Blik 1959/Ávöxtur ættjarðarástar

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1959Ávöxtur ættjarðarástarctr


Sveinn Oddsson, Jakob Ó. Lárusson, Jón Sigmundsson.
Sjá grein Ingibjargar Ólafsdóttur.


Séra Jakob Ó. Lárusson, síðar prestur í Holti undir Eyjafjöllum, albróðir Ólafs Ó. Lárussonar, sem hér var héraðslæknir um langt skeið, fór til Vesturheims 1911 og starfaði þar með Vestur-Íslendingum í tvö ár. Hann ferðaðist víða um í Vesturheimi og sá margt og markvert, sem hann þóttist sjá og skilja að komið gæti að liði hér heima, ef takast mætti að vekja áhuga þjóðarinnar og skilning og auka þekkingu hennar á tökum og tækni annarra þjóða.
Einna mestur fannst séra Jakobi munurinn á samgöngutækni Vesturheims og Íslendinga.
Vesturheimsmenn áttu þá bifreiðar í milljónatali, en Íslendingar enga. Hann afréð að fá tvo íslenzka vini sína þar vestra í lið með sér til að kaupa bifreið og flytja heim. Þessir íslenzku vinir hans voru þeir Sveinn Oddsson og Páll Bjarnason, fasteignasali.
Allir lögðu þeir fram fé til kaupa á bifreiðinni. Nauðsynlegt var að fá heim með bifreiðinni vanan og öruggan bifreiðastjóra til þess að kenna á hana og vekja traust á þessu nýja samgöngutæki.
Íslendingur, sem dvalizt hafði í Vesturheimi frá þriggja ára aldri, Jón Sigmundsson að nafni, var kunnur bifreiðastjóri þar vestra. Honum treystu þeir. Hann gaf þegar kost á sér til Íslandsferðar með bifreiðinni. Um laun hans þurfti ekki að ræða. Taldi það skyldu sína að inna þetta starf af hendi án teljandi launa í þeirri von, að starf hans hér heima mætti glæða skilning landa hans á þörf bættra vega og bifreiða. Jón Sigmundsson reyndist með afbrigðum vel í starfi sínu, og glæddist þannig fólki hér heima áhugi og skilningur á gildi þessara nýju samgöngutækja.
Með þessari fyrstu bifreið, sem flutt var til landsins 1913, ferðaðist Ingibjörg Ólafsdóttir, og segir hún frá því ferðalagi í grein sinni á öðrum stað hér í ritinu.

Þ.Þ.V.