Blik 1960/Dæmi um aðbúð vermanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960




Dæmi um aðbúnað vermanna


Svo sem fram er tekið í skýringum við mynd af húsinu Nöjsomhed hér í ritinu, er myndin af vesturstafni og suðurhlið. Annar inngangur var inn í húsið að austan. Þar var þröngur gangur inn af útidyrum og úr honum brattur stigi upp á loftið. Um fjölda ára höfðu aðkomuskipshafnir hafzt við á loftinu á vetrarvertíðum.
Vetrarvertíðina 1892 var til húsa á loftinu í Nöjsomhed skipshöfnin á Landeyjaskipinu Ísaki. Formaðurinn var Oddur bóndi á Krossi í Landeyjum, faðir Sigurðar heitins í Skuld hér. Var skipshöfnin 15 manns.
Sunnudag nokkurn um veturinn komst Ísleifur sál. Jónsson, bróðir Þorsteins í Laufási, í „kæfuveizlu“ hjá Árna Ísleifssyni frá Kanastöðum, sem var einn af hásetunum á Ísaki. Næsta sunnudag á eftir var svo Þorsteinn boðinn á loftið í samskonar veizlu. Hann var þá á 12. árinu. Drengurinn hlakkaði mikið til að fá að borða nægju sína af hinni ljúffengu kæfu Landmannanna.
Þorsteinn fikaði sig upp stigann, freðinn og hálan, því að snjór var á jörðu og mikið frost. Í ljós kom, að skipshöfnin lá öll í rúmunum fárveik af innfluensu, sem geisaði þá skæð í kauptúninu, svo að fjöldi manna lá veikur. Þorsteinn fékk pata af, að mennirnir hefðu mikinn hita og sumir væru sárþjáðir.
Árni Ísleifsson ympraði á því við Þorstein, að því miður gæti ekkert orðið úr kæfuátinu að því sinni. Urðu það drengnum mikil vonbrigði, en lét þó sem ekkert væri.
Einn af skipshöfninni var Guðlaugur bóndi í Búðarhólshjáleigu í Landeyjum. Hafði hann orð á því, hvort Þorsteinn gæti gert þeim þann greiða, að hella fyrir þá úr kirnunni, sem stóð frammi á loftinu við uppganginn.
Þorsteinn tók kirnuna og rogaðist með hana niður stigann.
Í miðjum stiga skrikaði honum fótur í hálkunni, svo að hann missti kirnuna. Valt hún niður stigann með bramli og braki, skall á útidyrahurðina, svo að hún hrökk upp, og kirnan lá úti á hlaði.
Lesendur telja það auðvitað víst, að innihald kirnunnar hafi nú runnið niður stigann og fram úr dyrum. — Ó-nei, svo frosið var á henni, að ekki fór dropi úr henni, þó að eitthvað kynni að hafa verið ófrosið undir hellunni.

• • •

Ég hefi skráð þessa stuttu frásögn eftir Þorsteini Jónssyni í Laufási til þess að gefa lesendum Bliks dálitla hugmynd um, hverskonar aðbúð aðkomusjómenn urðu stundum að gera sér að góðu á vetrarvertíðum í Vestmannaeyjum.