Blik 1962/Saga leiklistar í Vestmannaeyjum, I. kafli, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962




ÁRNI ÁRNASON:


ctr
I. KAFLI
(2. hluti)


Guðlaugur Hansson.

Ekki má gleyma að minnast Guðlaugs Hanssonar í Litlabæ. Hann lék í þessum leikritum og fórst það mjög vel. Átti hann þá eftir að sýna og sanna, að hann var gæddur miklum leiklistarhæfileikum, enda lék hann hér í mörg ár við ágæta dóma almennings. Hann hafði byrjað leikstarfsemi um tvítugt í leikritinu „Hinn þriðji“.
Ekki veit ég með vissu, hvenær Guðlaugur Hansson hætti leikstarfseminni, en það var ekki fyrr en hin síðari árin og hefir síðasta hlutverk hans líklegast verið Grasa-Gudda í Skugga-Sveini 1921, a.m.k. hef ég ekki rekizt á hann meðal leikenda eftir þann tíma. Við það er og að athuga, að hann flutti um tíma til Reykjavíkur.
Annars hefði hann ef til vill leikið lengur, enda þótt hann hafi árið 1921 verið búinn að starfa hér að leiklist í tæp 30 ár, og leikið meira og minna nær ár hvert. Er fyllilega óhætt að telja Guðlaug Hansson einn hinna styrkustu máttarstólpa leikflokka í Eyjum fyrr á árum, þeirra, sem ekki voru bundnir hinu eiginlega Leikfélagi Vestmannaeyja, eftir að það var stofnað.
Finnur Sigmundsson, Uppsölum, virðist hafa tekið að sér Grasa-Guddu af Guðlaugi Hanssyni, og leikið mjög vel að allra dómi.
Á árunum 1896—98 lék Jóhanna Jónsdóttir, er varð kona Jóns Filippussonar, í „Neyddur til að kvongast“ og „Tólfkóngavitinu“. Þau Jón léku einnig í Skugga-Sveini 1898, en fóru vestur um haf 1902 (leiðr.). Var það mikill hnekkir leikflokknum, því að bæði höfðu verið mjög góðir leikkraftar.
Síðustu hlutverk þeirra voru í „Kaupmannsstrikinu“ 1900—1901 í húsinu „Kumbalda“.
Á árunum 1896—97 er sagt, að leikin hafi verið í Gúttó og á vegum st. Báran nr. 2 tvö leikrit. Hét það fyrra „Þá er ég næstur“ eða „Sá næsti“, en hitt nefndist „Óskin“. Ekki veit ég um höfunda þessara leikrita og hefi ekki heldur getað fengið upplýst, hverjir fóru þar með hlutverkin. Sennilega hafa þetta verið ein- eða tví-þáttungar, sýndir á skemmtunum stúkunnar, og trúlega af félagsfólki hennar.
Jón Jónsson frá Hlíð þótti gera Teiti stúdent sérlega góð skil. Hann hafði góða framsögn, söng mjög laglega og lék í fjölda leikrita hér í Eyjum. Hann var lágur vexti, vel þrekinn og hreyfingar utan sviðs og innan léttar og óþvingaðar.
Árið 1898-99 tóku nokkrir menn sig saman um að leika Skugga-Svein Matthíasar Jochumssonar. Hann hafði þá verið leikinn víða um landið og hlotið góða dóma, efnið ramm íslenzkt, fallegir söngvar og ljóð, sem hreif fólkið. Þessi leikflokkur var viss um að geta komið leikritinu upp hér. Þar eð þetta var öðrum fært víðsvegar um meginlandið, hlaut það að vera hægt hér líka. Almenningi þótti mikið í ráðizt vegna kostnaðar og erfiðra aðstæðna á mörgum sviðum. En menn hér vildu leika og leggja á sig mikið erfiði til þess að vel mætti takast.
Æft var af mesta kappi um haustið og allt undirbúið sem bezt mátti verða. Helztu leiðbeinendur voru þeir sviðvönustu, svo sem Gísli Lárusson, Jón Einarsson, Garðsstöðum, og Einar Jónsson mormóni.
