Blik 1960/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, I. kafli, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga Ísfélags
Vestmannaeyja


I. kafli
(3. hluti)


Til þessa hafði það verið venja í Eyjum, að verja snjó og ís bráðnun í kofum og öðrum ísgeymslum með því að breiða hey yfir. Nú afréð stjórn Ísfélagsins að kaupa sérstakar mottur í þessu skyni, að ráði þeirra, er bezt kunnu og lengsta reynslu höfðu. Motturnar voru þrifalegri og vörnuðu betur lofti að ísnum.
Þá var nú einnig samþykkt, að félagið keypti 200 punda desimalvog með nægum lóðum, handvagn og 40 sléttar járnplötur í síldarpönnur. Áður hafði stjórnin fest kaup á nokkru magni af síldarpönnum, ef veiðast skyldi síld hér eða bjóðast ófrosin til kaups t.d. úr síldarskipum.
Að ráði Jóh. Nordals, íshússvarðar í Reykjavík, voru nú settar hillur í frystihúsið til þess að drýgja gólfrýmið og koma í veg fyrir að síldin skemmdist þar sökum of mikils þrýstings á neðstu síldarlögunum, þegar um háa síldarstafla var að ræða. Einnig skyldi vegna vatns og til þrifnaðar setja trégrindur á gólf frystisins undir síldina og til þess að ganga á.
Vorið 1903 setti stjórn Ísfélagsins og íshússvörður í sameiningu reglur um móttöku og geymslu fisks í íshúsinu. Gefa skyldi kost á því að geyma þar ýsu, lýsu, smálúðu og síld, ef byðist, með þeim skilyrðum, að helmingur allra þessara fisktegunda yrði eftir pundatali eign ísfélagsins. Skyldi það vera geymslugjaldið. Eigendur fisksins skyldu sjálfir láta flytja fiskinn að íshúsinu hreinan og vel þveginn. Ýsuna skyldu þeir hafa flatt þannig, að hún væri sem tilbúin verzlunarvara. Sjálfir skyldu eigendur fisksins aðstoða og hjálpa til við að frysta hann, koma honum í frystinn. Byðist félaginu síld til kaups, svo að það gæti ekki tekið fisk eða síld til geymslu, bar stjórninni að kaupa það, sem í geymslu var fyrir aðra, ef um samdist.
Margir útgerðarmenn höfðu um vorið 1903 beðið félagsstjórnina að festa kaup á síld handa þeim. Liðið var fram að ágústlokum, og ekki höfðu allir hinir sömu útgerðarmenn greitt Ísfélaginu síldina. Af þessum sökum mest hafði félagið komizt í 800,00 kr. skuld, sem nú þurfti að greiða m.a. til þess að halda lánstrausti sínu. Engir voru peningar til að greiða skuld þessa með. Var því afráðið að taka lán. Sparisjóður Vestmannaeyja gaf félaginu kost á bráðabirgðarláni kr. 1000,00, og skyldi íshúsið sett að veði fyrir láninu. Jafnframt var skorað á þá, sem enn höfðu ekki greitt síld sína, að gera það innan ákveðins tíma, að öðrum kosti liti stjórnin á þá beitusíld sem eign félagsins, þegar það hefði greitt hana.
Þessi afstaða stjórnarinnar gefur svolitla hugmynd um þá erfiðleika, sem stjórnin átti við að etja í félagsskapnum. Sumir útgerðarmennirnir pöntuðu síld hjá félaginu, létu það greiða hana, eða þá stundum suma stjórnarmennina úr eigin vasa þar sem rekstrarfé skorti gjörsamlega, og endurgreiddu síðan aðeins það, sem þeir notuðu og knapplega stundum. Skemmdist þessi síld þeirra í húsinu t.d. sökum skorts á ís, en sá skortur var jafnan yfirvofandi sökum hinnar mildu vetrarveðráttu í Eyjum og vöntunar á mannafla við ísnámið á vertíð, þá skyldi Ísfélagið bera hallann.
