Blik 1959/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, I. kafli, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


I. kafli
Fyrsti barnaskóli á Íslandi
1745-1766


Seð þú manninn fyrst og kenn honum síðan að iðka dyggðir.
Þessi spaklegu orð eru höfð eftir einum hinna grísku spekinga fornaldar. Íslenzka fullyrðingin er þessi: Enginn fer það svangur. Hún gildir einnig um vegi dyggðarinnar.
Frá upphafi mannlífs og örlaga hér á landi voru það næstum einvörðungu heimilin, sem önnuðust fræðslu og uppeldi barna og unglinga, í hverju sem það svo var fólgið.
Eftir að kristinn siður var í lög tekinn og prestþjónusta orðin almenn, voru það á ýmsum tímum kirkjunnar þjónar, sem hvöttu og aðstoðuðu heimilin í bóklegu fræðslustarfi. Þeir húsvitjuðu og sannprófuðu lestrarkunnáttu hinnar uppvaxandi kynslóðar. Prestarnir hafa sjálfsagt líka oft greitt götu foreldra og annarra uppalenda til að fá lánuð eða eignast handrit, sem börnin lærðu að lesa á, og svo bækur, eftir að prentun hófst hér á landi og bókaútgáfa.
Ekki fer það fjarri staðreyndum, að saga íslenzku þjóðarinnar sanni okkur fornspekina grísku um saðninguna og dyggðirnar. Sulturinn og fátæktin á eymdartímum einokunaraldarinnar dró vissulega úr iðkun flestra dyggða með þjóðinni, en í vöxt fór drykkjuskapur og lausung, hirðuleysi og skeytingaleysi, sóðaskapur og fáfræði. Og sultarkenndirnar drógu úr eða deyddu vilja og framtak til náms eða fræðaiðkana. Niðurlæging og eymd íslenzku þjóðarinnar reið þá ekki við einteyming.
Sízt voru íbúar Vestmannaeyja nein undantekning í þessum efnum né frábrugðnir öðrum landsmönnum um vanrækslu dyggða og dáða á niðurlægingar- og sultartímunum nema síður væri, enda mun sulturinn og fátæktin á öllum sviðum hvergi hafa sorfið jafn óskaplega að sem í Vestmannaeyjum á einokunaröldinni. Olli þar miklu um landþrengslin og einangrunin, en þó mest þeir sérsamningar, sem konungsvaldið gerði jafnan við einokunarkaupmennina um leigu á Eyjunum. Í rauninni var þeim þar í lófa lagt sérstakt vald til að hlunnfara Eyjabúa og reyta þá inn að skinni, svo og þá sunnlenzka bændur og búaliða, sem leituðu sér bjargar úr sjó á vertíðum í Vestmannaeyjum.
Vegna allrar aðstöðu gátu dönsku kaupmennirnir hvergi betur fylgt fram þessum algengu hótunum, sem hvarvetna svifu yfir eins og skuggavaldur eða myrkur andi:
Því aðeins færðu snæri í færi, að þú lútir mér og þjónir og fórnir hagsmunum mínum svo og svo miklu af starfsorku þinni. Annars skaltu svelta. Og reynir þú að fara á bak við mig eða koma þér undan valdi mínu og rétti, t.d. með því að kaupa snæri í færi af erlendum sjómönnum, læt ég þjóna konungsvaldsins hremma þig fyrir brot á konunglegum lögum og senda þig á Brimarhólm til þrælkunar.
Mundi ekki svo undirokuðum feðrum og öðrum aðstandendum barna vera annað ríkara í huga en að veita þeim fræðslu eða skilyrði til hennar og aukinnar þekkingar? Ofan á sultinn og seyruna, eldiviðarleysið, kuldann og hýbýlaómenninguna í margskonar myndum bættust sem sé kvaðir konungs og kaupmanna, skylduvinnan endurgjaldslaus, sem var fólgin í sjósókn á konungs- og kaupmannaskipum, vinnu við konunglegar húsbyggingar (sjá samning um byggingu Landakirkju, sem birtur er í Bliki 1958), öflun heyja o.fl. o.fl., allt án tillits til efnahags heimilanna.
