Blik 1963/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 4. kafli, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


IV. kafli, 1903-1914
(2. hluti)


Árið 1908 kaus hreppsnefnd 5 menn í skólanefnd til 3 ára samkv. nýju fræðslulögunum í stað þriggja áður. Þessir menn hlutu þá sæti í skólanefnd Vestmannaeyja: Magnús Jónsson sýslumaður, Árni Filippusson, fyrrv. kennari, Steinn Sigurðsson, skólastjóri, Sigurður Sigurfinnsson, oddviti, og Ágúst Árnason, kennari. Formaður nefndarinnar var sýslumaðurinn.
Við upphaf skólaársins 1908 afréð skólanefndin að skipta skyldi 1. bekk skólans í tvær deildir, A- og B-deild, sökum barnafjöldans á aldrinum 8—10 ára. Skólagjald skyldi vera 12 krónur fyrir allan skólatímann á hvert barn yngra en 10 ára, þar sem skólaskyldan náði ekki til þeirra.
Sama haust auglýsti skólanefndin, að öll börn í hreppnum 7—10 ára skyldu mæta til prófs í skólanum á tilskyldum tíma. Auglýsing skólanefndarinnar var svohljóðandi:
„Til þess að fullnægja eftirliti því, er 5. grein erindisbréfs skólanefnda fyrirskipar um fræðslu barna á aldrinum 7—10 ára, hefur skólanefndin á fundi sínum 21. f.m. ákveðið, að prófuð skulu öll börn hér á þessum aldri. Próf þetta, sem er falið skólakennurunum Steini Sigurðssyni og Ágústi Árnasyni, fer fram í barnaskólanum næstkomandi sunnudag þann 11. þ.m. kl. 3 e. hád., og ber foreldrum eða aðstandendum barnanna að sjá um, að öll börn á fyrrgreindum aldri komi til prófsins, og einnig eru þeir sjálfir kvaddir til þess að vera þar viðstaddir til viðtals.
Fyrir hönd skólanefndarinnar í Vestmannaeyjaskólahéraði. —

Vestmannaeyjum, 7. okt. 1908.
Magnús Jónsson, formaður.“

Markmiðið með þessu prófi var að kynnast því, hversu vanræksla heimilanna varðandi fyrstu kennslu barnanna væri víðtæk. Engir foreldrar sinntu auglýsingu skólanefndar, svo að senda varð kennara inn á heimilin til að prófa börnin og áminna.
Ég læt aðeins þetta eina dæmi nægja til þess að sýna og sanna, hversu erfitt var að ná samstöðu foreldra eða annarra aðstandenda barnanna um velferð þeirra, frumstæðustu skyldur gagnvart þeim og fræðslustarfinu.
Haustið 1908 varð þegar að tvísetja í skólahúsið sökum þrengsla, þó að ekki væru liðin nema 4 ár frá því, að það var tekið fyrst í notkun.
Eins og áður segir, réðist Högni Sigurðsson kennari að skólanum 1904. Jafnframt kennslustarfinu hafði hann á hendi afgreiðslustörf hjá Ísfélagi Vestmannaeyja, sem þá rak frystihús (frosthús) sitt við Landagötu. (Sjá Blik 1960, 1. kafla af Sögu Ísfélags Vestmannaeyja.) Á þessu ári hóf það byggingu á hinu fyrsta frystihúsi landsins, sem kælt var með vélaafli. Var þá Högni Sigurðsson ráðinn þar vélstjóri og afgreiðslumaður. Það starf hans var svo umfangsmikið og ábyrgðarríkt, að kennslustörfin samfara því komu ekki til greina. Högni Sigurðsson lagði þess vegna niður kennslustörfin við barnaskólann þetta ár. Stöðu hans þar hlaut Ágúst Árnason frá Mið-Mörk. (Sjá kennaratal hér í ritinu).
Einnig þetta haust var Sigurjón Högnason Sigurðssonar frá Seljalandi undir Eyjafjöllum ráðinn kennari við barnaskóla Vestmannaeyja.
Þegar skólinn tók til starfa haustið 1908 samkv. fræðslulögunum og hinni nýju reglugjörð, voru þessir kennarar ráðnir að skólanum: Steinn Sigurðsson, yfirkennari eða skólastjóri, Eiríkur Hjálmarsson (sjá kennaratalið í ritinu 1962), Ágúst Árnason og Sigurjón Högnason. Bekkjardeildir skólans voru jafnmargar kennurunum. Eiríkur Hjálmarsson skyldi kenna A-deild óskólaskyldu barnanna og bera úr býtum fyrir allt árið 132 krónur auk skólagjaldsins frá foreldrunum, sem var 2 krónur á mánuði á hvert barn.
Það bólar á ýmsu til frekari framfara í fræðslumálum hreppsins. T.d. er Brynjólfur Sigfússon, organleikara Árnasonar frá Löndum, ráðinn söngkennari við skólann frá byrjun desembermánaðar, af því að hljóðfœrið fékkst ekki fyrr.
Hver kennslustund er 50 mínútur en 10 mínútna hlé. Þetta haust skrifaði Halldór Gunnlaugsson, héraðslæknir, skólanefndinni og bauðst til að kenna börnunum fimleika endurgjaldslaust. Nefndin tók þessu drengilega boði læknisins og bauðst til að lána þingsal hreppsins með samþykki hreppsnefndar.
Steinn Sigurðsson helgaði skólanum alla krafta sína og gerði allt, sem tök voru á til að bæta aðstöðu barnanna til náms og þroska. Hann beitti sér m.a. fyrir því, að barnaskólinn eignaðist safn góðra bóka við hæfi og þroska barnanna. Sjálfur fórnaði Steinn skólastjóri fé úr eigin vasa til bókakaupanna. Ágúst Árnason stóð með skólastjóra í þessu starfi og mun einnig hafa látið af eigin mörkum fé í bókakaupasjóð skólans. Heimilin mörg gáfu börnunum aura í sjóðinn. Þeir hófu þetta söfnunarstarf árið 1907 og árið eftir (haustið 1908) semja þeir reglugjörð um bókasafn barnaskólans. Hana samþykkti skólanefnd þá um haustið. Hún var á þessa leið:

