Blik 1958/Traustir ættliðir, síðari hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1958Traustir ættliðir
(síðari hluti)


4. Jón Vigfús Vigfússon

Jón litli Vigfússon sannaði snemma handlagni sína og smíðahneigðir. Ungur lærði hann söðlasmíði. Snemma reyndist hann einnig smiður góður á tré og járn.
Jón giftist undir Eyjafjöllum Ingibjörgu Samúelsdóttur bónda Pálssonar. Þau bjuggu að Króktúni. Þar fæddust þeim þrjú stúlkubörn, sitt árið hvert. Ingibjörg hét sú elzta, fædd 12. febr. 1859; Pálína, fædd 23. marz 1860 og Sigríður yngst, fædd 1861, og hét hún nafni föðurömmu sinnar.
Eftir nokkurra ára búskap og hjúskap í Króktúni, skildu þau hjón, Jón og Ingibjörg, samvistum. Fluttist þá Jón til Vestmannaeyja með yngri dætur sínar, Pálínu og Sigríði, en Ingibjörg Samúelsdóttir hafði Ingibjörgu dóttur þeirra á sínu framfæri. — Ingibjörg Samúelsdóttir varð fjörgömul kona og dó í Neðradal í júní 1917. Ingibjörg Jónsdóttir dvaldist lengi ævi í Dalseli og dó þar í júní 1940.
Hér í Eyjum bjó Jón Vigfús fyrst við tómthúsmannakjör í tómthúsinu París og síðan varð hann húsmaður í Fagurlyst. Hann hafði dætur sínar hjá sér.


5. Guðrún Þórðardóttir

Jörðin Tún hér í Eyjum er ein af Kirkjubæjajörðunum og talin vera 1/8 af Kirkjubæjatorfunni.
Upp úr miðbiki aldarinnar síðustu höfðu ýmsir búendur setið jörðina og enginn fastur.
Árið 1862 fluttist að Túni ekkja Carls Ludvigs Möllers verzlunarstjóra með 4 börn. Hún hét Ingibjörg Þorvarðardóttir Möller (leiðr.) og var alltaf titluð madama eftir að hún giftist, eins og siðvenja var um konur verzlunarstjóra, sem höfðu mikla fjármuni undir höndum.
Með mad. Ingibjörgu fluttist að Túni ung stúlka, sem Guðrún hét Þórðardóttir frá Götu í Eyjum, þá 23 ára, og gerðist vinnukona hjá madömunni.
Faðir Guðrúnar var Þórður í Götu Árnason bónda Þórðarsonar í Holti og Garðakoti í Sólheimasókn Jónssonar, Oddssonar prests í Eyvindarhólum (leiðr.). Kona Árna bónda var Guðrún yngri frá Vatnsskarðshólum Þorsteinssonar Eyjólfssonar bónda í Áshól í Holtum Jónssonar.
Guðrún Þórðardóttir var fædd 11. des. 1839.
Mad. Ingibjörg bjó í Túni í 6 ár eða til ársins 1868. Flutti hún þá af jörðinni sökum fátæktar. Það sama sumar fékk Jón Vigfús Vigfússon byggingu fyrir Túni og fluttist þangað með dætur sínar tvær, Pálínu og Sigríði. Jörðin var þá talin fóðra eina kú og eitt hross og hafa hagagöngu handa 12 sauðum á Heimalandi og 6 sauðum í Suðurey. Fýlatekju hafði hún á báðum þessum stöðum, svo og í Brandi, Geldung og Súlnaskeri.
Guðrún Þórðardóttir réðist nú bústýra til Jóns Vigfússonar, hins nýja bónda í Túni, sem sé varð kyrr í Túni, þegar madaman flutti þaðan.
Árið 1870 fluttist svo Sigríður Einarsdóttir að Túni til Jóns sonar síns eins og áður segir. Sama ár fæddust þeim Jóni bónda og bústýru hans tvíburar, tvær stúlkur, sem skírðar voru Þórunn og Jónína. Nokkru síðar giftust þau Jón og Guðrún. — Jónínu dóttur sína misstu þau mjög bráðlega, en Þórunn lifði, óx og dafnaði vel. Það var hin góðkunna merkiskona hér í bæ, Þórunn í Þingholti.
Önnur börn Jóns og Guðrúnar voru þessi:

Vigfús, útgerðarmaður í Holti hér í Eyjum, fæddur 1871,
Guðjón, bóndi og líkkistusmiður á Oddsstöðum hér, fæddur 1874,
Jóhann, trésmiður að Brekku, (Faxastíg 4) hér, fæddur 1876,
Guðrún Karítas, fædd 1878,
Sigurlín, húsfreyja í Túni, f. 1882.

Þegar Sigríður Einarsdóttir var komin hátt á áttræðisaldur, tók henni að daprast sjón.
Dætur Jóns að fyrra hjónabandi, Pálína og Sigríður, voru augasteinar gömlu konunnar, svo og Þórunn, elzta barn Jóns og Guðrúnar. Þessar stúlkur veittu ömmu sinni alla þá hjálp og nærgætni, er þær megnuðu að láta henni í té.
Árið 1882 geisuðu mislingar um mikinn hluta landsins og lögðu um 1700 manns í gröfina. Einnig hér í Eyjum lögðust þeir þungt á marga og bjuggu nokkrum aldurtila.
Meðal þeirra, er dóu þá úr sótt þessari, voru báðar dætur Jóns bónda í Túni, Pálína og Sigríður, 21 og 22 ára að aldri. Þær dóu með tveggja daga millibili. Erfitt er að lýsa þeim hörmungum, þeim þjáningum sorgar og saknaðar, sem steðjuðu nú að heimilinu í Túni, er þær lágu báðar lík hinar gjafvaxta dætur; hvers manns hugljúfar höfðu þær verið, hjartahlýjar og hugarhreinar, og hafði ekki hin háaldraða amma þeirra minnst fengið að njóta þeirra gæða, eftir að ellin færðist svo mjög yfir hana og hrörleikinn þrengdi að. Heit voru tárin og höfug, er runnu úr nærri blindum augum gömlu konunnar, er sorgarhríðirnar surfu að. Þá var sem hrörnandi sálarhjúpurinn herptist og þrengdi að ljósi lífsins, er innra bjó. Á þeim stundum var sem gömul ör yrðu að blæðandi sárum á ný. Þeir atburðir á langri ævi, er stærstu örin höfðu eftir skilið, runnu fram í minnið. Missir fyrsta barnsins, dauði tveggja eiginmanna á voveiflegan hátt, eignamissirinn, brigði trúskaparheitanna, baráttan fyrir vellíðan barnanna í vist á ýmsum misjöfnum heimilum, — og nú dauði beggja sonardætranna, ljósgjafanna hennar, — allir þessir erfiðu atburðir og sársvíðandi rifjuðust upp, stóðu svo ljóslifandi fyrir sálarsjónum Sigríðar Einarsdóttur á heitustu saknaðar- og sorgarstundunum eins og illar gjörðir á æviferli renna fram fyrir sálarsjónir drukknandi manns.
Þegar gömlu konunni tók að svía sárasti sviðinn fyrir mátt trúar og trausts, bænar og blessunarorða, var sem hin fagra sál tæki að skína gegnum hjúpinn hröra. Þá sönnuðust þar einnig orð skáldsins: „Sálar um fatið forna fögur skein innri konan“.
Eftir þessar þungu raunastundir varð Þórunn mesta hjálparhella ömmu sinnar. Hún var nú 12 ára, viljug og hröð, hugulsöm og harla hlý eins og við hinir yngri kynntumst henni á sjötugs- og áttræðisaldrinum. Þórunn létti þá miklu starfi af móður sinni, sem var heilsulítil, slitin og þreytt eftir mikla vinnu, fátæktarbasl og barneignir.
Eftir dauða dætranna tveggja hrörnaði Sigríður Einarsdóttir ört. Brátt hvarf sjónin með öllu.
Það varð henni enn þung reynsla. Eftir það hætti hún að láta leiða sig í Landakirkju til að hlýða messugjörð. Nú urðu henni öll þau kynstur, sem hún kunni utanbókar af sálmum, versum, bænum og biblíugreinum, sá sjóður, er hún í myrkrinu jós af sálarstyrk og huggun.
Og enn skyldi á hana reynt. Árið 1890 dó Guðrún Þórðardóttir húsfreyja í Túni. Hún hafði alltaf verið tengdamóður sinni svo góð sem bezta dóttir væri, umhyggjusöm, nærgætin og ylrík. Þá átti þessi margreynda kona, Sigríður Einarsdóttir, enn eftir að lifa 7 ár í veraldarmyrkri, liggjandi örvasa í rúmi sínu. Sigríður Einarsdóttir andaðist 1897 og fylgdi öldinni um aldur eins og áður greinir.
Séra Oddgeir Guðmundsen að Ofanleiti jarðsöng Sigríði Einarsdóttur. Húskveðjan, er hann flutti í Túni við kistu hennar, var einkar hlýleg og vel samin. Rétt þykir að birta hér kafla úr henni:

