Blik 1962/Flugkappinn Ahrenberg flýgur til Íslands

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



Flugkappinn Ahrenberg
flýgur til Íslands



Sunnudaginn 9. júní 1929 gerðist atburður austur við Skaftárósa, sem getið var um í heimsblöðunum og útvarpi ýmissa landa. Skaftfellingar voru að skipa upp vörum úr leiguskipi Eimskipafélags Íslands, Magnhild, sem var norskt. Einnig lá þar v.b. Skaftfellingur og beið afgreiðslu. Veður var hið bezta og sjór ládauður. Allt í einu heyrðist flugvéladynur í lofti. Úti við sjónhring komu menn auga á flugvél, sem nálgaðist óðum. Þá voru þær ekki algengar á þessum norðurslóðum, svo að hugur manna og sjón beindist mjög að þeim, sæjust þær á flugi.
Flugvélin hnitaði nokkra hringi yfir vöruhúsinu við Skaftárósa og mönnunum, sem þar unnu við afgreiðslu skipanna. Virtist sem hann vanhagaði um eitthvað eða vildi sjá sér út lendingarstað. Hún lækkaði flugið mjög mikið öðru hvoru.
Eftir nokkra hringi nálægt jörðu, sveif flugvélin út yfir sjóinn, lækkaði flugið og settist á hafflötinn spegilsléttan, skammt frá vöruflutningaskipinu „Magnhild“, því að þetta var flugbátur. Flugvélin hét ,,Sverige“ og var af Junkersgerð, W 33, með 360 hestafla vél. Hér var kominn hinn sænski flugkappi Ahrenberg með tveim félögum sínum, Floden og Ljunglund, frá Björgvin í Noregi á leið til Ameríku.
Skipsmenn settu þegar á flot léttabát og réru að flugvélinni. Hún hafði lagt af stað frá Björgvin um morguninn. Næsti áfangi var Reykjavík. En hún hreppti mikinn andbyr á leiðinni yfir hafið. Þess vegna þraut eldsneytið, áður en marki yrði náð. Eldsneytisskorturinn var sem sé orsök þess, að flugmennirnir tóku það ráð að lenda þarna, þar sem mannhjálp var að fá. Heppnin mikla var sú, hversu sjórinn var ládauður og skip þarna um kyrrt við Suðurströndina.

Efri mynd:
Varðskipið Óðinn kemur með flugvél Ahrenbergs til Eyja.
Neðri mynd:
Hafnsögubáturinn „Léttir“ dregur flugvél Ahrenbergs inn á innri höfn í Eyjum.

Beiðni um eldsneyti var þegar send til Vestmannaeyja. Björgunarskipið Þór var statt í Eyjum. Það var þegar um kvöldið sent austur með benzín.
Varðskipið Óðinn var statt vestan við Eyjar, þegar fréttin barst því um flugvélina. Það brá þegar við og hélt austur að Skaftárósum, ef þess kynni að verða þörf þar. Einnig var danska herskipið Fylla, sem lá í Reykjavík, sent af stað austur með benzín. Með því skipi tók sér far austur formaður og frumkvöðull Flugfélags Íslands, dr. Alexander Jóhannesson, með vélamann úr Reykjavík, flugvélavirkja.
Það varð að samkomulagi með skipherranum á Óðni og flugforingjanum, að varðskipið drægi flugvélina vestur til Vestmannaeyja. Þar yrði síðan tekið eldsneyti og vélin athuguð. Daginn eftir, mánudaginn 10. júní kl. 4, kom varðskipið Óðinn með flugvélina í togi til Eyja. Rómuðu flugmennirnir mjög alla hjálp og fyrirgreiðslu skipherrans á Óðni, sem var Jóhann P. Jónsson.
Í Eyjum tók bæjarfógetinn, Kristján Linnet, og formaður Flugfélags Íslands, dr. A.J., á móti flugmönnunum. Voru þeir heima í boði bæjarfógeta, meðan eldsneytið var sett á vélina og vélamaðurinn reykvíski athugaði hana og yfirleit.
Rúmum þrem tímum eftir komu sína til Eyja eða á áttunda tímanum um kvöldið hóf vélin sig á loft og hélt til Reykjavíkur. Farþegar voru gestirnir frá Reykjavík, dr. A.J. og vélamaðurinn. Hún flaug á 40 mínútum milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Mjög rómuðu Svíarnir alla fyrirgreiðslu og gestrisni Eyjabúa.
Klukkan 7 um morguninn þriðjudaginn 11. júní héldu flugmennirnir síðan frá Reykjavík í hina fyrirhuguðu ferð til Ameríku um Grænland. Eftir hálfan annan tíma komu þeir aftur til Reykjavíkur. Þeir heyrðu og fundu, að hreyfill vélarinnar var ekki í lagi. Skipt var nú um skrúfu á vélinni og fleiri hluti. Síðan var aftur lagt af stað. Eftir nokkurn tíma kom flugvélin enn til Reykjavíkur. Nú kom í ljós leki á vatnskassa vélarinnar. Þá var fenginn vélamaður frá Junkers-verksmiðjunum í Dessau til Reykjavíkur til þess að athuga alla vélina. Kom þá í ljós, að öxull vélarinnar var boginn og benzíndælan í ólagi.
Loks 10. júlí, eða eftir einn mánuð, gátu þeir Ahrenberg og félagar hans flogið til Grænlands. Þaðan komust þeir aldrei á flugvélinni. Hún reyndist ónothæf eftir þetta flug.
Frá Grænlandi fóru Svíarnir heim með skipi.

Þ.Þ.V.