Blik 1961/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, II. kafli, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Stökkva á: flakk, leita

Efnisyfirlit 1961Saga Ísfélags Vestmannaeyja


II. KAFLI
(2. hluti)Lög fyrir Ísfélag Vestmannaeyja. (Samþykkt á aðalfundi 24. febrúar 1910):

1. gr.

Félagið er hlutafélag. Firmanafn þess er „Ísfélag Vestmannaeyja“. Heimili þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum.

2. gr.

Aðalhlutverk félagsins er að hafa ávallt og selja til beitu næga og góða síld. Það getur gjört út skip eða báta til síldveiða, ef lögmætur félagsfundur er því samþykkur. Að öðrum kosti kaupir félagið síldina, þar sem hún fæst bezt og ódýrust.
Matvæli, önnur en síld, má taka til geymslu, þegar húsrúm leyfir, kjöt þó því aðeins, að félagið sjálft hafi það ekki til sölu. Þó getur stjórn félagsins gert undantekning frá því, ef sérstakar kringumstæður mæla með því og það kemur ekki í bága við hag félagsins.

3. gr.

Stofnfé félagsins er 12.000,00 krónur, sem skiptist í 480 hluti á 25 kr. hver. Stjórn félagsins hefur heimild til að ákveða að auka stofnfé upp í allt að 18.000,00 krónur, en til aukningar þar fram yfir þarf samþykki aðalfundar.

4. gr.

Þegar hluthafi hefur greitt að fullu hlut til félagsins, fær hann hlutabréf, er stjórn félagsins gefur út. Hlutabréf þetta veitir honum öll þau réttindi, er lög félagsins ákveða.
Á hverju hlutabréfi skal eigandi nafngreindur og nafn hans ritað með viðsettri tölu á hlutaskrá félagsins. Þegar eigendaskipti verða að hlutabréfi, skal tilkynna það stjórn félagsins, er þá ritar nafn hins nýja eiganda á hlutaskrána. Fyrr en það er gjört, hefur hann eigi atkvæðisrétt í félaginu. Ávallt skulu þeir, er heimili eiga í Vestmannaeyjum, hafa forgangsrétt að kaupi á hlutabréfi. Glatist hlutabréf eða ónýtist, þá á réttur eigandi heimtingu á að fá nýtt hlutabréf, eftir að félagsstjórnin á hans kostnað hefur fengið þær sannanir, sem hún tekur gildar fyrir því, að hlutabréfið sé glatað eða ónýtt.
Hlutabréfi hverju skulu fylgja arðmiðar með óákveðinni upphæð. Arðsupphæð þá, sem aðalfundur ákveður hluthöfum til handa fyrir umliðið ár, ber gjaldkera félagsins að greiða strax eftir fundinn eða eftir ákvæðum hans án tillits til þess, hver afhendir.
Arðmiði er ógildur, ef eigi er krafizt borgunar á honum fyrir næstu áramót eftir gjalddaga, en upphæð hans leggst þá í varasjóð félagsins.

5. gr.

Hver hluthafi er skyldur til, án nokkurrar sérstakrar yfirlýsingar frá hans hálfu, að hlíta lögum félagsins, þeim, sem nú eru eða sett verða síðar á lögmætan hátt. Hluthafar bera enga ábyrgð á skuldbindingu félagsins fram yfir hluti þeirra í því. Á ákvæðum þessarar greinar getur engin breyting orðið nema með samþykki allra hluthafa.

6. gr.

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málefnum félagsins, og ræður meiri hluti atkvæða úrslitum, nema öðru vísi sé ákveðið í lögum þessum.

7. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok marzmánaðar ár hvert. Aukafund skal halda, þegar stjórn félagsins þykir við þurfa samkvæmt fundarályktun, eða þegar þriðjungur félagsmanna að minnsta kosti krefst þess skriflega, enda segi þeir til, hvers vegna þeir æskja fundar.
Þá er lögmæt krafa um fundarhöld er fram komin frá hluthöfum, er stjórninni skylt að boða til fundarins og halda hann svo fljótt, sem því verður við komið.

8. gr.

