Blik 1959/Stjórn Vestlandske lærarstemna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Stökkva á: flakk, leita

Efnisyfirlit 1959Stjórn Vestlandske lærarstemna


ctr


MYNDIN ER AF STJÓRN VESTLANDSKE LÆRARSTEMNA 1957.


Fremri röð frá vinstri: FRÚ BORGHILD DALE ORHEIM, lektor. FRÚ RANDI LILLEBERGEN, kennari. (Þ.Þ.V.). ROLV R. SKRE, skólastjóri. FRÚ EVA BÖRNES, kennari.
Aftari röð frá vinstri: GUSTAV HANTVEIT, fræðslumálastjóri. TORKJELL NATERSTAD, kennari. DAG ÖIVIND HAFSTAD, yfirkennari. GERHARD J. LILLETVEDT, smíðakenari. BIRGER GRÖSVIK kennari. OSKAR NESSE, númsstjóri. JOHAN LYSLO, kennari.

Mig langar til að kynna lesendum Bliks með fáeinum orðum þessa norsku skólamenn og vini okkar, sem eru um svo margt forustumenn í menningarmálum í sveitum sínum og héruðum, aðdáendur íslenzkrar sögu og menningar og dyggir vinir íslenzku þjóðarinnar og málsvarsmenn. Vegna hinna mörgu skólamanna hérlendis, er sjá Blik að þessu sinni, er ekki ófróðlegt að kynna að nokkru námsferil þeirra og framaleiðir.

Fremri röð frá vinstri:
1. Frú Borghild Dale Orheim, lektor og umsjónarmaður við Pihlskólann í Björgvin. Faðir hennar var kennari og gistihússeigandi. Frú Orheim hefur lokið háskólaprófi í Osló í stærðfræði og náttúruvísindum. Frúin er formaður í félagi kennara (lektora) við æðri skóla í Björgvin. Hún er gift Oddi lektor Orheim við Katedralskólann (menntaskóli) í borginni. Þau hjón eiga 3 börn.
2. Frú Randi Lillebergen, kennari við Fridalen skóla í Björgvin. Hún er fædd 2. sept. 1921 í Tönsberg. Lauk stúdentsprófi 1941, prófi við Kennaraskólann í Elverum 1944. Einnig hefur hún lokið prófum við Statens kvinnelige industriskule (kvennaskóla ríkisins í handíðum). Frúin hefur verið kennari bæði í Austur- og Vestur-Noregi, og í Björgvin síðan 1951. Hún er varaformaður í kennslukvennafélagi Björgvinjar. Gift er hún Arne kennara Lillebergen og eiga þau 2 börn.
4. Rolv R. Skre, skólastjóri barnaskólans að Stend, er fæddur 1. nóv. 1898. Þessi norski skólamaður á sérstæða sögu í frelsisbaráttu norsku þjóðarinnar á styrjaldarárunum. Hann var foringi nokkurra hundraða Norðmanna, sem háðu harða baráttu við nazistavaldið í Noregi. Flokkur Rolvs R. Skre hafðist við í fjöllunum sunnan vert við Sognsæ og vann þaðan Þjóðverjum allt það ógagn, er hann mátti. Tvo af bræðrum Rolvs R. Skre tóku þýzku nazistarnir af lífi. Annan skutu þeir, hinn hálshjuggu þeir. Rolv R. Skre hefur skrifað bók um baráttu þessara Norðmanna við þýzku nazistana.
Rolv R. Skre, skólastjóri, var formaður Vestlandske lærarstemna í 10 ár, 1947—1957, en baðst undan endurkosningu. Hann hefur um margra ára skeið verið forustumaður í ýmsum félags- og menningarmálum, svo sem bindindismálum, kirkjumálum, kennarasamtökum o.fl. Rolv R. Skre, skólastjóri, er bóndi og jarðræktarmaður öðrum þræði. Þá er hann einnig rithöfundur. Hefur m.a. skrifað norska kirkjusögu. Hann er heitur þjóðernissinni og landsmálsmaður.
Kennarasamtökin Vestlandske lærarstemna hafa nú kjörið Rolv R. Skre, skólastjóra, heiðursfélaga sinn fyrir ósérplægni og ötula forustu, meðan hann var formaður samtakanna. Skólastjórinn beitir sér nú fyrir auknum kynnum norskra og íslenzkra kennara og veitir nefnd forustu í þessu skyni. Nefnd þá skipa með honum Birger kennari Grösvik (nr. 5 á myndinni) og Besse Bönes, skólastjóri við Söreidbarnaskóla í Fana. Nefndin var kosin á þingi Vestlandske lærarstemna á s.l. hausti, en drög að félagsskap í þessu skyni voru lögð eftir „Íslandsdaginn“ í Björgvin haustið 1957.
Kona Rolvs R. Skre, skólastjóra, heitir Paulina og er kennari við skóla hans og forustukona í margvíslegum menningarmálum í Fanahéraði, m.a. bindindismálunum.
5. Eva Börnes, yfirkennari við Damsgård skole í Laksevåg á Hörðalandi. Frú Eva Börnes er fædd 19. marz 1901 í Ullensvang í Harðangri, bóndadóttir þaðan. Lauk prófi við Kennaraskólann á Storð á Hörðalandi 1924 og hefur heyjað sér margskonar fræðslu og menntun við ýmsa æðri skóla í Ameríku. Hún var kennari í Harðangri á árunum 1924—1946, síðan barnakennari við Damsgarðsskólann í Laxavogi. Frú Eva Börnes hefur starfað mikið í barna- og unglingastúkum. Hún er ekkja síðan 1946. Var gift Torgeir Börnes, kennara.

