Blik 1960/Þórarinn Hafliðason, seinni hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



SIGFÚS M. JOHNSEN:


Þórarinn Hafliðason,
fyrsti mormónatrúboðinn í Vestmannaeyjum
(seinni hluti)


Eratus Snow, mormónapostuli, kom til Danmerkur 1850 og tók að boða trúna af miklu kappi. Tóku margir trúna, og hvattir voru menn til að fara til Utah og skyldu kosta kapps um að vinna sér fyrir fargjaldi þangað.
Guðmundur hefir skrifað Þórarni um komu eða væntanlega komu trúboðans til Kaupmannahafnar, og eigi lét Þórarinn á sér standa. Saman hafa þeir hlýtt á trúboðann og endurnýjað kynni sín af mormónatrúnni og tekið á móti hinum nýja fagnaðarboðskap með hrifningu æskumannanna, sem eygðu tækifæri til að byggja upp nýjan og betri heim. Víst er, að báðir hafa þeir verið trúhneigðir. Þeir munu hafa hrifizt af kenningunni sjálfri og hinni félagslegu jafnréttishugsjón, sem í henni fólst. Aðlaðandi var sú hlið boðskaparins, sem var raunverulegri og sneri að hinum fagra sólskinsheimi Utah. Sagt er, að Þórarinn hafi fyrst verið skírður og Guðmundur litlu síðar eða snemma árs 1851.
Eigi er vitað til þess, að Þórarinn hafi boðað hér mormónatrú, er hann kom heim til Vestmannaeyja, eftir veru sína í Kaupmannahöfn 1849, en hrifinn mun hann hafa verið af mormónatrúnni og ef til vill blótað á laun.
Skírður var hann til mormónatrúar, er hann kom 1851, og viðurkenndur trúboði. Ekki er vitað að svo stöddu, hver þeirra þriggja félaga hafi fyrst tekið trúna og sé þannig fyrsti Íslendingurinn, er gjörðist mormóni, en Jóhann Jóhannsson átti víst lítið við trúboð og fór af landi burt.
Sóknarpresti Vestmannaeyja, séra Jóni Austmann, og sýslumanni J.N. Abel kammerráði leizt ekki á, er farið var að boða hér mormónatrúna, og skrifa þeir um mál þessi, séra Jón Austmann biskupi, og er það bréf dags. 28. apríl 1851, og sýslumaður amtmanni. Það bréf er einnig með sömu dagsetningu. Er í þessum bréfum að finna það fyrsta, sem hér er ritað um mormónatrúboðið á Íslandi. Höfðu báðir embættismennirnir gert sér mikið far um að telja Þórarni hughvarf og fá hann til að láta af mormónatrúnni, en án alls árangurs. Báðir gefa þeir Þórarni góðan vitnisburð. Sýslumaður segir hann duglegan til vinnu og hófsaman og hæglátan og mjög trúhneigðan. Og prestur lýsir því, að Þórarinn hafi verið meðal hinna allra kirkjukærustu manna sérhvern helgan dag, algjörlega frábitinn öllum vínföngum, en einstaklega þéttur að eðlisfari. Síðar, að nú sjáist hann ekki í kirkju, sitji við sínar heilarugls studeringar í einhýsi að sér læstu. Sakramenti kvaðst hann ekki framar ætla að meðtaka, né láta skíra börn sín, útdeila sjálfur brauði og víni, svo miklu sem hver vilji hafa, enda úti á víðavangi, o.fl.
Svo mikils þótti við þurfa, að bréfin næðu sem allra fyrst fram, að séra Jón sendi gagngert með þau til móttakenda og kostaði sjálfur ferðina, er farin mun hafa verið frá Eyjum fyrst skemmstu leið til lands og svo þaðan landveginn til Reykjavíkur. Kostnaðurinn við sendiferðina er metinn minnst 10 rd.