Til félagsfunda skal stjórnin boða annað hvort með auglýsingu eða þá með því að láta kalla á fundinn. Sé með auglýsingu boðað til fundar, skal það gjört með að minnsta kosti fjögurra daga fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega getið þeirra mála, er fyrir eiga að koma á fundinum.

9. gr.

Hverjum fundi stýrir kosinn fundarstjóri. Hann rannsakar í fundarbyrjun, hvort löglega hefur verið til fundarins boðað og hvort hann er lögmætur að öðru leyti og lýsir því síðan yfir, hvort svo sé.
Atkvæðagreiðsla fer fram á þann hátt sem fundarstjóri ákveður. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram jafnan, þegar einhver fundarmanna krefst þess.

10. gr.

Hluthafar einir hafa atkvæðisrétt á fundum. Þeir, sem eiga einn til fjóra hluti, hafa eitt atkvæði, 5—10 hluti tvö atkvæði, 11—19 hluti þrjú atkvæði, 20 hluti og þar yfir fjögur atkvæð. Í sjúkdómsforföllum og fjarvist — utan Vestmannaeyja — geta hluthafar falið öðrum með skriflegu umboði að fara með atkvæði sitt á fundum. Svo getur og stjórn félagsins eða sjóðsfjárhaldsmenn ómyndugra og skiptaráðandi farið með atkvæði félagsins, sjóðsins, hinna ómyndugu eða búsins á fundum félagsins.

11. gr.

Dagskrá fyrir fundinn skal samin, og skal hún liggja hjá formanni félagsins daginn fyrir fundinn. Þó skal heimilt að taka fyrir önnur mál á fundinum en þau, er dagskráin til greinir til umræðu og úrslita, ef meirihluti atkvæða fundarmanna er því samþykkur.

12. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 5 hluthöfum, er heimili eiga í Vestmannaeyjum. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til eins árs í senn ásamt varamanni og tveimur endurskoðunarmönnum. Stjórnin kýs sér formann og skrifara úr sínum flokki, og einnig féhirði, ef það þykir henta, en að öðrum kosti ræður hún hann, eins og aðra starfsmenn félagsins.

13. gr.

Stjórnin heldur gjörðabók. Í hana skal rita lög félagsins og fundarályktanir allar ásamt þeim lagabreytingum, sem kunna að verða gjörðar. Ennfremur skal í bók þessa rita fundargjörðir félagsstjórnarinnar. Í lok hvers fundar skal fundargjörðin lesin upp og borin undir samþykki. Sé hún samþykkt og undirskrifuð af fundarstjóra og viðstöddum stjórnarmönnum, hefur það fullt gildi, sem bókað hefur verið. Þessi ákvæði gilda jafnt um félagsfundi og þá fundi, sem stjórnin heldur út af fyrir sig.
Stjórnin heldur hluthafaskrá félagsins og geymir skjalasafn þess.
Stjórnin ræður hæfan mann með ákveðnum, hæfilegum uppsagnarfresti af beggja hálfu til þess að stjórna frystivélunum, og hefur jafnframt á hendi móttöku og afhendingu þess, sem félagið verzlar með eða tekur til geymslu allt eftir nánari samningi milli hans og stjórnarinnar. Hún ræður og aðstoðarmann og aðra starfsmenn félagsins eftir þörfum og ákveður laun þeirra og endurskoðenda.

14. gr.

Formaður hefur vald til þess sem prókúruhafi félagsins með því valdssviði, sem ákveðið er um prókúruhafa í 25. grein laga nr. 42, 13. nóv. 1903, að annast um allt það, er snertir rekstur félagsins, og rita firma þess að því leyti sem vald formanns sem prókúruhafa eigi nær til, ræður meirihluti atkvæða í stjórninni öllum félagsmálum milli funda, og getur hún skuldbundið félagið og veðsett eignir þess með ályktunum sínum og samningum.

15. gr.

Ársreikningar félagsins fyrir umliðið ár skulu fullgerðir fyrir lok febrúarmánaðar ár hvert og sendir endurskoðunarmönnum til athugunar, en þeir skulu aftur senda stjórn félagsins reikninginn með athugasemdum sínum fyrir miðjan marzmánuð.
Endurskoðendur geta krafizt þess að fá að skoða allar bækur og skjöl, er snerta efnahag félagsins.

16. gr.

