Blik 1962/Saga Bókasafns Vestmannaeyja, VI. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1962HARALDUR GUÐNASON:


Saga Bókasafns Vestmannaeyja


(Lestrarfélag Vestmannaeyja — Sýslubókasafn — Bæjarbókasafn)


1862-1962
(6. hluti)ÞRÖNGT Í BÚI.
1931—1941.


Hallgrímur Jónasson lét af bókavarðarstarfinu á miðju ári 1931 og flutti úr bænum. Umsækjendur um starfið voru nú 10; var það veitt Steingrími Benediktssyni á bæjarstjórnarfundi 5. jan. 1932. Ágúst Árnason kennari starfaði í safninu til þess tíma. Hann var og einn umsækjenda og hlaut einu atkvæði færra en Steingrímur.

Steingrímur Benediktsson.

Steingrímur Benediktsson er fæddur á Sauðárkróki 20. maí 1901. Hann hafði lokið búfræðiprófi, en dvaldi síðar við nám í Noregi. Hann lauk prófi frá Kennaraskólanum vorið 1934. — Steingrímur hefur tekið mikinn þátt í opinberum störfum, m.a. verið formaður Kaupfélags Vestmannaeyja um langt árabil. Þá hefur hann staðið í fremstu röð í kirkjulegu starfi og á sæti á kirkjuþingi. Steingrímur hefur verið kennari í Eyjum síðan 1934 og tvisvar settur skólastjóri.
Nú var kreppa í landi og illa komið hag almennings og opinberra stofnana. Sjaldan mun jafn lítið hafa fengizt fyrir jafn marga fiska og Eyjamenn fluttu á land 1930 og næstu ár. Áhrifa þessa ástands gætti lengi. Þessi krepputíð kom harkalega við bókasafnið. Framlag bæjarins var lækkað úr 4 þús. kr. í 3.300 eins og áður hafði verið, og var raunar sjaldan greitt að fullu. Ríkisstyrkur var mismunandi á þessum árum, 400—1.000 kr. Bókaútgefendur drógu saman seglin. Bókakaup safnsins minnkuðu stórum, voru frá 500 kr. á ári til 1.200 kr. Heildartekjur safnsins voru hæstar árið 1933, 4.241 kr. 65 au. — Safnið var um þessar mundir opið til útlána þrisvar í viku kl. 8—10 á kvöldin og lesstofa opin önnur þrjú kvöld í viku á sama tíma.
Á árinu 1932 unnu þeir Steingrímur bókavörður og Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri að könnun á safninu og nýrri bókaskrá, sem prentuð var í Eyjum 1933. Skráin er 80 bls. í litlu broti. Bókaflokkar eru þar 20. Raðað er eftir bókanúmerum en ekki stafrófsröð. Skráð eru nöfn bóka og höfunda, en ekki útgáfuár. Bókaeign er þá sem næst 2.200 bindi.
Lánþegar voru allmargir, sum árin um 200. En bókakostur var allt of lítill. Þeir, sem höfðu verið lengi í safninu, voru löngu búnir að lesa það, sem þeir vildu lesa, en fátt nýtt bættist við. Þetta vandamál ræðir Steingrímur bókavörður í Víði 7, sept. 1934. Í greininni segir, að bókasöfn eigi að vera til gagns og sóma, en hér sé hvorugu til að dreifa, ef dæma megi eftir háværum óánægjuröddum almennings. Það sé að vísu rétt, að bókaskorturinn sé tilfinnanlegur; hann valdi því, að ekki sé unnt að afgreiða alla jafnóðum og þeir koma.
Enn víkur bókavörður að þessu sama efni í sama blaði 5. okt. 1935, í tilefni þess að nýtt útlánstímabil er að hefjast. Segir þar, að safninu fari hnignandi vegna fjárskorts. Telur bókavörðurinn, að helzt til mikið tómlæti um hag safnsins ríki innan bæjarstjórnar og meðal almennings.
Á öndverðu árið 1937 sagði Steingrímur Benediktsson af sér bókavarðarstarfinu. Var þá Þorsteini Einarssyni kennara falin bókavarzlan unz bókavörður væri ráðinn.