Til Vestmannaeyja höfðu ekki borizt neinar trúarhræringar utan úr heimi, og sóknarpresturinn þar, er var heittrúarmaður á gamla vísu, stóð fast um hjörð sína. Var sízt að furða, þótt honum og mörgum öðrum yrði bilt við, er mormónatrúboðarnir tóku að boða þar trú sína. Þegar fyrstu Eyjahjónin voru skírð til mormónatrúar, ætlaði allt um koll að keyra.
Hjón þessi voru Benedikt Hannesson og Ragnhildur Stefánsdóttir, bæði ættuð af landi, Benedikt úr Fljótshlíðinni og Ragnhildur austan úr Skaftafellssýslu. Hjónin voru skírð dýfingarskírn, svo sem vera bar, í sjávarlóni, líklega í Klöppunum niður í Sandi, Nýjabæjarlóni eða Stokkalóni, og skírnin farið fram að næturlagi. Vegna þess hve mikill styr varð út af þessu, var skírnarathöfnin sjálf færð seinna til fjarlægari staða, langt út á Eyju. Mormónapollur svo kallaður var suður við Brimurð og annar, sem kunnugt er um, milli sjávarklettanna við Torfmýri.
Háyfirvöldin í Reykjavík svöruðu bréfum sóknarprests og sýslumanns um hæl með sendimanni séra Jóns Austmanns. Hvorki biskup, er þá var Helgi Thordersen, eða stiptamtmaður Trampe greifi taka málið sérlega alvarlega. Telur Trampe óþarft að gjöra nokkrar sérstakar ráðstafanir, meðan þessir menn brjóti ekki beinlínis landslögin, en sýslumaður skuli vera vel á verði. Biskup leggur lítið til málanna, en er þó með hvatningarorð til sóknarprestsins, en þess var sízt þörf, því að mjög hafði séra Jón lagt sig fram um að fá kveðið niður mormónskuna í Eyjum. Fari hinir svokölluðu „heilögu“ að framkvæma prestsleg embættisverk, þá skuli prestur ekki undanfella að tilkynna það verzlegum yfirvöldum án tafar.
Áður en næstu skrif gengu á milli, höfðu þeir atburðir gerzt, er höfðu alveg gagnger áhrif á þessi mál. Það var „umvendan Þórarins“, eða afturhvarf frá nýju trúnni. Verður þessu lýst hér nokkru nánar, en háyfirvöldunum mun hafa virzt, er fregnir bárust hér um í seinni bréfum og annað, er var að gerast, sem nú væri björninn unninn og mormónatrúin kveðin niður. En það var þó ekki nema í bili. Hér höfðu menn ekki verið aðgerðarlausir. Undirskriftum var safnað undir kærur á hendur mormónum með nær 300 (284) nöfnum og tilnefndir þeir menn og konur, er skrifuðu eigi undir. Voru það Loptur Jónsson í Þorlaugargerði, er seinna gerðist mormóni, og Jón Símonarson bóndi í Gvendarhúsi, faðir Jóns gamla í Gvendarhúsi. Ekkert af þeirra fólki hafði heldur skrifað undir. Einnig eru tilnefndir Ólafur Guðmundsson smiður í Kirkjubæ, kunnur sem smiður við Herfylkingu Vestmannaeyja seinna og þjóðhagi, og einnig Magnús Bjarnason, er seinna gerðist mormóni. Þótti það einkum mikil tíðindi, að Loptur bóndi í Þorlaugargerði, er var mesti greindarmaður og í allrafremstu röð bænda í Vestmannaeyjum, meðhjálpari og sáttanefndarmaður og vinur mikill sóknarprests síns, séra Jóns, skyldi vera meðal þeirra, er hölluðust að mormónatrú, eins og síðar kom fram. Þó hafði hann eigi látið skírast, er þetta gerðist. Jón Símonarson í Gvendarhúsi gerðist aldrei mormóni, né heldur Ólafur Guðmundsson, og eigi Guðmundur Guðmundsson, er ég hygg, að sé Guðmundur í Jónshúsi, einnig talinn í Litlakoti (Lágakoti), áður bóndi á Vesturhúsum, og átti fyrir seinni konu Margréti Gísladóttur, móður Samúels Bjarnasonar mormóna. Var Guðmundur einn þeirra, er neituðu að undirskrifa. Þess má geta, að Jón Símonarson var kvæntur Þuríði Erasmusdóttur, var hún seinni kona hans og þau barnlaus. Hún var systir Guðnýjar Erasmusdóttur í Ömpuhjalli, er var með þeim í fyrstu, en tók mormónatrú, þá orðin ekkja og öldruð, en lagði samt út í það ævintýri að fara frá Eyjunum til fyrirheitna landsins, Utah.