REGLUGERÐ
fyrir
„Skólabókasafn Vestmannaeyja“
1. gr.

Skólabókasafn Vestmannaeyja, stofnað af kennurum og nemendum barnaskólans í Vestmannaeyjum árið 1907, skal vera til ókeypis afnota eingöngu fyrir kennara og nemendur þessa skóla þann hluta ársins, er skóli stendur yfir.

2. gr.

Safnið í heild sinni skal ávallt fylgja skólanum, hverjum breytingum, sem hann kann að taka, og má aldrei selja það eða láta af hendi á nokkurn hátt.

3. gr.

Skólanefndin hafi yfirstjórn safnsins á hendi og endurskoði reikninga þess.

4. gr.

Skólastjóri sé gjaldkeri safnsins. Hann annist um bókakaup þess og semji bókaskrá og reikninga yfir tekjur þess og útgjöld.

5. gr.

Nemendur skólans kjósi árlega með tilsjón kennaranna 1 yfirbókavörð og 2 undirbókaverði úr sínum hópi. Ef tveir eða fleiri nemendur fá jafnmörg atkvæði, þá skal rita nöfn þeirra á seðla, og dregur eitthvert barnið einn seðilinn. Sá er kosinn, sem nafnið á.

6. gr.

Tveir útlánadagar skulu vera í viku hverri. Bókaverðir skrifi í til þess gerða bók útlán og endurskilun bókanna, nafn lántakanda, númer bókarinnar og mánaðardaga. Tvær arkir skulu ætlaðar til lesturs á dag. Nú vill einhver halda bók lengur en sem því svarar, þá verður hann að fá lánið endurnýjað.

7. gr.

Ef einhver skemmir eða glatar bók, verður hann að borga skaðann að fullu eftir mati skólakennaranna. Neiti hann að borga skaðann, hefur hann fyrirgert rétti sínum til að hafa bækur safnsins til afnota.

8. gr.

Safnið má auka með frjálsum samskotum og gjöfum eða á þann hátt, sem yfirstjórn safnsins telur heppilegt.

9. gr.

Reglugjörð þessi skal vera í tveimur afritum, annað í gjörðabók skólanefndarinnar en hitt í bókasafni skólans.