Svo segir um Vestmannaeyjar í bók Jóns Aðils um Einokunarverzlun Dana á Íslandi:
„Skyldu leigunautar hafa eyjarnar með öllum sköttum og skyldum og svara konungi ákveðnu gjaldi af vissum tekjum, en óvissum tekjum eftir reikningi og af verzluninni skyldu þeir árlega greiða konungi 400 dali *.
Var það miklu hærri leigumáli en annars tíðkaðist, enda fylgdu konungsbátar og önnur hlunnindi með í leigunni. Þessi tilhögun hélzt síðan óbreytt um hríð, og áttu eyjaskeggjar að ýmsu leyti við þrengri kost að búa en aðrir þegnar konungs á Íslandi. Oft var þeim bannað af kaupmönnum að flytja nokkuð af varningi sínum til meginlandsins...“
„Annars er það tekið fram í kaupsetningunni, að menn geti verið alveg sjálfráðir um það, hvort þeir verzli í hundraðskaupi eða einkaupi, en Vestmannaeyingum var þó aðeins gefinn kostur á einkaupi, eins og tíðkazt hafði þar í eyjum frá aldaöðli...“
„Aðalhlunnindin við hundraðskaupið voru þá í því falin, að viðskiptamönnum var tryggð hin brýnasta nauðsynjavara upp í helminginn af viðskiptum sínum og það við miklu betra verði en í einkaupi.“
Þannig gaf þá konungsvaldið einokunarkaupmönnunum hér svo að segja frjálsar hendur til þess að þjarma að Eyjabúum og reyta af þeim sem allra mestan hagnað til þess að geta greitt konungi hina háu leigu af Eyjunum og haft þó góðan hagnað sjálfir. Eyjabúar voru sem sé neyddir til að sæta aðeins einkaupi í vörukaupum, en þannig varð varan 60-80% dýrari en í hundraðskaupi.
Öll þessi kúgun og fádæma undirokun bitnaði ekki hvað sízt á fátækasta hluta barnanna og unglinganna í Eyjum, sem fór á mis við nægan mat, næg klæði, nægan hita í kofunum og alla aðra aðstöðu og aðhlynningu til fræðslu og menningarlífs.
* Hér er prentun ábótavant, með línubrenglun í frumútgáfu. Það er lagfært.

Árið 1722 vígðist Jón Árnason Loftssonar í Sælingsdal biskup að Skálholti. Hann hafði áður verið rektor við Hólaskóla um 12 ára skeið.
Jón Árnason þótti góður kennari, fróður vel, strangur, kröfuharður við nemendur og óvæginn, svo að talið er, að einungis tvo af nemendum sínum hafi hann ekki barið í skóla. Alla hina kvað hann hafa lamið til starfs, hlýðni og auðsveipni með þeirri sannfæringu, að sá, sem agalaus lifir, ærulaus deyr. Annars konar eftirmæla æskti Jón biskup íslenzkum æskulýð.
Jón Árnason biskup var með lærðustu mönnum sinnar tíðar hér á landi í guðfræði, stærðfræði og söngfræði. Búhöldur var hann góður, en naumur, sparsamur og íhaldssamur. Þó var hann stórgjöfull, þegar sá gállinn var á honum, og hjálpfús og fórnfús, þegar gáfuð og mannvænleg ungmenni áttu í hlut.
Jón Árnason var þjóðrækinn biskup og siðavandur. Hann átti í útistöðum við einokunarkaupmenn m.a. vegna þess, að þeir héldu óspart brennivíni og tóbaki að landsmönnum til þess að auðga sína eigin pyngju á kostnað manndóms og giftu íslenzku þjóðarinnar.
Jón Árnason biskup hafði mikinn hug á fræðslumálum og skrifaði stjórninni varðandi þau. Sendi hann henni markverðar tillögur um þau, en allt kom fyrir ekki. Konungsvaldið og stjórnarherrarnir við Eyrarsund vildu ekkert gera og engu fórna til þess að hefta þann andlega uppblástur, sem sífellt fór í vöxt með íslenzku þjóðinni á 18. öld.
Um aukna fræðslu barna svo og minnkandi brennivíns- og tóbakssölu varð Jón biskup að láta í minni pokann. Hann dó 1743 án þess að sjá nokkurn árangur vilja síns og skrifa um þau mál.