Á aðalfundi leggur stjórnin fram ársreikninga félagsins fyrir umliðið ár með athugasemdum endurskoðenda og svörum reikningshaldara og formanns og ber þá upp til samþykktar. Hún ber og fram önnur mál, er félagið varðar. Auk þess getur hver félagsmaður, ef meiri hluti fundarins samþykkir það, komið með uppástungur um hvert það atriði, er félagið varðar eða rekstur þess.

17. gr.

Aðalfundur ákveður þóknun handa stjórninni aðra en laun féhirðis.

18. gr.

Af arði þeim, sem félagið eftir ársreikningum hefur haft á hinu umliðnu ári, skal eftir ályktun aðalfundar greiða hluthöfum vexti af stofnfé því, er þeir það ár áttu í félaginu, þó ekki hærri en svo, að af ársarðinum verði að minnsta kosti 25% lagðar í varasjóð félagsins fyrir fyrningu húsa, véla og annarra áhalda.

19. gr.

Lögum félagsins má breyta á aðalfundi, þar sem mættir eru hluthafar, er umráð hafa yfir að minnsta kosti helmingi hlutafjárins, og sé lagabreytingin samþykkt með 2/3 atkvæða fundarmanna a.m.k, sbr. 10. gr.
Hafi eigi verið á fundinum svo margir hluthafar, en lagabreytingin verið samþykkt með 2/3 atkvæða a.m.k, þá skal halda aftur fund innan einnar viku. Skal til hans boðað á venjulegan hátt og það jafnframt tekið fram, að til fundar sé boðað sökum þess, að eigi hafi verið nógu margir á hinum. Og séu á þeim fundi greidd 2/3 atkvæða með lagabreytingunni, þá er hún lög, hvort sem margir eða fáir hafa sótt fundinn.

20. gr.

Nú þykir ráðlegt eða nauðsynlegt að leysa félagið upp, og fer þá um tillögu þar að lútandi sem um lagabreytingu. Fundur sá, sem samþykkir á lögmætan hátt að slíta félaginu, kveður og á um, hvernig ráðstafa skuli eignum þess og um borgun skulda.

21. gr.

Með lögum þessum eru numin úr gildi „Lög fyrir Ísfélag Vestmannaeyja“ frá 9. febr. 1902.

