Blik 1959/Kjartan Guðmundsson ljósmyndari

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959




JÓN GUÐMUNDSSON, VALHÖLL:


Kjartan Guðmundsson
ljósmyndari



Kjartan Guðmundsson, ljósmyndari.

Þorsteinn Víglundsson, skólastjóri í Vestmannaeyjum, hefur beðið mig að senda sér línur um Kjartan Guðmundsson, ljósmyndara og útgerðarmann í Vestmannaeyjum, sem andaðist 15. nóvember 1950. Ég vil verða við bón hans og tel það bezt að taka að mestu upp úr minningum mínum, sem ég hef hripað upp eftir því sem ég hef getu og vit til, svo sem það hefur festst mér í minni.
Hörgsholt er ofarlega í Hrunamannahreppi, Árnessýslu. Í Landnámabók stendur: „Björgólfur og Már Naddoddssynir námu Hrunamannahrepp, svo vítt sem vötn deildu. Björgúlfur bjó á Berghyl, en Már á Másstöðum,“ sem fræðimenn halda, að hafi verið í Hörgsholtslandi. Rústir og nokkrar fornminjar hafa fundizt í Árfelli austur við Stóru-Laxá. Ég man líka eftir, þegar baðstofan var byggð um 1888. Þá var kjallari grafinn. Þá fundust ýmsir smáhlutir í öskulögum, og skyr, sem var hvítt duft.
Eftir þeim gögnum, sem ég hef aflað mér, kom Jón Eiríksson frá Bolholti að Hörgsholti 1803. Hann mun hafa búið þar til 1817. Þá fór hann að Reykjadal í sömu sveit. Dóttir hans var Katrín langamma mín. Hún eignaðist níu dætur og var ein þeirra Katrín, sem giftist Bjarna Jónssyni, afa mínum, í Tungufelli. Hún var fædd 1823 á Kópsvatni Jónsdóttir Einarssonar frá Berghyl.

Heimilisfólkið í Hörgsholti 1883: 1. Guðmundur Jónsson, bóndi, 28 ára.
2. Katrín Bjarnadóttir, húsfrú, 31 árs.
3. Guðrún Snorradóttir, amma, 70 ára.
4. Guðný Jónsdóttir, á sveit, 82 ára.
5. Snorri Jónsson, föðurbróðir, 47 ára.
6. Sigríður Eyjólfsdóttir, vinnuk., 42 ára.
7. Þórey Eyjólfsdóttir, vinnukona, 31 árs.
8. Eiríkur Ólafsson, vinnumaður, 44 ára.
9. Þorgeir Halldórsson, unglingur, 15 ára.
10. Tómas Snorrason, sonur S.J., 11 ára.
11. Árni Árnason, hálfbróðir, 6 ára.
12. Bjarni Guðmundsson, bróðir, 3 ára.
13. Margrét Snorradóttir, dóttir S.J., 3 ára.
14. Guðrún Guðmundsdóttir, systir, 2 ára.
15. Jón Guðmundsson, fæddur 3.9.1883.

