Blik 1963/Danski-Garður í Vestmannaeyjum 1842

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



JÓHANN GUNNAR ÓLAFSSON:


DANSKI-GARÐUR
í Vestmannaeyjum 1842


Haustið 1960 fékk Byggðarsafn Vestmannaeyja merka sendingu frá bæjarfógetanum á Ísafirði, Jóhanni Gunnari Ólafssyni, sem er fæddur Vestmannaeyingur eins og kunnugt er, og áhugamaður og fróður vel um sögu Eyjanna.
Í þetta sinn sendi hann Byggðarsafninu lýsingu á verzlunarhúsunum í Danska-Garði samkvæmt úttekt 1842. Í bréfi, sem bæjarfógetinn lét fylgja gjöf sinni, lét hann þá ósk sína í ljós, að Byggðarsafnsnefnd kaupstaðarins fengi Ólaf Á. Kristjánsson til þess að teikna húsin eftir lýsingunni og síðan léti nefndin hagleiksmann, sem það kynni, gera líkan af húsunum í heild, Skansinum og nágrenni, þar sem húsin stóðu. Þetta líkan yrði síðan geymt á Byggðarsafninu. Þetta er merkileg hugmynd og mikilvæg hugsjón, sem vænta mátti raunar frá þessum unnanda Vestmannaeyja, sögu þeirra og menningu.
Byggðarsafnsnefndin hefur þegar hafið þetta starf. Ólafur Á. Kristjánsson hefur gert teikningar af húsunum, og birtir Blik hér myndir af teikningum hans og lýsingu samkv. úttekt. Seinna mun svo byggðarsafnsnefndin láta gera líkanið af húsunum og umhverfinu. Það verða framkvæmdir, sem kosta mikið fé, en huggun okkar er, að Vestmannaeyingar eru gjöfulir til slíkra framkvæmda, ósínkir á peninginn, þar eð saga Eyjamanna og sómi á í hlut. Það sannar frjálst framlag þeirra á sl. hausti til stofnunar fiskasafns hér í kaupstaðnum. Ég gef svo Jóhanni Gunnari bæjarfógeta sjálfum orðið um leið og við færum honum alúðarþakkir fyrir hina ágætu hugmynd, sendinguna og alla ræktarsemi við Eyjarnar frá fyrstu tíð, sögu þeirra, atvinnu- og menningarlíf og fólkið sjálft.

Þ.Þ.V.
————


Garðsverzlun um miðja 19. öld


I.


Hafskipalegan í Vestmannaeyjum var að fornu fari innan við Hafnareyri. Skipin voru svínbundin við Holuklett og Hringsker. Við Steinbryggjuna gömlu, sem náttúran hafði sjálf gert í fjöruborðið, var farmi og farþegum skipað á land um aldaraðir.