Sýningar hófust og tókust ágæta vel. Vakti leikritið almenna ánægju og meðferð leikenda sérstaka hrifningu. Sáu margir leikinn tvisvar og sumir oftar, jafnvel þrem og fjórum sinnum, og höfðu alltaf jafn gaman af.
Hlutverkaskipan var þessi:
Skugga-Sveinn, Jón Filippusson, Dalbæ.
Ketill skrækur, Jón Einarsson, Garðsstöðum.
Lárenzíus, Guðjón Jónsson, Oddsstöðum.
Sigurður bóndi, Einar Jónsson, mormóni.
Helgi stúdent, Guðlaugur Hansson, Litlabæ.
Grímur, Þorsteinn Sigurðsson, Fögruvöllum.
Grasa-Gudda, Guðlaugur Hansson, Litlabæ.
Haraldur, Gísli Lárusson, Stakkag.
Smala-Gvendur, Guðjón Guðjónsson, Sjólyst.
Manga, Sigríður Jónsdóttir, Garðsst.
Ásta, Jóhanna, kona Jóns Filippussonar.
Jón sterki, Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum.
Hróbjartur, Jón Einarsson, Garðsst.
Ögmundur, Ólafur D. Sigurðsson, Strönd.
Galdra-Héðinn, Jón Filippusson, Dalbæ.
Grani og Geir, ?

Þegar þetta leikrit var sýnt, hækkuðu aðgöngumiðar upp í kr 1,50 og þótti þá mjög dýrt að fara á leikinn. Ólöf í Byggðarholti sagðist aldrei hafa heyrt jafnvel sungið í hlutverki Ástu eins og í þetta skipti, er Jóhanna, kona Jóns Filippussonar, lék hana. „Hún söng yndislega og minnti mig á sveitastúlku, sem söng yfir ánum sínum úti í guðsgrænni náttúrunni, svo frjáls og óþvinguð.“ Þannig sagði Ólöf. Hún sá leikinn fjórum sinnum og skemmti sér alltaf jafn vel.
Leikritið var leikið 7 sinnum við feikimikla aðsókn. Fólki hér fannst margir leikaranna skila hlutverkum sínum með mestu prýði t.d. Skugga-Sveinn, Ásta, Lárenzíus, Haraldur, Ketill, Smala-Gvendur og Grasa-Gudda. Sumir leikaranna voru orðnir nokkuð sviðsvanir t.d. Gísli Lárusson, Jón Einarsson, Einar Jónsson, mormóni, Guðlaugur Hansson. Jóhanna, kona Jóns Filippussonar, þótti leika og syngja með afbrigðum vel. Var lengi til þess vitnað, hve Ásta og Haraldur hefðu verið vel leikin. Þeir, sem léku Skugga-Svein og Lárenzíus, höfðu sýnt alveg frábæra leikhæfni, ásamt þeim Einari mormóna í Sigurði í Dal og Guðlaugi Hanssyni í Grasa-Guddu. Stúdentarnir höfðu líka sungið mjög fallega og leikur þeirra verið góður. Leikritið var leikið í Gúttó. Sumir vildu heldur horfa á sjónleiki þar en í Kumbalda. Fannst Gúttó hlýlegra, þó minna væri, og ef til vill einmitt þess vegna var það hlýrra. En aðstæður voru þar sem í Kumbalda mjög erfiðar til leiksýninga. Gúttó var oft teppt vegna annarra skemmtana og mannfunda, en þó var biðin eftir því til leiksýninga oftast ekki löng.

Magnús Guðmundsson bóndi á Vesturhúsum og formaður. Myndin er tekin um það bil, sem hann lék Jón sterka í Skugga-Sveini.

Stúkan notaði sjálf húsið mikið, bæði til leiksýninga og skemmtana auk fundahalda.
Um þessar mundir var mikill áhugi fyrir leiklist hér og leikið í öllum húsum eftir því sem á stóð, Gúttó, Kumbalda og Tangahúsinu. Aðsókn var góð að leiksýningum, enda þótt um einhverjar aðrar skemmtanir væri að ræða, t.d. fyrrnefndar fiskimanna- og fuglamannaveizlur, brúðkaupsveizlur o.fl. á hinum ýmsu tímum ársins. Þær skemmtanir voru að sjálfsögðu með allt öðrum hætti og þá ekki allar beinlínis leið til menntunar, heldur gleðiveizlur, þar sem Bakkus gamli var í hávegum hafður.