Ég er fæddur á mánudegi í 20. viku sumars og kom með norðan þurrk með mér í heiminn. Fólkið var þá við heyvinnu inni í Húsafellsmýri. Þar var haldið upp á fæðingardag minn með því að gefa öllu fólkinu lummur úr möluðu bankabyggi. Sá vani hélzt að gefa lummur á afmælinu mínu, þótt breyttir tímar hafi breytt hér nokkru um, með betri efnahag, því að vissulega hefur margt verið erfitt á þessum árum, þar sem fellirinn mikli 1882 var nýafstaðinn og harðindavorið 1882.
En faðir minn og móðir voru bæði dugleg og samhent, hann kannske fullmikill hug- og ákafamaður. Heyrt hef ég þá sögu sagða af sannorðum, öldruðum manni, séra Valdimar Briem, sem mundi vel þessa erfiðu tíma, að um réttirnar var víst óvanalega fátt fé, og hafi ýmsir borið sig illa. Þá hefði faðir minn, sem var ungur bóndi, sagt: ,,Ekki skulum við æðrast, heldur skulum við muna,“ enda lét hann þessa dýru reynslu kenna sér að setja varlega á vetur og hafa alltaf nægan vetrarforða handa mönnum og skepnum, enda urðu þau hjúasæl, sem kallað var. Þá þótti mest um vert að fá í sig og á, en ævinlega var haldið sparlega á öllu, enda kunni móðir okkar list þá að skammta, svo að sennilegt væri, að enginn lifði við sult, og fara vel með alla hluti og vinna mikið, því að mikils þurfti þetta stóra heimili, ekki einungis til fæðis, heldur líka til klæðis og skóa. Þá var nær allt unnið heima. Oft man ég, hvað mamma okkar kepptist við rokkinn, eftir að hún kom inn úr eldhúsinu. Enda var vinnan mikil, bæði að þörfu og óþörfu sérstaklega hjá unglingum og öldruðu fólki. Nú til dags mundi það vera talið þrældómur, sem á okkur var lagt í æsku, en lífsbaráttan var hörð til þess að geta haft í sig og á.
Mamma mín kemur að Hörgsholti 1878, þá ekkja Árna Gunnlaugssonar. Hún kemur með Árna, hálfbróður okkar, sem hét eftir föður sínum. Fæddur 24. júní 1877 í Dalbæ. Hún fer að Hörgsholti um vorið 1878 og giftist föður mínum vorið 1879, 24. júní. Halda gullbrúðkaup 24. júní 1929. Þau búa saman rösk 50 ár. Faðir minn andast á jóladag 1929.

Börn þeirra voru: 1. Bjarni, fæddur 15. maí 1880, dáinn 1893.
2. Guðrún, fædd 12. júlí 1881, dáin 1948.
3. Jón, fæddur 3. september 1883, á lífi.
4. Kjartan, fæddur 31. maí 1885, dáinn 15. nóvember 1950.
5. Guðmundur, fæddur 24. desember 1886, á lífi.
6. Ólafía, fædd 18. maí 1889, dáin 9. október 1929.
7. Guðmann, fæddur 29 júní 1891, dáinn 31. jan. 1951.
8. María, fædd 25. janúar 1893, dáin 25. janúar 1893.
9. Fæddist andvana tvíburi 1893.
10. Magnús, fæddur 21. janúar 1894, dáinn 31. janúar 1951.
11. Kristín, fædd 7. desember 1895, á lífi.
12. Bjarni, fæddur 7. júlí 1898, á lífi.
13. Árni, hálfbróðir, fæddur 24. júní 1877, dáinn.

Faðir okkar, Guðmundur Jónsson, fæddist 13. júní 1855, dó 25. desember 1929. Afi minn, Jón, fæddur á Ósabakka 16. ág. 1811. Dáinn 8. febrúar 1876. Hann var hreppstjóri í Hrunamannahreppi og mjög lengi fjallkóngur o.fl. Hann kemur að Hörgsholti 1817 með föður sínum, Jóni Magnússyni, sem fór þá að búa í Hörgsholti. Þá fer þaðan Jón Eiríksson frá Bolholti, sem var langafi minn í móðurætt. Bróðir hans, Helgi, kemur að Sólheimum 1804. Þorsteinn, sonur hans, fer að Grund. Hann var afi Magnúsar Guðmundssonar, ráðherra. Jón Magnússon er fæddur í Hlíð í Eystrihreppi 1747, dáinn í Hörgsholti 22. júní 1847. Hann átti Kristínu Jónsd. frá Úlfsstöðum í Landeyjum Sigurðssonar frá Búðarhóli. Sama ættin er búin að vera í Hörgsholti nú rösk 150 ár. Þegar Jón Magnússon kom að Hörgsholti, var túnið mikið þýft. Þegar sonur hans, Jón, byrjaði að slétta túnið, taldi faðir hans það mesta óráð, því að það fengist minna af landinu, þegar búið væri að slétta það, og var næst hans skapi, að búa til þúfurnar aftur. Þá var ekki hugsað enn um að spara mannsorkuna.


