Blik 1961/Minervuslysið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961



INGIBJÖRG ÓLAFSDÓTTIR:


Minervuslysið


Þegar þeir atburðir gerðust, er hér verður frá sagt, bjó Jón Sverrisson og Sólveig Jónína Magnúsdóttir, í Háagarði hér í Eyjum. Jón átti þá v/b Minervu með þrem sonum sínum. Einari, Theodóri og Sigurði.
Þeir bræður Theodór og Sigurður voru við verzlunarstörf, en Einar var skipstjóri á „Minervu“. Hann var aflasæll formaður og dugmikill sjómaður.

Einar Jónsson, skipstjóri frá Háagarði.

Theodór Jónsson og Þorbjörg kona hans, dóttir Theodórs Friðrikssonar, rithöfundar, bjuggu þá í Bólstaðarhlíð, íbúðarhúsi okkar hjónanna að Heimagötu 39. Þau bjuggu á efri hæð hússins. Í austurenda rishæðarinnar var herbergi, sem leigt var sjómönnum. Þar bjuggu sjómenn af v/b Minervu og v/b Emmu, sem maðurinn minn, Björn Bjarnason frá Hlaðbæ, átti hlut í ásamt fleirum.
Í þá daga var það venja, að sjómenn dveldu á heimilum útgerðarmanna. Þrír voru sjómenn af v/b Minervu til heimilis hjá þeim hjónum Þorbjörgu og Theodóri. Það voru þeir Sverrir bróðir hans, Ragnar bróðursonur Jóns Sverrissonar og Ásólfur Bjarnason. Hann var beitumaður, þegar þetta gerðist.
Sverrir Jónsson hafði ekki verið hneigður fyrir sjómennskuna, en nú brá svo við þessa vertíð, að honum líkaði hverjum deginum betur á sjónum. Hann leigði sér herbergi í Brautarholti en var að öðru leyti til heimilis hjá þeim hjónum Theodóri og Þorbjörgu í Bólstaðarhlíð.

Sverrir Jónsson frá Háagarði.

Sverrir Jónsson átti heima austur í Skaftafellssýslu, þegar Katla gaus siðast (1918). Einu sinni sagði hann okkur frá því, hve hætt hann var kominn, þegar flóðið rann fram sandana. Hann var þá í smalamennsku eða eitthvað að huga að fé og hafði nýlega farið yfir brú, er var á fljóti eða á þar á söndunum. Þá sá hann flóðið geysast fram. Hann sneri strax við og fór aftur yfir brúna, þó að fljótið væri byrjað að renna yfir hana. En brúin fór af um leið og hann var kominn yfir hana, og slapp hann nauðulega frá flóðinu.
„Þá var ekki langt milli lífs og dauða,“ sagði Sverrir, „en ég á eftir að drukkna í sjó, þó að ég slyppi við flóðið.“ Ég spurði, hvort hann hefði dreymt eitthvað, eða nokkuð borið fyrir hann. Hann gaf ekkert út á það, en varð mjög daufur í bragði og kvaðst ekki verða gamall maður. Hann sagði þetta á þann hátt, að okkur setti hljóð við. Þá datt mér ekki í hug, að svo skjótt ætti þetta hugboð hans að rætast.

ctr

V/b MINERVA, VE 241 var 19 smálestir með 36 hestafla Alfa-vél.
Smíðuð úr eik og furu í Danmörku 1909.
Eigendur: Jón Sverrisson, Háagarði, 1/3, Stefán Árnason,
Mandal, 1/3, Sigurður Jónsson,
Háagarði, sonur Jóns Sverrissonar l/3.
Báturinn fórst með allri áhöfn, 5 mönnum, 25. jan. 1927.