Ýmislegt má lesa á milli línanna um menningar- og efnahagsástand þjóðarinnar í kvörtunarbréfi Jóns biskups til stjórnarinnar.
Bréfið veitir glöggum lesanda nokkra hugmynd um skilyrði íslenzks æskulýðs til mennta og menningar um miðja 18. öld, þegar stórhuga hugsjónamenn og barnavinir í Vestmannaeyjum brjótast í því að stofna þar og starfrækja barnaskóla.
Jón biskup telur það hallkvæmast íslenzku þjóðinni, að „hin ágæta list að lesa og skrifa geti færzt í vöxt og útbreiðzt.“
„Í fljótu bragði sagt,“ segir biskup: „sýnist það mjög æskilegt, að einn slíkur skóli (þ.e. barnaskóli) væri stofnaður í hverri sýslu. En að stofna slík kennsluhús og halda þeim við sem þarf: — sjá skólameistaranum fyrir fæði, klæðum og þjónustu, — til þess finn ég engin ráð, því (að) hvervetna ríkir slík fátækt, ekki einasta hjá alþýðumönnum heldur og hjá embættismönnum (að fáum undanteknum), að þeir eiga ekkert aflögu til að koma á stofn og halda við slíku þarfa fyrirtæki. Stafar það mest af þeim drykkjuskap, sem ríkir hér á landi, og eyðslu samfara honum, því (að) það, sem aflögu er, fer hjá þeim í brennivín, og fara þeir þannig með guðs blessaðar gjafir honum til vanþóknunar og sér til ógæfu.“ Þetta voru orð Jóns biskups Árnasonar um menningarástand Íslendinga og fjárhagslega getu um miðja 18. öldina.
Sízt munu Eyjabúar hafa verið einhver undantekning í þessum efnum, svo ötulir voru dönsku einokunarkaupmennirnir að flytja inn brennivín til Vestmannaeyja og selja það Eyjabúum. Þar um vitna innflutningsskýrslur þeirra. Líklega hefur fátækt fólks hér á landi á þessu tímaskeiði hvergi verið meiri eða átakanlegri, enda fækkaði fólki um nálega helming í Eyjum 18. öldina. Þar bjuggu um 330 manns 1703, en ekki nema rúmlega 170 manns um 1800. Þar olli mestu um örbirgðin og ginklofinn.

Þegar Jón Árnason hafði setið á biskupsstóli í Skálholti í 6 ár, gerðist maður nokkur hámenntaður rektor í Skálholti. Það var árið 1728. Sá hét Jón Þorkelsson í Innri-Njarðvík Jónssonar. Langafi Jóns rektors í móðurætt var Árni Oddsson lögmaður.
Ýmis skapeinkenni Jóns rektors minna á Árna lögmann, svo sem þrautseigjan og þráinn, fórnarlundin og þjóðræknin.
Þar mættust stálin stinn, þar sem þeir voru nafnarnir Jón biskup og Jón rektor. Báðir voru þeir harðlyndir, stórgeðja og strangir. Jón rektor var framsækinn umbóta- og hugsjónamaður, sem vildi m.a. bæta alla aðbúð skólasveina sinna í Skálholti, mataræði þeirra og starfsskilyrði. Hann fann einnig sárt til með þjóð sinni í eymd hennar, fátækt og niðurlægingu. Þó var sárasta fátækt hennar fáfræðin, honum mesti þyrnir í augum. Hann sá og skildi, að sú fátæktin fór vaxandi með þjóðinni ár frá ári með því að æ fleiri Íslendingar lærðu hvorki að lesa né skrifa.
Með því að konungsvaldið vildi engu fórna til umbóta og framfara í menningarmálum þjóðarinnar, og þjóðin var einskis megnug sjálf, sýndist Jóni biskupi sem allar umbætur í þeim efnum mundu kosta sjálfan biskupsstólinn of mikið fé. Þetta olli sögulegum ágreiningi milli tveggja stórbrotinna manna. Sá ágreiningur leiddi til þess öðrum þræði, að Vestmannaeyingar urðu fyrstir Íslendinga til að stofna og starfrækja barnaskóla í landinu. Það var árið 1745.