10. gr.

Reglugjörð þessi er samþykkt á fundi skólanefndarinnar 21. sept. 1908.

Steinn Sigurðsson.
Ágúst Árnason.

Með bréfi dags. 31. maí 1911 sagði Sigurjón Högnason frá Baldurshaga í Eyjum upp kennarastöðu sinni við barnaskólann. Þá var staddur í Eyjum maður með kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Hann hafði stundað þar nám í tvo vetur. Áður hafði hann lokið gagnfræðaprófi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Þessi maður sótti um kennarastöðu við barnaskólann í Eyjum og samþykkti skólanefndin ráðningu hans í júnímánuði 1911. Nafns þessa kennara verður ekki getið hér að svo stöddu. Heldur mun ég í máli mínu kalla hann Kennarann af hlífð við ýmsa sökum þess atburðar í skólasögu héraðsins, sem hann varð valdur að og skráð verður hér á eftir.
Ekki hafði Kennarinn haft lengi á hendi kennslustarfið við barnaskólann, er í ljós kom, að hann var á engan hátt hæfur í starfið. Fyrst og fremst hélt hann engan aga á nemendunum. Hann reyndist bráðlyndur með afbrigðum og stjórnaði þá ekki alltaf gjörðum sínum gagnvart börnunum, er honum rann í skap. Erfiðleikar skólastjóra vegna hans fóru vaxandi ár frá ári.
M.a. var Kennarinn ráðinn til þess að kenna leikfimi. Sú kennsla fór fram í Þingsalnum og hófst á haustin, eftir að salurinn hafði verið losaður og hreinsaður. Hann var venjulega leigður til að geyma í saltfisk að sumrinu fram á haust.
Ég bið lesendur mína að minnast þess, að traust og mikil járnsúla stóð í miðjum Þingsalnum og bar uppi loftbita efri hæðar.
Aldrei undu nemendur verr kennslu Kennarans en í fimleikatímunum. Þeir voru þeim þjáning. Þegar sú pínsla hafði magnazt nægilega og grafið um sig, tóku strákar saman ráð sín. Þeir laumuðu löngum og sterkum þinli upp í skólahúsið. Þegar svo fimleikatíminn skyldi hefjast næst, réðust strákar á Kennarann, þrýstu honum upp að járnsúlunni miklu og vöfðu síðan netateininum utan um hann og súluna, svo að hann fékk sig hvergi hrært. Stúlkur voru ekki langt frá, viðbúnar til þjónustu. Þær voru látnar flytja skólastjóra þau boð, að Kennarinn vildi finna hann í fimleikasalinn og það strax. Sjálfir tóku þeir til fótanna heim úr skólanum.
Skólastjóri fann svo þarna kennarann ósjálfbjarga, rígbundinn við súluna með hendur við síður.
Engar sögur fara af afleiðingum þessa verknaðar í skólanum, en skólamenn munu að minnsta kosti ráða í það, hvers vegna málið hefur orðið skólanefnd og skólastjóra um megn og það látið niður falla án frekari atburða. Hér áttu allir 5.-bekkjardrengir hlut að máli, allir sem einn.
Eftir þennan atburð sagði Kennarinn af sér fimleikakennslunni eða var látinn hætta henni. Þá var Magnús Stefánsson (Örn skáld Arnarson) sýsluskrifari í Eyjum. Hann var ráðinn fimleikakennari við barnaskólann í stað Kennarans. Magnús sá sig þó um hönd rétt eftir ráðningu og sagði starfinu þegar lausu. Af þessum sökum féll fimleikakennsla niður í skólanum, það sem eftir var vetrarins.
Þegar Kennaranum rann í skap við miður þæga pilta í skólanum, átti hann það til að stinga höfuðfötum þeirra í ofninn, brenna þeim í hefndarskyni.
Öllum þeim erliðleikum, sem vanhæfni Kennarans olli skólastjóra, virðist hann hafa tekið með þögn og þolinmæði, gert jafnan sem minnst úr þeim við foreldrana, þegar kærurnar dundu á.
Sjálfur virðist Kennarinn ekki hafa fundið snefil af vanhæfni hjá sjálfum sér í kennarastarfið. Heldur sakaði hann skólann og þá sérstaklega skólastjóra um öll vandræði sín. Sú saga er kunn og endurtekur sig hvervetna hjá kennurum, sem fæddir eru til alls annars fremur en að vera kennarar. Þeir skilja sjaldan sjálfa sig og vilja ekki viðurkenna vanhæfni sína. Hvar skal þá leita orsakanna?