Sigurður Scheving.

Sigurði S. Scheving var veitt bókavarðarstaðan 5. nóv. 1937. Umsækjendur voru 11. Svo eftirsóknarvert þótti þetta starf þá; var þó lítið launað og lítt þakkað. — Sigurður er fæddur að Steinsstöðum í Vestmannaeyjum 9. apríl 1910. Hann lauk verzlunarprófi 1931, var ritstjóri Víðis um skeið og kaupfélagsstjóri. Bókavörður var hann frá 1937—42 og fleiri störf hafði hann með höndum. Sigurður var mikill áhugamaður um leikstarfsemi og formaður Leikfélags Vestmannaeyja nokkur ár. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1946. Hin síðari ár hefur hann verið forstjóri hraðfrystihúss í Ólafsvík.
Sigurður jók nokkuð bókakaup safnsins og þá helzt hin síðari ár, sem hann var bókavörður, enda fór þá sá tími í hönd, sem mjög breytti öllu viðhorfi til fjármála. Aðsókn að safnínu var allmikil og nýju bækurnar náðu skammt meðal margra, eins og oft er raunin á.
Í tíð Sigurðar átti bókasafnið merkisafmæli, varð 75 ára. Afmælisins minntist Sigurður bókavörður í grein í Víði 12. marz 1938: „Bókasafnið 75 ára.“ Raunar var afmælið ári fyrr, því stofnun lestrarfélagsins er lokið í júní 1862 og félagaskrá tilbúin, en útlán hófust ekki fyrr en haustið 1863 og mun Sigurður hafa tekið mið af því. Sigurður segir m.a. í grein sinni, að á þessum tímamótum í sögu safnsins væri vel viðeigandi, að saga þess yrði skráð, því að bókasafnið sé ein elzta menningarstofnun bæjarins og landsins. Nú þurfi því að gera það þann veg úr garði, er hæfi menningarhlutverki þess. Safnið þurfi að fá húsnæði í miðbænum, þar sem það geti verið eitt sér sem sjálfstæð menningarstofnun. Í greinarlok væntir bókavörðurinn þess, að bæjarstjórn sjái sér fært, að láta nokkuð af hendi rakna til afmælisbarnsins umfram það venjulega.
Saga safnsins var þó eigi skráð að því sinni og heldur fjarlægðist það miðbæinn. Hinsvegar var framlag bæjarins þetta ár hækkað um 500 krónur. — Tillaga kom fram um það, að hleypa af stokkunum svokallaðri bókaveltu til þess að auka bókakost safnsins, en mun ekki hafa komið til framkvæmda.
Skömmu eftir að Steingrímur Benediktsson tók við bókavörzlunni var safnið flutt í hús Önnu Gunnlaugsson við Miðstræti. Þar var safnið í einni stofu allstórri, en lesstofa var engin. — Á árinu 1936 er til umræðu í bókasafnsnefnd, að freista þess að fá annað og hentugra húsnæði. Á fundi nefndarinnar voru lögð fram tvö tilboð um leiguhúsnæði, frá Guðmundi Einarssyni í Viðey fyrir 450 kr. ársleigu og hitt frá Tómasi Guðjónssyni fyrir 1.300 kr. leigu. Húsnæði það, sem Guðmundur bauð, var talið allt of lítið og ekki heppilegt; í húsi Tómasar við Formannabraut væri hinsvegar ,,nægilegt rúm fyrir lesstofu og gott rúm til afgreiðslu.“ En engin ákvörðun var tekin að því sinni og safnið á sama stað enn um sinn.
Árið 1938 lagði bókavörður til, að húsnæðinu í Miðstræti væri sagt upp. Sama ár var lögð fram í skólanefnd teikning að nýju gagnfræðaskólahúsi eftir Ólaf Á. Kristjánsson. Þar var gert ráð fyrir, að bókasafn bæjarins yrði til húsa. Þó var horfið frá því ráði; mun hafa skort nægilegt húsrými er til kom, enda staðurinn ekki sem heppilegastur fyrir bókasafnið.
8. júní 1938 lá enn fyrir tilboð frá Tómasi Guðjónssyni um húsnæði fyrir sömu ársleigu og í hinu fyrra tilboði. Þá lá ennfremur fyrir tilboð frá félaginu Akóges um leigu á tveim herbergjum handa safninu fyrir 1.200 kr. ársleigu og breytingu á innréttingu eftir samkomulagi. Tilboði Tómasar var tekið og safnið flutt í hús hans árið 1939.
Bókagjafir stórar voru safninu sendar á því tímabili, er hér um ræðir. Til eru alls 8 bindi ljósprentaðra fornrita íslenzkra, er Einar Munksgaard gaf safninu á árunum 1931—42.
Bókasafnsnefnd 1931—41 skipuðu eftirtaldir menn: 1932 áttu sæti í safnstjórn þeir Halldór Guðjónsson skólastjóri, Ágúst Árnason kennari og Jóhann Þ Jósefsson alþm. Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri var í stjórninni 1933—34; Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarstjóri 1933—38; Páll Kolka læknir 1933—34; Haraldur Bjarnason stúdent 1935—38; Karl S. Jónasson læknir 1935 (flutti úr bænum það ár; Sigfús V. Scheving kosinn í hans stað); séra Jes A. Gíslason 1936—38; Loftur Guðmundsson 1939—40; Sigurður Guttormsson bankaritari, Ástþór Matthíasson verksmiðjueigandi og Páll Þorbjörnsson skipstjóri 1940—41.