„ ... Og þegar þér, húsráðandi þessa heimilis og sonur hinnar látnu, rennið augunum yfir liðna sambúð, megið þér þá ekki þakklátur játa: góða gaf mér guð móður... Já, sannarlega minnist þér hennar með þakklæti, já, þér minnist hennar ekki aðeins nú með orði og tungu, heldur hafið þér ætíð minnzt hennar í verki og sannleika með því að auðsýna henni alla alúð og umhyggju og sonarlega ræktarsemi. Og þér hafið seint og snemma minnzt þess og ekki sízt eftir að hún var orðin barn í síðara skiptið, að hún var yður og yðar bernsku góð móðir. Barnsleg tryggð og ræktarsemi er eitt hið fegursta blóm, er grær á akri mannlegs hjarta. Það er sú sáning, sem ekki mun bresta uppskeru á sínum tíma, og sú uppskera kemur hvað helzt fram á hinum hentugasta tíma, þegar að því líður, að maður verður aftur barn og verður hjálpar þurfi. Já, það er góð uppskera af sonarlegri rækt við foreldra sína að sjá við hlið sér uppkomin efnileg börn og sjá athvarf og ellistoð, þar sem börnin eru. Sonarleg, barnsleg ræktarsemi er því dýrmætari, sem hún er fágætari í heiminum, því að það verðum við að játa, að mörg dæmi hafa borið fyrir augu vor og eyru, sem sanna, að ræktarsemi milli nánustu ættingja er allvíða mjög áfátt, sönn ræktarsemi, þar sem hana er að finna, er því eins og gullkornin innan um sandinn ...“
Úr líkræðunni:
„Langt líf er löng reynsla og beygir manninn og sveigir, nema því aðeins að mikið kristilegt þrek lifi í sálarlífinu, og eins og þessi kona átti. Þrátt fyrir allt og allt var hún jafnan glöð og það glöð í guði sínum. Hún flýði til hans í öllum sínum vandkvæðum og missti aldrei sjónar á hinni föðurlegu forsjón ... Þessi kona fór heldur ekki varhluta af framförum. Hún auðgaði anda sinn af nytsömum fræðum, og einkum þeim fræðum, sem efla sáluhjálp, enda hafði hún öll þau skilyrði til framfara, sem útheimtist, sem er gott hjartalag, skilningur, góð greind og framúrskarandi minni...“

Jón bóndi Vigfússon reyndist móður sinni alltaf hlýr og nærgætinn sonur og bar vellíðan hennar fyrir brjósti, ekki sízt eftir að hún varð örvasa og rúmliggjandi.
Guðrún Þórðardóttir húsfreyja dó frá öllum barnahópnum sínum 27. ágúst 1890. Hún var orðlögð gæðakona, elskuð og virt af öllum, sem kynntust henni. Hjónaband Jóns og Guðrúnar var ástúðlegt og traust.
Guðrún húsfreyja þjáðist lengi af heilsuleysi og tók Jón bóndi fyllsta þátt í þeim raunum konu sinnar og létti henni lífið eftir föngum með nærgætni og umönnun.
Séra Oddgeir Guðmundsen að Ofanleiti flutti einkar hlýja og hugðnæma húskveðju við kistu Guðrúnar húsfreyju Þórðardóttur í Túni. Þar sagði prestur m.a.:

„Aldrei horfum vér grátnum augum eftir elskuðum ástvinum, að ekki megum vér hugsa og vona að sjá þá aftur innan lítils tíma. En á meðan sú stundardvöl varir, þá geymum vér minningar þeirra í hjörtum vorum, eins og það sem þeir dýrmætast skildu oss eftir...“
„ ... Það líf, sem hér er liðið út, var bæði heiðarlegt og lofsvert, og það var einnig, þegar betur er að gáð, ríkt af hinu sanna láni. Hin framliðna fékk að vísu að kenna á heilsuleysi, og er það sannarlega þungur kross. En hún fékk mikla uppbót á þessu böli, þar sem guð gaf henni þann ektamaka, er létti henni byrðar lífsins og gjörði henni það þungbæra bærilegt. Þér gátuð líka af eigin reynslu gjört yður ljóst, hversu andstreymið getur lagzt þungt á mannlegt hjarta, þar sem þér urðuð fyrir miklum sárum skilnaðar og saknaðar. Yður mun það nú í fersku minni; þetta er ekki í fyrsta sinni, sem dauðinn hefir höggvið skarð í ástvinahóp yðar, heldur eruð þér margreyndur í skóla lífsins. Þessi reynsla kenndi yður að taka innilega hlutdeild í kjörum konu yðar, þegar mótlætið sótti hana heim. Þessi reynsla kenndi yður að reynast yðar líðandi ástvini sannur og þolinmóður vinur, og það er sannarlega mikið lán að hafa þann vin við hlið sér, sem tekur innilega þátt í kjörum vorum. Hin framliðna var einnig að því leyti lánsmaður, að guð hafði gefið henni mannvænleg og efnileg börn. Og hver er gæfusamur, ég vil segja ríkur, ef ekki sá, sem á banasænginni getur glatt sig við þá vissu, að eftir hann lifa góð og efnileg börn, foreldrunum til sóma og föðurlandinu til uppbyggingar, og þessa von hafði hún, sem hér liggur liðið lík. — Já, hvað þessi framliðna var með trygglyndi hjarta síns, það finna hjörtu ástvina hennar á þessari sorgarstundu og munu ekki gleyma því. Ég veit, að hann, sem lifir eftir sem ekkill, horfir með hryggum huga á eftir miklum hluta lífsgleði sinnar, því að dauðinn hefir tekið hana frá honum, sem jafnan tilheyrði honum með öllu trygglyndi hjarta síns og fylgdi honum í blíðu og stríðu... Með sömu tilfinningum minnast börnin sinnar góðu móður og helga þessa minningu í þakklátum en sorgbitnum hjörtum ...“

Þetta var kafli úr húskveðju þeirri, er séra Oddgeir flutti við kistu Guðrúnar Þórðardóttur húsfreyju í Túni. Milli orðanna má glögglega gera sér grein fyrir, hvílíkur drengskaparmaður Jón bóndi í Túni var, góðlyndur og göfuglyndur. Hinsvegar leynist það heldur ekki, að presti hefir fundizt til um manngæði Guðrúnar húsfreyju, móðurinnar og eiginkonunnar.
Prestur minnir á það í húskveðjunni, að ekki sé það í fyrsta sinn sem dauðinn höggvi skarð í ástvinahóp Jóns bónda. Hér hugsar prestur til þess, er Jón Vigfússon missti báðar dætur sínar, Pálínu og Sigríði.
Jón Vigfússon bóndi í Túni var mikill dugnaðarmaður og formaður hér um árabil. Lengst var hann formaður á opna skipinu „Svan“. Milli þess að Jón stundaði sjóinn, vann hann að smíðum. Hann átti smiðju heima í Túni, þar sem hann smíðaði úr járni ýmsa hluti fyrir Eyjabúa. Þá þótti hann trésmiður ágætur og var einn helzti húsasmiður hér á sinni tíð.
Sumarið 1905 lét Jón Vigfússon af hendi ábýlisjörð sína Tún til tengdasonar síns, Bjarna Björnssonar¹) frá Loftsstöðum í Mýrdal, er giftist Sigurlínu dóttur hans árið áður eða 1904.
Jón Vigfússon bóndi í Túni dó vorið 1908.
¹) Leiðr. (Heimaslóð).
Heimildir: Bækur kirkna, úttektarbók embættisins hér, aldrað fólk o.fl.