Alda reis upp á móti Lopti Jónssyni í Þorlaugargerði, er kjörinn hafði verið fulltrúi á Þjóðþingið 1851. Loptur fór eigi á þingið, en Magnús Austmann stúdent og hreppstjóri í Nýjabæ, sem einnig var kjörinn, því að hvert kjördæmi hafði rétt til að senda tvo fulltrúa, sat Þjóðfundinn sem kjörinn fulltrúi Vestmannaeyja. Til þjóðfundarins 1851 var eigi kosið eftir tilsk. frá 8. marz 1843, en um hana giltu sérstök lög frá 1849, með rýmri kosningarétti. Nokkru seinna lét Abel sýslumaður af sýslumannsstörfum og fluttist aftur til Kaupmannahafnar. Hafði hann ætíð staðið við hlið sóknarprestsins í hinni öflugu baráttu þeirra gegn mormónatrúnni. Eftir Abel tók Baumann við sýslumannsembættinu.
Þórarinn Hafliðason rækti köllun sína sem mormónatrúboði með mikilli samvizkusemi. Hann var trúhneigður maður og kirkjurækinn, eins og áður er sagt, og nú, er hann hafði tekið mormónatrú, var hann sannfærður um rétta trú sína, og að hún væri í fyllsta samræmi við orð ritningarinnar. Jesús hafði ekki skírt börn.
Hann hafði verið ofsóttur af æðstu mönnum, en þeir fátæku fylgt honum, og þannig væri það enn, eins og reynslan sýndi hér í Vestmannaeyjum. En Þórarinn varð fyrir þeim mikla hnekki og stóru mæðu í trúboðsstarfi sínu, sem gekk mjög nærri honum, að hin ágæta kona hans, sem hann unni hugástum, vildi eigi hlusta á fortölur hans né láta endurskírast til mormónatrúar, og eigi heldur tengdamóðir hans, Ingveldur Magnúsdóttir, sem í ekkjustandi sínu var hjá þeim hjónum. Svarf svo til stáls á milli hjónanna, sem bæði voru ágætar og mikilhæfar manneskjur og unnust, að Þuríður hótaði að skilja við mann sinn, ef hann hyrfi ekki frá villu síns vegar og afneitaði mormónatrúnni. Skarst þannig í odda milli þeirra, er Þuríður frétti um fyrstu endurskírnina, er Þórarinn framkvæmdi í Eyjum á hjónunum í Kastala. Kom mál Þórarins og Þuríðar konu hans bæði fyrir prest og sýslumann og segir séra Jón, að Þuríður hafi flúið til sín að Ofanleiti. Þuríður hafði áður verið hjá prestshjónunum á Ofanleiti. Varð hörð rimma út af því, en svo fór, að Þórarinn, sem bæði virti og elskaði konu sína, lét undan heldur en að missa hana frá sér og lofaði að láta af hinni nýju trú sinni, en kona hans hafði rifið sundur köllunarbréfið í návist Abels, og kastað burtu helgum dómum, mynd af heilögum manni mormóna, E. Snow, og hinni helgu olíu, sem notuð var við endurskírnina. Þórarinn skrifaði og undir nafnaskrána með þeim, sem halda vildu fast við sína fyrri trú. Mun Þuríður kona hans hafa heimtað það af honum. Slíka fórn varð hann að færa, þó að nauðugt væri, en sennilega hefur afturköllunin aðeins verið í orði kveðnu. Enda segir Jón Austmann, að hann hafi mátt allt við hafa að halda honum við trúna, en þar dugði konan vel. Þær mæðgur hafa haldið sig að vinum sínum og velunnurum, prestshjónunum gömlu á Ofanleiti og Guðnýju Jónsdóttur. Guðný var greind kona og skörungur mikill. Hjá henni hafði Þuríður verið um tíma eftir að hún missti föður sinn, og þarf eigi að fara í neinar grafgötur um það, að Guðný hefir stappað í þær mæðgur stálinu, hafi þess þurft