Það var, að sögn Jóns Jónssonar, mjög nálægt aldamótunum, að leikrit var sýnt hér, sem hét „Sálin hans Jóns míns“. Leikritið hafði verið gott og vel sótt. Það var leikið í Tangahúsinu og að hann minnti fastlega árið 1899 eða 1900. Þá hefðu leikið Gísli Lárusson, Jón Einarsson, Jón Jónsson, Ásdís Gísladóttir, Guðlaugur Hansson, Edvard Frederiksen, Guðrún Þorgrímsdóttir og Þorsteinn Sigurðsson. Þá hélt Jón, að leikritið „Kaupmannsstrikið“ hefði verið sýnt í Kumbalda 1900—1901, en „Veðsetti bóndasonurinn“ eftir Holberg, 3 þættir, haustið 1902 og fram yfir áramótin. Þá hafði Magnús á Vesturhúsum leikið aðalhlutverkið og gert það af mestu snilld. Annars hefðu verið mestmegnis sömu leikendur sem að undanförnu, t.d. léku Jón Filippusson og Jóhanna sín síðustu hlutverk þá í Kaupmannsstrikinu. Hann sagði, að nokkru síðar, (aðrir 1904 um haustið), hefði verið leikið „Tólfkóngavitið“ af sama fólkinu, en þó með einhverjum breytingum, og þá leikið í Tangahúsinu. Nýir leikarar hefðu þá verið með, t.d. Lára Guðjónsdóttir á Kirkjubæ, sem hefði leikið tvö hlutverk, kvenhlutverk og svo einn kónganna, Jón Jónsson lék þá að sjálfsögðu Teit stúdent, einn kónganna. Þá sagði hann og, að Sigfús M. Johnsen hefði leikið í „Tólfkóngavitinu“, auk hinna fyrri. Sigfús M. Johnsen lék í fleiri leikritum t.d. í leikriti eftir Pál J. Árdal árið 1905—06. Ekki mundi hann nafn leikritsins, en þar hefði verið söngur mikill, elskendaatriði, glens og gaman. (Sögn hans 1961). (Ummæli Jóns staðfesti Lára Guðjónsdóttir 1961, að væru rétt).
Í leikritinu „Brandur“ lék Jón ásamt Júlíönu Sigurðardóttur, Nýborg, 1903—04. Mun það leikrit ekki vera Brandur eftir Ibsen, heldur mun höfundur vera Geir Vídalín. Þetta hefir Júlíana staðfest að væri rétt. Leikritið hefði ekki verið skemmtilegt, en þó hefði verið allgóð aðsókn að því, því að fólk var mjög hrifið af hverskonar leiksýningum. Hún sagði einnig, að Jón hefði verið ágætur leikari, öruggur, viss og skemmtilegur á sviðinu. (Samkv. samtali við Júl. Sig. 1955).
Skömmu eftir að Brandur var leikinn, var sýnt lítið leikrit, einþáttungur, er hét „Annarhvor verður að giftast“, og annað stutt, er nefndist „Misskilningurinn“. Þau voru bæði leikin á vegum stúkunnar. Ekki veit ég um höfunda að þessum leikritum, og verkefnaskiptingu hef ég ekki heyrt talað um, svo að víst sé, en þó verið minnzt á Gísla Lárusson, Erlend Árnason, Jón Jónsson og Jónínu Jónsdóttur. Um þetta verður þó ekki sagt með vissu. Sumir hafa sagt, að þessi leikrit hafi ekki verið á vegum stúkunnar, heldur leikflokksins.
Um sama leyti, líklega um vorið 1903, lék leikflokkurinn leikritið „Kvöldið fyrir kóngsbænadaginn“. Það er í einum þætti og mun vera eftir S. Neumann. Sagt er, að þá hafi leikið Gísli Lárusson, Guðjón Guðjónsson, Ásdís Gísladóttir Johnsen — þó ekki fullvíst — Guðlaugur Hansson og Guðrún Þorgrímsdóttir. Leikritið var sýnt í Kumbalda við góðar undirtektir leikhússgesta og sýnt 3—4 sinnum.