Aftari röð frá vinstri:
1. Gustav Hantveit, námstjóri í Aasane á Hörðalandi. Hann er fæddur 21. okt. 1896 í Sogni. Kominn þar af bændum. Hantveit lauk prófi við Kennaraskólann í Volda á Suðurmæri 1919 og prófi við Kennaraháskóla Noregs 1924. Þess utan hefur þessi skólamaður kynnt sér rækilega garðyrkjustörf í þágu skóla og uppeldis, svo og íþróttir, söng og teikningu. Á árunum 1919—1948 var Gustav Hantveit kennari við ýmsa skóla bæði í Vestur- og Austur-Noregi, en gerðist námsstjóri í Aasane 1948. Hann hefur verið formaður bæði í kennarafélögum og fræðsluráðum og hreppsnefndaroddviti. Þannig hefur honum gefizt aðstaða til að beita áhrifum sínum til gengis hugsjónamálum sínum, sem eru fyrst og fremst uppeldis- og fræðslumálin. Þá hefur hann verið í fararbroddi í bindindismálum og talið þau jafnan snaran þátt í uppeldisstarfinu. Gustav Hantveit, námsstjóri, hefur kynnt sér sérstaklega vinnuskóla í Danmörku og Svíþjóð og notið til þess opinberra styrkja. Giftur er hann Ingibjörgu Kjörstad og eiga þau 4 börn.
2. Thorkjell Naterstad, kennari í Dimmelsvík í Harðangri. Hann er fæddur 20. jan. 1898. Kominn er hann af bændum. Hann lauk prófi við Kennaraskólann á Storð á Hörðalandi 1919 og prófi við Kennaraháskóla Noregs 1923. Thorkjell Naterstad hefur bæði gegnt kennara- og skólastjórastörfum og mörgum trúnaðarstörfum öðrum í þágu almennings í trúmálasamtökum, bindindismálum, lestrarfélagi í sveit sinni og svo form. kristilegra stjórnmálasamtaka í sveitinni, en þau samtök eigum við engin hliðstæð á okkar landi, Íslandi. Þá er Naterstad einnig form. í kennarafélagi sveitar sinnar. Hann hefur notið opinbers styrks til þess að kynna sér sænska vinnuskóla. Kona Naterstad kennara heitir Andrea Torp, og eiga þau 4 börn.
3. Dag Öivind Hafstad, yfirkennari við Christi Krybbe skole í Björgvin.
Hann er fæddur 24. ágúst 1905 í Björgvin, og var faðir hans kaupmaður þar.
Hafstad lauk stúdentsprófi 1924 og prófi frá Kennaraskólanum á Storð á Hörðalandi 1926. Þá lauk hann prófi við íþróttaskóla norska ríkisins 1927. Síðan árið 1931 hefur Hafstad verið kennari í Björgvin. Hann hefur notið ýmisskonar styrkja til þess að kynna sér skóla- og uppeldismál í Danmörku, Þýzkalandi og Englandi.