með. Guðný hafði misst mann sinn, Sigurð Einarsson málmsmið á Kirkjubæ 1846, en var gift aftur Ólafi stúdent Magnússyni, syni Magnúsar hreppstjóra Sigurðssonar á Leirum undir Eyjafjöllum, og bjuggu þau áfram á Kirkjubæ, unz Ólafur tók prestvígslu og fékk Einholtsþing á Mýrum í Hornafirði. Að séra Ólafi látnum giftist Guðný frænda sínum Jóni Brynjólfssyni frá Hlíð í Lóni, bónda í Þórisdal. Þau hjónin voru systkinabörn, því að móðir Jóns, kona Brynjólfs í Hlíð, var Þórunn Jónsdóttir, systir séra Jóns Austmanns á Ofanleiti. Meðal afkomenda Hlíðarhjónanna, Brynjólfs og Þórunnar, er Jörundur Brynjólfsson fyrrv. alþingismaður, og Ingibjörg Jónsdóttir frá Þórisdal í Lóni, kona Guðmundar heitins Jónssonar, stórbónda að Nesi í Selvogi. Guðný Austmann átti ekkert barn, er upp komst, en fóstursonur hennar og séra Ólafs var Jón Sigurðsson, og unni hún honum mjög. Hann var faðir Vilmundar Jónssonar landlæknis.
Guðmundur Guðmundsson frá Ártúnum var eigi í Vestmannaeyjum, er þeir atburðir skeðu, er frá var skýrt. Er líklegt, að hann hafi farið snögga ferð til lands, en komið út aftur um hæl. Honum hefir orðið eigi smáræðis hverft við að heyra um afturhvarf Þórarins. Vel getur verið, að hann hafi verið búinn að heyra fréttirnar, áður en hann skrifaði Þórarni, þá kominn aftur til lands. Í bréfi þessu gefur hann í skyn, að hann hafi fengið vitneskju um afturhvarf Þórarins með vitran á yfirnáttúrlegan hátt. Deilir hann allmjög á Þórarin, er hann kveður hafa haft embætti á hendi og brugðizt þar með öllu. Um vald konunnar yfir manninum kemst hann þannig að orði: „Varð ekki jörðin bölvuð vegna þess að Adam hlýddi Evu?“ Fer hann um þetta fleiri orðum. Guðmundur skrifaði og Abel sýslumanni og séra Jóni, en prestur hafði skrifað Guðmundi áminningarbréf. Guðmundur svarar með bréfi dags. 30. maí 1851, og er hann þá í Eyjum. Bréfið til sýslumanns er dags. 31. maí. Þremur dögum seinna senda þeir fyrrnefndu seinni bréf sín, bæði dags. 3. júní, til háyfirvaldanna. Bréf hafði séra Jón einnig sent biskupi 1. maí s.á., skýrslu um mormónatrúboðið seinna. Átti séra Jón í ströngu að stríða og tók þessi mál alvarlega. Honum fannst sem góðum hirði safnaðarins, að hann bæri ábyrgð á því, að eigi lentu menn út á refilstigu villutrúar að hans dómi. Honum tókst að mynda öflugan varnarflokk gegn sértrúarmönnum, eins og undirskriftarskjölin sýna, en margir höfðu óttazt, að mormónatrúin kynni að ryðja sér algerlega til rúms í Vestmannaeyjum, því að þar væri jarðvegur fyrir þessar nýju kenningar. Þó er talið, eftir að Þórarinn hvarf frá trúnni, að mormónskan muni hjöðnuð í Vestmannaeyjum, og því heldur Baumann, settur sýslumaður, fram í bréfi til amtsins 26. júní 1851. Séra Jón hafði við fermingu í Landakirkju, en þar var fjölmenni mikið við messu, sunnudaginn 29. júní 1851, lesið upp af prédikunarstóli svarbréf biskups, dags. 9. s.m., við bréfi séra Jóns frá 3. s.m. Bætti prestur þar við harðorðri áminningarræðu frá eigin brjósti. Séra Jóni mun sem fleirum hafa þótt fullmikil linkend sýnd þeim, er teljast máttu afvegaleiddir frá hinni einu sönnu trú.