Árið 1903—04 voru sýndir hér „Vesturfararnir“ eftir Matth. Joch. Sú sýning var í Kumbalda. Þar lék Gísli Lárusson séra Gabríel og þótti skila því hlutverki mjög vel. Í þessu leikriti lék einn nýliði m.a. Það var Björn Erlendsson í Gerði. Sagt er, að hann hafi gert sínu hlutverki sérlega góð skil, og leikið ótrúlega vel, þar eð hann hafði aldrei áður komið á leiksvið. Á sama leikári (1903—04) var ráðizt í að leika „Jeppa á Fjalli“ eftir Holberg, leikrit í 4—5 þáttum. Snaraði Jóh. Þ. Jósefsson leikritinu á íslenzku og var leikið eftir þeirri þýðingu og góðum leiðbeiningum hans. Var mikil aðsókn að sýningunum á Jeppa og þótti með ágætum eftir atvikum, bæði leikur fólksins og öll útfærsla. Guðlaugur Hansson lék Jeppa, en Jón Einarsson lék Nillu konu hans. Jón í Hlíð Jónsson lék ráðsmanninn og Jakob skóara. Konu ráðsmannsins lék Guðrún Þorgrímsdóttir. Baróninn lék Edvard Frederiksen og bústjórann Gísli Lárusson. Einhverjir léku þar fleiri. Ekkert er vitað, hver lék Eirík o.fl. Jón í Hlíð átti þarna ágætan leik í tveim hlutverkum, sennilega hans beztu hlutverk fram að þeim tíma. Hvíslari var Þorsteinn Johnson, Jómsborg, og aðstoðarmaður á leiksviðinu. Jeppi var sýndur í „Kumbalda“. Þessi þýðing Jóhanns Þ. Jósefssonar á Jeppa á Fjalli mun nú með öllu glötuð. (Sögn Fríðar Lárusdóttur og Þorsteins Johnson).
Um áramótin 1904—05 var svo sami leikflokkur á ferðinni með leikrit eftir Hostrup. Það var „Þrumuveðrið“ (5 þættir), sem var leikið í Gúttó. Einnig var þar Þorsteinn Johnson hvíslari og aðstoðarmaður á sviðinu. Hann framleiddi þrumuveður með því að hringla baunum í dósum og varð af því feikna gauragangur. Hann lék ekkert hlutverk og mundi ekki hlutverkaskipan, en sagði, að það hefði verið flest sama fólkið, sem lék í Jeppa fyrst á árinu. Þó var nú Lára Guðjónsdóttir á Kirkjubæ með í Þrumuveðrinu. (Sögn Þorst. Johnson 1958). Það mun hafa verið 1903—04, að „Hermannaglettur“ eftir Hostrup voru sýndar í „Kumbalda“, og var það í fyrsta skipti, sem það leikrit var sýnt í Eyjum, að því er vitað verður. Þá er sagt, að leikið hafi þar Júlíana Sigurðardóttir, sem lék Emelíu, Jóhann Þ. Jósefsson, Edv. Frederiksen, Gísli Lárusson, Guðlaugur Hansson og Jón Einarsson. Leikritið var leikið nokkrum sinnum í Kumbalda við góða aðsókn, enda er það bráðskemmtilegt, þó stutt sé.
Tveim árum síðar var leikrit þetta endurtekið en nokkuð breytt hlutverkaskipan. Leikritið hefir átt góðum viðtökum að fagna hér, og því merkilegra, hvað langt er síðan „Hermannagletturnar“ hafa verið túlkaðar fyrir almenningi. (Sjá síðar).
Margir voru þeir, er heldur vildu sjá sjónleik í Kumbalda en Gúttó og Tangahúsinu. En Kumbaldi var sem kunnugt er eitt af verzlunarhúsum Brydes verzlunar, og að þess tíma mati bezta leikhúsið. Leiksviðið var rúmt, sett upp og tekið niður eftir vild. Það var við vesturgafl hússins. Sætin þóttu góð, en voru reyndar baklausir bekkir, komið fyrir á búkkum. Til skamms tíma sáust á innri vegg salsins stórir, rauðir tölustafir. Í beinni línu frá tölunum, voru bekkirnir og sýndu tölurnar röð þeirra. Aftast í húsinu voru þessar tölur nokkuð hærra upp á veggnum, en því olli, að aftast í húsinu voru bekkirnir hækkaðir upp.