Á fundi þessum var samþykkt að selja gamla íshúsið Steini klæðskera Sigurðssyni fyrir kr. 1.200,00. Sigurður hreppstjóri hafði æskt þess, að hreppsfélagið fengi að sitja fyrir kaupunum á húsinu, ef það yrði selt, handa sveitarómögum hreppsins. Sú beiðni náði ekki samþykki. Samþykkt var að greiða hluthöfum 6% vexti af hlutafénu.
Í stjórn voru kosnir (25. maí 1911) Magnús Guðmundsson, 64 atkv., Árni Filippusson, 62 atkv., Gunnar Ólafsson, 51 atkv., Jón Einarsson á Gjábakka, 47 atkv. og Gísli J. Johnsen, 23 atkv.
Stjórnin skipti með sér verkum og hlaut Gunnar Ólafsson áfram formannssætið.
Um haustið afréð stjórnin, að síldarverðið skyldi vera 25 aurar pundið út af húsi, og skulu útgerðarmenn vera neyddir til að kaupa 10% af gamalli síld í hvert sinn.
Þegar liðið var fram á miðja vertíð 1912 voru aðeins 6.000 pund síldar eftir í húsinu. Voru þá gerð kaup á 25 smálestum af síld frá Thor Jensen í Reykjavík.
Tíminn leið og engin síld kom til Eyja. Einstaklingar reyndu að útvega sér nokkra beitu en stjórnin neitaði að geyma hana fyrir þá vegna fyrirhugaðra síldarkaupa. Þegar þessar ákvarðanir voru teknar, var Gísli J. Johnsen ekki mættur á stjórnarfundi. Seint í marz barst sú fregn til Eyja, að skip það, sem flytja átti síldina til Eyja frá Thor Jensen, væri á leiðinni. Dagarnir liðu. Algjört síldarleysi ríkti í verstöðinni og ekkert hafði frétzt af síldarskipinu dögum saman. — Loks kom þó skipið Bergenhus, með síldina. Það hafði tafizt vegna veðurs á leiðinni og síldin hálfónýt, þegar til Eyja kom. Hún var seld á uppboði, með því að Ísfélagið taldist ekki skylt að taka við henni, skemmdri vöru.
Þegar aðalfundur Ísfélags Vestmannaeyja var haldinn 9. júní 1912, lýstu félagsmenn nýju trausti á Gísla J. Johnsen. Hann hlaut 47 atkv. í stjórnina, Magnús á Vesturhúsum fékk 38 atkv., Árni Filippusson 37, Jón Einarsson á Gjábakka 25 og Ágúst Gíslason í Landlyst 23 atkvæði.
Þessi stjórn kaus Gísla J. Johnsen formann félagsins. Þar með höfðu gömlu, framtakssömu félagarnir í stjórn Ísfélagsins tekið saman höndum aftur. Varamaður í stjórnina var nú kosinn Ólafur Arinbjarnarson. Endurskoðendur hinir sömu og áður: Þórarinn Gíslason og Jes A. Gíslason. Varamaður aðalendurskoðenda var aldrei kosinn nema árið 1909, þegar setzt var að Gísla Johnsen og honum bolað frá áhrifum á rekstur félagsins.
Nú var aftur tekið til óspilltra málanna. Í júní um sumarið, eða tæpum þrem vikum eftir aðalfundinn, afréð stjórnin að láta endurbæta vélar íshússins og húsið sjálft, stækka það og auka vélakostinn. Mikið var rætt um, að endurbæta fjárhag félagsins. Skuldagreiðslur kölluðu að. Útistandandi skuldir voru miklar. Tekin var nú upp sú stefna að lána hvorki matvæli (aðallega kjöt), beitu né nokkra geymslu, fyrr en þá að útistandandi skuldir hefðu verið greiddar.
Á þessu sumri gerðist Sigurður Högnason Sigurðssonar, íshúsvarðar, starfsmaður Ísfélagsins með kr. 60,00 mánaðarkaupi. Skyldi hann aðstoða föður sinn.
Um haustið var unnið að því að sprengja klappir í kjallara íshússins til þess að auka húsrýmið þar, því að koma skyldi þar fyrir korkeinangraðri snjó- og ísgeymslu. Þetta haust fékk Ísfélagið nýjar gasvélar. Fyrir jólin boðaði stjórnin til almenns aukafundar í félaginu, þar sem félagsmönnum var birt sú ákvörðun hennar að lána engum beitu á komandi vertíð nema þeim, sem sett gætu tryggingu fyrir skuldum sínum við félagið og væntanlegum nýjum síldarkaupum. Engum utanhéraðsmönnum skyldi lána síld og heldur ekki „strengjamönnum eða bjóðmönnum“.