——————

Haustið 1913 keyrði agaleysið í kennslustundum Kennarans alveg um þverbak. Skólastjóri fékk sjálfur ekki við neitt ráðið, þegar Kennarinn átti í hlut. Allar hendur nemenda voru uppi gegn honum.
Dag einn um miðjan janúar 1914 komu margir drengir úr 5. bekk skólans að máli við Stein skólastjóra og skýrðu honum frá ósæmilegri meðferð, er Kennarinn hafði beitt einn bekkjarbróður þeirra þá um daginn.
Skólastjóri reyndi að gera sem minnst úr þessu og eyða því. Þó átti hann stundu síðar tal við Kennarann um atburðinn og kæruatriðið. Eftir samtal það fannst skólastjóra sök Kennarans minni en í fyrstu virtist og lét kyrrt liggja.
Áður en nemendur 5. bekkjar fóru heim úr skólanum þennan dag, höfðu þeir orð á því við skólastjóra, hvort þeir mættu ekki lýsa fyrir formanni skólanefndar aðferðum kennarans um aga og kennslu og meðferð hans á böldnum nemendum. —
Virðist nú hafa gætt nokkurrar þreytu hjá skólastjóra um þessi kærumál og lét orð falla á þá lund við nemendur, að hann léti viðræður þeirra við skólanefndarformann afskiptalausar. Nokkru síðar flaug sú fregn um byggðarlagið, að Steinn skólastjóri hefði sent nemendur 5. bekkjar á fund skólanefndarformanns til þess að kæra Kennarann.
Málin tóku nú að gerjast. Janúarmánuður leið. Rétt eftir áramótin neyddist skólastjóri til þess að vísa dreng úr skólanum um stundarsakir sökum óknytta. Máli hans var skotið til skólanefndar. Árið áður hafði hann einnig valdið miklum vandræðum í skólanum. Í hefndarskyni létu ekki aðstandendur piltsins sitt eftir liggja til að rægja skólastjóra og bera út alls kyns óhróður um hann.
Kennarinn fékk byr undir báða vængi til að kæra skólastjóra fyrir meinta meinfýsi gagnvart sér í skólanum. Hann tjáði skólanefndarformanni þá ætlan sína, að kæra Stein skólastjóra fyrir nefndinni og óska þess, að erindi hans yrði rætt á skólanefndarfundi. Skólanefndarformaður mun hafa tekið vel í þá málaleitan Kennarans.
Með bréfi til skólanefndar 18. jan. 1914 kvartar skólastjóri yfir þeim ósönnu sökum, sem hann er borinn vegna þeirra vandræða, sem hann á í daglega sökum vanhæfni Kennarans. — Í bréfinu skýrir hann skólanefndinni frá því, sem hann veit sannast og réttast um upptök kærunnar, sem 5.-bekkjar-nemendur fluttu skólanefndarformanni á Kennarann og neitar því afdráttarlaust, að hann hafi sent nemendurna. „...ég hefi alls ekki sent nokkur börn með nokkra kœru til formanns skólanefndarinnar,“ segir skólastjóri og strikar undir orðin, „en hitt er satt, að ég lagði ekkert bann við því, að þau færu eins síns liðs.“
Febrúarmánuður 1914 leið án nokkurra sérstakra atburða í skólanum, en rógsvélin í sveitarfélaginu virðist hafa haldið áfram að snúa hjólunum.
Upp úr miðjum marzmánuði sendir Kennarinn skólanefndinni kærubréf á Stein Sigurðsson, skólastjóra.
Kæruatriðin eru þessi í bréfinu:

1. að skólastjóri láti fá tækifæri ónotuð til þess að veikja álit Kennarans á ýmsan hátt, bæði við skólanefndina og börnin.
2. að samvinna kennara og skólastjóra við skólann sé svo slæm, að ekki sé vanþörf á því, að skólanefndin grennslist eftir orsökum þess.
3. að kennaranum finnist ýmislegt athugavert við daglegt eftirlit og stjórn skólans, jafnvel svo, að sum fyrirmæli fræðslulaganna séu að vettugi virt.
Kennarinn segist ekki óska þess að láta í ljós fleiri sakir á skólastjóra í bréfi þessu, en áskilur sér rétt til að auka við þær, þegar á skólanefndarfundinn kemur. Síðast hótar Kennarinn því í bréfinu að snúa sér til fræðslumálastjóra með kæruatriðin, láti skólanefndin þau ekki til sín taka.
Ýmsir menn í bænum þóttust kunna ófagrar lýsingar á framkomu skólastjóra gagnvart Kennaranum og börnunum. Hann átti að hafa bannað nemendunum að lesa kennslugreinar sumra kennaranna. Börnin sjálf voru dregin inn í sögusagnirnar og róginn og borin fyrir hinum ótrúlegustu sögum um skólastjóra. Skólastjóri átti að hafa prófdómara skólans í hendi sér, skipa þeim fyrir um einkunnagjafir og annað starf þeirra.
Steinn skólastjóri vildi gera ýmislegt í skólanum til skemmtunar og þroska börnunum. M.a. samdi hann leikrit handa þeim og æfði þau til sýningar. Af því starfi hans höfðu nemendurnir mikla ánægju og nokkurn þroska. Skólastjóri kom þeirri reglu á, að börnin fengu að halda eina til tvær skemmtanir í skólanum á skólaárinu. Þær voru eingöngu ætlaðar nemendunum sjálfum. Ýmsum fannst þetta allt of mikið frjálsræði til handa börnunum og benda á lausbeizlað skólalíf. Til að hnekkja þessu léttlyndi öllu, var þeirri sögu komið á kreik í sveitarfélaginu, að skólaskemmtanirnar væru svo siðspillandi undir stjórn og umsjón skólastjóra, að honum sjálfum ofbyði. Rógtungurnar töldu það óræka sönnun þessarar spillingar, að skólastjóri hefði eitt sinn keypt einkason sinn með peningum frá því að sækja skemmtun í skólanum.
Miklu fleiri voru þær sakir á skólastjóra, sem ýmsir búendur í byggðarlaginu höfðu fram að bera svona undir fjögur augu og í þröngum hring.
Kæra Kennarans var tekin fyrir á fundi skólanefndar 20. marz. Voru þá 2 dagar liðnir frá því, að hann sendi skólanefnd kæruna. Ekkert fékk skólastjóri um hana að vita. Hún var látin koma honum gjörsamlega að óvörum. Hann var boðaður á fund þennan með klukkutíma fyrirvara.
Kennari deildi fast á Stein skólastjóra á skólanefndarfundinum og bætti mörgum ásökunum við þau atriði, sem tekin voru fram í kærubréfinu.
Auðfundið er við lestur, að andinn í fundargerð skólanefndarinnar er andstæður skólastjóra og Kennaranum í vil. Í fundargerðinni er sagt, að skólastjóri hafi verið „tregur til að gefa greið svör“. Hann hafi færzt undan að gefa skýringar og vikið af fundi í skyndi.
Á fundi þessum samþykkti skólanefndin einróma, að víkja skyldi þeim báðum frá skólanum, Steini skólastjóra og Kennaranum. Markinu var náð. Seinni tímanum geymdist það að dæma um verknaðinn.
Á fundi skólanefndarinnar virðist skólastjóri hafa að einhverju leyti misst ráð og rænu, ef það má orðast þannig. Fundarefnið kom honum mjög á óvart. Einnig andinn í skólanefndarmönnunum gagnvart honum. Með hinum mest ráðandi mönnum skólanefndarinnar hafði hann unnið árum saman að fræðslumálum, ýmist í skólanefnd eða skólanum. Skólastjóri virðist gjörsamlega hafa orðið miður sín, þegar hann varð þess áskynja, að þeir höfðu snúizt gegn honum allt í einu og voru á bandi hins vanhæfa kennara, sem hafði valdið skólastjóra meiri erfiðleikum í starfi en flest annað þau 10 ár, sem hann hafði verið skólastjóri í Vestmannaeyjum.
Þegar Steinn Sigurðsson, skólastjóri, frétti það, að skólanefndin hefði samþykkt einróma að víkja honum frá starfi, skrifaði hann nefndinni uppsagnarbréf.
Daginn eftir gerði Kennarinn hið sama.
Svo liðu 11 dagar af aprílmánuði. Þá hafði Steinn rætt þessi mál öll við fræðslumálastjóra, Jón Þórarinsson, sem harmaði gjörræði skólanefndar og fann jafnframt að því við Stein skólastjóra, að hann skyldi segja upp starfinu, heldur láta uppsögn skólanefndar nægja og láta hana síðan taka afleiðingunum. Það varð að samkomulagi með þeim skólastjóra og fræðslumálastjóra, að Steinn tæki uppsögn sína aftur og skrifaði skólanefndinni varnarbréf eða skýringar á afstöðu sinni til deilumálanna. Einnig skyldi svo fræðslumálastjóri bera sáttarorð á milli deiluaðila.
Þetta bréf skrifaði Steinn skólastjóri skólanefndinni 11. apríl um vorið.
Varnarbréf hans leyfi ég mér að birta hér orðrétt, fyrst ég var svo lánsamur að finna það eftir langa leit. Bréfið er óræk heimild um þau óþurftaröfl í sveitarfélaginu, sem hér voru að verki og náðu marki sínu.