MYND AF KUMBALDA, austurstafn og suðurhlið.
Hann stóð 8—9 metrum vestan við Austurbúðina. Upprunalega voru þar tvö hús, en Kumbaldi síðan byggður úr þeim báðum.
Suðurhluti hússins var notaður til geymslu á þurrfiski á sumrin. En er dönsku verzlunarskipin höfðu tekið fiskinn til útflutnings síðari hluta sumars, var tekið til að undirbúa húsið fyrir leiksýningar.
Salt var geymt árið í kring í norðurhluta hússins.
Kumbaldi brann til kaldra kola aðfaranótt 8. jan. 1950.



Það var kostur við Kumbalda, að leikfólkið gat nær undantekningarlaust æft þar, ef það hentaði bezt, og ávallt á leiksviðinu. Húsið var laust, sem fyrr segir, og tekið til nota á haustin, eftir að búið var að tæma húsið að afurðum verzlunarinnar. Er þetta meira og betra en hægt er að segja um aðstöðu til leikæfinga nú hjá L.V., sem helzt aldrei kemst á leiksvið til æfinga nema annaðhvort að nóttu til eða í hæsta lagi einu sinni eða tvisvar fyrir frumsýningu hvers leikrits. Kumbaldi var á sínum tíma bezta samkomuhús þorpsins fyrir veizlur og dans og leiklist. Við hann átti margur Eyjamaður og Eyjakona eflaust tengdar margar ánægjulegar skemmtistundir, ekki sízt frá hinum fjölmörgu og stóru brúðkaupsveizlum, er þar voru haldnar. Þá var stundum margt um manninn, boðsgestir inni, áhorfendur úti og líf og fjör í Kumbalda. Eftir að Gúttó komst upp, voru þar að sjálfsögðu haldnar veizlur og leiksýningar, dansskemmtanir o.fl., en goodtemplarastúkan hafði sjálf mikla þörf á húsi fyrir eigin skemmtanir, fundarhöld o.fl., a.m.k. fyrstu árin. Og allt til 1907—1908 var ávallt erfiðleikum bundið að fá húsið til skemmtana, sérstaklega á haustin. Stúkan starfaði mikið t.d. að leiksýningum og öðrum skemmtunum, svo að þetta var eðlilegt. Þó komust leikflokkarnir oftast biðlítið að húsinu og gátu æft og leikið þar. Kom þar til greina tilhliðrunarsemi og velvild til leiksýninga. Það er vart hægt að hugsa sér þá feikna erfiðleika, sem yfirleitt voru samfara leiksýningum hér í þorpinu, meðan svo að segja allt var á frumstigi, og það allt fram á annan tug 20. aldarinnar. Þó að Kumbaldi t.d. væri allgott hús og stórt, þá var hann þó frumstætt hús til leiksýninga. Það kostaði mikinn tíma og erfiði að hreinsa húsið á haustin og koma þar öllu í gott horf, svo að hægt væri að hefja þar leikstarfsemina. Bekkir voru, sem fyrr greinir, engir sérstakir til, svo að búa varð þá til úr sterkum borðviði og byggja undir þá. Þeir voru vitanlega baklausir, annað þekktist ekki, og þótti þó gott. Þá var birtan t.d á leiksviðinu ærið vandamál, lýsing salsins og svo auðvitað leiksviðið sjálft. Það var svo til gert, að slegið var upp stórum trépalli inni við vesturgaflinn, en fyrir sýningartjald, þ.e. sviðstjald, var notað stórskipasegl, sem rann í blökkum. Ljósin voru fyrst eflaust kerti eða kolur, en síðar litlir lampar, sem komið var fyrir bak við svonefnt ljósabretti, en það var gert af tveim borðum, sem negld voru saman og lágu á rönd fremst á sviðinu, pallinum. Í loftinu var og lampaljós, eftir að þeir komu til sögunnar, svo að hvort tveggja ljósin lýstu furðanlega inn á sviðið.