BATNANDI HAGUR.
1942—1962.


Séra Jes A. Gíslason var ráðinn bókavörður 7. júlí 1942. — Séra Jes var fæddur í Vestmannaeyjum 28. maí 1872. Faðir hans var Gísli Stefánsson kaupmaður og útvegsbóndi í Hlíðarhúsi, kunnur borgari og mætur. — Jes varð stúdent 1891 og cand. thel. 1893 með I. einkunn.

Séra Jes A. Gíslason.

Kennarapróf tók hann árið 1929. Hann var barnakennari í Austur-Landeyjum 1893—95, en verzlunarstörf stundaði hann í Hafnarfirði 1895—96. Vorið 1896 vígðist Jes til Eyjafjallaþinga og bjó að Eyvindarhólum. Árið 1904 gerðist hann prestur Mýrdælinga, en lausn frá prestsskap fékk hann árið 1907. Mun þar hafa mestu um ráðið, að séra Jes festi aldrei yndi utan Vestmannaeyja. Frá 1907—1929 starfaði sér Jes við verzlun Gísla J. Johnsen, síðari árin var hann verzlunarstjóri. — Árið 1929 hóf séra Jes kennslu við barnaskólann í Eyjum.
Séra Jes voru falin mörg trúnaðarstörf um ævina. Hann átti sæti í sýslunefnd Rangárvallasýslu og bæjarfulltrúi í Eyjum var hann í 6 ár, átti sæti í stjórn ekknasjóðs, bókasafnsstjórn o.fl.
Séra Jes var fræðimaður; einkum var hann gagnkunnugur sögu Vestmannaeyja. Skráði hann margt um sögulegt efni í blöð og tímarit, en margt mun óprentað.
Séra Jes var bókavörður 1942—49. Störf sín í safninu leysti hann af hendi með stakri samvizkusemi. Hinsvegar efldist bókakostur þess ekki sérlega mikið í hans tíð. Hann hagaði störfum líkt og forsjáll bóndi, sem hirðir vel bú sitt, en ræðst ekki í stórvirki, enda var hann maður hniginn að aldri, er hann hóf bókavörzluna. — Séra Jes sagði af sér bókavarðarstarfinu með bréfi dags. 7. júlí 1949. Var honum þá orðið mjög óhægt um starfið vegna sjóndepru, sem ágerðist. Hafði hann, er hér var komið, starfað í þjónustu bæjarfélagsins í 20 ár, en þau störf hóf hann, er hann skorti þrjú ár í sextugt.
Í október 1949 var Haraldur Guðnason ráðinn bókavörður. Hann er fæddur að Hildisey í Austur-Landeyjum árið 1911. Árin 1941—49 var hann umsjónarmaður Bókasafns Einars Sigurðssonar, sem þá var álíka stórt og bæjarsafnið. Safn þetta lánaði starfsfólki Einars bækur til heimalesturs.
Árið 1958 var samþykkt í bæjarstjórn, að bókavörður hefði safnvörzlu að aðalstarfi. Höfðu útlán aukizt um nær helming frá 1951 og tekið í notkun útlánakerfi, sem hafði í för með sér aukna vinnu, en óhjákvæmilegt, ef safnið skyldi fylgjast með tímanum og þróun safnmála í landinu.