Upp að Steinbryggjunni voru reistar sölubúðir og vörugeymslur, eftir að tímar tjaldanna voru liðnir hjá. Síðan risu upp í þessu takmarki Dönskuhús, þar sem um aldir var bækistöð hinna dönsku einokunarkaupmanna og starfsliðs þeirra. Kaupmaður var jafnframt fógeti konungs og þurfti því á að halda rúmgóðum salarkynnum fyrir völd sín og virðing og varning.
Einokunarverzlun Dana hófst í Vestmannaeyjum um miðja 16. öld. Þá hafa verið reist hin fyrstu Dönskuhús eða Danskhús í Eyjum, reisuleg og viðamikil. Í Stórustofunni í Dönskuhúsum voru þinghöld og samkomur, sem Eyjarskeggjar voru boðaðir til. Gamalt skjal hefst með þessum orðum: „Anno domini 1600, þann 11. október var allur almúginn á Vestmannaeyjum, bæði bændur og húsmenn, samansafnaður í Stórustofunni í kóngs majestatis Dönskuhúsum...“
Húsin stóðu vel og lengi, því að Danir bikuðu þau og máluðu árlega.
Þegar Tyrkir rændu Vestmannaeyjar 1627, brenndu þeir Dönskuhús til grunna. Þau hús hafa staðið upp af Steinbryggjunni, rétt austan við Austurbúðina, sem enn þá stendur. Um 1930 fór fram uppgröftur á þessum slóðum og komu þá í ljós ýmsar brunaleifar.
Dönskuhús voru síðan endurbyggð á árunum 1630-1638. Voru þau þá flutt á háhólinn upp af Hafnareyri. Skanzinn var nú byggður utan um þau til varnar þjófum og ræningjum. Hann var gerður úr stóru grjóti sem næst ferhyrningur, með hliðum á austur- og vesturvegg.
Verzlunarhúsin og Skanzinn voru nú endurbyggð í landi jarðarinnar Höfn, og var bærinn rifinn þegar Skanzinn var hlaðinn.
Um þessar mundir fær jörðin nafnið Kornhóll og mun það nafn sennilega dregið af því, að inni í Skanzinum voru kornhlöður hinna dönsku einokunarkaupmanna. Verzlunarstaðurinn inni í Skanzinum var nú nefndur Kornhóls- eða Kornhólmsskanz, en síðar Garður, þegar verzlunarstaðurinn hafði um skeið staðið inni í Skanzinum, sem var eins konar gerði. Á dönsku hét verzlunarstaðurinn Den danske Gaard eða Handelsetablissementet Garden.
Meðal eyjaskeggja gekk verzlunarstaðurinn undir heitunum Garður, Garðsverzlun eða Austurbúð, eftir að fleiri verzlanir voru komnar á fót vestur með Skipasandinum og á Tanganum.
Af húsakosti í Garðinum fer litlum sögum. Af uppdrætti séra Sæmundar Hólms frá 1770 mætti helzt ráða, að ekki hafi verið nema eitt hús inni í Skanzinum, en það fær vart staðizt. Uppdrátturinn sennilega ekki gerður með nákvæmni í smærri atriðum.
Hins vegar sést greinilega í uppdrætti Jóns Eiríkssonar sýslumanns frá 1788, að tvö stór hús hafa verið inni í Skanzinum og eitt lítið. Á uppdrætti Magnúsar Austmanns frá 1843 er Skanzinn ekki.

II.


Árið 1842 fór fram uppskrift á dánarbúi Jens Jakobs Benediktssens kaupmanns, eiganda Garðsverzlunar. Þá voru 12 hús í Garðinum og tvö þeirra inni í Skanzinum.


Skanzinn.


Samkvæmt mælingum Sigurðar Sigurfinnssonar hreppstjóra árið 1912 var stærðin þessi:


Innanmál 13x17 faðmar (24.49 x 32.02 m.).
Austurveggur 23 faðmar (43.32 m.) á lengd, 8 álnir (5.02 m.) á þykkt, hæð rúmar 3 álnir (1.88 m.).
Suðurhliðin var þá að vísu löngu horfin. Um 1756 voru eftir af henni aðeins litlar leifar. En vitað er, að hún var hlaðin úr stóru grjóti.
Tvö hlið voru á Skanzinum, annað á austurhlið, en hitt á vesturhlið, þar sem byrjuðu traðirnar frá honum á vesturhluta Garðslóðar.
Yfir vesturhliði Skanzins var höggvið nafn Hans Nansens, kaupmanns í Vestmannaeyjum um 1627, síðar borgarstjóra í Kaupmannahöfn. Hann mun hafa látið gera Skanzinn, en Jens Hasselberg verzlunarstjóri í Eyjum annaðist verkið. Rétt væri að grafa nafn Hans Nansens í tréboga yfir vesturhliðinu.
Skanzinn stendur enn með ummerkjum og má eftir honum fara, nema hvað bæta verður við suðurhliðinni. Hann mun að vísu oft hafa verið hlaðinn upp, en að sjálfsögðu alltaf í svipuðu horfi. Um 1860 var hlaðinn breiður gangpallur að innanverðu við austur- og norðurhlið. Sjálfsagt er að taka hann með.
Markasteinar Garðslóðar (austurlóðarinnar) voru í norðaustur- og suðausturhornum Skanzins og höggvið í þá G. Norðursteinninn mun enn þá vera til.
Á uppdrætti séra Sæmundar Hólms frá 1776 er Skanzinn sýndur sem ferhyrningur og engin hlið (sjá Örnefni í Vestmannaeyjum, bls. 95). Uppdrátturinn mun ekki vera réttur.
Á uppdrætti Jóns Eiríkssonar sýslumanns frá 1788 er Skanzinn dreginn og mun það riss láta nærri. Uppdrátturinn fylgir hér með. Er rétt að láta grunn Skanzins haldast í því horfi, nema hvað sjálfsagt er að bæta um teikninguna. Árið 1788 hafa verið 3 hús í Skanzinum, tvö stór verzlunarhús, sem enn voru þar 1842, og eitt lítið hús, kannske verbúð.
Austan við Skanzinn voru 4 haustmannahús, en þeim er rétt að sleppa. En vestan við Skanzinn voru þá 5 hús.
Lýsing á lóðinni, eins og hún var 1856 er í Gamalt og nýtt 1949, bls. 86, og væri rétt að hafa Austurlóðina í huga, þegar flötur eftirmyndarinnar af verzlunarstaðnum er dreginn upp.
Nú skal vikið að húsum þeim, sem ég ætlast til að verði tekin á líkanið. (Sjá myndirnar.)