Heiðraða skólanefnd.

Ég hafði ekki hugsað mér að svara kæruatriðum þeim, sem kennari M. bar fram gegn mér á fundi skólanefndarinnar 29. marz s.l. Frekar en ég gerði þá munnlega á fundinum. En með því að hafa íhugað það betur, finnst mér rétt að gefa ítarlegra svar en ég gerði þá, um leið og ég jafnframt afturkalla hér með uppsögn mína á starfa mínum við barnaskólann hér í Vestmannaeyjaskólahéraði. (Leturbreytingar allar eru bréfritarans. Þ.Þ.V.)
Eins og nefndinni er kunnugt, stóðum við M. all ójafnt að vígi, þar sem hann gat í ró og næði samið kæruskjal sitt án þess að nokkuð kallaði að, og auk þess var honum gefið tóm til að semja sérstaka skrá á eftir yfir öll þau sakaratriði, sem honum hefur þótt hæfa að leggja sjálfan sig niður við að tína til gegn mér, en þar á móti hélt nefndin öllu vandlega leyndu fyrir mér, þangað til á fundinn kom, sem hún hafði kallað mig á með rúmum klukkutíma fyrirvara, og það án þess að tjá mér nokkuð ákveðið um það, hvað í efni var. Það hefði ekki mátt minna, en að hún hefði birt mér kæruna með hæfilegum fyrirvara, svo að ég hefði getað athugað það, sem mér var gefið að sök. Ég hélt kannske að ég hefðí átt skilið ekki óvoðfelldari meðferð eftir 10 ára starf mitt í skólanum en hann fyrir sína þriggja ára þjónustu. En látum svo vera, að þetta hafi ekki verið neitt annað en blátt áfram hugsunarleysi nefndarinnar. Hitt var öllu flasfengnislegra, ef það er satt, að nefndin hafi treyst sér til að leggja fullnaðarúrskurð á málið á sama fundinum. — sakfellandi árskurð.
Í trausti þess, að einhverjir í nefndinní séu svo réttsýnir, að láta sér ekki nægja órökstuddan framburð kærandans, og jafnframt í trausti þess, að mótmæli mín séu ekki talin minna virði en ósannaður illkvittnisáburður hans og raklausar staðhæfingar, þá leyfi ég mér hér með að leggja fram eftirfylgjandi vörn í þessn máli.
Mér dettur ekki í hug að svara öllu því staðleysisbulli, sem kærandinn lét út úr sér, því að það mátti hver maður með heilbrigðri skynsemi skilja, að ekki var í rauninni nokkur heil brú í þeim vef. Ég ætla aðeins að svara því helzta, og þá einkum því, sem mér skildist að nefndinni þætti einna mest um vert.

III. hluti

Til baka