Blik 1963/Þorgils Þorgilsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Þorgils Þorgilsson


ctr


Þessi mynd er af þrem dáðadrengjum, sem lifað hafa og starfað hér í Eyjum.
Maðurinn lengst til vinstri á myndinni er Sigurhans Ólafsson á Brimnesi. —

Lengst til hœgri á myndinni er Bergur Guðjónsson á Kirkjubæ Björnssonar
bónda þar og k.h. Ólafar Lárusdóttur.
Bergur var fæddur 5. júlí 1894. — Hann lézt 5. maí 1940.


Í miðið á myndinni er Þorgils Þorgilsson, fyrrv. starfsmaður Rafveitu Vestmannaeyja. Hann á óvenjulega sögu, sem vert er að halda til haga.
Einhentur hefur Þorgils langa ævi unnið störf sín og unnið fyrir heimili sínu, konu og 5 börnum.
Þorgils Þorgilsson er fæddur að Smyrlabjörgum í Suðursveit 2. des. 1885 og kom í heiminn „utanveltu hjónabandsins“, eins og Stefán G. orðar þar, er hann yrkir um listamannsefnið.
Þorgils Þorgilsson ólst upp að Svínafelli í Öræfum hjá Sigurði bónda Jónssyni og k.h. Sigríði Runólfsdóttur frá Maríubakka í Fljótshverfi. Hjá þessum mætu hjónum dvaldist Þorgils í 10 ár, frá 2—12 ára. Þá fluttist þessi tökudrengur frá Svínafelli að Hömrum á Mýrum til Runólfs bónda, sem var sonur hjónanna á Svínafelli. Hann var giftur Steinunni Jónsdóttur bónda í Odda á Mýrum Bjarnasonar. Þau hjón brugðu búi um aldamótin og fluttust til Vesturheims. Þá fór Þorgils vinnumaður að Holtum á Mýrum og þaðan 18 ára að Hafnarnesi í Nesjum. Þar dvaldist hann í 10 ár. Þar varð hann fyrir slysi, sem hann fékk aldrei bætt. Sumarið 1911 (22. júlí) féll Þorgils af hestbaki og lamaðist þá vinstri handleggur hans svo, að engin lækning gat bætt þann skaða. Taugar slitnuðu í aflvöðva handleggsins. Síðan hefur vinstri höndin verið honum ónýt með öllu.
Þegar svo var komið fyrir honum, tók hann að hugleiða, hvort bókvitið yrði ekki sett í askinn, þrátt fyrir allt. Það leiddi til þess, að hann fékk sér vist í Hvítárbakkaskólanum í Borgarfirði hjá Sigurði Runólfssyni haustið 1913. Þá hafði Þorgils lært að draga til stafs og lært undirstöðu reiknings, hinar allar einföldustu. Lestur lærði hann fyrst hjá Birni Pálssyni í Svínafelli, sem kenndi smábörnum þar í byggð. Þar sá hann fyrstu forskriftina. Síðan æfði Þorgils skrift á snjófönnum, þegar hann var látinn halda fé til beitar á veturna. Þá notaði hann broddstafinn sinn.
Í Hvítárbakkaskólanum glæddist Þorgils Þorgilssyni vilji til frekara náms og afréð að ganga inn í Kennaraskóla Íslands næsta haust. Í Kennaraskólanum var hann síðan veturinn 1914—15. Þá gat hann ekki haldið áfram námi lengur sökum fjárskorts. Fyrri heimsstyrjöldin var í algleymingi, allur skólakostnaður m.ö. fór stöðugt hækkandi og úrræði lítil fyrir einhentan mann til að afla sér námsfjár. En Þorgils gafst ekki upp, þó að hann yrði að leita lags eftir ástæðum og takast á við tilveruna með öðrum hætti, knýja á annars staðar, ef ein leiðin virtist ekki kleif.
Haustið 1915 gerðist Þorgils Þorgilsson farkennari í Nesjum í Hornafirði. Við það starf var hann í þrjá vetur og kenndi jafnan á nokkrum bæjum, þar sem skólastarfinu varð ekki háttað á annan veg.
Á sumrum stundaði Þorgils þá vegavinnu og lét sinn hlut þar ekki liggja eftir, því að hann stakk snyddu sem hver annar með tvær hendur heilar og hlóð vegbrúnir eins og hinir og ekki síður. Fjórða sumarið við vegavinnuna gerði vegamálastjórinn, Geir Zoega, hann að flokksstjóra og síðan að verkstjóra. Það var á Héraði austur að Þorgils vann að vegagerðinni.
Þar austur í Hróarstungu kynntist Þorgils hinum ágæta lífsförunaut sínum, Láru Kristmundsdóttur, sem var honum sönn stoð og stytta í langri lífsbaráttu, og reyndi því meira á manngildi hennar og dugnað sem maður hennar gekk ekki heill til skógar, var að töluverðu leyti örkumla maður, sem notið hefði ríflegs opinbers styrks nú til dags. Þá var því ekki til að dreifa.
Sumarið 1919 dvaldist Þorgils Þorgilsson á Norðfirði við útveg Konráðs Hjálmarssonar en fluttist um haustið hingað til Vestmannaeyja. Þá gerðist hann skrifstofumaður á Tanganum, hjá Gunnari Ólafssyni og Co. Einnig fluttist Lára Kristmundsdóttir, unnusta hans, til Eyja og réðist vinnukona að Gerði til Björns bónda Jónssonar. Eftir aðeins tveggja mánaða vist í skrifstofu Tangans, réðist Þorgils skrifstofumaður við kaupfélagið Fram og vann þar í 13 ár, eða til ársins 1932. Þá gerðist hann aflestrarmaður hjá Rafveitu Vestmannaeyja. Það starf hafði hann á hendi í 15 ár. Það starf reyndist honum of erfitt, þar sem hann varð á ófáum stöðum að klöngrast upp slæma stiga eða þræða aðra torfarna stigu fyrir hann, einhentan, til þess að ná að lesa af rafmælunum. Góðir og tillitssamir leystu þá Þorgils frá þessu starfi og fólu honum skrifstofustörf hjá Rafveitunni. Skrifstofustarfinu hélt Þorgils til ársins 1960. Á því ári varð hann hálfáttræður. Sá hái aldur, er hann loks hætti störfum, er óræk sönnun þess, hve viljaorkan entist honum vel, starfshugurinn mikill og þrautseigjan ódrepandi hjá þessum Austur-Skaftfelling.
Þorgils Þorgilsson tók um langt skeið virkan þátt í sönglífi bæjarins. Hann starfaði í söngkórum hér öðru hvoru um 33 ár, t.d. Vestmannakór og Karlakór Vestmannaeyja. Í Kirkjukórnum söng hann í 30 ár.
Þorgils Þorgilsson missti konu sína 23. jan. 1957. Þau eignuðust 5 börn (drengi):
Baldur, f. 1921,
Ari, f. 1922,
Grétar, f. 1926,
Jón, f. 1931, og
Haukur, f. 1938.