INNI Í SKANZINUM.

ctr

1. TIMBURBINDINGSHÚS, 38 álna langt og 11 álna breitt, 3 3/4 álnir undir bjálka, sperrurnar 8 álna langar. Við vestur-gafl viðbygging einnig úr timbri 4 álna löng, 11 álna breið, 3 álnir undir loft og sperrurnar 6 álnir. Timburþak á húsinu.
Í austur-gafli var lúka með rúðu, á vesturhluta þaks kvistgluggi með 4 rúðum og á norðurhlið þaks „patentglas“.
Í miðju húsinu niðri var sölubúð og á henni miðri „krambúðardyrnar“ og timburskúr fyrir framan þær með einföldu þaki.
Á vesturenda upp úr mæni var reykháfur upp af eldhúsi.
Á austurgafli hússins var flaggstöng með línu.
Húsið var byggt fyrir 1786.

ctr

2. TIMBURBINDINGSHÚS (að sunnanverðu í Skanzinum), 34 álna langt, 12 álna breitt, 3 3/4 álnir undir bjálka og sperrurnar 8 álna langar. Tvöfalt timburþak. Reykháfur upp úr mœni á vesturhluta upp af eldhúsi.
Um glugga og dyr gildir sama og hús nr. 1.
Húsin voru svartbikuð með tjöru, en gluggar sennilega hvítmálaðir.


VESTAN VIÐ SKANZINN.

ctr


3. KORNLOFTIÐ, timburbindsverkshús, 331/2 álnir á lengd, 13 álna breitt, 3 1/2 álnir undir bjálka. Byggt 1830, og stendur húsið ennþá. Í austurenda var íbúð og þar upp af reykháfur. Húsið var vörugeymsla að öðru leyti og beykisvinnustofa í vesturenda. Á vörugeymslunni voru tvennar, tvöfaldar hurðir. Lofthæð 3 álnir í hanabjálka. Loftið var korngeymsla með kornbyrðum undir báðum súðum og af því er nafnið komið.
Í hvorum gafli var tvöföld „lúga“ með tveimur litlum gluggum og gluggi á hvorum stafni að norðanverðu. Á miðri norðurhlið voru dyr og stigi upp á loft. Þakrennur voru á húsinu.