Nokkur tæknilegur galli hafði komið fram á gerð frystisins í íshúsinu, svo að á fyrsta starfsári þess skemmdist töluvert af síld í því. Nokkur óánægja og kurr varð í félagsskapnum vegna þessa, því að félagið beið auðvitað tjón af skemmdunum. Til þess að vinna upp þann halla var á aðalfundi félagsins í febrúar 1904 samþykkt að hækka síldarverðið úr 16 aurum pundið í 20 aura. Þá kvartaði stjórnin, hve miklum erfiðleikum það væri bundið að ná saman nægum mannafla til þess að sækja snjó eða ís og flytja í húsið á vertíð, þegar tækifærin byðust að öðru leyti. Var því stjórninni falið að ná samningum við útgerðarmenn um hjálp í því starfi, sem var grundvallarskilyrði þess að geta starfrækt frosthúsið. Jafnframt ályktaði fundur þessi, að rétt mundi, að félagið léti byggja snjókofa í námunda við íshúsið og safna í hann snjó á vetrum til þess að drýgja ísinn.
Ísfélagið átti nú í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, og vildu félagsmenn reyna að sigrast á þeim með því að fjölga hlutum í félaginu úr 145 í 160 eða auka hlutafé þess úr kr. 3625,00 í kr. 4000,00.
Vegna óánægju innan félagsins sökum fjárhagsörðugleika og svo mistaka, sem félagsmenn vildu saka stjórnina um, óskuðu þeir Árni Filippusson og Sigurður Sigurfinnsson ekki að vera endurkosnir í stjórnina á aðalfundinum 1904. Þá hlutu þessir menn sæti í stjórn félagsins: Gísli J. Johnsen, kaupmaður, sem stjórnin kaus síðan formann Ísfélagsins, Gísli Lárusson, útgerðarmaður í Stakkagerði, sem varð varaformaður, Magnús Guðmundsson, útgerðarmaður á Vesturhúsum, sem varð ritari, Anton Bjarnasen, verzlunarstjóri, gjaldkeri sem áður, og meðstjórnandi Jón Einarsson, bóndi á Hrauni. Varamaður, sem alltaf áður, var kosinn Magnús sýslumaður Jónsson. Endurskoðendur hinir sömu og áður.
Hin fráfarandi stjórn undir forustu Árna Filippussonar hafði verið framtakssöm og ötul og rutt brautina fram á við.
Eitt hið fyrsta verk hinnar nýju stjórnar undir forustu Gísla J. Johnsens, sem nú var aðeins 23 ára, var að láta byggja snjókofann. Hann var byggður við norðurjaðar Landatúns, þar sem nú stendur íbúðarhús Ágústs Sigfússonar, nr. 14 við Landagötu. Þessi snjókofi var síðan notaður, meðan íshúsið var rekið við Landagötu eða næstu 4 árin. Snjó var ýmist velt saman á Landatúninu í stórar kúlur, þegar bleyta var í honum, og þeim síðan bylt inn í kofann, eða hann var borinn í hann.
Oft fékk Högni Sigurðsson, íshússvörður, stráka til þess að gera sér þessa snjóveltu að leik. Þá var oft unnið kappsamlega fyrir lítið kaup.
Útgerðarmenn vildu gjarnan geta fengið síldina afgreidda af íshúsinu, hvenær sem þeim þóknaðist og þeir þurftu á henni að halda, hvort sem það var á nótt eða degi. Engan afráðinn afgreiðslutíma vildu þeir helzt hafa. Hinsvegar voru laun íshússvarðar ekki miðuð við það, að hann stundaði þetta starf einvörðungu og fengi ekki stundlegan frið til annarra starfa fyrir beiðni eða kröfum um afgreiðslu síldar. Af þessu hafði íshússvörðurinn mikinn eril og ónæði. Afréði nú stjórnin, að afgreiðsla á beitu skyldi fara fram kl. 3 e.h. og kl. 4 að morgni. Jafnframt skyldi enginn fá geymda síld í íshúsinu, hvorki í stórum eða smáum stíl. Afgreiðslutíminn svo snemma morguns var afráðinn með tilliti til þess, að formenn gætu beitt og róið, notað daginn, ef veður breyttist snögglega til batnaðar undir morgun, svo að á sjó gæfi.
Í september 1904 var hafizt handa um að útvega síld fyrir næstu vertíð. Gera má sér í hugarlund, hvílíkur vandi stjórninni var á höndum í flestum viðskiptamálum íshússins, þar sem samgöngur voru stopular, síldin viðkvæm vara og fljót að skemmast, enginn ísklefi í flutningaskipum og rekstrarfé félagsins ekkert eða sama og ekkert. Meginhlutann af andvirði síldarinnar varð Gísli J. Johnsen, formaðurinn, sjálfur að lána úr eigin vasa eða þeir í sameiningu, hann og Anton verzlunarstjóri, gjaldkeri félagsins. Að öðrum kosti varð engin síld keypt og þá aflaleysi og vá fyrir dyrum.
