Blik 1960/Þórunn Jónsdóttir, ljósmóðir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



Þórunn Jónsdóttir
ljósmóðir
Þórunn Jónsdóttir ljósmóðir.


Eins og á er drepið í greininni Nýborgarheimilið hér í ritinu, þá tók Þórunn Jónsdóttir, ljósmóðir, við starfi Þórönnu ljósmóður í Nýborg árið 1924. Þórunn Jónsdóttir er fædd 8. júní 1889 að Reynishólum í Mýrdal. Faðir Þórunnar var Jón bóndi frá Skammadal Jónsson bónda frá Fjósum Þórðarsonar. Kona Jóns bónda frá Skammadal var Sigríður Einarsdóttir, bónda í Engigarði og víðar, Einarssonar Þorsteinssonar, bróður séra Jóns Steingrímssonar eldklerks.
Þegar þeir bræður Þorsteinn og séra Jón fluttust úr Norðurlandi í Mýrdalinn haustið 1755, fengu þeir í rauninni hvergi húsaskjól, hvergi fannst rúm handa séra Jóni Steingrímssyni í „gestaherberginu“. Þeir bræður urðu því að hýrast í hellisskúta um veturinn 1755—1756. Kindur sínar geymdi prestur í öðrum hellisskúta, sem enn ber nafnið Pína. (Samanber Skruddu R.Á., 3 b. bls. 164). Móðir Sigríðar Einarsdóttur, eða móðuramma Þórunnar ljósmóður, var Ingibjörg Sveinsdóttir landlæknis Pálssonar.
Þórunn ljósmóðir ólst upp í foreldrahúsum í Reynishólum við ýmis sveitastörf. Hún var lengi heilsutæp á unga aldri og framtíðin virtist heldur döpur og engu spá glæsilegu ungu stúlkunni í Reynishólum. Fulltíða lærði hún fatasaum í Rvík.
Árið 1918 kom Þórunn fyrst til Vestmannaeyja.
Í Vestmannaeyjum framfleytti Þórunn sér á saumaskap mörg þau árin, sem heilsuleysið svarf hvað mest að henni og hún átti bágast með að vinna. Hún saumaði mest klæðnað á karlmenn.
Vorið 1923 kom Þórunn að máli við Halldór héraðslækni Gunnlaugsson og tjáði honum, að hún hefði hug á að ganga í ljósmæðraskólann í Reykjavík og verða síðan ljósmóðir í Vestmannaeyjum. Héraðslæknirinn tók þessari hugmynd vel. Hann æskti þess, að Þórunn sækti þegar um ljósmóðurstöðu þá, er losnaði, þegar Þóranna Ingimundardóttir ljósmóðir hætti störfum, en hún var þá 64 ára og hafði gegnt ljósmóðurstörfum í Eyjum í 38 ár. Ekki vildi Þórunn þó sækja um stöðuna, fyrr en hún hafði lokið námi.
Í maí 1923 tók taugaveiki að geisa í Eyjum. Hópur manna tók veikina. Þá varð að ráði að gera gamla goodtemplarahúsið að sjúkraskýli, Þangað voru brátt fluttir 32 sjúklingar. Salir hússins, sem voru tveir, voru hólfaðir sundur með léreftstjöldum í minni vistarverur, og voru nokkrir sjúklingar í hverju „herbergi“. Eitt herbergið var mjög lítið og ætlað dauðvona sjúklingi.
Þórunn Jónsdóttir var ráðin hjúkrunarkona yfir taugaveikissjúklingunum. Með henni starfaði frk. Henriksen, lærð hjúkrunarkona, síðar eiginkona Odds kaupmanns og skósmíðameistara Þorsteinssonar. Þessum hjúkrunarkonum til aðstoðar starfaði Guðrún Pálsdóttir ökumanns frá Laufholti Sigurðssonar. Eitt af skyldustörfum hjúkrunarkvennanna var að sækja heim á heimilin taugaveikisjúklingana, bera þá út úr híbýlum sínum og flytja þá í sjúkraskýlið. Þessi flutningur reyndist þeim svo erfitt verk, að þær kvörtuðu og töldu sig naumlega geta innt hann af hendi. Enginn karlmaður virtist þó fáanlegur til þess að létta þessu erfiða starfi af hjúkrunarkonunum sökum hræðslu við veikina. Þá var það sem aðventistaleiðtoginn hér, O.J. Olsen, tók að sér þetta erfiða verk. Hann bar síðan sjúklingana út í fanginu og lagði þá í sjúkrakörfu. Síðan bar hann þá aftur úr henni inn í sjúkraskýlið.