Þ.Þ.V.


1958 b 30 AA.jpgMyndin er af Jóni bónda Vigfússyni í Túni og börnum hans.
Aftari röð frá vinstri: Þórunn (frá Þingholti), Vigfús (frá Holti)
Fremri röð f.v.: Sigurlín (húsfreyja í Túni), Jón bóndi Vigfúson, Jóhann (frá Brekku), Guðjón (bóndi á Oddsstöðum).ctr


Börn Guðjóns Jónssonar bónda
á Oddsstöðum:


Oddsstaðahjónin Guðjón Jónsson og síðari kona hans Guðrún Grímsdóttir með börnum frá fyrra og síðara hjónabandi Guðjóns bónda, m.m.
Aftasta röð frá vinstri: Guðlaugur, Kristófer, Hjörleifur Guðnason, fóstursonur þeirra hjóna, systursonur Guðrúnar húsfreyju, Pétur, Árni, Herjólfur.
Miðröð f.v.: Ingólfur, Vilborg, Jón, Njála, Guðmundur.
Fremsta röð f.v.: Ósk, Fanný, Guðjón Jónsson, Guðrún Grímsdóttir, Jóna Pétursdóttir Guðjónssonar, sem fóstruð var upp hjá þeim hjónum frá 5 ára aldri.


I.

Giftur Marteu Guðlaugu Pétursdóttur frá Þórlaugargerði í Vm.
Þeirra börn:
1. Kristófer f. 27. maí 1900, g. Þórkötlu Bjarnadóttur frá Grindavík.
Þeirra börn:
Guðlaugur, Freyja, Guðrún, Guðjón.
2. Pétur, f. 12. júlí 1902.
G. I. Guðrúnu Rannveigu Guðjónsdóttur frá Breiðdal austur, d. 1938.
Þeirra börn:
Jónína Ósk, Guðlaug, Guðlaugur Magnús, Jóna Halldóra og Guðjón.
G. II. Lilju Sigfúsdóttur frá Eyrarbakka.
Þeirra börn:
Guðrún Rannveig, Árni, Brynja, Herbjört.
3. Jón, f. 2. ágúst 1903, g. Guðrúnu Jónsdóttur frá Suðurgarði í Vm., d. 1953.
Þeirra börn: Ingibjörg og Sigurgeir.
4. Herjólfur, f. 25. des. 1904, d. 31. jan. 1951, g. Guðbjörtu Guðbjartsdóttur frá Grindavík.
Þeirra börn:
Bjarni, Guðbjartur, Guðjón.
5. Fanný, f. 4. marz 1906, g. Páli Eyjólfssyni úr Höfnum.
Þeirra börn:
Guðjón, Eyjólfur, Jón, Guðlaug, Ásta, Erla, Tómas Njáll, Helga (dó ung).
6. Njála, f. 22. des. 1909,
G. I. Tómasi Bjarnasyni frá Grindavík, d. 1950.
Þeirra barn:
Jóhanna Guðbjörg.
G. II. Hrólfi Sigurjónssyni frá Ísafirði.
7. Guðmundur, f. 28. jan. 1911, g. Jórunni Guðjónsdóttur frá Kirkjubæ í Vm.
Þeirra börn:
Guðrún, Halla, Bára Jóney og Martea Guðlaug.
8. Ósk, f. 15. júlí 1915, g. Jóhanni Pálssyni úr Mýrdal.
Þeirra börn: Guðrún, Ragnhildur Sigurfinna og Steinar Óskar.
9. Árni, f. 1912, d. 1923.
10. Guðrún, f. 1916, d. 1918.
11. Njáll, (dó ungur).
12. Óskírt sveinbarn, dó mjög ungt.