Jón Guðmundsson frá Brúsastöðum, um margra ára skeið veitingamaður að Valhöll á Þingvöllum, bróðir Kjartans Guðmundssonar ljósmyndara.
Vestmannaeyjakaupstaður mun það eiga mest Jóni Guðmundssyni að þakka, að hann eignaðist að gjöf myndaplötusafn Kjartans Guðmundssonar eftir hans dag.
Jón Guðmundsson er hugsjónamaður. Fáir eða engir hafa unnið meira og merkara starf að því að prýða Þingvelli en hann. Ennþá vinnur hann ötullega að því að planta þar skógi og hlynna að öllum gróðri á þessum fornhelga sögustað þjóðarinnar.
Á s.l. ári skrifaði Jón Guðmundsson menntamálaráðherra bréf, þar sem hann lagði til að ríkið byggði listasafn á Þingvöllum og geymdi þar m.a. málverkasafn Ásgríms Jónssonar, listmálara, það, er hann gaf ríkinu eftir sinn dag, svo og listaverk Kjarvals o.fl.


Uppskrift hef ég af örnefnum í Hörgsholti. Þau eru á þriðja hundrað. Hvert örnefni hefur sína sögu að segja, sem eru ekki að öllu ómerkar, ef skráðar væru.
Ég vil aðeins færa í letur smásögu af einu örnefni, sem er Litlikambur, sem er rétt fyrir innan bæinn við hliðina á Stórakambi, sem bærinn stendur undir, og er sérstaklega fallegur með sína túnbrekku, sem bærinn stendur neðst í. Í Litlakambi höfðum við börnin búslóð okkar, sem voru horn og leggir og margt fleira, til dæmis lítið fjárhús og heygarður og haugur, er við hlóðum upp, eins og fullorðna fólkið gerði. Framan í Litlakambi var brekka, en í henni miðri var melur. Við vildum gjarnan gera eitthvað fyrir þenna mel. Niðurstaðan varð sú, að búa þar til blómagarð, sem við höfðum heyrt talað um, en ekki séð. Við byrjuðum á að búa til veg eftir melnum. Fyrst héldum við, að vegur ætti að vera eins og traðir, en niðurstaðan varð samt sú að hafa hann upphlaðinn. Hann var líklega um 50 sentimetrar á hæð og um 20 metra langur. Nú vandaðist málið, þegar við fórum að hlaða kringum blómagarðinn. Hvernig áttum við að fara að því að fá garðinn hornréttan? Þá kom í góðar þarfir það, sem ammma okkar, Guðrún Snorradóttir Halldórssonar frá Jötu, hafði kennt okkur. Hún var fædd 30. sept. 1813, dó í Hörgsholti 27. maí 1891. Hún var stór vel gefin kona, enda fékk hún auknefnið Guðrún fróða. Við börnin, sem lifðum það að njóta hennar leiðsögu, höfðum mikið gott af því. Hún var ævinlega að fræða okkur og áminna að vera góð börn og biðja góðan guð að hjálpa okkur í hvers konar vanda, sem að höndum bæri. Nú fórum við að hennar ráðum og leggjumst á bæn í brekkuna í Litlakambi og biðjum góðan guð að hjálpa okkar litlu höndum, svo að garðurinn verði hornréttur, og þetta hreif, því garðurinn varð réttur. Svo bárum við á bakinu mold í pokum í garðinn og tíndum hrossatað út um hagann, sem við blönduðum saman við moldina. Svo fluttum við margs konar blóm og berjalyng, og einivið tókum við inni í afrétti með rótum, og skógarplöntur tókum við í gljúfrinu við Laxá og svo rips frá Reykjavík. Ég man vel, að margir, sem komu í þá daga að Hörgsholti, höfðu gaman af að sjá okkar ófullkomna blómagarð, sem þótti í þá daga nýlunda á að sjá. Við notuðum vel alla frítíma til að fara inn í Litlakamb, sem var helzt á sunnudögum, vor og haust, en ekki máttum við fara fyrr en búið var að lesa húslesturinn. Mér er minnisstætt, að okkur fannst hann stundum full langur. Mér hafa stundum komið í hug vísuhendingar, sem faðir minn sendi vini sínum nokkru áður en hann dó. Þær ættu vel við systkinin. Hann sagði þar: ,,Við ást og friðinn saman spunninn búi því var lukka ljáð.