Kona Hafstads yfirkennara heitir Kristi Helleland.
4. Gerhard J. Lilletvedt, húsameistari og smíðakennari.
Hann er fæddur 19. júlí 1895 í Úrangsvogi á Brimnesi á Suður-Hörðalandi.
Hann er kennari við Bergens höyare almenskole og Lærlingeskolen. Meistaraprófi í handíðum og smíðum lauk hann við Bergens tekniske fagskole og Statens handverk og industriskole.
Gerhard J. Lilletvedt er formaður í félagssamtökum verknámskennara í Björgvin og Hörðalandi.
Kona hans heitir Anna Hjartöy, og eiga þau eitt barn.
5. Birger Grösvik, kennari við Barnaskólann á Skildi í Fana á Hörðalandi.
Hann er fæddur 3. ágúst 1921 á Storð, kennarasonur þaðan.
Prófi lauk hann við Kennaraskólann á Storð 1944 og stúdentsprófi 1947, og þá einnig íþróttakennaraprófi við íþróttaskóla norska ríkisins. Kennaraprófi í ensku 1948 og verzlunarskólaprófi 1955. Birger Grösvik hefur verið starfandi kennari í Fanahéraði síðan 1944 og notið opinbers styrks til að kynna sér dönsk skóla- og fræðslumál. Birger Grösvik hefur verið ritari og gjaldkeri kennarasamtaka þeirra, er standa að Vestlandske lærarstemna síðan 1955.
Kona Birgers Grösvik er kennari og heitir Gjertrud Oppedal. Þau hjón eiga tvö börn.
6. Oskar Nesse, námsstjóri í Lærdal, Sogni og Fjörðum.
Hann er fæddur 19. okt. 1897 í Sogni, lénsmannssonur þaðan. Lauk prófi við Kennaraskólann á Storð 1918. Var kennari bæði í Austur- og Vestur-Noregi áður en hann gerðist námsstjóri. Söngstjóri hefur hann einnig verið í Haugekirkju í Sogni yfir 30 ár. Formaður ýmissa kennarasamtaka og málsvari stéttarinnar í stjórnum og á þingum. Forustumaður í ungmennafélögum og bindindismálum.
Kona Oskars Nesse heitir Dorthea Kvigne, og eiga þau 8 börn.
7. Johan Lyslo, kennari og kirkjusöngstjóri í Innvík í Nordfjord.
Hann er fæddur 3. júní 1896 þar í sveitinni.
Lauk prófi við Kennaraskólann í Volda á Suðurmæri 1917 og stúdentsprófi 1922. Var kennari við ýmsa skóla í Vestur-Noregi á árunum 1917—1930, en það ár settist hann að í fæðingarsveit sinni og hefur starfað þar síðan.
Kona Johans Lyslo heitir Kjellfrid Sydness og eiga þau 5 börn.

Rétt er að geta þess, að norskar stúlkur hljóta eftirnöfn manna sinna, um leið og þær giftast.

Þ.Þ.V.