteinsson, Holberg Jónsson, Ingi Sigurðsson, Ólafur Önundsson, Engilbert Halldórsson, Þorsteinn Guðjónsson, Ásta Arnmundardóttir, Sigríður Kristjánsdóttir.
Standandi í miðju: Elín Guðlaugsdóttir, Hanna Joensen, Margrét Hróbjartsdóttir, Bára Karlsdóttir, Stefán Vilhjálmsson, Kristín Guðmundsdóttir, Magnús Helgason, Magnína Magnúsdóttir, Sveinbjörn Einarsson, Guðbjörg Einarsdóttir, Lúðvík Reimarsson, Jóhanna Guðmundsdóttir, Sigfús Hallgrímsson, Jóna Gísladóttir, Guðsteinn Þorbjörnsson, María Kristjánsdóttir, Guðmundur Pálsson, Kristjana Steinþórsdóttir, Magnús Magnússon, Lilja Guðmundsdóttir, Stefán Erlendsson, Margrét Guðmundsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Kristín Karlsdóttir, María J. Helgadóttir, Inga Haraldsdóttir, Elín Halldórsdóttir. —
Sitjandi: Guðríður Magnúsdóttir, Agnes Sigurðsson, Sigríður Guðmundsdóttir, Anna Halldórsdóttir, Ragnhildur Friðriksdóttir, O.J. Olsen, Júlíus Guðmundsson, forstöðumaður Aðventista á Íslandi, Gerda Guðmundsson, Sigrún Finnsdóttir, Ollý Stanley Svendsen, Bergþóra Magnúsdóttir, Klara Hjartardóttir, Marta Hjartardóttir, Solveig Hróbjartsdóttir.

Innan safnaðarins hafa starfað ýmis félög. Ungmennafelag var stofnað haustið 1924 og var fyrsti formaður þess Magnús Helgason í Engidal. Markmið félagsins var og hefur alltaf verið m.a. að þjálfa meðlimi sína í að koma fram og flytja mál sitt í ræðum, ritgerðum, upplestrum eða söng. Hefur félagið gengizt fyrir fjölbreyttu samkomuhaldi bæði fyrir safnaðarmeðlimina og aðra. Síðan skólahúsið var stækkað, hefur öll aðstaða til félagslífs stórbatnað og á vetrum eru að jafnaði námskeið í tómstundaiðju, hjálp í viðlögum og ýmsu öðru, sem nytsamt er og þroskandi fyrir unglingana. Söngkór hefur verið starfandi við kirkjuna frá fyrstu tíð. Undirleikari hans og söngstjóri um langt árabil hefur verið Elías Kristjánsson.
Á bernskuárum sínum lærði hann á orgel hjá Ingibjörgu Tómasdóttur með það eitt í huga, að verða orgelleikari safnaðarins. Hefur hann rækt það starf af frábærum dugnaði og samvizkusemi og ávallt án endurgjalds.
Að síðustu, en ekki sízt skal getið starfs kvennanna í söfnuðinum.
Árið 1925 mynduðu þær með sér líknarfélag, sem þær nefndu „Systrafélagið Alfa“. Hefur það félag ávallt starfað í kyrrþey, haldið vikulega vinnufundi að vetrinum, selt á árlegum bazar handavinnuvörur sínar og varið andvirði þeirra til líknarmála. Fyrsta forstöðukona þessa félags var Guðrún Magnúsdóttir á Svalbarða, en núverandi forstöðukonur eru þær Ragnhildur Friðriksdóttir á Sólbergi og frú Agnes Sigurðsson í [[Merkisteinn|Merkisteini99. Í söfnuðum Aðventista um allan heim hvílir fræðslustarfið og safnaðarstarfið að mjög litlu leyti á vígðum prestum einum saman. Í stað þess er reynt að dreifa starfinu á sem flesta þannig, að allir safnaðarmeðlimirnir taki sem virkastan þátt í safnaðarstarfinu, hver á sínu sviði. Tilvera slíks safnaðar er því að miklu leyti háð því, að hann eigi innan vébanda sinna fólk, sem er fúst til að leggja sig fram í safnaðarstarfinu. Það hefur verið gæfa safnaðar S.D. Aðventista í Vestmannaeyjum að eiga marga slíka safnaðarfélaga.

Vestmannaeyjum 11. 12. 1964.
R.G.


Kirkjukór safnaðar Aðventista.
Aftari röð frá vinstri: Vignir Þorsteinsson, Þorsteinn Guðjónsson, Jóhann Kristjánsson, Reynir Guðsteinsson, Arnmndur Þorbjörnsson, Engilbert Halldórsson, Ármann Sigurjónsson, Erlendur Stefánsson. —
Fremri röð: Sigríður Kristjánsdóttir, Solveig Hróbjartsdóttir, María J. Helgadóttir, Elín Halldórsdóttir, Inga Haralds, Klara Hjartardóttir, Ásta Arnmundsdóttir, Bára Karlsdóttir, Elín Guðlaugsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Agnes Sigurðsson. — Sitjandi: Elías Kristjánsson, söngstjóri.




Afgreiðslufólk á hinum árlega bazar systrafélagsins „Alfa“, 1. nóvember 1964. —
Frá vinstri: Solveig Hróbjartsdóttir, Agnes Sigurðsson, Jóhanna Arnórsdóttir, María Kristjánsdóttir, lnga Haraldsdóttir, Ragnhildur Friðriksdóttir, Elín Guðlaugsdóttir, Sigrún Ingadóttir, Bára Karlsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Guðfinna Ólafsdóttir.






Karlakvartett safnaðar Aðventista. —
Standandi frá vinstri: Vignir Þorsteinsson, Þorsteinn Guðjónsson, Jóhann Kristjánsson, Arnmundur Þorbjörnsson, Engilbert Halldórsson, Erlendur Stefánsson, Ármann Sigurjónsson. —
Sitjandi frá vinstri: Reynir Guðsteinsson, stjórnandi, og Elías Kristjánsson, undirleikari.