Árið 1942 voru fjárráð safnsins aukin að mun. Voru veittar 5 þús. kr. til búnaðar í lesstofu og 3 þús. til bókakaupa. Næsta ár voru tekjur safnsins samtals kr. 18.437,00 að meðtöldum ríkis- og bæjarstyrk. 1944—45 er ætlað til bókakaupa 8.500 kr., en næstu þrjú ár 10.000 kr. Árið 1947 er á fjárhagsáætlun bæjarins kr. 28.200,00 til bókasafnsins, en 1949 er sami liður áætlaður 40.000 kr. Það ár er áætlað til bókakaupa og bands kr. 21.900,00. Ríkisstyrkurinn hækkaði 1944 í kr. 6.250 og hélzt svo til 1955, er bókasafnslögin nýju komu til sögunnar. 1952 er áætlað til safnsins 59 þús. kr. og hélzt svo óbreytt að kalla næstu tvö árin. Þá var varið til bókakaupa 25 þús. kr., en fór svo ört hækkandi næstu árin, enda jókst bókaútgáfa og verðlag hækkaði. Á síðari árum hafa bókakaup safnsins numið um 80—90 þús. kr. ár hvert. Árið 1961 er áætlað til bókasafnsins samtals kr. 240 þús.
Þá er séra Jes Á. Gíslason hóf starf sitt í safninu, gerði hann einskonar úttekt á bókaeign þess. Var hún samkvæmt sundurliðaðri talningu sem næst 2.300 bindi. Samkvæmt skránni eru íslenzk skáldrit 229 bindi, erl. skáldrit þýdd 375 bindi, skáldrit á erl. málum 270, sagnfræði 136, náttúrufræði 91, ferðasögur 58 og ljóð 125 bindi.
Samkvæmt bókaskránni frá 1933 er bókaeignin þá um 2.200 bindi. Munar því minnstu að ritauka og rýrnun megi leggja að jöfnu þessi níu ár. Árið 1951 var bókaeignin orðin 3.900 bindi. Ritaukinn var svipaður frá 1951 til 1956, 390—440 bindi árlega, að undanskildu árinu 1954, en þá var ritaukinn 772 bindi, þar af 362 bindi gjafasafn, sem getið verður síðar í þessum kafla.
Árið 1956 vex ritaukinn verulega vegna aukinnar bókaútgáfu, og einnig vegna þess, að með vaxandi aðsókn að safninu varð að kaupa fleiri eintök sumra bóka. Það ár er ritaukinn 680 bindi, en hefur verið 730 bindi síðustu 3—4 ár. Í árslok 1960 var skráð bókaeign 9.500 bindi; en var þó mun meiri, því enn eru óskráð í aðfangabók allmörg rit óbundin, einkum tímarit. Í árslok 1961 var bókaeign 10.064 bindi.
Öflun erlendra bóka hafði legið niðri um langt árabil, eða tuttugu ára skeið. Á stríðsárunum var ekki um nein slík bókakaup að ræða og næstu ár á eftir ýmsir erfiðleikar á útvegun erlendra bóka. Árið 1951 var svo farið að kaupa erlendar bækur að nýju og þau kaup aukin nokkuð með árunum. Hefur eftirspurn aukizt ár frá ári og útlánatala erl. rita farið hækkandi. Þá hafa samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar verið keypt nokkur erlend fiskveiðitímarit.
Bókasafnslögin, sem samþykkt voru á Alþingi 1955, breyttu mjög aðstöðu almenningsbókasafna til hins betra. Þau ákveða lágmarksupphæð, er sveitir og kaupstaðir greiði á hvern íbúa til viðkomandi safns. Ríkisstyrkir voru mjög auknir, en eru nú í engu samræmi við sívaxandi tilkostnað safnanna. Þá hefur komizt fastari skipan á safnmálin undir stjórn bókafulltrúa ríkisins. Núverandi bókafulltrúi er Guðmundur G. Hagalín rithöfundur.