Rétt eftir áramótin 1927 var ég sem oftar við mín venjulegu störf í eldhúsinu. Piltarnir voru ekki komnir heim úr vinnu. Þetta var rétt fyrir hádegi. Veður var gott og börnin úti. Í þetta sinn hafði ég eldhúshurðina í hálfa gátt, því að stiginn upp á loftið var brattur og gat verið hættulegur yngstu börnunum. Þá heyri ég allt í einu þungt fótatak í stiganum og líkast því sem eitthvað blautt væri dregið eftir honum. Mér datt strax í hug, að nú væru börnin að fara upp á loft og fer því fram í ganginn. Þá sé ég blaut sjóklæði efst í stiganum og heyri, að fótatakið stanzar uppi á ganginum, en sjóklæðin hverfa upp á loftskörina, eins og þeim væri kippt upp. Ég fór strax upp á loftið, en þar var enginn nema stúlka, sem fullvissaði mig um það, að enginn hefði gengið upp stigann. En ég vildi ekki trúa því. Ég leitaði um allt húsið en engan var að sjá, hvorki á efri hæðinni né uppi á loftinu. Ég hafði áður séð það, sem aðrir sáu ekki, og hugsaði ekki meira um það að sinni. En rétt er að geta þess, að í síðasta sinn, er ég sá Sverri sáluga, stóð hann á sama stað í stiganum, og ég hafði séð blautu sjóklæðin. Síðan gekk hann upp á loftið og eftir ganginum, nákvæmlega þar sem ég heyrði síðast fótatakið dularfulla.
Eins og áður er sagt, voru sjómenn af „Mínervu“ og „Emmu“ uppi á loftinu. Vesturloftið var notað til geymslu, og þar hafði ég prjónavél. Það mun hafa verið rétt fyrir vertíðina, mig minnir í des. (1926). Klukkan var langt gengin sjö. Úti var myrkur, þykkt loft og rigning öðru hvoru. Ekki var ljós í göngunum, því að þá var allt sparað, rafmagnið eins og annað. Ég var uppi á lofti að prjóna á vél, en mig vantaði band, til að geta lokið við sokka, sem ég var að prjóna. Ég slökkti ljósið og ætlaði niður efri stigann. Ég var ekkert myrkfælin, þó að alls staðar væri dimmt, í báðum stigum og göngunum. Þegar ég er efst í stiganum, er eins og þung byrði sé lögð á bakið á mér, einkum yfir herðarnar. Ég hélt áfram niður stigann, en með hverju þrepi, sem ég steig, jókst byrðin og það svo, að ég varð að styðja mig við handriðið. Ég tók fljótlega eftir einkennilegri hvítri birtu, sem varð bjartari eftir því sem byrði mín þyngdist. Ég gat samt hugsað eðlilega og alltaf gert mér grein fyrir því, sem ég sá, og athugað það. Þegar ég var komin niður efri stigann, var byrði mín svo þung, að ég treysti mér ekki lengra. Þá fór ég að athuga hina einkennilegu tæru og hvítu birtu og aðgæta, hvaðan hún kæmi. Ég leit út um gluggann í ganginum, sem ég stóð nú við, en ekkert var þar að sjá nema svarta myrkur. Ég skildi ekki, frá hverju birtan stafaði, hún var svo létt og tær, en minnti mig hvorki á sólskin né tunglsbirtu, sem ég hefi séð.
Ég sneri nú frá glugganum. En þá bar undarlega sjón fyrir mig. Beint fyrir framan mig sé ég hnetti. Ég gizka á, að þeir hafi verið um 15 cm. í þvermál. Þeir voru talsvert minni en lítill fótbolti. Þeir skinu í öllum regnbogans litum og köstuðu frá sér fögru bliki. Þessir hnettir sveifluðust hver um annan nokkuð hratt. Ég reyndi að telja þá, en hvernig sem á því stóð, kom ég ekki tölu á þá. Ég gat talið 4, en svo fipaðist mér, enda sveifluðust þeir þétt hver um annan. Ég fór því að athuga lit þeirra. Þeir köstuðu frá sér mismunandi bliki, og voru sumir með mildara blik og daufara en aðrir. Í öllum voru margir skínandi fagrir litir, og var einn eða fleiri litir mest áberandi í öllum. Einn þeirra kastaði frá sér ljósbláum forkunnar fögrum lit og var hann áberandi fallegur. Þegar ég hafði athugað þessa hnetti dálitla stund, misstu þeir lit