“ Það mun vera svo um alla framtíð dauðlegra manna, ef þetta vantar, þá vantar alla undirstöðu í lífinu til að byggja á. Því læra börnin, að fyrir þeim er haft. Það er því stærra mál en almennt er athugað, að eldra fólkið hafi ekki ljótan orðsöfnuð eða annað ljótt fyrir hinni uppvaxandi æsku. Á því sviði held ég, að við börnin höfum verið lánssöm. Foreldrar okkar gengu þar á undan með góðu fordæmi. Aldrei heyrðum við frá þeirra munni blótsyrði. Í stað þess sögðu þau: — Þetta er anzi slæmt, og leiddu okkur fyrir sjónir með gætilegum orðum, í hverju okkur hafði yfirsézt. Það var mikið lán okkar, hvað Árni elzti bróðir, var mikið góður drengskaparmaður. Hann var góð fyrirmynd okkar, bæði til munns og handar.
Á þessum árum var minna um að setjast á skólabekk en nú orðið, en þess í stað var skóli okkar að umgangast hina lifandi náttúru, blómin og dýrin. Snemma vorum við tekin í þann skóla. Mér er minnisstætt, þegar við á vorin vorum að ganga til ánna um sauðburðinn. Allar ærnar voru með nöfnum — allt að 150 talsins. — Ef við þekktum ekki allar ærnar, sem við fundum bornar, þá urðum við að lýsa þeim eins nákvæmlega og við frekast gátum. Þess vegna var nauðsynlegt að taka vel eftir þeim, og svo hvar þær voru, því að oft báru þær í líkum stöðum ár hvert. Ævinlega urðum við að gæta vel að því, hvernig lambi og ánni liði, er það kom á spena.
Ef okkur fannst ærin gera betur en að fæða lambið, þá mjólkuðum við hana, tókum af okkur annan skóinn og mjólkuðum í hann. Þá var rakkinn stundum full nærgöngull við ána, því að hann fékk að lepja mjólkina úr skónum. Hann lét sín vinahót í ljós með því að dingla rófunni vinalega til okkar og þefaði af ánni. Ekki vorum við gömul, þegar við fórum að sitja hjá ánum eftir fráfæruna. Sumir vorkenndu okkur það. Það taldi ég ástæðulaust. Það voru okkar skemmtilegustu stundir. Þá höfðum við oft tíma til að þjóna okkar áhugamálum, athuga ýmislegt, sem fyrir augun bar í náttúrunnar ríki, bæði blómin og svo dýrin. Oft athuguðum við kóngulóna og hennar vefi og létum oft mýflugur í vefinn. Tjaldið, sem hún geymdi unga sína í, var oft vandlega athugað. Og svo silungar í lækjunum. Stundum veiddum við þá á færi og notuðum títuprjón, sem við beygðum í öngul. Silungana fluttum við stundum lifandi í fötu í tjarnir, hugsuðum okkur að geta gert þær að veiðivötnum. Heim fluttum við silunga. Þeir voru fljótir að útrýma brunnklukkunni, sem var í brunninum. Svo gáfum við líka ánamaðka o.fl. Þeir höfðu holur í brunninum til að vera í, en þegar við komum að brunninum, þá tóku þeir eftir skugganum af okkur og komu upp í vatnsborðið með opinn munninn til að taka á móti því, sem við færðum þeim.