ctr

5. BAKARÍIÐ, síðar nefnt Brydestofa, vestan við nr. 3, bilið milli húsanna 2 1/2 alin, 15 1/2 álnir á lengd, 8 álna breitt og 3 1/2 alin undir loft. Húsið var bæði byggt úr höggnu grjóti og múrsteini og klætt utan með timbri. Húsið var byggt 1840. Um útlit sjá Gamalt og nýtt 1949, bls. 113, eystri hlutinn, mynd af Garðinum.
6. BAKARAÍBÚÐIN, síðar íbúðarhús verzlunarstjóra í Garðinum, byggt 1842. Húsið var 15 álna langt og 11 álna breitt. Á vesturgafli var gluggi með 3 rúðum á hæðina, hverri 11 til 12 tommur. Útlit hússins sést á mynd í Gamalt og nýtt 1949, bls. 113.
7. VINDMYLLA, áttköntuð, gerð úr furuborðum ofan á hús nr. 6, vesturenda, með palli með handriði og tvennum dyrum móti austri og vestri, 4 einstökum gluggum með 9 rúðum 7 1/2 til 6 1/2 tommur á stærð. Hettan var klœdd með eikarspónum, en að öðru leyti úr furuborðum. Allar hliðar voru þaktar með segldúk, allir gluggar og hurðir málað með olíumálningu, en húsið tjargað að utan, eins og öll önnur hús í Garðinum.
Líklega vœri bezt að útvega sér mynd af hollenzkri myllu til fyrirmyndar, en myllan var af þeirri gerð. Nákvæmari lýsing er á gerð myllunnar og smíði í uppskriftinni, sem hérmeð fylgir.

ctr

10. SALTHÚSIÐ, byggt 1833 á lóðamörkum vestast niður undir sjó, 22 álna langt, 8 1/2 álna breitt, 3 1/2 alin á hæð að bjálkum, úr timbri, með einföldu timburþaki. Húsið var síðan innan í norðanverðum Kumbaldanum, og brann með honum.
Útlit sést á uppdrætti Engilberts, Aldahvörfum, bls. 92 og Saga Vestmannaeyja I., bls. 56.
11. KAÐALHÚSIÐ, fast sunnan við Salthúsið, 9 álna langt, 6 álna breitt og 3 1/2 álna hátt, úr timbri. Var inni í Kumbaldanum. Sést á mynd Engilberts, Aldahvörf, bls. 92 og Vestmannaeyjasagan I, bls. 56. Á myndinni í Eyjasögunni lítur út fyrir að Kaðalhúsið sé miklu stærra heldur en Salthúsið, og hefði það þá verið stækkað eftir 1842.

ctr

8. KOLAHÚSIÐ, áður kallað gamla salthúsið, norður af vesturenda Kornloftsins, sést á mynd í Gamalt og nýtt 1949, bls. 113. Stærð: 10 1/4 álna langt, 8 álna breitt og 3 1/4 álna hátt. Timburhús að öðru leyti en því að 3 álna viðbygging var gerð úr ótilhöggnu grjóti. Þakið úr viði 13 1/4 álna langt. Austurendi með timburgafli að bjálkum, en vesturgaflinn allur úr timbri. Hurð járnklædd og hengilás, Þetta hús mun hafa snúið norður og suður, þó talað sé um austur- og vesturgafl.
9. LÝSISBRÆÐSLA, byggð 1842 úr torfi og grjóti með timburþaki klæddu torfi, norðan við Kolahúsið. Stærð: 8 álnir á lengd, 6 l/2 alin á breidd og 3 1/4 álnir á hæð. Á vesturgafli voru dyr. Hann var úr timbri, en austurgafl úr grjóti og timbri frá bjálkum. Útlit og stefna sést á teikningu Engilberts í Aldahvörf, bls. 92. Þar eru bæði bræðslan og Kolahúsið með stefnu suður og norður, og er það eflaust upphafleg stefna.

ctr

12. HÚS SUNNAN VIÐ KAÐALHÚSIÐ, úr timbri, 13 álna langt, 5 1/4 álnir á breidd og 3 1/4 álnir á hæð. Byggt 1837.
4. TORFKOFI, eldhús og búr, síðar heyhlaða, grafinn inn í bakkann austan við nr. 3. Leifar munu enn sjást.
14. BRUNNUR við vestanverða norðurhlið Gömlubúðar.




ctr


Líkanið af Danska-Garði í Bliki 1965, hér sett inn af Heimaslóð til að sýna líkanið, sem byggt var eftir teikningum þessum. Horft er til norðurs að höfninni.