sinn og dofnuðu, síðan leystust þeir upp og hurfu. Ég bar enn hina þungu byrði og gat mig lítið hreyft, svo þung var hún, að ég hélt, að ég ætlaði ekki að valda henni. Enn var hin létta hvíta birta í ganginum. Ég sá allt greinilega, sem næst mér var, t.d. litinn á ganginum. Ég athugaði litinn á blárri prjónapeysu, sem ég var klædd í, og sá meir að segja lykkjuna á erminni greinilega, því að ég athugaði, hve bjart var í kring um mig. Enn datt mér í hug, að birtan stafaði frá glugganum og sneri mér að honum, en úti var svarta myrkur. Þá sá ég létta, gráa þoku, sem lagðist yfir þilið og gluggann, en hún varð daufari og ógreinilegri, unz hún varð alveg gagnsæ og hvarf. Í talsverðri fjarlægð frá mér sá ég allt í einu sjó, og að eyrum mér barst sjávarniður og þungur veðragnýr. Ég sá stórar öldur rísa og falla, en yfir þessu hvíldi dökkur sorti eins og ekki væri fullbjart. Ég sá berg, það var nokkuð hátt, en ekki þekkti ég, hvar það var, enda beindist athygli mín að öðru. Ekki langt frá því sá ég í öldurótinu nokkuð ógreinilega, dökka þúst, sem líktist skipi. Það barst upp og niður í öldunum en vegna sortans, sem yfir því hvíldi, var það dálítið ógreinilegt. Án þess að ég heyrði nokkuð orð, var eins og þrýst inn í meðvitund mína, að þetta væri skip í sjávarháska.
Þessi dapurlega sýn orkaði þannig á mig, að ég lokaði augunum og leit af henni. Þegar ég leit aftur í kring um mig, var allt horfið, birtan og sjórinn, og veðragnýrinn þagnaður. Ég stóð í dimmum ganginum og sá nú móta fyrir glugganum. Ég sá þessa sýn það lengi, að ég gat fyllilega gert mér grein fyrir því, er fyrir mig bar.
Á eftir var ég mjög máttfarin, eins og það hefði verið tekinn frá mér mikill kraftur. Ég jafnaði mig eftir nokkurn tíma, en þó varð ég að biðja Björn, manninn minn, að styðja mig yfir í svefnherbergi okkar hjónanna, því að þetta virtist hafa tekið frá mér mikla lífsorku. Eftir þetta var ég mjög kvíðafull og óttaðist slysfarir á sjó. Hér í húsinu voru sjómenn af tveimur bátum. Eins og allir vita, getur margt borið við á sjónum, og er þetta gerðist, var ekki öryggi sjómanna eins vel tryggt og nú er.
Mínerva var búin að fara nokkra róðra og Einar í Háagarði fiskaði vel samanborið við aðra báta. Sunnudagskvöldið 23. jan. voru þeir Sverrir og Ragnar Bjarnason frændi hans venjufremur í léttu skapi. Það var eins og þeim yrði allt að gleði. Í ungdæmi mínu heyrði ég ýmsar sögur um það, að ungt fólk í fullu fjöri yrði óvenju glatt í huga, rétt fyrir andlátið, ef það færi skyndilega, og var þá sagt í því sambandi: „Svanurinn syngur fegurst undir dauðann.“
Nú er gamla fólkið að hverfa með sína þjóðtrú og hjátrú, en ég get ekki varizt þeirri hugsun, að stundum er eins og það hafi rétt að mæla, og að eitthvað sé það til, er gerir vart við sig, áður en sorglegir atburðir gerast.
Mánudaginn 24. janúar 1927 reri „Minerva“. Þennan dag var von á e.s. Lyru með nýja vél í bátinn. Þeir skipverjar ætluðu að flytja vélina í land, er þeir kæmu úr róðri. En þetta fór því miður á annan veg. Lyra lagðist undir Heimaey, en þá var komið ofsaveður og svo var veðrið hamslaust, að hún sleit báðar festarnar. Þegar hún lensaði undan veðrinu, varð hún „Mínervu“ vör fyrir austan Þrídranga. Það var hið síðasta, er til hennar spurðist. Með henni fórust þessir menn:
Einar Jónsson, Háagarði, Vestmannaeyjum, formaður.
Sverrir Jónsson (bróðir hans), Háagarði, Vm., háseti.
Gunnar Einarsson, Sandprýði, Vestmannaeyjum, vélstjóri.
Aðalsteinn Sigurhansson, Steinum, Vm., háseti.
Ragnar Bjarnason, Reykjavík, háseti.

I.Ó.