Er tímar liðu, stækkuðu lamparnir í loftinu og birtan varð meiri og betri. Við leiksviðsskipti varð að láta sviðsútbúnaðinn, striga- eða seglafleka og annað, undir sviðið og var oft óhægt um vik í þessu efni. Fyrst var erfitt og helzt ekki hægt að fá striga, en þá var bjargazt við segl o.fl. Engir voru heldur, er kunnu raunverulega að útbúa leiksvið, en þetta bjargaðist við hagsýni og framtak leikendanna, sem töldu ekkert erfiði eftir sér. Smiðir voru hér fáir, en þeir lögðu sannarlega hönd á plóginn eftir því sem við var komið. Verzlunarþjónar Brydes verzl. voru mjög hjálplegir um eitt og annað, er að leiksýningum laut, og hafa eflaust sumir þeirra verið leiklist kunnir t.d. frá Danmörku og vitað deili á mörgu haganlegu varðandi leiksýningar. En þrátt fyrir alla erfiðleika var samt leikið í Kumbalda fram til 1908—1909 við batnandi aðstæður, eftir því sem tímar liðu. Líklega hefir það verið allsnemma, að bekkir voru tölusettir og samsvarandi númer sett á „bílætin“ eins og aðgöngumiðarnir hétu þá. Munu þeir dönsku a.m.k. hafa kunnað betur við, blessaðir, að hafa sín sérstöku sæti og þurfa ekki að lenda í troðningum við sauðsvartan almúgann. Tölusetningu bekkja hafa þeir eflaust tekið upp að dönskum hætti. Mér finnst rétt að minnast með nokkrum orðum á Kumbalda, gefa fólki nokkra hugmynd um það, hvernig húsið leit út t.d. 1904. Hinsvegar sýnir myndin hvernig það leit út fyrir þann tíma. (Sjá bls. 325).
Líkt fyrirkomulag var í Gúttó t.d. um lýsingu og sætaskipan. Leiksviðið var í austurenda salarins, mjög þröngt, og var þar erfitt umferðar bak við tjöldin, svo að naumast var hægt að renna sér á rönd milli sviðsflekanna og útveggja. Tveir gátu helzt ekki mætzt þar, nema faðmast eða renna sér a.m.k. mjög náið hvor meðfram öðrum. Undir leiksviðinu var kjallari til geymslu á ýmsu dóti, en í hann varð ekki komizt nema á einn veg úr salnum. Þar var lúga allstór, sem hurðir voru fyrir. Fremst á sviðinu var hvíslaragatið og skermur (hlíf) yfir, sem var opinn inn á sviðið. Stóð hvíslarinn á kassa í fyrrnefndum kjallara og náði þá höfuð hans upp í skerminn. Þarna niðri var kalt og óvistlegt og vitanlega mýs og kettir á sveimi, svo að snemma var hvíslaragatið aflagt. Neituðu menn og konur að hafast þar við. Tók hvíslarinn sér síðan stöðu fyrir sitt mikilvæga starf fremst til hliðar öðruhvorumegin leiksviðisins. Þó var hann oftast norðanmegin, en hagaði sér nokkuð eftir stöðu leikenda á sviðinu.
Í loftinu fyrir ofan leiksviðið var snemma olíulampi með hvítum lausum glerplötum, er mynduðu skerminn, og lýsti lampinn alveg upp leiksviðið. Hann krafðist hinsvegar allmikillar aðgæzlu vegna eldhættu. Í loftinu voru líka svonefndar „cellosiur“ þ.e. léreftslengjur, 5 eða 6 talsins, sem strengdar voru á rönd þvert yfir leiksviðið. Þær gerðu ókleift að sjá upp í rjáfur leiksviðsins utan úr sal. Ljósbrettið var svo fremst á sviðinu, en bak við það voru staðsettir 10—12 litlir olíulampar, 8 eða 10 „brennarar“, sem lýstu inn á sviðið. Það voru nefnd fótaljós.