Thor Jensen bauðst til þess um haustið 1904 að senda síldarskip til Eyja og gera tilraun þar með síldveiðar fyrir íshúsið. Emil Strand á Ísafirði kvaðst þá eiga tvö íshús full af síld og vildi feginn selja Eyjamönnum. Einnig kvaðst hann geta útvegað þeim síld frá Noregi, ef þannig hagaði betur til um samgöngur og flutninga. Einnig spurðist hinn ötuli formaður fyrir um síld og síldarverð á Norður- og Austurlandi.
Ekki þótti treystandi á að síld veiddist við Eyjar. Á Norður- og Austurlandi var enga síld að fá. Loks afréð stjórnin að kaupa 100 tunnur af síld af Emil Strand á Ísafirði. Álykta má af fundagjörðabók Ísfélagsins, að Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri, hafi verið stjórninni hjálparhellan trausta um þessi viðskipti.
Allir þessir miklu erfiðleikar stjórnarinnar að útvega óskemmda síld og góða beitu fyrir viðunanlegt og viðráðanlegt verð, knúði til íhugunar um úrræði og leiðir. Þess vegna var það á aðalfundi félagsins 19. janúar 1905, að formaður félagsins hreyfði þeirri hugmynd, að Ísfélagið festi kaup á vélknúnum báti erlendis og stofnaði til síldveiða hér. Þessari hugmynd tóku félagsmenn vel fyrst í stað, og var stjórninni heimilað að leita fyrir sér um lán til handa félaginu til þess að reka sjálfstæðan síldarútveg. Fengist það, skyldi stjórnin hafa heimild til að hrinda síldarútgerð þessari í framkvæmd.

Þorsteinn Jónsson („frá Hrauni“) útgerðarmaður og skipstjóri, Laufási í Eyjum, sonur Jóns bónda Einarssonar á Hrauni s.st. Um hálfrar aldar skeið útgerðarmaður og skipstjóri í Eyjum; höfundur bókanna „Formannsævi í Eyjum“ 1950 og „Aldahvörf í Eyjum“ 1958, f. 14. okt. 1880.

Nú gaf ekki Magnús Guðmundsson kost á sér í stjórnina lengur. Í hans stað hlaut kosningu Þorsteinn Jónsson á Hrauni (síðar Þorsteinn skipstjóri í Laufási). Að öðru leyti var stjórnin áfram óbreytt.
Á næsta fundi sínum ræddi stjórnin hin fyrirhuguðu bátakaup, hvort gerlegt mundi að kaupa stóran þilfarsbát, svo sem 40 fóta langan, sem knúinn væri 8 hestafla Dan-vél. Svo stóð á, að formaður félagsins, Gísli J. Johnsen, hugði til utanferðar á næstunni. Honum var því allt falið varðandi þetta mikilsverða mál, bæði um lán til handa félaginu til að stofna til síldarútgerðar svo og bátakaupin. Þá var honum einnig falið að festa kaup á síldarnetum erlendis og „öðru fyrirtækinu til heilla,“ eins og það er orðað í fundargerðinni. Jafnframt var varaformanni, Gísla Lárussyni, falið að kynna sér hvort hinn væntanlegi síldarbátur fengist tryggður í Skipaábyrgðarfélaginu, eins og Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja hét þá. Með þetta „nesti“ sigldi svo formaður Ísfélagsins til útlanda.
Í febrúar þetta ár (1905) var fyrirsjáanlegur síldarskortur í Eyjum og vertíðin að hefjast. Afréð þá stjórnin að skrifa formanni sínum og biðja hann að grennslast eftir því, hvort síld mundi fáanleg frá Noregi, og það sem allra fyrst. Jafnframt þótti stjórninni vissara að aðvara formanninn um kaupin á síldarbátnum, þar sem margir félagsmenn höfðu nú fengið eftirþanka og látið þá í ljós ótta við það framtak, og stjórnin þess vegna fengið slæmar undirtektir um stuðning við það, þegar á átti að herða.
Jafnan hafði reynzt torvelt á vertíð og miklum erfiðleikum háð að geta notfært íshúsinu ísinn á Vilpu, þegar hún var ísi lögð, sökum manneklu, nema fyrir hátt kaup, sem félagið hafði engin efni á að greiða, því að úr þegnskylduvinnunni varð lítið, þegar á reyndi, og e.t.v. ekki að ástæðulausu, því að hver átti nóg með sig á þeim árum.