Árin 1942—49 eru ekki fyrir hendi tölur um fasta lánþega, en af ýmsu má ráða, að þeir hafi verið eitthvað á annað hundrað ár hvert. Árið 1950 voru lánþegar skráðir 252 og útlán alls 12.222. Lánþegum fjölgar verulega 1952, eru þá 320, en útlánstala svipuð og hið fyrra ár. 1955 er lánþegatala svipuð, en útlánatala 16.200 og breytist lítið næstu árin. 1957 eru lánþegar 335 og útlán 18.918, en næsta ár hefur lánþegum fjölgað í 365; útlán 17.562. Tala lánþega hefur ekki breytzt svo orð sé á gerandi síðan 1958, en útlán aukizt að mun. — 1959 voru útlán alls 23.201 og 1960 24.554 bindi. 1961 voru lánuð alls 31.293 bindi. En þá er þess að minnast, að í janúar—febrúar það ár var metaðsókn vegna verkfalla, lánuð tæp 9 þús. bindi.
Séra Jes A. Gíslason samdi skrá yfir safnbækur allar. Hún er handskrifuð í þrem stórum bindum. Árið 1951 kom út fjölrituð bókaskrá yfir safnbækurnar að erlendum undanskildum, en um þær var gerð vélrituð skrá. Árið 1956 kom út prentuð ritaukaskrá.
Árið 1951 var safnið flokkað eftir Dewey-kerfi. Sótti bókavörður þá góð ráð til dr. Björns Sigfússonar háskólabókavarðar. Skráning safnsins á spjöld hófst svo 1958, er bókavörður tók við safnvörzlu sem aðalstarfi. Þá var skipt um útlánskerfi. Var það fært í svipað horf og nú tíðkast í flestum söfnum hérlendis.
Bókagjafir bárust safninu ekki sérlega margar á því tveggja áratuga tímabili, sem fjallað er um í þessum kafla, en þær voru sumar stórmannlegar og harla nytsamar safninu.
Ameríska bókasafnið í Reykjavík hefur að staðaldri sent safninu allmörg tímarit og nokkra tugi bóka. Sendiráð Tékka í Rvík sendi 60 bindi rita um Tékkóslóvakíu, sögu Tékka, íþróttir, listir o.s.frv.
Árið 1957 gaf séra Halldór Kolbeins 80 árganga innlendra og erlendra tímarita. Þá hafa nokkrir bæjarbúar, karlar og konur, fært safninu nokkur bindi bóka og tímarita. — Þá er þess að minnast, að forlag Einars Munksgaard sendi safninu 6 bindi ljósprentaðra fornrita á árunum 1942—46. Lifrarsamlag Vestmannaeyja samþykkti á aðalfundi sínum 1957, að gefa 30 þús. kr. til þess að koma upp vísi að tæknibókasafni. Slík deild í bæjarbókasafni er mjög nauðsynleg og þetta framtak útgerðarmanna til fyrirmyndar. Tækniritin voru flest keypt hjá hinu kunna tækniforlagi Gjellerup í Kaupmannahöfn. Oft hafa rit þessi komið í góðar þarfir, en mikill bagi er að því, og raunar lítt viðunandi, að svo til engin tæknirit eru til á íslenzku.
Loks er þá ótalin mikil og dýrmæt bókagjöf Sveins Jónssonar trésmíðameistara og forstjóra, Reykjavík. Sveinn ánafnaði Bókasafni Vestmannaeyja allt einkasafn sitt eftir sinn dag. Safn Sveins Jónssonar var ekki mjög stórt, 362 bindi, en þeim mun betra, því að segja má, að hver bók hafi verið vandlega valin. Í þessu safni, sem er varðveitt sér í skáp, er talsvert fágætra bóka, sem safnið átti ekki áður, svo sem Rit Lærdómslistafélagsins öll, Atli og Bóndi, búnaðarritin gömlu, Almanak Þjóðvinafélagsins heilt frá upphafi og margt fleira fágætt, sem oflangt yrði að telja.
