Blik 1961/Íslenzka á danskri tungu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961



Íslenzka á danskri tungu


Árið 1843 losnaði sýslumannsembættið í Norður-Múlasýslu og var auglýst laust til umsóknar. Sjö íslenzkir lögfræðikandidatar sóttu um embættið og tveir danskir. Danska rentukammerið lagði til, að öðrum Dananum yrði veitt embættið. Sá hét Beder. Með því nú að hin konunglegu lög á Íslandi mæltu svo fyrir, að enginn gæti verið þar opinber embættismaður nema hann skildi íslenzka tungu, gæti talað hana lýtalítið og skrifað, þá tók Beder lögfræðingur til að læra íslenzku og stundaði námið af kappi í 5 mánuði. Þóttist hann þá fullfær í málinu og rúmlega það.
Tók nú Beder á sig rögg og skrifaði bréf til konungs á íslenzku til þess að sanna hans hátign, hversu lærður hann væri orðinn í íslenzku máli og því verðugur að verða settur inn í sýslumannsembættið.
Hér kemur svo bréfið stafrétt og orðrétt eins og Daninn skrifaði það og sendi konungi, Kristjáni hinum 8.

„Eptir boð Ydvart, Herra konungur, hefi ek nokra tima uppfræðing sókt á íslenðzku túngu og ecki fyrir sök thessi sparið hverki tid né iðni né helður kostnað, enda ek hef uppgefit thað athæfi sem uppheldi var mins og minna.
Thykkist ek núna at hafa fengið kunnleika nokkarn, sem thar at auki allsemnáðarsamr verður að sjá af quiði thessum, og bið ek thessvegna at Yðarr Hátign allsemnáðarsamr vilia skicka mér til sýslumanns Norður Múlasýslu og likasem ek thanninn vill thykkia mér oflukkaligr, svá er ok von min, til thess at finnast virðuligr.

Raeskilde hinn 2oga Ockober 1844
Allsemunðirdanligr
Beder.

Orðið athæfi mun eiga að þýða atvinnuveg og orðið quiði mun eiga að vera þágufallsmynd og þýða vottorð, en bréfi þessu fylgdi einmitt vottorð frá dönskum menntamanni, mag. art. Hammerich, að Beder væri alfær í íslenzku.
Einhvernveginn fékk konungur pata af, að ekki væri þetta allt með felldu, þrátt fyrir vottorð hins hálærða Dana, og lét Íslending segja sitt álit um íslenzkuna á bréfinu. Íslendingurinn fann þar 37 villur. Þær urðu Beder embættislegur banabiti í þetta sinn, og sýsluna fékk I.P. Hafstein, síðar amtmaður.