Þórarinn náði aðeins að endurskíra þessi einu um getnu hjón, en nokkrum fleirum mun hann hafa verið búinn að snúa til mormónatrúar, er seinna létu endurskírast. Má þar einkum nefna Magnús Bjarnason í Helgahjalli og konu hans Þuríði Magnúsdóttur, er höfðu verið samtímis Þórarni í Ólafshúsum (ekki Ólafshúsi, er þeir rita, sem ókunnir eru staðháttum eða hirða lítt um, hvernig farið er með staðarnöfn) og þar sjálfra sín, en Þórarinn vinnumaður Jóns bónda Jónssonar. Líklegt er og, að Þórarinn hafi snúið Guðnýju gömlu Erasmusdóttur í Ömpuhjalli til mormónatrúar. Fyrirvinna hjá henni var Ingimundur Einarsson, bátsverji hjá Þórarni Hafliðasyni.
Að þessu sinni náði mormónatrúin harla litlum viðgangi í Vestmannaeyjum. Andspyrnan var sterk af hendi prests og sýslumanns og sérstaklega voru þeir feðgar, séra Jón og Magnús stúdent og hreppstjóri í Nýjabæ öflugir í andstöðunni. Þeir voru báðir miklir áhrifamenn á andlega sviðinu og í félags- og sveitarstjórnarmálum Eyjanna. Létu þeir til sín taka um sína daga og nutu vinsælda almennings, sem treysti þeim, og flestir eða allir hinir greindari bændur, er mest kvað að, fylgdu þeim feðgum að málum. Er þar að nefna Helga Jónsson Hálfdánarsonar frá Klasbarða, Gísla Jónsson hreppstjóra í Presthúsum, bróður Helga, Jón Einarsson á Gjábakka, Sigmund Jónatansson, sigldan beyki, ættaðan úr Saurbænum í Dalasýslu og Guðmund Árnason meðhjálpara í Mandal, (Ömpuhjalli).
Sigmundur var bóndi á Vesturhúsum. Hann settist fyrst að í Sæmundarhjalli og kvæntist Úlfheiði Jónsdóttur¹) ekkju Sæmundar heit. Sæmundssonar, er drukknaði hér. Sigmundur breytti Sæmundarhjallsnafninu í París, og hélzt Parísarnafnið lengi síðan. Jón Símonarson, greindarmaður sem hinir fyrrnefndu, er miklar vomur hafa verið í gagnvart mormónatrúnni, munu þeir feðgar hafa fengið leystan ,,af villu síns vegar“. Sagt var, að Þuríður Erasmusdóttir í Gvendarhúsi, kona Jóns og systir Guðnýjar í Ömpuhjalli, hafi verið mjög á móti því, að maður hennar aðhylltist mormónatrúna með Lopti bónda í Þorlaugargerði, nágranna sínum.
Svarbréf háyfirvaldanna við bréfunum frá 3. júní barst til Eyja um hæl, sennilega með sendimanninum, er gjörður hafði verið út af örkinni með bréf sýslumanns og prests, því að siður var hér að gjöra út sérstaka sendimenn til lands með áríðandi bréf, eða þegar um sérstakt erindi var að ræða, og hélzt sá siður lengi. Þannig var það, er sótt var um veitingarleyfið að frú Roed veitingakonu látinni, að umsækjendur sendu hvor sinn sendimann landleiðina til Reykjavíkur á fund landshöfðingja, rétt fyrir nýárið, og var annar sendimaðurinn úr Eyjum og skotið upp í Sand, en hinn fór undan Eyjafjöllum, og var Eyjamaðurinn hlutskarpari og náði fyrr til Reykjavíkur. Báðir fóru gangandi.