Lakast var í yfirsetunni, þegar þykkt loft var, að geta ekki vitað, hvað tímanum leið. En þegar sól sá, þá vorum við alveg viss. Höfðum ýmis kennileiti, skugga, stóra steina og fleira, sem við fórum eftir. Kvölds og morgna töldum við ærnar þannig, ef við vorum tveir. Þá taldi annar tuttugu, en hinn að tuttugu. Alltaf var vani að gefa okkur, sem sátum yfir, eina ærnyt á morgnana, áður en við lögðum á stað. Drukkum hana úr tréfötu við kvíarnar. Það er hollasti drykkur minn á ævinni. Oft töluðum við við ærnar og strukum þeim. Komu þær oft til okkar að grindunum, til þess að við gætum strokið þeim. Alla smálagða tíndum við úti um hagana. Þegar við vorum fleiri saman, var það sjálfsögð regla, að við tókum lagðana eftir röð. Þá sagði sá, sem fyrstur var: „Sjáið þið þennan lagð?“ og gat þá um leið þess, sem átti rétt á honum. Þessa lagða þvoði maður vandlega og tíndi allt rusl úr og lagði þá inn og fékk þá vasaklút eða eitthvað smávegis, sem við höfðum yndi af, og ef afgangur varð, þá aura. Einu sinni man ég, að við Kjartan fengum annar 40, hinn 45 aura, sem var umfram það, sem við tókum út. Þetta vandi okkur á að fara vel með, en ekki fékk maður neitt, nema leggja eitthvað í sölurnar sjálfur.
Við Kjartan þóttum nokkuð fyrirtektarsamir, svo, að það þótti vissara að skilja okkur að og hann var sendur að Tungufelli til afa okkar. Ástæðan var sú, að við tókum upp á að búa til nýtt mál, sem fólkið skildi ekkert í, en systkini okkar skildu okkur að nokkru. Ég var mikið hlessa, þegar við vorum skildir. Ég taldi það ekki saknæmt, þó að við gætum talað líkt og útlendingur, annað mál, en fullorðna fólkið leit öðrum augum á þetta. Ég man orðið aðeins eitt orð, hvað við kölluðum kirkjurnar. Þær hétu hjá okkur Gemdibaka, stóra og minni. Ég man vel, hvar ég stóð á stéttinni, þegar Kjartan fór. Ég var svo mjög hlessa á þessu tiltæki fullorðna fólksins, þó að ég léti ekki mikið bera á því. Kjartan var í Tungufelli fullt ár, svo að við þorðum ekki að byrja á þessu fyrirtæki aftur. Mér er minnisstætt, hvað mamma okkar varð einu sinni sár við okkur. Í Hörgsholti var fullorðin kona, sem hafði mikið dálæti á köttum, svo mjög, að hún tuggði í þá. Við fundum, að heldur var þetta álitið óþarft dekur, sérstaklega af því að kisurnar höfðu sig lítið í frammi til að sinna sínu skyldustarfi, sem var að veiða mýsnar, sem voru stundum áleitnar. Nú er það einu sinni um vorið, að við Kjartan erum að bera hlandfor í stömpum á börum í rigningu. Þá kemur kisa út að forinni. Þá hugsum við sem svo, að gaman væri að vita, hvað kisa sé fín í sér. Við tökum hana og setjum hana út á forina í stampinn, sem við notuðum til að ausa upp forina með. Lengi vel heldur kisa sér í barmana á víxl, en svo fór, að hún fer á sund í forina og fer strax inn í rúm til gömlu konunnar. Sem von var, varð gamla konan sár og mamma líka. Auðvitað meðgengum við strax og fundum, að þetta var slæmt hjá okkur, en eitthvert veður höfðum við af því, að sumir hefðu gaman af.