Í janúar 1913 var ráðinn sérstakur maður til þess að annast afgreiðslu síldar og annarra vara úr geymslu íshússins, þar sem ekki þóttu tök á að vélamennirnir gætu annað því starfi lengur með vélgæzlunni. Þá réðist Kristmann Þorkelsson til starfa hjá Ísfélaginu. Var hann síðan starfsmaður þess í mörg ár.
Á þessum tíma var beituskortur í landinu, og tók ísfélagsstjórnin það ráð að skammta síldina. Skyldi hver vélbátur fá 25 kg í róður og róðrarbátur 10 kg. Einstakir bjóðmenn skyldu fá 2,5 kg og sú beita dregin frá síldarmagni bátsins.
Á stjórnarfundi 26. maí 1913 vakti formaður Ísfélagsins máls á því, að nauðsynlegt væri orðið að stækka íshúsið og fullkomna það, ef það ætti að vera því vaxið, að svara kröfum tímans og fullnægja þörfum atvinnulífsins. Samþykkti þá stjórnin að leggja fyrir aðalfund tillögur varðandi þetta mál. Sama dag var haldinn aðalfundur og þessar tillögur formanns og stjórnarinnar samþykktar þar. Virtist nú lokið um stund valdabrölti einstakra manna í félaginu, því að stjórnin var öll endurkosin.
Eftir mánuð hafði formaður útvegað tilboð frá Sabroe í Árhúsum í Danmörku varðandi nýja frystivélasamstæðu með „stálpípum“, tenglum og mörgu fleira í frystiklefa jafnstóran hinum eldri og tvo nýja geymsluklefa. Verðið alls kr. 8.000,00. Einnig hafði formaður leitað tilboða í gasvél, 22 hestafla, með öllu, sem henni hlaut að fylgja. Með öllu skyldi gasvélin kosta kr. 5.000,00. Þá lagði formaður fram teikningu af væntanlegri viðbyggingu íshússins. Stjórnin samþykkti að hefjast þegar handa um þessar nýju framkvæmdir.
Áður en afráðið var að festa kaup á gasvélum aftur til þess að knýja frystivélarnar, var leitað álits Halldórs Guðmundssonar, rafmagnsfræðings í Reykjavík um það, hvort ódýrara mundi verða að knýja frystivélarnar með gasi eða rafmagni. Taldist rafmagnsfræðingnum svo til, að kosta mundi 14,72 aura hvert hestafl á klukkustund, sem vélar hússins væru í gangi, ef notað yrði rafmagn og var það mun dýrara en ef notað var gas. Um þetta atriði hafði formaður einnig leitað álits Thomas Sabroe og Co. í Árhúsum, og var niðurstaðan hin sama. Þessvegna var afráðið að kaupa aftur gasvélar.
Um haustið starfaði hér Bogi Brynjólfsson, yfirréttarmálaflutningsmaður hjá Ísfélagi Vestmannaeyja við að innheimta skuldir. Þeim, sem hvorki höfðu sýnt vilja á að greiða skuldir sínar eða getað sett tryggingu fyrir þeim, var stefnt til lúkningar skuldunum.
Í febrúar 1914 hafði stjórnin látið framkvæma stækkunina á íshúsinu. Vélar höfðu þá verið settar niður og viðbyggingin að verða nothæf.
Danskur vélsmiður frá Árhúsum, Andreasen að nafni, hafði verið sendur til Eyja til þess að setja niður nýju vélarnar. Stjórnin lét greiða honum aukaþóknun að verklokum fyrir dygga þjónustu í þágu félagsins.
Nú steðjuðu enn fjárhagsvandræði að Ísfélaginu vegna hinna nýju framkvæmda. Var nú formanni falið að útvega því kr. 10.000,00 veðdeildarlán til greiðslu á mest aðkallandi skuldum.
Í marzmánuði 1914 samþykkti stjórnin að taka rafmagn í þágu íshússins. Til þess tíma höfðu þar verið notaðir olíulampar. Rafmagnsveitan skyldi tengd frystivélakerfinu og íshúsið þannig framleiða sjálft rafmagn til eigin nota.