Vegna ágreinings við biskup um endurbætur á fræðslumálunum og aðbúð og mataræði Skálholtssveina, sagði Jón rektor af sér starfi árið 1737 og sigldi til Kaupmannahafnar. Hafði hann þá verið rektor í Skálholti í 9 ár.
Í Danmörku hafði Jón rektor áður dvalizt langdvölum við nám og fræðaiðkanir. Hann hafði notið þar m.a. einkakennslu Árna prófessors Magnússonar handritasafnara, sem vakti áhuga Jóns Þorkelssonar á velferðarmálum þjóðarinnar og þá sérstaklega fræðslumálunum, og glæddi ættjarðarást hans.
Í Kaupmannahöfn kom nú Jón Þorkelsson sér í kynni við helztu menn í kirkjuráðinu danska. Heittrúarstefnan hafði þá farið eins og hitabylgja yfir dönsku þjóðina með konunginn Kristján VI. í fararbroddi. Ýmislegt gott hafði hún haft í för með sér. M.a. vildu heittrúarmenn (pietistar) í Danmörku hlynna að og bæta um uppeldi barna og auka fræðslu þeirra í lestri, skrift og reikningi, svo og í kristnum fræðum. Danir höfðu þá þegar eins og fleiri þjóðir gert miklar umbætur í fræðslumálum sínum og bætt stórlega alla aðstöðu til aukinnar fræðslu barna fyrir fermingu. Konungur hafði gefið út sérstök lagaboð um fermingu barna árið 1736.
Danskir valdamenn í skóla- og kirkjumálum léðu þess vegna eyra skýringum og frásögnum Jóns, fyrrverandi rektors, um hið auma ástand í fræðslu- og kirkjumálum íslenzku þjóðarinnar. Jón Þorkelsson ávann sér traust þeirra og tiltrú. Þeir sannfærðust um, að þar fór maður traustur, víðsýnn og þjóðrækinn, og málaleitanir hans fengu hljómgrunn.
Það varð að ráði að senda sérstakan mann til Íslands til þess að kynna sér þessi mál öll og gefa stjórnarvöldunum síðan skýrslur um þau. Fyrir valinu varð séra Ludvig Harboe, prestur í Kaupmannahöfn, og skyldi Jón Þorkelsson verða fylgdarmaður hans, honum til aðstoðar og leiðbeiningar.
Vegna strjálla samgangna og einangrunar barst oft aðeins ómurinn til Vestmannaeyja af fréttum, sem annars voru landfleygar. Svo var um væntanlega sendiför Danans séra Ludvigs Harboes til Íslands árið 1741. För hans var stefnt að Hólum fyrst og fremst. Þar var þá biskupslaust.
Hólamenn og aðrir Norðlendingar, sem stunduðu sjóróðra undir Jökli eða á Suðurnesjum á vetrarvertíð 1741, höfðu ýmsar kynjasögur að segja um þennan væntanlega danska prest. Þeir kunnu jafnvel utanbókar níðvísur um hann. Hann skyldi sendur til Íslands til þess að boða nýja siðbót hinna svokölluðu heittrúarmanna í Danmörku. Enn skyldi íslenzka þjóðin skipta um kirkjusiði og taka upp nýjar sáluhjálparleiðir! Sakramenntið skyldi afnumið. Prestar settir af embætti. Gamlar og ástsælar guðsorðabækur skyldu hverfa úr heimilunum. Jafnvel skyldu ný kirkjurán eiga sér stað, ef svo bæri undir.
Hinir hraustari og kjarkmeiri Íslendingar fylltust heilagri gremju og háskasamlegum hugsunum, er þeir heyrðu þetta, en veimiltíturnar og viðkvæmt kvenfólk bað guð góðrar hjálpar og miskunnar.
Líklega hefur það ekki verið fyrr en með vertíð 1742, er Landmenn komu í verið til Vestmannaeyja, að Eyjabúum bárust þessar geigvænlegu norðanfréttir.
Þjóðin var umkomulaus og varnarlaus fyrir hvers konar straumum og stefnum. Það fann hún bezt sjálf.