Þrír sjúklingar dóu af þeim 32, sem lagðir voru þarna inn.
Dag nokkurn var lítill drengur fluttur úr heimili sínu niður við Strandveg í sjúkraskýlið. Hann hafði þá legið heima rænulaus eða rænulítill í tvo sólarhringa. Fluttur var hann í herbergi hinna dauðvona. Nokkrum tímum eftir að hann var lagður þar í rúmið, var Þórunn Jónsdóttir að þvo gólfið í herberginu. Heyrir hún þá, að drengurinn segir veikum rómi: „Þóra, gef mér köku.“ Þórunn brá fljótt við og sinnti sjúklingnum litla. Nærðist hann á mjólk og fleiru, og fór honum dagbatnandi eftir þetta.
Í 5 vikur hjúkraði frk. Henriksen þarna í goodtemplarahúsinu með Þórunni við mjög góðan orðstír. Eftir að hún hætti, annaðist Þórunn ein hjúkrunarstarfið í sjúkraskýlinu. Voru þá 18 sjúklingar eftir í húsinu og fór þeim dagbatnandi flestum. Alls hjúkraði Þórunn þarna í 8 vikur. Þá voru allir sjúklingarnir orðnir hraustir nema tveir. Þeir voru fluttir í Gamla spítalann, nú húseignin nr. 20 við Kirkjuveg.
Haustið 1923 hóf síðan Þórunn Jónsdóttir nám ljósmóðurfræðinnar. Hún brottskráðist úr Ljósmæðraskóla Íslands vorið 1924 með 1. einkunn. Þá um vorið lét Þóranna Ingimundardóttir af störfum, og Þórunn var sett ljósmóðir í Vestmannaeyjum með bréfi dags. 16. apríl 1924. Hún var síðan ljósmóðir þar til 9. apríl 1934. Þá hafði hún tekið á móti 465 börnum.
Þegar Þórunn Jónsdóttir var skipuð ljósmóðir í Eyjum, hafði Jóna Kristinsdóttir starfað þar um skeið. Einnig var þar búsett öldruð ljósmóðir frá Húsavík í Þingeyjarsýslu, Stefanía Hannesdóttir.
Alltaf fannst Þórunni að hún þyrfti að afla sér meiri þekkingar í ljósmóðurfræðinni en Ljósmæðraskóli Íslands hafði veitt henni. Þess vegna fékk hún orlof frá starfi 1928 og sigldi til Kaupmannahafnar. Þar stundaði hún nám við Ríkisspítalann í hálft ár. Stefanía Hannesdóttir var sett ljósmóðir fyrir hana á meðan.
Vorið 1934 hafði Þórunn Jónsdóttir sagt af sér ljósmóðurstarfinu í Eyjum. Fluttist hún þá vestur á Þingeyri við Dýrafjörð. Þar var hún síðan starfandi ljósmóðir í 9 1/2 ár. Þá hætti hún alveg ljósmóðurstörfum sökum heilsubilunar og fluttist til Reykjavíkur. Þegar af bráði um vanheilsuna, gerðist Þórunn vökukona við sjúkrahús í Reykjavík. Vökustörfin innti hún af hendi í 10 ár. Eftir að hún fluttist úr Eyjum 1934, þráði hún alltaf að flytjast þangað aftur og fá sér þar eitthvert starf.
Árið 1956 heyrði hún auglýsta í Útvarpinu ráðskonustöðu á litlu heimili í Eyjum. Þessa stöðu sótti hún um og fékk hana. Þannig réðist Þórunn aftur til Eyja og nú ráðskona. Þessa stöðu hafði hún á hendi einn vetur. En sumarið 1956 réðist hún hjúkrunarkona við elliheimili kaupstaðarins og hefur verið þar síðan.
Þórunn Jónsdóttir hefur ávallt fundið mesta ánægju og einlægasta gleði í lífinu við líknarstörfin. Við þau störf hefur hún líka reynzt sérstaklega vel, samvizkusöm, nærgætin og hugarhlý. Þar hefur hún jafnan minnt á langafa sinn í móðurætt, Svein lækni Pálsson, hinn þjóðkunna líknanda og náttúrufræðing, sem „skylduverkið vann, verkið mannkærleika,“ eins og skáldið kemst að orði um hann. „Önnur laun hann enginn hlaut, ánægður þó var hann.“

Þ.Þ.V.