Um það leyti sem bréf háyfirvaldanna komu til Eyja, en þau eru dags. 9. og 10. júní 1851, fór Jóhann Nicolai Abel, er hlotið hafði kammerráðs nafnbót af konungi árið 1847, alfarinn frá Vestmannaeyjum til Kaupmannahafnar. Abel sýslumaður sagði lausu embætti 1852 og var þá Baumann skipaður fyrir sýsluna og hélt hana í eitt ár, en sótti þá um og fékk Gullbringusýslu 1853 og lausn frá embætti 1860 með eftirlaunum og lifði eftir það í Kaupmannahöfn um 30 ár og komst yfir nírætt. Hann hét fullu nafni Adolph Christian Baumann og hafði sem J.N. Abel tekið aðeins hið danska reynslupróf í lögum og var hvorugur kandidat í lögum frá háskóla fremur en hinir dönsku sýslumenn almennt hér*.
Baumann vildi nú sýna af sér rögg, er hann var tekinn við sýslunni, en ekki hafði hann þótt neitt sérstakt yfirvald og skildi illa íslenzku. Jafnskjótt og hann hafði móttekið bréf amtsins snemma í júní 1851, lét hann kalla Þórarinn Hafliðason fyrir rétt, og var hann kærður fyrir að hafa breytt út mormónatrú og honum bannað að viðlagðri lagarefsingu að framkvæma embættisverk þau, er prestar einir mættu framkvæma eftir landslögum.
Þórarinn lá þá við í útey við lundaveiðar, er á þessum árum voru miklar og mikið stundaðar með greflum. Hefir Þórarinn sennilega verið í Suðurey.
Kærði Baumann hann fyrir að hafa blandað sér í embættisverk presta. Þegar Þórarinn kom heim úr úteynni, mætti hann við réttarrannsóknina hjá Baumann. Hér gilti auðvitað fullkomið trúarbragðafrelsi. Samt virtust yfirvöldin, og það jafnvel þau hæstu, í fyrstu ekki vera alveg á því hreina með, hvernig við skyldi snúast, en þeirri skoðun haldið fram, órökstuddri þó, að trúboðar mormóna mættu ekki inna af höndum embættisverk. Fljótlega var þó frá þessu horfið. Frá 1853 tóku mormónar hér að skíra sína opinberlega.
23. júní fór yfirheyrslan yfir Þórarni fram. Lofaði hann að hafast ekkert framar að. En víst er, að hann var alveg hættur að vinna að trúboðinu opinberlega. Um þessar mundir var Guðmundur Guðmundsson farinn úr Eyjum og eigi verður séð, að hann hafi unnið opinskátt að útbreiðslu mormónatrúar hér, eftir að Þórarinn hætti. En hann bjó hjá Lopti í Þorlaugargerði og var talið, að þar hafi verið haldnar trúarsamkomur á laun.
Þórarinn Hafliðason átti nú skammt eftir ólifað. Hann hefir verið bundinn við smíðar, ef til vill við beykisstörf, og eigi stundað sjóinn að staðaldri á vetrarvertíð, en róið á báti sínum, er hann hefir átt einn eða í félagi með öðrum, þegar tækifæri gafst. Hinn 6. marz 1852 fer hann í fiskiróður á smáfleytu sinni við fjórða mann, en báturinn kom ekki heim að kvöldi og mun hafa farizt í rúmsjó með áhöfn sinni, 4 mönnum, og spurðist aldrei framar til báts né manna**.
Mannskaði mikill var að þessum ungu mönnum og ekki sízt að Þórarni, er vitað var, að var vel gefinn og dugandi maður. Óvíst er þó, hvort Eyjabúar hefðu notið hans lengi, þótt honum hefði orðið lengra lífs auðið, því að sennilega hefði hann farið til Ameríku, eins og hinir mormónarnir, sem raunin varð á, því að naumast var þeim vært heima í Eyjum og æði lokkandi að fara til sólskinslandsins Utah. Þar stóðu að minnsta kosti fyrstu innflytjendunum til boða stór landnám ókeypis til að rækta. Trú sína ræktu þeir í samfélagi við trúbræðurna, er fyrir voru, og fundu lítt til einstæðingsskapar og verða þannig furðu fljótir að samlaga sig hinu nýja fósturlandi.