Þetta ár (1742) var einn prestur í Eyjum, séra Illugi Jónsson að Ofanleiti. Séra Arngrímur Pétursson að Kirkjubæ hvarf frá embætti sínu 1740, en séra Guðmundur Högnason fékk ekki veitingu fyrir Kirkjubæ fyrr en um haustið 1742. Við þessar válegu fréttir með vermönnunum bað presturinn og sóknafólkið heitt og innilega fyrir sér og sínum í hinni fátæklegu og snauðu timburkirkju, sem þá stóð í gamla kirkjugarðinum, og var svo gisin og sundur gengin, að austurgaflinn hlífði ei „fyrir snjóum í stórviðrum á vetrardag“ eins og segir í vísitasíubók séra Sigurðar Jónssonar prófasts. Þarna báðu Eyjabúar góðan guð að bægja frá sér og þjóðinni í heild hinum súra og beiska bikar hinna dönsku heittrúarmanna. Það eitt gat Íslendingurinn gert á þeim tímum.

Þegar hér er komið sögu, hafa þeir félagar, séra Harboe og Jón Þorkelsson, dvalizt svo sem hálft ár á Hólum. Þar hefur danski presturinn hafið rannsókn á fræðslu- og kirkjumálum Norðlendinga, skyldurækni og siðgæði presta, uppfræðslu barna, lestrarkunnáttu almennings og fjárhag biskupsstólsins m.m. Flest hafði reynzt rógur og ósannindi, sem um séra Harboe, erindi hans og för hafði verið sagt, áður en hann kom til landsins.
Séra Harboe ávann sér brátt traust, virðingu og hlýhug Norðlendinga fyrir alúðlega framkomu, réttsýni og góðvild, þó að hann reyndist skapfastur maður og einarður, þegar svo bar undir og þess þurfti með.

Þegar séra Guðmundur Högnason fluttist til Vestmannaeyja haustið 1742 og tók við brauðinu að Kirkjubæ, hafði hann frétt hið sanna um för og störf séra Harboes. Eyjabúum hafði létt stórlega og erindi danska prestsins vakti óskipta athygli hins víðsýna gáfumanns og klerks í Eyjum, sem hafði brennandi áhuga á umbótamálum þar, ef einhverju mætti þar um þoka til góðs, en fjölmargir stórir steinar virtust þar í götu.
Yfirleitt óx og efldist forvitni almennings að sjá og heyra þennan danska prest, þar sem tvennum sögum hafði svo mjög um hann farið og ekkert fárlegt reyndist fylgja honum, heldur allt annað og betra. Eru því líkur til, að ósannindin og rógurinn hafi beinlínis eflt áhrifin af komu hans bæði á daglegt starf og líf prestanna og þjóðina í heild.
Framfarahugur, eins og sá, sem bærðist í brjósti séra Guðmundar að Kirkjubæ, fékk nú byr undir báða vængi, þótt fátæktin syrfi að honum sem öðrum í Eyjum. Séra Guðmundur Högnason var gáfumaður mikill og lærður vel. Latínumaður var hann góður og reyndist síðar búa yfir skáldhneigð og rithöfundarhæfileikum. Liggur ýmislegt markvert eftir hann á sviði bókmennta. Hann var því með fremri prestum sinnar tíðar, enda þótt drykkjuskapur hans væri hvimleiður löstur og honum til fjárhagslegs hnekkis og vansæmdar. Mikinn áhuga og mikla fórnfýsi sýndi og sannaði séra Guðmundur í starfi sínu um uppfræðslu barna og unglinga í Eyjum á sinni tíð og ruddi þar markverðar brautir, sem hefðu getað orðið allri þjóðinni til fordæmis og fyrirmyndar, hefði hann og Finnur biskup Jónsson fengið nokkru ráðið, en ekki öll völd verið í hendi einvaldrar, konunglegrar og eigingjarnrar afturhaldsstjórnar, sem auðvitað valdi sér nánustu embættismenn hér heima eftir sínum duttlungum og geðþótta. Allt þetta steinrunna stjórnarkerfi olli séra Guðmundi Högnasyni miklum erfiðleikum, þegar hann vildi stofna barnaskóla í Eyjum og tryggja framtíð hans. Ofan á þær hörmungar bættist síðan fátækt fólksins, sjúkdómar og kúgun.