Með aldrinum er svo að smáfærast alvara í vinnubrögðin. Svo var hjá okkur Kjartani. Hann lærði snemma að plægja og eignaðist 4 góða hesta til að vinna með. Hann var hjá Einari Helgasyni, garðyrkjumanni, eitt vor og lærði þar að plægja og fleira. Hann tók uppá því að fá sér myndavél og tók myndir á bæjunum, um leið og hann var að plægja. Stundum var ég líka að hnýsast í þetta undratæki. Plægingar stundaði hann allt til 1910. Þá verður myndatakan hans aðalstarf. Hann settist að á Eyrarbakka og var þar viðloðandi nokkur ár. Svo fer hann austur í Vík í Mýrdal og er þar til 1920. Þá fer hann út í Vestmannaeyjar. Hann stundaði myndatökuna af miklu kappi, enda varð plötusafnið hans mikið. Því miður glataðist eitthvað af því elzta, sem hann átti á Eyrarbakka. Í Vestmannaeyjum var það orðið um 20.000 pl. Seinni árin fer hann að slá slöku við myndatökuna en hafði hjá sér mörg ár Eygló Stefánsdóttur, sem er nú gift kona í Vestmannaeyjum. Hún aðstoðaði hann vel við starfið enda fór hann þá í vaxandi mæli að gefa sig að útgerð. Hann kaupir mótorbátinn Kap, sem heppnaðist prýðilega vel. Hann var líka heppinn með samstarfsmenn, svo sem Guðjón Valdason og son hans Berg Elías. Þeir hugsuðu um þetta allt, eins og þeir ættu það, enda fór vel á með þeim. Ráðvendni og heiðarleiki var Kjartani í blóð borið. Því hef ég spurnir af, að hann útvegaði oft veiðarfæri beint og voru þau mikið betri en í K. u. K. Hann lagði líka áherzlu á að vanda vöru sína sem allra bezt. Hann lærði það í æsku, því faðir okkar vandaði svo vel ullina, að hann fékk alltaf premíu, sem var 5—10 aurar á pundið, hærra verð en almennt. Því miður féll þessi sómamaður frá á góðum aldri, 15. nóvember 1950. Hans var sárt saknað af öllum, sem kynntust honum, bæði skyldum og vandalausum.
Með ráðdeild og dugnaði átti Kjartan góðar eignir, sem féllu til okkar systkina hans. Við vorum 10 með Árna hálfbróður okkar. Nú eru dáin: Árni, Guðrún, Ólafía, Kjartan. 31. janúar 1951 bættust við þá burtköllun Guðmann og Magnús, sem fórust í flugslysinu. Lifandi: Jón, Guðmundur, Bjarni og Kristín.
Vestmannaeyjabær falaði af okkur myndasafnið. Í stað þess að gefa kost á því til kaups, var það einlægur vilji allra erfingjanna, okkar fjögurra eftirlifandi og eftirlifandi barna þeirra dánu, að gefa þetta mikla safn bænum til minningar um þennan kæra bróður, með því skilyrði, að við fengjum myndir, sem við kynnum að óska eftir af okkar fólki og bærinn léti gróðursetja 300 trjáplöntur árlega.

Gefendurnir eru: Börn Guðrúnar:
Jónína Sigrún Skúladóttir, Guðmundur Skúlason, Skúli Skúlason, Elín Sigríður Katrín Skúladóttir.
Börn Árna og Elínar, Oddgeirshólum.
Ólafur, Guðmundur, Jóhann, Sigríður, Katrín og Ólöf.
Börn Ólafíu:
Arnkell, Jónas, Áskell, Þorkell, Björg, Hrafnkatla og Ólafía.
Börn Guðmanns:
Sigríður, Ólafía, Björg, og Elín.
Börn Magnúsar:
Haukur, Magnús og Edda.

J.G.