Blik 1958/Danskar ambögur og fleira grín

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Stökkva á: flakk, leita

Efnisyfirlit 1958



Danskar ambögur
og fleira grín


Eitt sinn er ég sat á Þjóðskjalasafninu og gluggaði þar í gamlar skræður og gulnuð blöð varðandi sögu Eyjanna, rakst ég á reikningabók Landakirkju frá 17. öld. Kom mér þá í hug að birta Eyjabúum nokkur sýnishorn af því, hvernig hinn danski trúnaðarmaður konungs, sem var kirkjulegur reikningshaldari í sókninni, skrifaði nafn byggðarlagsins eða sóknarinnar.

Hér birtist sýnishornin tekin upp úr kirkjureikningunum:
Westmandöer
Wæstmanöe
Wästmandöe
Wästmanör
Wästmand
Wästmandör
Vestmanöe
Westmannö
Westmannör
Westmannöe
Wæstmanöe
Westmanör
Wæstmann
Westmanö
Westamann
Westmannöer
Wästmannöe
Wæstmandöe
Westmaröe
Wæstm.
Westm.
Wastmöe
Wastmandöe
Wsästmandöe
Wästmandöes
Westmöe
Wastmöes

Annarsstaðar höfum við nafnið
Wæstpansöe.

Dönsk nöfn á Kornhól frá sama tíma:
Kornholm
Cornhoul schantze
Cornholm
Corenholm
Chorenhaul
Chornhoul Schanze
Chorenhols Schantze
Cornhouls Schandtze.

Þ.Þ.V.


Rukkarinn: Jæja, ungfrú góð, ætli ég fái ekki reikninginn greiddan í dag?
Vinnukonan: Því miður, frúin er ekki heima; hún er farin út fyrir góðri stundu, og hún hefir alveg gleymt að skilja eftir hjá mér peninga handa yður.
Rukkarinn: Ja, hún er víst nokkuð gleymin, frúin. Ef ég hefi séð rétt, þegar ég kom, þá hefir hún gleymt höfðinu bak við gluggatjaldið í stofunni.

Kvikmyndaleikari vildi láta skrifa hjá sér úttekt í verzlun og vísaði á prest einn um upplýsingar sér viðvíkjandi.
Kaupmaðurinn símaði til prestsins, en fékk það svar, að hann þekkti kvikmyndaleikarann mjög lítið.
Hvað er þetta, svaraði kaupmaðurinn, hann sagðist marg oft vera við kirkju hjá yður.
Já, það er alveg satt, svaraði prestur, hann lætur mig alltaf gifta sig.

Óli litli átti erfitt með að læra reikning. Það virtist ógjörningur kennaranum að kenna honum að leggja saman tvo og tvo.
„Eigið þið kött heima?“ spyr kennarinn.
Óli: „Já, hann eigum við.“
„Nú, ef kötturinn ykkar gýtur tveim kettlingum að vorinu og öðrum tveim að haustinu, hversu mörgum kettlingum gýtur hann þá samtals haust og vor?“
Óli hugsaði sig um eilitla stund og sagði síðan: „Kennari, kötturinn okkar er fressköttur.“

Móðirin sendi drenginn sinn iðulega í næsta hús til þess að fá lánað brauð. Dag nokkurn fór hann enn einu sinni þessara erinda fyrir móður sína. Svarið var: Nei, í dag getur þú ekki fengið lánað brauð, því að við eigum aðeins eitt til í eigu okkar.
Drengurinn: Nú, þá hlýt ég að geta fengið það, þar sem við erum alveg brauðlaus.

Sprittaurabetlari fékk áminningu fyrir betl. Í ljós kom, að hann hafði kr. 10.000.00 í brjóstvasanum.
Hversvegna geymirðu ekki peningana í bankanum, spurði lögreglustjóri.
„Ég treysti ekki banka eða sparisjóði fyrir þeim,“ sagði betlarinn.
„Hvers vegna ekki?“
„Jú, ú, einu sinni lagði ég þúsund krónur í banka og svo gleymdi ég, hvað bankinn hét eða hvar hann var, og síðan hefi ég ekki séð snefil af peningunum. Heiðarleiki það, eða hvað finnst yður, lögreglustjóri?“

Það eru fleiri bjálfar til en vitringar, og jafnvel í vitringunum leynist meira af heimsku en viti.

Í náttúrufræðitíma:
Kennarinn: Geturðu nefnt mér dýr, sem maðurinn hefur gagn af.
Nemandinn: T.d. kýrin.
Kennarinn: Rétt er það. En nefndu mér svo dýr, sem maðurinn hefir sér til gamans.
Nemandinn: Já, það get ég, t.d. rugguhestur.