Loks fengu svo prestarnir í Eyjum tilkynningu frá séra Harboe, eins og allir aðrir prestar í Rangárþingi, Kjalarness- og Árnessþingi. Hann boðaði stefnu í Skálholti með öllum prestum þessara þinga í októbermánuði 1744. Það sumar hafði séra Harboe ferðazt um Austurland og stefnt þar til sín prestum til skrafs, rannsókna og ráðagerða um fræðslu barna, lestrarkunnáttu almennings og kirkjumál, eins og hann hafði gert í Norðlendingafjórðungi á undanförnum árum.
Um sumarið hafði hann haldið prestastefnur að Vallanesi í Múlaþingi og dvalizt þar 13—14 daga. Þá var djákn að Skriðuklaustri séra Grímur Bessason bónda á Hrafnkelsstöðum Árnasonar. En séra Grímur vígðist til Ofanleitis árið eftir eða 1745.
Á Vallanessfundunum gafst séra Grími kostur á að sjá og hlusta á séra Harboe, kynnast áhugamálum hans m.a. um aukna fræðslu barna í lestri og kristindómi, og hvernig Danir höguðu þá þeim málum orðið í heimalandi sínu.
Kristján konungur IV. hafði lagt grundvöllinn að fræðslustarfsemi prestanna með opnu bréfi dags. 22. apríl 1635. Þetta var m.a. skipunarbréf til biskupa, prófasta og presta að láta öll íslenzk börn læra fræði Lúthers utan að og ganga úr skugga um, að því væri hlýtt með því að húsvitja tíðum heimilin. Skyldi þá presturinn láta börnin lesa og hvetja foreldrana til að kenna þeim eða láta kenna þeim lestur og kristinfræði. Oft munu þá prestar eins og jafnan síðar, hafa getað greitt götu foreldranna um útvegun bóka, ef þess var nokkur kostur. Með þessu merka bréfi er prestastéttinni í raun falið að sjá um uppfræðslu æskulýðsins.
Svo liðu 100 ár. Með lögboði konungs 13. jan. 1735 varð ferming barna lagaleg skylda. Jafnframt var bannað að ferma börn, ef þau hefðu ekki áður aflað sér nauðsynlegrar þekkingar í kristnum fræðum. Þetta voru markverð lagaboð, því að með þeim var lagður grundvöllur að barnafræðslu síðari tíma.
Hver ungur prestur, sem tók við embætti og gegna vildi köllun sinni af alúð og kostgæfni, var sér þess meðvitandi, hvaða skylda og starf beið hans varðandi fræðslu barnanna. Svo mun og hafa verið um séra Grím Bessason, hinn 25 ára gamla djákna á Skriðuklaustri, sem hugði nú á prestvígslu. Hann vígðist til Ofanleitis í Vestmannaeyjum í ágúst 1745.
Lögboðun fermingar olli því, að áhugi fór yfirleitt vaxandi með þjóðinni á fræðslu barna og unglinga. Ýmsar raddir tóku að heyrast um tilfinnanlega vöntun á barnaskólum til þess að efla kristindómsfræðsluna og aðstoða foreldrana eða létta undir með þeim. Þannig kvartar séra Ólafur Gíslason, prófastur í Odda, síðar biskup, (d. 2. jan. 1753) um tilfinnanlegan skort á barnaskólum í landinu, þar sem prestar geti ekki sökum fátæktar tekið börnin að sér til fræðslu og fjölmargir foreldrar ólæsir með öllu.
Vorið 1744 (29. maí) kom út ný konungleg tilskipun um kristindómsfræðslu æskulýðsins á Íslandi, en lykillinn að þeim fræðum eða undirstaðan var lestrarkunnátta. Heimilin skyldu enn sem alltaf áður annast kennsluna, en prestarnir hafa eftirlit með henni.
Á Vallanesfundunum þetta sumar hefur séra Harboe efalaust rætt við prestana um tilskipun þessa og skýrt hana, enda var hún sett að undirlagi hans sjálfs.
