Blik 1959/Spaug og fleira grín

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



Spaug og fleira grín



Mamma: Hvað amar nú að þér, góði minn?
Addi: Æ, mamma, rottugildran hljóp á tána á mér.
Mamma: Það var þér mátulegt. Þér er nær að vera ekki með nefið ofan í öllu.

Sumarið 1914 fór spjátrungsstrákur úr Vestmannaeyjum austur undir Eyjafjöll. Kom hann þar á bæ og var boðið til stofu. Bóndi spyr hann frétta. Strákur tjáir bónda, að styrjöld sé skollin á úti í heimi. Strákur kveður mannfallið svo mikið, að fjandinn eigi fullt í fangi með að veita sálunum viðhlítandi viðtökur, og sé hann þó bullsveittur á skyrtunni við starfið. Þetta sagði strákur með yfirlæti og alvörusvip.
Þegar stráksi var farinn, tautaði bóndi fyrir munni sér: O, jamm og jæja, og var bullsveittur á skyrtunni, veslings greyið.

Dabbi við kellu sína: Nýtt tungl að kvikna, segirðu; en hvað skyldi blessaður skaparinn annars gera við öll gömlu tunglin?
Hún: Hann hefir víst nóg skúmaskot fyrir þau.

Prestur einn réði gamalli konu til að nota neftóbak til þess að halda sér vakandi í kirkjunni. „Það er mjög hressandi,“ sagði prestur.
Gamla konan: „Hvers vegna látið þér þá ekki svolítið af því í ræðuna?“

Sjómaður keypti eitt sinn mjúkar og fallegar skinnlúffur (handskjól) handa unnustu sinni í afmælisgjöf. Hann bað afgreiðslustúlkuna að senda lúffurnar heim til hennar á afmælisdaginn, — en af misgáningi sendi stúlkan kvenbuxur. Með afmælisgjöfinni skrifaði sjómaðurinn unnustunni eftirfarandi bréf:
Elskan mín.
Ég sendi þér þessa smágjöf til þess að þú sjáir, að ég mundi eftir afmælisdeginum þínum, þó að ég sé að heiman. Ég vona, að það komi sér vel fyrir þig að fá þær, þær eru hlýjar nú í kuldanum og auðvelt að fara úr þeim og í þær. Ég var í vandræðum með að velja lit, en afgreiðslustúlkan sýndi mér einar, sem hún var búin að nota í þrjár vikur, og það sá varla á þeim. Ég vissi heldur ekki, hvaða númer þú notaðir — þó það stæði mér auðvitað næst að vita það — en afgreiðslustúlkan var á stærð við þig, og ég fékk hana til þess að máta þær, og þær pössuðu henni alveg. Hún sagði, að þú skyldir blása inn í þær, þegar þú hefðir notað þær, því þeim hætti oft til að vera rakar að innan eftir notkun. Mundu mig um það, elskan mín, að nota þær nú í kuldanum. Þinn elskandi.

Tóti.

Ein af heldri frúm bæjarins hélt kunningjum og heimilisvinum dýrlega veizlu. Könnur með vatni í stóðu á veizluborðinu.
Frúin við gestina: Gerið svo vel að nota vatnið með matnum; það er svo hollt að skola innan á sér lungun.

Fátækur bóndi átti 12 börn. Þegar það 13. fæddist, sagði prestur hans við hann fullur vandlætingar: „Hvenær ætlið þér að hætta þessu, Jón minn?“
Jón bóndi, hógvær: „Hvenær haldið þér, að guð almáttugur hætti að skapa, prestur minn?“

Á „Þorláki“ kl. 23: „Pabbi, pabbi, jólasveinninn er að koma strax. Ósköp kemur hann snemma.
Faðirinn (eftir rannsókn): „Vitleysa, það er hún mamma þín; hún hefir keypt sér nýjan hatt.“

Tveir bæjarfulltrúar ræðast við.
Sigurður: „Þú opnaðir ekki þinn munn á síðasta bæjarstjórnarfundi.“
Björn: „Ekki er það satt. Ég opnaði hann eins oft og þú, því að ég geispaði í hvert sinn, er þú tókst til máls.“

„Af hverju geymir þú reiðhjólið þitt við rúmstokkinn á nóttinni?“
„Ég er orðinn svo voðalega þreyttur á því að ganga í svefni“.

Gamall maður ofan úr afdal var til vertíðar í Vestmannaeyjum. Dag nokkurn hafði hann beðið um konuna sína í síma. Síðan fór hann inn í einn klefann á símstöðinni, tók símatólið og þuldi í það allt, sem honum bjó í brjósti. Síðan gekk hann út úr klefanum og lokaði honum á eftir sér. Þá kallaði símastúlkan til hans og tjáði honum, að konan hans biði í símanum.
„Allt er það í lagi,“ sagði gamli maðurinn, ,,ég lét það í tólið, sem ég ætlaði að segja henni; hún fær það þar. Og svo lokaði ég hurðinni, svo að enginn heyrði til.“





„FRANCO OG HANS SÖN“ Sumarið 1957 bauð Flugfélag Íslands mörgum blaðamönnum til útlanda í tilefni þess, að félagið hafði þá fest kaup á hinum tveim fullkomnu og ágætu Viscount-millilandaflugvélum sínum.
Hér gefur að líta mynd af tveim boðsgestum Flugfélagsins héðan úr Eyjum. Myndin er tekin á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn. Myndasmiðurinn æskti þess að fá að vita hvaða útlendir ferðafuglar þetta væru.
„Franco og hans Sön.“ Hann lét sér svarið lynda. Kvaðst mundi græða peninga á því að sýna myndina utan á vél sinni með þessari undirskrift.
Samkvæmt stjórnmálunum hlýtur „Franco“ auðvitað að vera til vinstri.