Þegar þetta er skrifað, er Þorgils Þorgilsson rúmlega 77 ára að aldri. Þrátt fyrir slysið mikla og varanlegt örkuml af þess völdum, hefur honum farnazt vel í lífinu. Ekki á manngerðin sjálf minnstan þátt í því og lánið hans mikla, lífsförunauturinn. Þorgils hefur þá líka átt því láni að fagna að vera hraustur alla ævi að öðru leyti en því, hversu örkumlið hefur háð honum og valdið honum vanlíðan. Til þess að ná jafnmiklu út úr lífinu og Þorgils, þrátt fyir allt, þarf mikla karlmennsku og hörku, og svo valda skapgerð.


ctr


Mynd þessi birtist í Bliki 1965. Hún er birt hér einnig (Heimaslóð).


Þorgils Þorgilsson og fjölskylda
Í fyrra birti Blik nokkur orð um samborgara okkar Þorgils Þorgilsson,
Kirkjuvegi 31. Hér birtir ritið mynd af fjölskyldunni, hjónunum og 5 sonum þeirra.
Aftari röð frá vinstri: Grétar, Ari, Baldur.
Fremri röð frá vinstri: Jón Yngvi, Þ.Þ., frú Lára Kristmundsdóttir og Haukur við hné móður sinnar.