Þessar tilskipanir og umræður á prestastefnum séra Harboes um fræðslu æskulýðsins leiddu til þess, að margir prestar létu þær óskir í ljós, að stofnaðir yrðu barnaskólar víðsvegar um landið til aðstoðar heimilunum um lestrarkennslu barna, og þá ekki sízt til eflingar kristindómsfræðslunni. Allar þær frómu óskir köfnuðu þó brátt í veraldarvolkinu og fátæktarbaslinu, þegar heim kom. Prestastéttina virðist hafa skort úrræði til alls, andlegan þrótt og fórnfýsi, enda var stéttin í heild næsta bágborin á þessum nauðatímum þjóðarinnar og dálítil spegilmynd af henni sjálfri. Stéttin var yfirleitt illa að sér, þó að þar væru nokkrar mjög merkar undantekningar. Óregla var algeng með prestum og bókaskortur tilfinnanlegur. Margir þeirra bjuggu við sárustu fátækt og vonleysi. Aginn á heimilunum var víða í lakasta lagi, þrátt fyrir hörku og miskunnarleysi í uppeldinu, og jók það að mun erfiðleika prestanna um að fá heimilisfræðslunni framgengt, svo að í lagi væri.
Á prestastefnunni í Skálholti hefur séra Harboe skýrt fyrir prestum, hvers hann hafði orðið áskynja um lestrarkunnáttu þjóðarinnar í Norðlendinga- og Austfirðingafjórðungi, og til hvaða ráða yrði að grípa til þess að auka og bæta lestrarkunnáttu hennar og kristindómsfræðsluna hjá börnunum og þar með fermingarundirbúninginn. Hert skyldi á húsvitjunarstarfi presta með nýrri konunglegri tilskipun. Foreldrum, sem einhvers voru megnugir fjárhagslega, skyldi gert að skyldu að ráða til sín á heimilin vinnumann eða vinnukonu, sem væri læs, til þess að kenna börnunum lestur, væru foreldrarnir ekki læsir sjálfir.
Tilskipun konungs um þessi atriði m.a. kom út tveim árum síðar eða 1746 fyrir atbeina séra Ludvigs Harboes. Frá þeim tíma má líta á prestana sem lögskipaða lærifeður alþýðu manna í landinu og umsjármenn með fræðslu barna og unglinga.
Eftir því sem helzt verður ráðið af heimildum, hafa Vestmannaeyjaprestar ekki setið ráðstefnu séra Harboes í Skálholti í okt. 1744, enda samgöngur helzt engar við meginlandið, þegar svo liðið var á haustið, brim við sanda og veður válynd. En ýtarlega skýrslu sendu prestarnir séra Harboe. Í henni báru þeir m.a. fram kvörtun um tilfinnanlegan skort á guðsorðabókum í prestaköllunum í Vestmannaeyjum. Þar voru þá 289 sálir, 84 læsir og 205 ólæsir. Árið áður voru þar 157 sjómenn aðkomandi. Þessir mörgu aðkomumenn leiða af sér óreglu, segja prestarnir. Þeir leggja til m.a., að fáfróðum sé bannað að giftast. Það skyldi sem sé verða svipan á það unga fólk, sem hvorki hirti um að læra lestur né undirstöðuatriði kristindómsins. Öllum í Eyjum skyldi gert að skyldu að kaupa guðsorðabækur. Ennfremur óska þeir eftir, að gefin sé út einskonar siðabók, þar sem foreldrum, húsbændum, hjúum og börnum er sagt, hvernig þau eigi að breyta.
Þetta ár voru í Árnessýslu 5.030 sálir, þar af 1.178 læsir eða rúmlega 23%. Í Rangárvallasýslu voru 4.600 sáir. Þar af læsir 1.291 eða um 28%. Í Vestmannaeyjum reyndust 29% læsir. Í Skaftafellssýslu vestri var ástandið sízt betra.
Hafi Vestmannaeyjaprestar ekki fengið skýrslu frá séra Harboe eða ýtarlegt svar eftir dvöl hans í Skálholti, þá hafa þeir að minnsta kosti fengið nákvæmar fréttir af prestafundinum á næstu vertíð, þegar samgöngur við Eyjar jukust mjög og vertíðarfólk flykktist þangað unnvörpum og bréf bárust með því.
Að sjálfsögðu hefur séra Guðmundur Högnason vitað gleggst og skilið bezt ástandið í fræðslu- og efnahagsmálum Eyjabúa, svo gáfaður og fróður, sem hann var og víðsýnn. Svo að segja allir voru þar öreigar, sem engin höfðu efni á að hafa vinnumann eða vinnukonu meðal annars til þess að kenna börnum lestur. Sjálfir voru foreldrarnir að miklum hluta ólæsir.