Í örvæntingu sinni um að fá síld á línuna á vertíðinni 1905 höfðu nokkrir útgerðarmenn í Eyjum fest kaup á síld frá Englandi. Hún kom til Eyja með enskum togara. Þessi síldarkaup voru gerð bak við Ísfélagið. Þegar á reyndi sáu þessir útgerðarmenn sér engin tök á að geyma síldina eða greiða hana. Var þá flúið til stjórnar Ísfélagsins. Félagið átti enga peninga til að leggja út fyrir síldina, hins vegar var þess kostur að geyma hana í íshúsinu og verja hana þar skemmdum. Endirinn varð sá, að formaður Ísfélagsins greiddi úr eigin vasa allt andvirði síldarinnar og lánaði það þannig útgerðarmönnum, og með þessu móti höfðu þeir næga síld fram á vor.
Haustið 1905 bauðst Ísfélagi Vestmannaeyja síld frá Stokkseyri. Þá hafði Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson siglt vélbát sínum „Knerri“ heim til Eyja frá Noregi. Hann var 10 smálesta bátur með 8 hestafla Dan-vél og hóf þegar ýmsa vöruflutninga, þegar heim kom. Bátur Sigurðar var nú leigður til þess að sækja síldina til Stokkseyrar. Báturinn kom aftur með síldina eftir 40 klst. Sigurður vildi fá 400 kr. fyrir Stokkseyrarferðina. Ísfélagið hafði engin ráð með að greiða þá ferð svo dýru verði að félagsmönnum fannst, og var afráðið að greiða Sigurði fyrir ferð þessa kr. 250,00. Ekki gerði Sigurður sig ánægðan með þá greiðslu. Fjórir menn voru í ferð þessari með Sigurði. Samdist svo um, að þeir fengju hver um sig 12 krónur fyrri ferðina eða 30 aura um tímann í 40 stundir. Stapp og fundahöld urðu um eftirstöðvar skuldarinnar við Sigurð. Ekki var það örgrannt, að þær raddir heyrðust, að sjálfsagt væri að greiða Sigurði hreppstjóra alla upphæðina orðalaust, því að Ísfélagið væri komið á hausinn hvort sem væri. Ofaná varð, að greiða Sigurði kr. 350,00 fyrir ferð þessa, þar sem heitið hafði verið upphaflega að gera hann skaðlausan af ferðinni.
Eins og áður hefur verið drepið á, var skortur á ís og snjó jafnan þrándur í götu þess, að íshúsið væri örugg beitugeymsla meginhluta ársins. Fyrirhugað var í upphafi starfsins 1901 að flytja ís af Daltjörninni í Herjólfsdal á handvögnum alla leiðina austur í íshúsið. Til þess að það mætti takast, var vegurinn í Dalinn endurbættur í þegnskylduvinnu félagsmanna. Þegar á reyndi, kom í ljós, að þetta var ógjörningur. Afköst engin eða árangur, en erfiðið óskaplegt. Á aðalfundi 1906 (27. jan.) var samþykkt sú hugmynd formanns að byggja ísgeymsluhús í Herjólfsdal og safna í það ís af tjörninni. Einnig var þá samþykkt að búa til ístjörn í kauptúninu í námunda við sjálft íshúsið. Hins vegar fékk það nú engan byr með félagsmönnum að kaupa bát og stofna til síldveiða fyrir Ísfélagið.
Tekjur félagsins á árinu 1905 námu kr. 5842,72 en gjöldin kr. 5752,62. Hreinar tekjur því um 90 krónur.
Margt bar til þess, þegar Gísli J. Johnsen var á sínum tíma kosinn formaður Ísfélags Vestmannaeyja. Hann var þegar orðinn umsvifamesti atvinnurekandi í Vestmannaeyjum. Víðsýni hans um tök og tækni og þekking hans á peninga- og viðskiptamálum var meiri en nokkurra annarra Eyjabúa þá. Í tíðum utanferðum hafði kaupmaðurinn kynnzt mörgu, sem að því laut. Dugnaður hans og þekking, útsjón og úrræðasemi voru svo áberandi eiginleikar í fari hans, að félagsmenn Ísfélagsins fólu honum líf þess og þróun og treystu honum einum til þess að ráða fram úr fjárhagsvandræðunum, enda hafði hann iðulega með aðstoð hins velviljaða gjaldkera aftrað því með eigin fé, að Eyjasjómenn stæðu höndum uppi, beitulausir og svo bjargarlausir á vertíð.