Eftir Heklugosið 1947 stóð hugur margra jarðfræðinga erlendra til að skoða Heklu og ganga á fjallið.
Einhverju sinni mættust tveir vísindamenn við stærsta gíg Heklu; annar Englendingur, hinn Þjóðverji.
Þá sagði Þjóðverjinn: „Þetta er ekki ólíkt því að horfa beint niður í víti.“
Englendingurinn svaraði: „Já, með sanni má segja, að víða hafið þið verið, Þjóðverjarnir.“

Karl nokkur hafði fengið sér útvarpstæki og hafði mjög gaman af að segja nágrönnum sínum, hvernig veðrið mundi verða næsta dag. Einu sinni sagði hann: „Nú fáum við norðan stórhríð á morgun, piltar. Útvarpið segir, að hún sé komin alla leið norður á Spán.“

Fuglahræða var í æðarvarpi. Hún var færð í kvenkjól og með kvenhatt.
Gömlum manni, sem fram hjá gekk, varð að orði: „Fáar eru þær orðnar stöðurnar í þjóðfélaginu, sem kvenfólkið ekki seilist í frá okkur karlmönnunum.“

Þekktur borgari í Eyjum var að vanda um við son sinn.
„Svei, Pétur,“ sagði hann, „þú mátt aldrei segja ljótt.“
„Hversvegna blótar þú þá, pabbi?“
„Það er allt annað,“ svaraði faðirinn, „ég er giftur.“

Gömul hjón ofan úr sveit eru að skoða kyrkislöngu í dýragarðinum.
Umsjónarmaðurinn er að lýsa slöngunni fyrir þeim og segir m.a., að hún geti gleypt fullorðna sauðkind. Þegar bóndi heyrir þetta, tekur hann í handlegg konu sinnar og segir: „Stattu ekki svona nærri búrinu, kona.“

Kyndarinn: „Hvernig stóð á því, að þú skyldir vera að kyssa kærustuna í myrkrinu í gærkvöldi?“
Hásetinn: „Ég skil nú reyndar ekkert í því sjálfur, þar sem ég hafði áður séð hana í björtu.“

Prófessorinn: „Ég fullvissa yður um, að í kennslustund hjá mér getið þér ekki sofið.“
Stúdentinn: „Ég gæti það, ef þér töluðuð svolítið lægra.“

Villi litli: „Þú ættir að sjá, mamma, hvernig hann pabbi og eldhússtúlkan búa til límonaði.“
Móðirin: „Hvernig fara þau að því?“
Villi: „María heldur á sítrónunni og pabbi kreistir síðan Maríu.“

Túlli: „Ekkert er yndislegra til í heiminum en fyrsta ástin, eða finnst þér það ekki, elskan.“
Snolla: „Jú, það segi ég satt. En mér þykir samt ósköp vænt um þig.“

Bílstjórinn: „Ég vildi gjarnan mega bæta fyrir hanann, sem ég drap.“
Hanaeigandinn: „Jæja, komið þá hingað kl. 4 hvern morgun og galið.“

Miðsvetrarpróf í dönsku í 1. B. Þýðing:
Hann besögte et par venner;
Hann stóð berhöfðaður í vindinum.

Miklir óskaplegir hitar hafa þetta verið í sumar. Hitar! Nei, góði minn, þetta kalla ég ekki mikla hita. Þú ættir að koma til Ameríku. Þar voru svo miklir hitar eitt sumarið, sem ég var þar, að við urðum að geyma hænsnin í ís, svo að þau verptu ekki harðsoðnum eggjum.

Siggi gamli í H. hefur verið að kíta við kellu sína og farið halloka. Fyrst í stað er hann hnugginn, en telur svo kjark í sjálfan sig og glaðnar smám saman:
„Já, þó ég sé fáfróður almúgamaður, þá er ég þó að einu leyti vitrari en sjálfur Salomon, því að aldrei hefur mér komið til hugar að eiga meira en eina konu, já, og það er alveg skrattans nóg handa mér.“

Tveir gamlir kunningjar hittust á Skólaveginum. Þeir höfðu ekki sézt lengi. „Ef til vill hefurðu heyrt það, að ég hefi gengið í heilagt hjónaband síðan við sáumst síðast. Konan mín er úr Grafningnum.“
„Já, blessaður, ég veit það og meira, því að ég þekkti einu sinni konuna þína mæta vel, þegar ég var kaupamaður í Grafningnum.“
„Hm,“ sagði sá gifti, „skaparinn gæfi, að ég hefði verið í þínum sporum þá.“

„Stjarna vonarinnar“ var að leggja af stað frá Básaskersbryggjunni til Þorlákshafnar. Nokkrir farþegar voru með bátnum. Oflátungur nokkur kom skundandi fram á bryggjubrúnina og hrópaði drýldin: „Er Örkin hans Nóa ekki fullskipuð ennþá?“
Þá gall við kvenmannsrödd: „Nei, það vantar asnann, gerðu svo vel.“

Jón: „Ja, það get ég fullyrt, að ráðvendni borgar sig bezt.“
Karl: „Nú, hver er sönnun þess?“
Jón: „Jú, ég fann hund á förnum vegi og reyndi að selja hann fyrir tíu krónur, en enginn vildi kaupa. Þá fór ég heim til eigandans með hundinn og eigandinn greiddi mér tuttugu krónur í fundarlaun.“

Nemandinn skrifar stíl um manninn: Gegnum mannslíkamann er beinstöng, sem kallast hryggur. Á öðrum enda stangarinnar situr höfuðið en á hinum endanum sitjum við sjálf.

Presturinn: „Ég veit dæmi þess, að menn hafi orðið blindir af því að drekka áfengi.“
Drykkjumaðurinn: „Það er alveg öfugt með mig; ég sé allt tvöfalt, þegar ég er ölvaður.“

Læknirinn: „Hvar funduð þér fyrst til verkjanna?“
Sjúklingurinn: „Milli Tanga og Tindastóls.“