Blik 1962/Leiðrétting

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



Leiðrétting



Í Bliki, ársriti Gagnfræðaskólans hér, stendur á bls. 65 1961 í grein um hjónin í Brekkhúsi, að móðursystir Sigurbjargar í Brekkhúsi hafi m.a. verið Guðbjörg kona Magnúsar Guðmundssonar, Hlíðarási. Upplýsingar þessar eru hafðar eftir mér. Þarna hefur prentvillupúkinn brugðið meir en lítið á leik eða annað ruglað efninu að miklum mun. Þessi ættfærsla er, eins og fjölmargir lesendur ritsins sjá, alröng.
Þegar ég gaf upplýsingar um móðursystkin Sigurbjargar taldi ég m.a. Björgu Árnadóttur á Gilsbakka, Árna Árnason bónda á Vilborgarstöðum og Guðbjörgu á Hlíðarenda — endurtek Hlíðarenda — Árnadóttur. Hún var alsystir Ingibjargar móður Sigurbjargar í Brekkhúsi. Guðbjörg í Hlíðarási var hinsvegar Magnúsdóttir og fædd að Hofsstöðum í Garðahreppi og ekkert mér vitanlega skyld Rimakotssystkinunum. Ruglazt hafa þarna húsnöfnin Hlíðarendi og Hlíðarás, hvernig svo sem nafn Magnúsar Guðmundssonar er komið þarna inn í upplýsingar mínar og þó eðlilegt, að hann sé nefndur í sambandi við konu sína. En sem sagt: Þau hjónin í Hlíðarási eiga ekkert skylt við Rimakotssystkinin.
Þetta skal nú leiðrétt og nánari upplýsingar gefnar, sem taka af öll tvímæli og gefa lesendum ritsins fullkomnari vitneskju um Rimakotssystkinin.

Páll bóndi í Rimakoti Jónsson var fæddur að Skíðabakka 1779, dáinn 9. des. 1861, talinn 72 ára. Kona hans var Guðrún, f. 1775, d. 13. jan. 1852, talin 77 ára. Árið 1816 bjuggu þau í Skækli. Sonur þeirra var Árni, f. að Skækli 5. ágúst 1803. Hann kvæntist 30. okt. 1829 Ingveldi Ormsdóttur frá Búðarhóli og reistu þau bú að Skækli. Á manntali 1829 búa þau Páll Jónsson, 50 ára, Guðrún Árnadóttir kona hans, 53 ára, ennfremur þau hjónin Árni Pálsson, 26 ára, og Ingveldur kona hans, 23 ára.
Árið 1835 er Árni orðinn bóndi á þriðju hjáleigu Búðarhóls, þá talinn 32 ára en Ingveldur 28 ára.
Árið 1840 er öll fjölskyldan komin að Rimakoti í Landeyjum og er þá þannig:
Páll Jónsson 61 árs, Guðrún Árnadóttir 64 ára.
Árni Pálsson 37 ára og Ingveldur Ormsdóttir 34 ára. Börn Árna og Ingveldar eru þá talin:
Björg Árnadóttir, f. 1831
Páll Árnason, f. 1832
Nikulás Árnason, f. 1833
Una Árnadóttir, f. 1834
Guðbjörg Árnadóttir, f. 1835
Sigríður Árnadóttir, f. 1838
Ingibjörg Árnadóttir, f. 1839.
Ingveldur Ormsdóttir lézt 25. ág. 1843 talin 38 ára gömul.
Sama árið hefur yngsta barn þeirra fæðzt, þ.e. Árni, f. 1843.
Árni Pálsson giftist aftur 9. sept. 1845 Vilborgu Þorsteinsdóttur. Börn veit ég ekki með vissu frá því hjónabandi, en líklega var sonur þeirra Jón, er var hér í Þórlaugargerði.
Árni Pálsson lézt 12. janúar 1854, aðeins 51 árs, og rétt síðar fluttu sum börnin hingað til Eyja og ílengdust hér.