Þess utan voru hliðarljós, sem lýstu inn milli t.d. útisviðsflekanna. Öll þessi lampaljós þurftu mikillar aðgæzlu við vegna eldhættu, þar eð húsin voru úr timbri en sviðsflekar úr dúk eða striga. Þegar húsið fór að fyllast af áhorfendum og loftið í húsinu tók að versna, þurfti alltaf að vera að skrúfa niður í lömpunum. Þeir vildu alltaf ósa. Þetta þarfnaðist þessvegna mikillar aðgæzlu.
Síðar komu hin svonefndu gasljós (carbidljós) til notkunar og bætti það mjög um lýsingu. Þau lýstu mjög vel og þörfnuðust lítillar aðgæzlu. Þau voru handhæg og fyrirferðarlítil. Slík ljós voru einkum notuð sem loftljós og hliðarljós, en fótaljósin voru eftir sem áður olíulamparnir litlu, sem áður getur. Þeir voru stundum nefndir skjögtlampar eða skröltlampar. Voru þeir í mikilli notkun hér t.d. í eldhúsum heimilanna, beituskúrunum við höfnina og aðgerðarhúsum, áður en bærinn varð raflýstur.
Sérstakir menn gættu venjulega ljósanna en unnu þó að öðru varðandi leiksviðið. Niður af því til norðurs voru tröppur í búningsherbergið. Það var lítið og þröngt, ef margir leikendur voru, en sæmilegt fyrir 5 eða 6 manns. Þarna urðu samt stundum 12 til 15 menn og konur að kúldast, klæða sig í föt og úr þeim, farða sig og útbúa á allan hátt til leiksýninga, jafnt karlmenn sem kvenmenn. Varð þarna stundum þröng mikil t.d. um farðakassann, aðeins einn handa öllum, og öllum lá mikið á að gera gervi sitt og klæðast leikskrúðanum. Tíminn var oft ekki mikill til umráða, þar til leikandinn átti að byrja á sviðinu.
Um andlitsförðun og gervigerð sáu þeir snemma Einar Jónsson, mormóni, Gísli Lárusson, Edvard Frederiksen, Halldór Gunnlaugsson læknir, A.L. Petersen, Karl Gränz, Bjarni Björnsson, leikari, Engilbert Gíslason o.fl. Snemma urðu þeir og góðir gervismenn Árni og Georg Gíslasynir frá Stakkagerði, Ólafur Ottesen o.fl., eftir að L.V. hafði verið stofnað. Seinni tíma gervismanna mun ég geta um síðar. Það þótti framför, er skápar voru settir á veggina, þar sem leikfólkið gat geymt hið margvíslega, er það þurfti með til leiks, svo sem hárkollur, skegg, lím, flibba og slaufur, hatta og húfur o.fl. Þá var og tekinn upp sá siður, að hver leikandi fékk litarskrín eða bauk og létti það mikið þrengslin, að þurfa ekki að þyrpast að einum farðakassa.
Hver maður varð að bera ábyrgð á sínu smádóti og sjá um, að allt væri á sínum stað, er til þess þurfti að taka. Því skipulagi kom A.L. Petersen á. En þrátt fyrir ströng fyrirmæli hans og lagasetningar um þetta, vildi verða misbrestur á þessu, er galsi og gleðskapur greip leikendurna.
Gat þá orðið nokkur háreysti, er ýmislegt vantaði, því að margir spurðu í einu t.d. líkt og í Kardimommubænum: Hvar er flibbinn minn? Hvar er frakkinn minn? Hvar er flaskan, sem á að geyma vínið mitt? Hvar er hárkollan? Hvar er hatturinn, hvar er hanzkinn, sem átti að vera í vasanum? Hvar er slaufan mín? Hvar er stafurinn? Hvar er spegillinn, sem átti að vera í töskunni? Ég er viss um, að það var hér allt í gær.
Já, þessu líkt gekk það í búningsherberginu. Þeir hlupu þar um, sviðsmennirnir. Það vantaði hamar, sög eða nagla. Þeir þurftu að rogast í gegnum búningsherbergið með sviðsfleka og margskonar hluti, sem upp þurfti að komast í flýti.
Í þessu litla búningsherbergi varð oft að geyma sviðsfleka, sem þá voru nærtækir. Ekki var þó hægt að hafa þar nema 4—5 mjóa útisviðsfleka, er reistir voru upp á endann og lagðir upp að veggnum. — Lýsing í búningsherberginu var áþekk og á sviðinu en þó vitanlega miklu minni, eitt loftljós og 2—3 litlir olíulampar.