Í siglingum sínum hafði Gísli J. Johnsen m.a. kynnzt því, að til voru frystivélar eða kælivélar og íshús rekin erlendis í krafti þeirrar tækni. Á stjórnarfundi 18. desember 1906 drap hann á það, hversu ómetanleg framför væri að því og þægindi Eyjamönnum, ef þeir gætu eignazt íshús með kælivélum. Þar með væri hægt að losna við hina óvinsælu ístöku og salteyðslu m.m. Fyrir utan allt það öryggi um geymslu síldarinnar, sem fælist í því að eiga íshús knúið vélaafli. Þetta hafði hann séð, og þessu hafði hann kynnzt erlendis. En hvað var hægt að gera? Félagið snautt og hvergi lán að fá.
Almennur félagsfundur var haldinn þennan sama dag. Þar var skorað á stjórnina að festa kaup á nægri síld fyrir vertíð þó að engir peningar væru handbærir til þess að greiða hana með. Auðsjáanlega var treyst á formann og gjaldkera, að þeir legðu fram fé til síldarkaupanna, eins og jafnan áður.
Þessu hétu þeir nú félagsmönnum en þó með því skilyrði, að sýslusjóður ábyrgðist skilvísa greiðslu. Þeir menn voru til innan félagsins, sem gættu þess eins að panta nógu mikla síld, þegar síldarpantanir voru gerðar, en hirtu hinsvegar minna um greiðsluna. Þessi fundur vildi skuldbinda félagsmenn til þess að greiða alla þá síld, sem þeir pöntuðu, svo að engum prettum yrði komið við í þessum viðskiptum.
Enn stóð utanför fyrir dyrum hjá formanni Ísfélagsins, og var nú þeirri beiðni beint til hans á fundinum, að hann kynnti sér í för þeirri verð og gerð á kælivélum, sem hentað gætu Eyjamönnum eða Ísfélagi Vestmannaeyja.
Fyrri hluta ársins 1907 var svo komið áhuga félagsmanna, að ekki varð haldinn aðalfundur í félaginu sökum þess, hve fáir mættu til fundar. Tvívegis þó boðað til fundarins.
27. nóvember 1907 hélt stjórn Ísfélags Vestmannaeyja fund. Nokkur hluti fundargerðarinnar ber það með sér, hvernig þá er komið félagsskapnum og hvað helzt stóð honum fyrir þrifum, gildi og starfi.
Eftir að stjórnin hafði afráðið að kaupa 30 þúsund pund (15 smálestir) af síld af Thor Jensen í Reykjavík, bókar ritarinn, Þorsteinn Jónsson, í fundargjörðabókina, að mikið hafi verið rætt um framtíðarhorfur Ísfélagsins í heild sinni. Flestir voru stjórnarmennirnir á því, að þær væru ekki sem beztar. Stjórnin þóttist sjá það í hendi sér að sækja mundi í sama horfið um framtíð þess, þó að farið væri að endurbæta íshúsið og reka það framvegis á sama grundvelli og áður. Rekstur þess var í stöðugri hættu vegna fjárskorts, þegar ekki var hægt að kaupa vinnuafl, og þegnskylduvinnan brást gjörsamlega, og svo gat ísskorturinn riðið því að fullu á einu ári. Hinsvegar mundu kælivélar, sem stjórnin er samþykk að keyptar verði, leysa þann vanda og hindra þá hættu, en ísskorturinn hafði til þessa verið ísfélaginu eða rekstri íshússins mest til niðurdreps, segir ritari. Öll er þó framtíðin undir vilja félagsmanna komin. Vilja þeir ,,skóbæta“ húsið eins og það er, eða vilja þeir leggja í þann mikla kostnað að kaupa kælivélar og byggja þá nýtt íshús niður við höfnina.