Nánar um börn Árna og Ingveldar:

A. Björg Árnadóttir, f. 1831, dáin 7. júní 1915 að Gilsbakka. Hún giftist fyrst Árna Jónssyni úr Landeyjum og bjuggu hér á Vilborgarstöðum í þriðja býli.
Þeirra börn: Páll, Árni og Ingveldur. Síðari maður hennar varð Sighvatur Sigurðsson frá Voðmúlastöðum, og giftu þau sig 24. sept. 1858. Þeirra börn m.a.:
1. Friðrikka, f. 1858, varð fyrri kona Vigfúsar P. Schevings Vilborgarstöðum, foreldrar Sigfúsar Schevings í Heiðarhvammi o.fl.
2. Pálína f. 1860, fór til Hafnar og giftist þar. Átti afkomendur í Danmörku.
3. Björg, f. 1873, varð kona Erlendar Árnas. á Gilsbakka, foreldrar Friðrikku Dagmarar konu Ól. St. Ólafssonar þar, o.fl.
4. Sigríður, f. 1867, varð kona Jóns Eyjólfssonar, Kirkjubæ, en þau voru foreldrar Lofts Jónssonar nú á Vilborgarstöðum o.fl.
B. Nikulás Árnason, f. 1833, varð bóndi að Krossi í Landeyjum. Hans son var Einar bóndi á Búðarhóli, kv. Oddnýju Guðmundsdóttur, bróður Brynjólfs Halldórssonar formanns hér í Norðurgarði.
Börn Einars á Búðarhóli voru m.a. Kristjana á Sandi hér, Sigurjón á Sólheimum, Sigurbjörg í Breiðholti, Óskar Einarsson lögregluþjónn.
C. Guðbjörg Árnadóttir, f. 1835, Guðbjörg á Hlíðarenda hér, var fyrst gift Bergi Magnússyni bróður Óla í Nýborg. Bergur hrapaði í Dufþekju. Síðari maður Guðbjargar var Sæmundur Guðmundsson, Kirkjubæ. Guðbjörg eignaðist ekki börn, en Sæmundur með annarri konu sinni m.a. Kristján Sæmundsson, er fór til USA.
D. Ingibjörg Árnadóttir, f. 1839, giftist Sigurði Gunnlaugssyni frá Efrahvoli. Þeirra börn m.a.:
Sigurbjörg í Brekkhúsi, Gunnlaugur á Gjábakka o.fl. Ingibjörg lézt í N.-Búðarhólshjáleigu 1924 eða '25.
E. Sigríður, f. 1838, gift Guðmundi Diðrikssyni bróður Árna í Stakkagerði. Þeirra son Guðmundur í Hrísnesi hér Guðmundsson, kv. Guðríði Andrésdóttur, foreldrar Guðmundar Andréss er þar býr nú. Fleiri voru börn Guðmundar Diðrikssonar, t.d. Þórunn móðir Hannesar Hreinssonar á Hæli Skúlasonar, Þorgerður í Akurey í Landeyjum o.fl. Þá voru og börn Guðmundar og Kristínar á Mosfelli hér, Jenny húsfreyja þar, Kristín í Reykjavík, Oddný á Hvoli, læknisfrú, Oktavía og Sigríður.
Sigríður Árnadóttir lézt í Rimakoti um 1910.
F. Árni Árnason, f. 1843, bóndi á Vilborgarstöðum, drukknaði 13. marz 1874. Hans kona Vigdís Jónsdóttir, gift 26/10 1866. (Þeirra son m.a. Árni Árnason síðar að Grund), kv. Jóhönnu Lárusdóttur frá Búastöðum, o.s.frv. Vigdís flutti síðar til Ameríku, giftist þar Jóni Eyvindssyni, trúboða. Hann var ættaður frá Dúðu.
Um Unu Árnadóttur og Pál Árnason hef ég ekki upplýsingar a.m.k. ekki öruggar, en ofanritað ætti eigi að síður að sýna, að Guðbjörg á Hlíðarenda hér og nafna hennar í Hlíðarási er ekki ein og sama manneskjan og óskyldar. Guðbjörg á Hlíðarenda flutti síðar að Heiðarhvammi til Sigfúsar Schevings frænda síns, og lézt þar 1. nóv. 1928.

Á.Á.