Um rýmið bætti það mikið, að vestur úr búningsherberginu var milliherbergið svonefnda. Úr því var gengið inn í stóra salinn til suðurs og búningsherbergið til austurs. Nyrzt mót austri voru á herberginu útidyr og þar tröppur niður á hólinn, sem Gúttó stóð á. Úr milliherberginu til vesturs voru dyr inn í eldhúsið, en það var áfast við veitingasalinn, sem var reistur norðan við stóra salinn með milligangi á miðjum vegg hans.
Þannig leit þetta út eftir að síðasta breytingin var gerð á Gúttó. Fyrst var Gúttó aðeins einn salur, en allörar breytingar voru gerðar á því með árunum.
Þegar leikið var og sviðsskiptingar ef til vill 3—5, þurfti að hafa alla sviðsfleka í röð og þá fleka nærtækasta, sem fyrst skyldi nota, eftir því sem hægt var, vegna þrengsla í búningsherberginu, milliherberginu og jafnvel úti við bakdyrnar. Strax, er eitthvert sviðið var fullnotað að flekum o.fl. varð að láta allt úr því framfyrir í milliherbergið, út um bakdyrnar eða, ef ekki voru veitingar í litla salnum, þá þangað inn.
Það var mikil hjálp í þrengslunum, ef engar voru veitingar í veitingasalnum (norðursalnum).
Eftir að L.V. var stofnað (1910), voru bekkir tölusettir og öll sæti. Fyrst voru bekkirnir beinir í bakið með einni bakfjöl, en síðar var skipt um þá og bekkir smíðaðir með hallandi vel háu baki og rimlaðir. Það var mikil framför. Þá voru eldri bekkirnir notaðir handa börnum, lausabekkir og hliðabekkir. Bekkir náðu alveg inn að leiksviðinu og voru 3 þeir fremstu barnabekkir.
Ég held, að Gúttó hafi rúmað um 140 manns í sæti. Var oft hvert sæti skipað, settir upp aukabekkir meðfram norðurhlið salsins og oft stóðu margir vestan dyra veitingasalsins allt fram að aðaldyrum stóra salsins mót vestri. Inn í aðalsalinn var gengið vestan frá úr forstofunni, en úr henni voru einnig dyr inn í veitingasalinn. Þar var einnig lítil kompa, þ.e.a.s. í forstofunni norðanmegin, sem notuð var til miðasölu. Syðst í forstofunni var herbergi, sem notað var fyrir geymslu á ýmsum munum, sem húsið átti. Þar voru og á sínum tíma sýningarvélarnar, er Þorsteinn Johnson hafði kvikmyndasýningar í Gúttó, sem ég mun aðeins minnast á hér á eftir. Innst norðanmegin í stóra salnum voru dyr upp á leiksviðið og dyr inn í milliherbergið.
Í austurhorni salarins var stór kolaofn, sem hitaði upp salinn. Var hann oft vel kyntur og veitti ekki af, því að yfirleitt var húsið kalt.
Þegar leikið var á hljóðfæri undir sýningum t.d. orgelharmoníum, sem lengst af var notað, stóð það norðan megin í salnum eða fyrir neðan leiksviðið. Síðar stóð svo slagharpan rétt hjá ofninum vegna hitans, flutt svo aftur norður að vegg, þar sem sérstakur klefi var gerður fyrir hana.
Fortjald leiksviðsins var málað af Bjarna Björnssyni, leikara, og Karli Gränz, trésmíðameistara, 1913—1914. Á því var máluð mjög stór mynd af Heimakletti og umhverfi, máluð í steingráum lit. Það var dregið upp þannig, að það vafðist um tréás, en var ekki dregið til hliðar. Hvernig fyrri tjöld í Gúttó hafa verið, virðist nú enginn muna lengur. Síðar kom svo fagurrautt klæðistjald fyrir leiksviðið, sem dróst upp í fögrum fellingum. Það var í notkun þar til Gúttó var rifið 1936.


III. hluti

Til baka