Aðalfundur Ísfélags Vestmannaeyja var haldinn 8. desember 1907. Sá fundur var afgerandi um framtíð félagsins. Nú urðu Eyjamenn að hrökkva eða stökkva. Miklar umræður urðu á fundi þessum um kælivélakaupin og nýbyggingu. Og sjá, Eyjamenn völdu stökkið. Þeir samþykktu að kaupa frystivél og allt, sem með þurfti í sambandi við hana og leggja út í byggingu nýs frystihúss. Margir félagsmenn lögðu þegar fram 200 kr. hver á fundinum eða hétu þeirri upphæð í félagssjóð og höfðu orð á því að greiða meira, ef með þyrfti, til að hindra það, að einstakir eða fáir menn yrðu að mestu leyti eigendur hins nýja framtaks og fyrirtækis.
Á næsta stjórnarfundi, 17. des. 1907, fól stjórnin síðan formanni félagsins, Gísla J. Johnsen, allan vandann um kaup á frystivél, aflvél og efni í hið nýja íshús. Ekki er minnzt á það í fundargerð, hvernig honum er ætlað að afla fjár til allra þessara miklu kaupa og framkvæmda. Það var eins og það hlyti að koma af sjálfu sér, svona að mestu leyti, þegar Gísli J. Johnsen ætti hlut að, en skammt hlaut framlag félagsmanna að hrökkva til alls þessa. Þá var ráðgert, að ráða á ný íshúsvörð og senda þann hinn sama út til þess að kynna sér meðferð hinnar fyrirhuguðu frystivélar. En fyrst lá þó fyrir að ráða íshúsvörð, sem nú hlaut að fá aukið starf og vandameira, þar sem hann átti að verða vélgæzlumaður íshússins og algildur fulltrúi íshússstjórnar. Staðan var auglýst laus til umsóknar og urðu umsækjendur fimm. Á meðal þeirra var Högni Sigurðsson, sem verið hafði íshúsvörður frá upphafi. Aðalfundur var látinn skera úr, hver hljóta skyldi starfið. Högni hlaut 73 atkvæði fundarmanna en allir hinir til samans 42 atkvæði. Með þessari traustsyfirlýsingu vildu félagsmenn votta Högna Sigurðssyni þakkir fyrir erilsamt starf í þágu þeirra s.l. 7 ár fyrir lítil laun en æri mikið erfiði á stundum, árvekni og öðrum þræði leiðindi og sálarslit, þegar skorti vinnuafl og ís, og beitan lá undir skemmdum.
Nú voru þáttaskil framundan í rekstri Ísfélagsins, og báru reikningar þess það með sér á aðalfundi 17. jan. 1908. Reikningarnir sýndu, að afgangs urðu kr. 2200,00, þegar allar skuldir félagsins væru að fullu greiddar. Fundurinn samþykkti, að greiða félagsmönnum 20% í arð af hlutafénu, og var það fyrsti arðurinn, sem félagið greiddi. Svaraði hann til þess, að félagsmenn hefðu fengið greiddar árlega 3 1/2% af hlutafé sínu.
Stjórnin var einróma endurkosin á fundinum.
Nú hófst formaður félagsins, Gísli J. Johnsen, handa í þágu útvegs Eyjamanna svo að um munaði, og átök þau mörkuðu gagnmerk spor til þeirra framfara og hagsældar, sem byggðarlagið nýtur enn í dag. Vélbátaútvegurinn í Vestmannaeyjum hafði tekið næsta ótrúlega snöggum vexti, svo að á vetrarvertíð 1907 gerðu Eyjamenn út 22 vélbáta og var það þó aðeins önnur vertíð vélbátaútvegsins þar. Í ráði var, að nær 20 nýir vélbátar hæfu göngu sína frá Eyjum vetrarvertíðina 1908, og átti Gísli J. Johnsen hlut að um útvegun 12 þessara báta, ýmist efni í þá, ef þeir voru smíðaðir í Eyjum, og þá vélar í þá, eða bátana að mestu fullgerða frá útlöndum. Töluvert á annað hundrað Eyjamenn voru nú orðnir þátttakendur í útgerð þessari ¹).
Það var í raun ógerningur og allt of áhættusamt að ætla sér að sjá þessum stóra bátaflota fyrir nægri og góðri beitu með því að treysta á gamla íshúsið, þar sem kuldinn var framleiddur með ís og salti. Vélknúið íshús var framtíðin. Slíkt íshús hafði aldrei verið byggt hér á landi áður. En það vissi formaður Ísfélagsins, að Danir höfðu hafið framleiðslu á frystivélum og stofnað fyrirtæki, sem ráku vélknúin frystihús. Þar hugsaði hann sér að kynnast hlutunum og knýja síðan á. Þessara erinda allra fór svo formaður félagsins utan snemma vetrar 1908 og hafði með sér hinn fyrirhugaða vélstjóra nýja íshússins, Högna Sigurðsson, íshúsvörð. Skyldi hann læra á vélarnar ytra og fullnuma sig í vélgæzlu.