Engan fjárhagslegan styrk var að fá úr fjárhirzlum konungs til fræðslumála. Engin fjárframlög fáanleg nokkurs staðar hér heima utan sveitar og hreppurinn hafði nóg með að framfæra hina mörgu örsnauðu, sem þar voru á framfærslu. Rúmum 40 árum fyrr en hér um ræðir hafði verzlunaráþjánin og illt árferði þjarmað svo að Eyjabúum, að nálega sjötti hver íbúi þar var sveitlægur eða lifði á betli og snöpum, úrgangi fisks eða hálfgerðu óæti **.
** Sjá manntal 1703.

Á þeim árum, er séra Harboe var hér (1741—1745) eða nokkru síðar höfðu 52 bændur grasnytjar í Eyjum. Þar af voru aðeins 5 bændur svo efnum búnir, að þeir greiddu skatt. Hinir sagðir „mjög fátækir og vesælir“, samanber skrif 7 Eyjabænda árið 1749. Þá geisaði ginklofinn í Eyjum. Að öllum líkindum var hann þó ekki eins skæður og síðar á öldinni, þegar nálega 3 af hverjum 4 börnum dóu úr honum stuttu eftir fæðingu. Húsakynni Eyjabúa voru með þeim allra aumustu, sem þekktust hér á landi, og er þá nokkuð sagt. Eldiviðarleysið hafði lengst af amað Eyjabúa og svo hýbýlakuldinn í kjölfar þess.
Mörg árin hrökk rekaviðurinn skammt. Þá voru notuð þurrkuð fiskbein, spílur, fýlavængir, grútur og svo hrossataðið úr haganum. Mór fannst hvergi. Þetta var hið daglega eldsneyti til þess að elda við matinn og hita upp timbur- og torfhreysin.
Sökum skorts herjuðu hörgulsjúkdómar Eyjabúa á vissum tímum árs. Fólkið þjáðist af vatnsbjúg og skyrbjúg. Það fékk sár og bletti á handleggi, hendur og fingur, sem það þjáðist mikið af. Mörg árin voru skyrbjúgur og ginklofi algengustu dauðaorsakirnar.
Á vertíðum voru þrengslin óskapleg í torfhreysunum, daunillum og loftlitlum, þegar vertíðarfólkið þrengdi sér þar inn. En Eyjabúar fengu mat með aðkomufólkinu, skinnavöru og ull, og það var fyrir öllu. Þarna fór fram verzlun, þar sem leigt var húsnæði um vissan tíma árs fyrir nauðþurftir til að seðja sárasta hungrið og afla hráefnis í plögg, klæði og sjóföt. En menn fundu ekki svo mjög til þrengslanna, því að hjartarúmið var mikið og góðvildin og hjálpsemin áttu sér lítil takmörk milli Eyjabúa annarsvegar og bænda og búaliða í nágrannasveitum Suðurlandsins hinsvegar. Rætur þessa mun að finna í hinni ofurhörðu lífsbaráttu og sameiginlegri undirokun. Ættartengsl koma og til greina.
Hér að framan hefur verið gefin eilítil hugmynd um afkomu og menningarástand Eyjabúa um þær mundir, er prestarnir þar gerðust brautryðjendur í fræðslumálum hér á landi og stofnuðu og starfræktu barnaskóla til hjálpar umkomulitlum og veikluðum börnum í sóknum sínum. Hér þurfti kjark og karlmennsku til, eins og allt var í pottinn búið. Fyrst og fremst þurfti þó mikla fórnarlund og einlæga samúð með hinum líðandi börnum og bjargarvana bæði til fæðis, klæðis og bókar, svo að þessu mikla framfaramáli yrði hrint í framkvæmd. Og Eyjabúar áttu þá líka nógu marga ágætismenn til þess að rétta prestunum fórnandi hjálparhönd og taka að sér kennslu og önnur störf í skólanum, fórna börnunum húsnæði og hita af lítilli getu til þess að líkna og koma þjóðþrifamáli í framkvæmd.
Þá komum við að sjálfum undirbúningi skólastofnunarinnar.

II. hluti