Blik 1960/Einar Sigurfinnsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



Einar Sigurfinnsson
Einar Sigurfinnsson.


Hann heitir fullu nafni Magnús Kristinn Einar. Hann fæddist að Háu-Kotey í Meðallandi 14. sept. 1884 og varð því 75 ára á s.l. hausti. Foreldrar hans voru Sigurfinnur Sigurðsson, bústjóri, og Kristín Guðmundsdóttir bónda Einarssonar í Háu-Kotey.
Einar Sigurfinnsson ólst upp í Háu-Kotey fram yfir fermingu hjá móður sinni og manni hennar, Sigurði Sigurðssyni. Síðan fluttist Einar að Lágu-Kotey og dvaldist þar til 26 ára aldurs. Það var 1910. Þá giftist hann og hóf búskap á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi. Kona hans var Gíslína Sigurbergsdóttir bónda í Fjósakoti Einarssonar þar í sveit. Á Syðri-Steinsmýri bjuggu þau hjón í eitt ár. Árið 1911 fluttu þau að Efri-Steinsmýri. Þar missti Einar konu sína af slysförum. Hún dó 1. janúar 1913. Þá áttu þau tvö börn, Sigurbjörn, núverandi biskup yfir Íslandi, þá 18 mánaða, og Sigurfinn, sem býr í Fagradal við Bárugötu hér í bæ, þá mánaðar gamlan.
Tengdaforeldrar Einars Sigurfinnssonar bjuggu í Háu-Kotey. Þau tóku Sigurbjörn litla dótturson til fósturs. Þar var hann til 8 ára aldurs. Einar fluttist að Lágu-Kotey til móður sinnar með yngri drenginn.
Árið 1926 fluttist Einar Sigurfinnsson til Reykjavíkur m.a. til þess að geta séð um og styrkt son sinn Sigurbjörn, sem þá hóf nám í Menntaskólanum það haust.
Eftir fermingu hafði Sigurbjörn Einarsson stundað nám hjá Helga Lárussyni á Kirkjubæjarklaustri og síðan hjá séra Birni O. Björnssyni, sem þá var prestur í Þykkvabæjarklaustursprestakalli. Lét prestur sér mjög annt um unglinginn Sigurbjörn, sem var sérstaklega bókhneigður og námfús. Yngri sonur Einars, Sigurfinnur, var meira hneigður að verklegum störfum.
Í Reykjavík dvaldist Einar Sigurfinnsson í þrjú ár. Stundaði þar ýmsa vinnu, er til féll, og var í kaupavinnu á sumrum. Þá kynntist hann seinni konu sinni, Ragnhildi Guðmundsdóttur frá Syðra-Langholti. Þau giftust vorið 1928. Árið eftir reistu þau bú að Iðu í Biskupstungum. Þar bjuggu þau í 26 ár eða til ársins 1955, er þau brugðu búi og fluttu hingað til Vestmannaeyja. Þau eiga einn son, Guðmund að nafni. Hann býr hér í bæ. Einar Sigurfinnsson gerðist goodtemplari árið 1906. Áður hafði hann unnið að bindindisstörfum í menningarfélagi þeirra Meðallandsbúa.
Hér í Eyjum hefur Einar Sigurfinnsson starfað hjá Landssímanum.
(Sjá greinar hans hér á eftir: Útvörður Suðurstrandar og Úr sögu vélskipsins Skaftfellings).