Ég hefi beðið Gísla J. Johnsen stórkaupmann, að segja mér undir og ofanaf um þessa utanferð þeirra Vestmannaeyinganna, hans og Högna, svo markverðar sem afleiðingar hennar urðu útvegsbændum í Eyjum og öllu byggðarlaginu. Gísli J. Johnsen hefur orðið við þessari beiðni minni. Hann segir svo frá:
„Þegar ég veturinn 1908 fór til Danmerkur til að kaupa efni í nýja íshúsið og vélarnar í það, fór Högni Sigurðsson með mér. Skyldi hann kynna sér meðferð slíkra véla, enda mátti trúa slíkum afburða gáfumanni öðrum fremur fyrir slíkum tækjum. Við fórum til Aarhus, en ég keypti vélarnar af Sabroe, og var það samkomulag okkar Carl Gottliebs, forstjóra firmans, að hann færi með Högna til Grenaa og Struer, en firmað hafði nýlega sett frystivélar í hús þar, sem sérstaklega voru ætlaðar útgerðinni, og láta Högna læra þar. Ég skildi svo við Högna þarna, man ekki á hvorum staðnum, og átti hann að vera þarna við nám, meðan ég færi til Englands til að kynna mér SOG-GASVÉLAR, sem verða skyldu aflvélar í frystihúsið. Þær vélar voru hinar allra ódýrustu í rekstri, miklu ódýrari en olíuknúnar vélar. Ég fór svo sem leið liggur yfir Þýzkaland og Holland til Manchester, en þar keypti ég sog-gasvélarnar. Jafnframt lauk ég erindum mínum við innkaup og þess konar í Hollandi.
Þegar ég kom til Englands, rifjaðist upp fyrir mér, að ég hafði erindi til Edinborgar, svo að ég fór frá Manchester þangað. Svo vildi til, þegar þangað kom, að ég frétti að gufuskipið Ceres væri í Leith á leið til Íslands. Mér flaug í hug að skreppa um borð, heilsa upp á skipstjórann, og ef vera kynni einhverjir farþegar, sem ég þekkti og ég gæti beðið fyrir kveðjur heim. En viti menn, fyrsti maðurinn, sem ég rekst á um borð í Ceres var Högni Sigurðsson og auðvitað á leið heim. Mér varð hálf bylt við, og bjóst ég við, að eitthvað óvænt hefði komið fyrir hann. En sem betur fór, var það ekki.
Högni gaf þá einu skýringu á „háttalagi“ sínu, að hann væri búinn að læra! Já, eftir svo sem viku eða 10 daga, búinn að læra! „Ég er búinn að setja mig inn í gang vélanna, skil þær til fullnustu, og þarfnast ekki frekara náms.“ Þetta reyndist líka svo, því að segja má, eins og sjómennirnir sögðu oft í „gamla daga“: það sló aldrei „feil púst“ hjá Högna.“
Þannig er þá frásögn sjálfs formanns félagsins um vélfræðinám Högna Sigurðssonar. Högni var síðan vélstjóri Ísfélagsins til ársins 1931 við góðan orðstír eins og formaðurinn gefur í skyn og vitað er.

¹) Aldahvörf í Eyjum eftir Þorstein Jónsson, Laufási.

Þ.Þ.V.



Til baka



ctr


STÝRIMANNANÁMSKEIÐ Í VESTMANNAEYJUM 1927


Aftari röð frá vinstri:
1. Sigurður Bjarnason frá Stokkseyri, 2. Halldór Halldórsson frá Stokkseyri, nú að Helgafellsbraut 23, 3. Guðjón Þorkelsson, Sandprýði, 4. Högni Friðriksson, 5. Gísli Gíslason frá Stokkseyri 6. Óþekktur.
2. Fremri röð frá v.:
1. Jónas Bjarnason frá Stokkseyri, nú að Boðaslóð 5, 2. Hafsteinn Bergþórsson, prófdómari, 3. Ingibjartur Ólafsson, prófdómari, 4. Sigfús Scheving, kennari, sem á sínum tíma hélt hér stýrimannanámskeið um margra ára skeið og vann með því bæjarfélaginu ómetanlegt gagn.