Sveinn Jónsson var fæddur að Steinum undir Eyjafjöllum 19. apríl 1862, á stofnári bókasafnsins í Eyjum. Hann var trésmíðameistari í Eyjum 1887—98, en fluttist þá til Reykjavíkur. Hann átti lengi sæti í byggingarnefnd Rvíkur og bæjarstjórn um eitt skeið. Hann stofnaði, ásamt öðrum, timburverzlunina Völund í Reykjavík. Sveinn starfaði mikið í góðtemplarareglunni og vann allmikið félagsmálastarf á öðrum vettvangi. Hann ritaði talsvert í blöð og tímarit og var hneigður til fræðiiðkana. — Sveinn Jónsson andaðist í Reykjavík árið 1947.
Húsnæðismál safnsins voru enn sem fyrr oft rædd í bókasafnsnefnd og bæjarstjórn. Á fundi bókasafnsnefndar 16. febr. 1944 leggur nefndin til, að skemmtanaskattur verði lagður á kvikmyndasýningar í bænum og honum varið til þess að reisa bókhlöðu. Á sama fundi kom fram tillaga Einars Sigurðssonar og Karls Guðjónssonar um niðurfelling afnotagjalda til safnsins. Loftur Guðmundsson og bókavörður lögðust gegn tillögunni, sem var felld í bæjarstjórn. Tillaga nefndarinnar um kvikmyndaskattinn virðist hafa verið felld eða dagað uppi.
Á bæjarstjórnarfundi 31. marz 1944 lagði Sveinn Guðmundsson til, að kosin yrði fimm manna nefnd til þess að gera tillögu um bæjarþingsal og skrifstofur bæjarins. Einar Sigurðsson bar þá fram viðaukatillögu þess efnis, að hús þetta mætti jafnframt nota til leik- eða kvikmyndasýninga og jafnframt sé „bæjarbókasafni ætlaður þarna staður.“ Tillaga Sveins ásamt viðaukatillögu Einars var samþykkt samhljóða.
Um og eftir 1950 var orðið svo þröngt um safnið, að til vandræða horfði. Voru t.d. settar hillur í gluggakistur lesstofunnar til þess að koma þar fyrir nokkrum tugum bóka.
Bókasafnsnefnd vekur athygli bæjarstjórnar á þessu vandamáli á fundi sínum 17. des. árið 1952 og leggur áherzlu á, að bæjarstjórn útvegi sem fyrst betra húsnæði, því að húsakynni safnsins nú séu algerlega óviðunandi. Ekkert gerðist samt í því máli að sinni.
Á fundi bæjarstjórnar 24. apríl 1953 báru þeir Þorsteinn Víglundsson og Þorbjörn Guðjónsson fram svohljóðandi tillögu: „Bæjarstjórnin samþykkir að fela bæjarstjóra að sækja um til fjárhagsráðs nauðsynleg leyfi til að mega byggja hús yfir bókasafn, byggðarsafn og skjalasafn bæjarins, og yrði leyfið miðað við, að verkið gæti hafizt í sumar.“ Tillagan var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa.