Trúboðið, er lá niðri í bili eftir dauða Þórarins, fær byr í seglin aftur með komu danska trúboðans Lorentsens hingað 1853 og starfsemi Guðmundar Guðmundssonar. Fyrsti mormónahópurinn fer héðan til Utah 1854, Samúel Bjarnason bóndi á Kirkjubæ, við fjórða mann. Árið 1855 fer Þórður Diðriksson einn síns liðs. (Það er rangt, er sumstaðar er staðhæft, að Samúel hafi farið sama árið eða 1855). 1857 flyzt Loptur Jónsson bóndi í Þorlaugargerði við 11. mann frá Vestmannaeyjum til Utah. Þessar ferðir liggja svo niðri um hríð, en árið 1873 komu þeir Loptur Jónsson og Magnús Bjarnason aftur í trúboðserindum hingað og fóru aftur þjóðhátíðarsumarið 1874 og með þeim hópur manna. Ferðirnar halda áfram fram yfir 1892 og ítarlega rakið af þeim, er þetta ritar í öðrum kafla og er það alllangt mál.
Þuríður Oddsdóttir, ekkja Þórarins Hafliðasonar, bjó eftir lát manns síns í Sjólyst og var móðir hennar þar einnig. Einn dreng höfðu þau hjónin eignast, Odd (f. 2. febr. 1852). Ólst hann upp með móður sinni og stjúpa, lengst af í Eystra-Þorlaugargerði.
Árið 1853, 25. okt, giftist Þuríður Oddsdóttir annað sinni Jóni Árnasyni, f. í Dúðu í Eyvindarmúlasókn. Þeim varð fjögurra barna auðið, og voru þau: Þórarinn, er heitinn var eftir Þórarni heitn. Hafliðasyni, fyrra manni Þuríðar, f. 30. jan. 1855. Hin börn þeirra Þuríðar og Árna voru Ingigerður (f. 4. des. 1857), Árni (f. 27. apríl 1861) og Magnús (f. 13. sept. 1862). Jón Árnason var dugnaðarmaður.

* Reynsluprófið kölluðu kandídatarnir hreppstjóraprófið.
** Með Þórarni fórust þrír ungir Skaftfellingar. Þeir voru þessir:
1. Ísleifur Pálsson, 22 ára. Hann var afabróðir Lárusar Pálssonar leikara.
2. Kolbeinn Ófeigsson²), sem var bróðir Katrínar Ófeigsdóttur, móðurömmu Karls Einarssonar, fyrrum sýslumanns og bæjarfógeta í Vestmannaeyjum.
3. Ingimundur Einarsson (23 ára), fyrirvinna í Ömpuhjalli (síðar Mandal) hjá ekkjunni Guðnýju Erasmusdóttur, merkrar konu, er síðar fór til Utah (1857). Ingimundur Einarsson fluttist ungur austan af Síðu. Hann var ömmubróðir (hálfbróðir) Vilmundar Jónssonar landlæknis.

¹) Leiðr.: Úlfheiður Jónsdóttir. (Heimaslóð).
²) Leiðr.: Kolbeinn Ófeigsson. (Heimaslóð).

S.M.J.

Til baka



S P A U G

Lítill ólátabelgur, sem ekki hlýddi mömmu sinni, átti að fá hegningu. Mamma hans hótaði að loka hann inni í hænsnakofa. Þá svaraði strákur þrjózkulega: „En það ætla ég að segja þér, mamma, að eggjum verpi ég ekki.“

Verkstjórinn við vinnusvikarann:
„Það er ekki að sjá, að þú hafir ánægju af vinnunni?“
Hinn: „Jú, vissulega, ég læt bara ekki á því bera, svo að ég verði ekki krafinn um skemmtanaskatt.“