Blik 1959/Opna skipið Fortúna og skipshöfn þess

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959




Opna skipið FORTÚNA
og skipshöfn þess



ctr


Myndin er af teinæringnum FORTÚNU og skipshöfn hennar — nema tveim mönnum — árið 1901.


Frá vinstri:
1. Sigurður Ólafsson, formaður, frá Bólstað við Vestmannabraut hér í Eyjum. Sigurður fæddist í Hrútafellskoti undir Austur-Eyjafjöllum 15. okt. 1859. Þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum og dvaldist þar til ársins 1893, er Sigurður Þorbjarnarson (faðir Sigurður á Hæli hér), bóndi á Kirkjulandshjáleigu, fórst. Gerðist þá Sigurður Ólafsson fyrirvinna heimilisins á Kirkjulandshjáleigu og var það um árabil. Þá gerðist hann lausamaður um nokkur ár og var þá á Önundarstöðum í A.-Landeyjum.
Sigurður var lærður húsasmiður. Stundaði hann um margra ára skeið á yngri aldri húsasmíðar á sumrum en sjó á vetrum. Var hann formaður á teinæringnum Fortúnu margar vertíðir og oftast hér í Eyjum.
Sigurður Ólafsson var dugmikill maður og jafnan aflasæll.
Árð 1909 fluttist hann til Eyja og giftist þá Auðbjörgu Jónsdóttur frá Tungu í Fljótshlíð. Þau bjuggu hér í Bólstað við Vestmannabraut 31 ár eða þar til Sigurður Ólafsson dó (2. september 1940). Þeim varð þriggja barna auðið; búa tvö þeirra hér í Eyjum, Óskar og Bára, en Lilja býr á Eyrarbakka.
Sigurður Ólafsson var formaður aðeins eina vertíð á Fortúnu, eftir að hann fluttist hingað. Árið 1906 gerðist Sigurður útgerðarmaður og eignaðist þá hlut í vélbátnum Bergþóru, VE 88. Bátur þessi sökk 20. febrúar 1908. Aftur eignaðist Sigurður Ólafsson hlut í vélbát. Hann átti um skeið í v/b Olgu Esbjerg VE 147. Lengst átti Sigurður hlut í v/b. Hjálparanum VE 232 og var útgerðarmaður til dauðadags. (Heimild A.J., k.h., o.fl.).
2. Oddur Guðmundsson frá Skíðbakka, 7 ára gamall, — stendur uppi á þóftu hjá Sigurði formanni. Hann var systursonur hans
3. Bergur Jónsson frá Hólmum.
4. Sigurður Sæmundsson bóndi í Hlíð undir Eyjafjöllum; var faðir þeirra systra hér Geirlaugar á Landamótum við Vesturveg og Guðbjargar í Hólum við Hásteinsveg. Sigurður dó hér á Landamótum hjá Geirlaugu dóttur sinni.
5. Þorkell Þórðarson frá Sandprýði hér í Eyjum. Hann reri ekki háseti á Fortúnu, en fékk að vera með skipshöfninni, þegar myndin var tekin.
6. Guðmundur Ólafsson, bróðir Sigurðar formanns. Hann var bóndi að Hrútafellskoti og drukknaði með Birni í Skarðshlíð.
7. Jónas Jónasson, bóndi í Hólmahjáleigu í Landeyjum.
8. Stefán Jónsson frá Butru í Landeyjum, síðar bóndi í Yztakoti í sömu sveit.
9. Pétur Níelsson, Krókvelli undir A-Eyjafjöllum.
10. Björn Tyrfingsson, bóndi á Bryggjum í Austur-Landeyjum.
11. Elí Hjörleifsson, Tjörnum.
12. Guðmundur Guðmundsson, sem kenndur var síðar við Hrísnes hér í Eyjum. Hann var fæddur að Efri-Úlfsstaðahjáleigu í Landeyjum 26. ágúst 1867 og dó að Hrísnesi við Skólaveg hér 24. febrúr 1951. Hann ólst að mestu leyti upp í Miðey hjá Jóni bónda.
Foreldrar Guðmundar voru vinnuhjú, ógift. Faðir hans var Guðmundur Diðriksson, bróðir Árna Diðrikssonar bónda og hreppstjóra hér í Stakkagerði, (d. 1903), (— Sjá Blik 1957), en móðir Sigríður Árnadóttir.
Guðmundur Guðmundsson giftist Guðríði Andrésdóttur frá Múlakoti í Fljótshlíð 19. júlí 1910 og fluttust þau til Vestmannaeyja árið eftir (1911). Guðríður býr enn í Hrísnesi.
Áður en Guðmundur giftist og fluttist hingað, var hann vinnumaður m.a. í Hólmum hjá Jóni bónda Bergssyni og í Dalseli hjá Ólafi Ólafssyni, síðar bónda í Eyvindarholti, föður Ingibjargar í Bólstaðarhlíð.
Hjónin Guðmundur og Guðríður byggðu Hrísnes árið 1924 (Heimild: G.A., k.h.).
13. Sigurður Jónsson frá Hólmahjáleigu í Landeyjum, fæddur í Ey í V.-Landeyjum 13. júní 1874, en alinn upp í Hallgeirsey. Þar dvaldist hann til 13 ára aldurs. Þaðan fór hann vinnumaður að Hildisey og var þar með móður sinni í 4 ár. Foreldrar Sigurðar giftust aldrei en voru vinnuhjú. Þau áttu saman tvö börn. Alls var Sigurður sex ár í Hildisey. Síðan var hann eitt ár vinnumaður á Ljótarstöðum hjá Magnúsi bónda Björnssyni og konu hans Margréti Þorkelsdóttur bátasmiðs og bónda Jónssonar (Sjá Blik 1958). Um það leyti gerðist Jónas Jónasson (nr. 7 á myndinni) bóndi á Hólmahjáleigunni og fluttist Sigurður Jónsson með honum þangað og var vinnumaður hans í 17 ár. Þaðan fluttist svo Sigurður hingað til Vestmannaeyja 1912 og hefir dvalizt hér síðan.
Systir Sigurðar, Ingibjörg, giftist Gottskálki Hreiðarssyni (nr. 17 á myndinni) árið 1913 og missti hann 22. maí 1936. Síðan hafa þau búið saman systkinin.
14. Tyrfingur Björnsson frá Bryggjum, sonur Björns bónda. Bjó í Þykkvabæ og dó þar.
15. Þorsteinn Sigurðsson frá Snotru í Landeyjum. Var lengi hér í Eyjum og dó hér.
16. Ársæll Ísleifsson bóndi á Önundarstöðum í Landeyjum.
17. Gottskálk Hreiðarsson bóndi í Vatnshóli í Landeyjum. Hann bjó síðar í Hraungerði hér í Eyjum og dó þar. Hann var faðir Sigurðar Gottskálkssonar, er síðar var bóndi að Kirkjubæ.
(Aðalheimildarmaður um nöfn skipshafnarmanna er Sigurður Jónsson, nr. 13).
Opna skipið Fortúna, sem um getur í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, II. b. bls. 117, er ekki það skip, sem hér um ræðir.
Nafnið Fortúna mun tekið eftir nafni á opnu konungsskipi hér á 16. öld.

Þ.Þ.V.