Á fundi í bókasafnsnefnd 14. ágúst sama ár er mælt með kaupum á húslóð handa safninu við Skólaveg neðanverðan (suður af húsinu Hlíð). Lóðin var 373 ferm. og lóðarverð 10 þús. kr. Var bæjarstjóra falið að gera uppdrátt að bókasafnsbyggingu. Bæjarstjórn afgreiddi málið á fundi 21. s.m. með þeim hætti, að því var vísað aftur til nefndarinnar til nánari athugunar. Nefndarmenn, þeir Þorst. Þ. Víglundsson, Gunnar Sigurmundsson og Steingrímur Benediktsson, samþykktu þá að halda fast við fyrri afstöðu sína til málsins.
Næst gerist það í málinu, að 4. jan. 1954 lagði þáverandi bæjarstjóri, Ólafur Á. Kristjánsson, fram tillöguuppdrátt að bóka- og byggðarsafnshúsi. Bókasafnsnefnd gerði þá tillögu til bæjarstjórnarfundar, að á fjárhagsáætlun yrði tekin 100 þús. kr. fjárveiting til safnsbyggingar og framkvæmdir hafnar á árinu. Í því sambandi minnti nefndin á aldarafmæli safnsins árið 1962; þá færi vel á því, að safnið gæti flutt í eigið hús.
Tillögur bókasafnsnefndar voru teknar fyrir á bæjarstjórnarfundi 14. janúar. Var samþykkt samhljóða, að fela bæjarstjóra að fullgera uppdrátt að safnhúsi. Tillögunni um fé til byrjunarframkvæmda var vísað til fjárhagsnefndar. Í lok janúar þetta ár voru háðar bæjarstjórnarkosningar og nýir fulltrúar komu til sögunnar. Lóðin við Skólaveg var seld á þeirri forsendu, að of þröngt mundi verða um safnið, yrði byggt á henni. Var þá fest önnur lóð á mjög æskilegum stað, milli sjúkrahússins og Aðalbóls. Nokkur ár var áætlað nokkurt fé til bókasafnsbyggingar, en önnur verkefni sátu í fyrirrúmi. Hinsvegar var bætt úr brýnustu þörf safnsins fyrir stærra húsrými með þeim hætti, að árið 1956 flutti það í þau húsakynni, er kaupstaðurinn áður hafði á leigu fyrir bæjarskrifstofur í húsi Tómasar Guðjónssonar við Formannabraut. Þurfti ekki um langan veg að flytja, af götuhæð á loftið. Var húsnæði þetta málað og settar upp nýjar hillur að mestu áður en útlán hófust. Í þessum húsakynnum er útlánssalur, fremur lítill, lesstofa með 12 sætum, vinnuherbergi bókavarðar og bókageymsla.
Á árinu 1961 bauðst bæjarsjóði til kaups allstór húseign við Heiðarveg fyrir byggðar- og bókasafn bæjarins. Hús þetta er steinhús, grunnflötur þess er 375 fermetrar, tvær hæðir og ris.
Bæjarráð lagði til á fundi sínum 4. nóvember s.á., að húsið yrði keypt, og á fundi bæjarstjórnar 30. desember 1961 voru kaupin endanlega samþykkt. Kaupverð hússins er kr. 1.500.000. Bókasafnsnefnd frá 1942 skipuðu eftirtaldir menn: Einar Sigurðsson, forstjóri, Loftur Guðmundsson, kennari og Karl Guðjónsson, kennari, nú alþm. 1942—1945; Þorvaldur Sæmundsson kennari 1946—53; Einar Guttormsson læknir og Haraldur Guðnason 1946—49; Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri 1950 og 1954; Steingrímur Benediktsson kennari 1950—54; Gunnar Sigurmundsson prentsmiðjustjóri 1951—54. Bókasafnsnefnd sem slík var lögð niður á árinu 1954 og verkefni hennar falin bæjarráði.

H.G.

Til baka