II.

Giftur Guðrúnu Grímsdóttur úr Fljótsdal.
Þeirra börn:
1. Ingólfur, f. 7. febr. 1917; óg.
2. Guðlaugur, f. 2. júní 1919, g. Önnu Sigurðardóttur frá Norðfirði.
Þeirra börn:
Guðjón, Sigríður, Guðrún.
3. Árni, f. 12. marz 1923; óg.
4. Vilborg, f. 22. ágúst 1924, gift Jóni Aðalsteini Jónssyni, Rvík.
Þeirra börn:
Jón Viðar.

Börn Jóhanns Jónssonar (frá Brekku, Faxastíg 4)

sem giftur var Kristínu Árnadóttur.
1. Guðrún Hrefna, f. 11. apríl 1901, d. 1946.
Maður hennar var Einar Dagbjartsson.
2. Þorsteina, f. 22. jan. 1904. Hennar maður var Páll Jónasson, skipstj, f. 8. okt. 1900, d. 31. jan. 1951.
3. Engilbert, f. 26. júlí 1905.
Kona hans er Arnbjörg Magnúsdóttir, f. 18. marz 1912.
4. Karl, f. 29. nóv. 1906.
Kona hans er Kristjana Oddsdóttir.
5. Friðþjófur, f. 21. maí 1908, d. 1929,óg.
6. Hulda, f. 1911, óg.
7. Áróra Alda, f. 6. marz 1913.
Maður hennar er Sigfús Guðmundsson, f. 28. júní 1912.
8. Emma, f. 8. des. 1917.
Maður hennar er William Clark, skozkur.
9. Steingerður, f. 27. júlí 1919, óg.
Jóhann og Kristín misstu tvö börn.


Börn Vigfúsar Jónssonar frá Túni: (f. 14. júní 1871; d. 26. apríl 1943).

I.

Giftur Guðleifu Guðmundsdóttur (f. 11. okt. 1879; d. 19. ágúst 1922).
1. Guðmundur, f. 10. febr. 1905, g. Stefaníu Einarsdóttur, f.19. jan. 1904.
2. Guðrún, f. 16. sept. 1902, d. 15. apríl 1957, g. Aage Christinsen, dönskum manni.
3. Jón, f. 22. júlí 1907, g. Guðbjörgu Sigurðardóttur, f. 8. nóv. 1918.
4. Sigríður, f. 17. sept. 1904, g. Einari Jóhannessyni.
5. Þórdís, f. 16. júlí 1912, g. Guðmundi Benediktssyni, f. 29. jan. 1898.
6. Guðlaugur, f. 16. júlí 1916, g. Jóhönnu Kristjánsdóttur, f. 3. nóv. 1921.
7. Axel, f. 16. okt. 1918.

II.

Giftur Valgerði Jónsdóttur f. 6. apríl 1891.
1. Guðleif, f. 13. júlí 1926, gift Andrési Hannessyni, f. 1. júní 1924.
2. Þorvaldur Örn, f. 24. jan. 1929, g. Ástu Þorvarðardóttur, f. 17. júlí 1929.

Börn Sigurlínar Jónsdóttur frá Túni.

Gift Bjarna Björnssyni¹).
1. Guðrún Jónína, f. 31. júlí 1904, gift Helga Guðlaugssyni, bifreiðastjóra, frá Eyrarbakka.
2. Ólafía, f. 3. des. 1909, gift Erlendi Jónssyni, bónda, frá Ólafshúsum í Eyjum.
Hjónin Sigurlín og Bjarni misstu tveggja mánaða gamlan dreng.

fyrri hluti