Blik 1963/Æskudraumar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



GÍSLI ENGILBERTSSON:


ÆSKUDRAUMAR
Hjónin Gísli verzlunarstjóri Engilbertsson og Ragnhildur Þórarinsdóttir frá Neðra-Dal. Með þeim er á myndinni Elínborg dóttir þeirra 8—9 ára, hin góðkunna húsfreyja í Laufási hér i bæ. Myndin mun vera 73 eða 74 ára. — Sjá hér í ritinu sögu Sparisjóðsins 1803-1920. Blik birtir hér nokkur kvœði eftir verzlunarstjórann.



Ég sat fyrr að lömbum í sólbjartri hlíð
við saklausa æskunnar drauma
og mær ein, sem þá var mjög blómhýr og blíð,
með bókina í kjöltu við sauma.
Þá blikuðu lokkar og brosin á vör
líkt bárum á sólroðnum öldum.
Um lifandi frelsi og logandi fjör
oft lækirnir hjöluðu á kvöldum.


Ég sé glöggt í anda þá saklausu mær
í sólgylltum kvöldroðans bárum,
en ei veit það heimur, að hún var mér kær
á hugljúfum, vonblíðum árum.
Með henni við bláfjöll á blómstrandi grund
þar blikuðu ylgeislar friðar.
Ég átti svo rólegt, að ógleymd er stund,
þótt æskan sé gengin til viðar.


Og fossana man ég, þeir féllu af brún,
og freyðandi lækirnir streymdu,
og bæina sá ég og blómauðug tún,
— sem búendur Fljótshlíðar geymdu, —
og ljóskrýndan jökul á loggylltum stól,
sem laugaði fætur í giljum
og harðbrýnn og stórskorinn horfði mót sól,
sem hjúkraði nýfæddum liljum.


Þá stóð ég sem laukur í ljósgrænni hlíð
með lilju til annarrar handar.
Á sakleysi æskunnar sólin skein blíð.
er sveif hún í vestur til strandar.
Á blikandi gullsúlum brá hún upp nótt
og blíðleg í eyra mér sagði:
„Þig signi minn kvöldroði, sofnaðu rótt;“
í svæfilinn geislana lagði.


Þá hvíldi ég kraftana og sofnaði sætt,
en sálina tók þá að dreyma,
og léttfleygur andinn gat ljósöldur þrætt
og leitað um alvíddargeima.
Opinn stóð honum þá alheimur nýr
með eilífðar geislabrotsrósum.
Hugsjónadraumleiðin honum fannst skýr
á himnanna sólkerfaljósum.


Og sæll þóttist andinn á sólbjartri leið,
þá svifinn burt efans frá ströndum,
um alheiminn flughraður skundaði skeið
til að skyggnast að ókunnum löndum.
Í blíðasta draumi hann barst svo um stund,
en brátt varð þó aftur að snúa
og vekja svo líkamann værum af blund
til að vitja um unglambagrúa.


MARGIR SKYNJA MARGT
Margir skynja margt og vita,
mikið starfa, hugsa, rita,
þó nær mesta menntun stutt.
Engum mun það auðnast geta
alvaldsbrautir rekja, feta,
meðan sál ei fær burt flutt.


Hert er sál í harða viðu
hér við jarðlífs straumaiðu,
unz að líkams bresta bönd.
Lífs með krafti ljóss í geiminn
líða mun, þá kveður heiminn,
studd af vísdóms hægri hönd.


Meiri þroska þá vér fáum,
þegar friðarlandi náum,
endurbornir æðri heim.
Þá mun andinn leika léttur
ljóss um ríkis blómasléttur, —
eilífs máttar undrast geim.


Ei til jarðar aftur þráum,
æðri vísdóm þegar fáum,
heims þá elskan horfin er.
Auður, völd og upphefð jarðar
er þá hinum megin fjarðar.
Allt er skilið eftir hér.


KÓNGUR OG KROSSAR
Þegar kemur kóngurinn,
krossast margur náunginn,
glatt mun fólk á götunum
ganga á sparifötunum.
Oft er krossinn tignað tál, —
tál, sem girnist hólgjörn sál.
Leitar út það inni býr,
ýmsum verður heimskan dýr.


GEGNUM ÞOKUNA 1907
Frá Þingvöllum bergmálar þjóðfrelsistal,
og þar hljóma óskirnar heitar,
því fjölmörg er kempan og kappanna val,
sem kúgun og ófrelsi neitar
en frjálst vilja landið, sem fornum í sið
á frægðar og gullaldar árum,
og fús ætti sérhver að leggja fram lið,
því liggur enn réttur í sárum.


Og æ muna kraftþrungin orðtökin Jóns,
þau: Aldrei frá réttinum víkja,
svo glöggt megi sýna það saga vors fróns,
að sjálfstæð þjóð nái hér ríkja.
Með áhuga losum vér afturhaldsbönd,
vér uppskera munum, ef sáum.
Ef viljinn ei flytur til fót eða hönd.
ei frelsi úr viðjunum náum.


Vér eigum að hugsa vel aftur og fram,
um ókominn tímann og liðinn.
Í herfórum vorum ei haldast má vamm,
sem hrekur burt innbyrðisfriðinn.
Til varnaðar oss eru vítin oft sýnd,
að vegi ber öllum að gæta.
Ef ein stund nær glatast, oft ár eru týnd,
sem ekki má framar sér bæta.


Ó, látum oss hugsandi líta' í þá átt,
þar lifandi frelsið í blóma
oss sýnt getur þjóðviljans sigrandi mátt,
þá svift er burt ánauðardróma.
Ó, hefjum oss yfir allt tildur og tál,
svo talið oss niðjarnir geti
til ættjarðarvina með sólbjarta sál,
er sannleik og hreinskilni meti.


ÞJÓÐHÁTÍÐ VESTMANNAEYJA
13. ÁGÚST 1910
Hátíð þessa fögnuð fyllum
félagsanda; ræktum blóm,
syngjum dátt hjá sólskins hillum,
sinnum fögrum bergmálsóm.
Viljakraftinn veikan hressum,
vörumst allt, sem boðar grand;
framtíðar- þá -börn, vér blessum,
blessum vora þjóð og land.


Syngi, dansi hrund og halur
himinglöð í fögrum dal;
grænlitaður glímusalur
geymir Eyja kappaval.
Hér má sjá í sól og skugga,
sumardýrðin blikar hrein.
Huldufólkið gegnum glugga
gægist undan hverjum stein.


Huldufólkið fagurbúið
fagnar því, sem dýrlegt er;
héðan ekki fær það flúið,
finnst því „Ameríka“ hér.
Þótt í dag vér það ei sjáum,
þar um tölum ekki hót;
öðrum ræðum eyru ljáum,
áminningar festi rót.


Dýrð sé guði hátt í hæðum,
heill og friður meðal vor;
manndómsþrá í andans æðum
ávallt stígi heillaspor.
Orð og verkin látum ljóma,
læðumst enga skuggabraut;
göngu hækki sólin sóma,
svífi yfir holt og laut.