1961 b 87 A.jpg


Skýringar við mynd til vinstri: Frá vinstri: 1. Vélfrœðingurinn frá Sabroe i Árhúsum í Danmörku, Andreasen, 2. Símon Egilsson, frá Miðey, um nokkur ár í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja. Hann sigldi v/b Knerri til Íslands með Sigurði hreppstjóra árið 1905. (Sjá grein um ferð þá í Bliki 1960), 3. Nikulás Illugason, alkunnur og traustur verkstjóri um margra ára skeið við atvinnurekstur Gísla J. Johnsen, 4. Högni Sigurðsson bóndi í Vatnsdal í Eyjum, vélstjóri Ísfélags Vestmannaeyja frá 1908—1931, 5. Matthías Finnbogason, kunnur smiður og vélameistari, 6. Enskur vélfræðingur, Wilson að nafni, sem setti upp „gasverkið“ og niður vélar hjá Ísfélagi Vestmannaeyja árið 1914, en það ár er myndin tekin. — Mennirnir standa á aksturspalli, sem lá af norðurbrún Strandvegar að dyrum á suðurenda íshússins, sem sneri í norður og suður. (Sjá málverk í I. hluta þessa kafla).Um haustið 1914 samþykkti stjórn Ísfélagsins að hætta með öllu að geyma kjöt, fisk og önnur matvæli fyrir almenning og skyldi félagið sjálft reka kjötverzlun. Þessu var komið í framkvæmd. Síðan rak félagið kjötverzlun sína til ársins 1958 eða í 44 ár.
Vorið 1915 var boðað til almenns aukafundar í Ísfélaginu og var hann haldinn í Templarahúsinu. Tilefni fundarins var það að ræða við útgerðarmenn um síldarkaup fyrir sumarið. Þessi fundur varð allsögulegur. Andstæðingar félagsstjórnarinnar og undirróðursmenn reyndu til hins ítrasta að hleypa fundi þessum upp með hnjóðsyrðum og frammíköllum. Þetta leiddi til þess að þrír af stjórnarmönnunum urðu vondir og sögðu af sér stjórnarstörfum þarna á fundinum. En Árni Filippusson lét þessi dólgslæti ekkert á sig fá. Hann tók sakirnar, sem á stjórnina voru bornar, að mestu leyti á sig, var hinn rólegasti og skoraði á stjórnarfélaga sína að hlaupa ekki úr stjórn fyrir aðalfund. Margir tóku undir þau orð Árna á fundinum. Hjaðnaði svo ólga þessi, og allt féll í ljúfa löð.
Síðan var aðalfundur félagsins haldinn 25. ágúst 1915 og lagðir fram endurskoðaðir reikningar áranna 1913 og 1914. Þjark varð á þessum fundi eins og jafnan áður. Orðaskak stjórnarandstæðinganna leiddi það af sér, að Ágúst Gíslason í Valhöll gaf fundinum kost á að lýsa yfir trausti sínu á Árna Filippussyni í gjaldkerastöðu félagsins. Var sú traustsyfirlýsing samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Á fundi þessum fór fram skrifleg atkvæðagreiðsla um reikninga félagsins fyrir bæði árin og voru þeir samþykktir með 59 atkv. gegn 3. Samþykkt var að greiða hluthöfum 10% arð.

1961 b 89.jpg


MYND ÞESSI ER 30 ÁRA GÖMUL.

Séð austur eftir Strandvegi. Nœst til vinstri sést horn íshúss Ísfélags Vestmannaeyja, þar sem félagið hafði kjötbúð sína. Glugginn þar er búðarglugginn. Við hann sést á rönd af dyrakarmi. Þar var gengið inn í kjötbúðina. Austur með veginum sjást krær. Lengst til austurs blasir við suðurhlið á „Svarta húsinu“ svo kallaða. Við austurstafn þess lá leiðin niður á Bæjarbryggjuna, (Steinbryggjuna, sem enn er notuð). — Næst til hægri sést á Söluturninn, búð Þorláks Sverrissonar kaupmanns á Hofi. Sölubúð þessi var brotin niður og fjarlægð, þegar Strandvegurinn var breikkaður og lagfærður árið 1958.Formaður hafði undirbúið aðalfundinn meðal annars með því að leita álits hygginna formanna og útgerðarmanna um það, hvernig bezt yrði hagað skömmtun síldar á vertíð, þar sem búast mætti við beituskorti. Voru þau ráð ráðin, að vélbátar og aðrar fiskifleytur, sem Eyjamenn ættu sjálfir, fengju síldina þannig, að hverjum bát yrði úthlutað ákveðnu magni af síld, sem þeir svo gætu notað á vertíð eftir eigin geðþótta og ástæðum.
Fundarmenn gátu fallizt á þessa skipan málanna, ef útlit yrði fyrir beituskort.
Í stjórn á þessum aðalfundi hlutu kosningu þessir menn: Gísli J. Johnsen með 96 atkv., Magnús Guðmundsson með 79, Árni Filippusson með 69, Jón Hinriksson með 54 og Símon Egilsson með 34 atkvæðum.
Atkvæðagreiðslan sýndi, að Gísli J. Johnsen hafði fullkomlega unnið traust félagsmanna aftur og gert andstæðingana áhrifalausa.
Eftir að Rafveita Vestmannaeyja hafði tekið til starfa, 1915, fól stjórn Ísfélagsins formanni sínum að láta raflýsa byggingu félagsins.
Flest öll fyrri stríðsárin var oft mikill hörgull á síld, og þessvegna var hún skömmtuð. Stundum seldur viss kílóafjöldi á hvern hlut á bát. Þótti það einna heppilegasta og sanngjarnasta skipanin á úthlutun síldarinnar.

III. hluti

Til baka