Blik 1958/Þáttur nemenda, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1958



ctr
(Fyrri hluti)


Lítil saga

Það var einu sinni fyrir mörgum árum lítil stúlka, sem hét María. Foreldrar hennar voru hvorki fátæk né rík, heldur bjargálna. Henni leið vel í alla staði og þótti gaman að lifa. En eitt var þó að: hún átti enga brúðu. Hana langaði skelfing mikið til að eiga eina reglulega fallega.
Það þýddi ekkert að biðja pabba eða mömmu. Þau sögðu bara nei, og enga brúðuna fékk María. En svo var það einu sinni, að efnt var til skemmtunar í næsta þorpi, og þangað fóru bæði ungir og gamlir.
Á þessari skemmtun átti að vera happdrætti, og aðalvinningurinn var stór og falleg brúða. Þetta vissi María, og hún átti að fá að fara með foreldrum sínum og systkinum á þessa skemmtun.
Dagana fyrir skemmtun þessa bað María til Guðs kvölds og morgna, að hún fengi brúðuna.
Hún bað svo heitt og innilega og hugsaði svo mikið um hana, að daginn, sem fara átti, var hún orðin svo viss um, að hún fengi brúðuna, að hún efaðist ekki lengur. Hún vissi, að hún mundi fá hana. Og mikið hlakkaði hún til. Hún gat bara alls ekki beðið.
Loksins eftir langa mæðu var lagt af stað. En þá spurði María undrandi, hvort þau ætluðu ekki með vagn undir brúðuna, sem hún fengi. En þau hlógu þá aðeins að henni og sögðu, að hún fengi enga brúðu.
En María vissi betur.
Þegar til áfangastaðarins kom, var þar fyrir fjöldi fólks. Allir hlógu og mösuðu og skemmtu sér. En María sá og heyrði ekkert af því, sem fram fór í kringum hana. Aðeins brúðan komst fyrir í huga hennar. Þau voru öll búin að kaupa happdrættismiða og María hafði aðeins keypt einn, af því hún vissi, að það mundi nægja.
Og loksins, — loksins kom að því að draga skyldi í happdrættinu. Númerið á fyrsta vinningnum var lesið upp, og það var líka sama númerið og stóð á miðanum hennar Maríu. Hún hreint og beint flaug upp að pallinum til þess að ná í hina langþráðu brúðu.
Á eftir, þegar hún var búin að skoða hana nægilega vel og dást að henni, fór hún og sýndi foreldrum sínum og systkinum, sem voru mjög undrandi. Ekki minnkaði gleði hennar við það, að lítil fátæk stúlka, sem hún þekkti og vissi að átti enga brúðu, hafði fengið þá næst fallegustu.
Um kvöldið, þegar hún var komin upp í rúm með brúðuna í fanginu, þakkaði hún Guði innilega fyrir bænheyrsluna.
Saga þessi er sönn, og sagði mamma mín mér hana.

Bryndís Brynjúlfsdóttir, Gagnfræðadeild.
Þessar lífsglöðu námsmeyjar seldu flest eintök af ársriti skólans í fyrra, eða 70 eintök á tveim tímum. Bryndís Brynjúlfsdóttir til vinstri, Sigrún Þorsteinsdóttir til hægri.

Tryggðin var óbrigðul

Eftirfarandi saga gerðist norður í Austur-Húnavatnssýslu, austustu byggð sýslunnar. Afi minn og amma bjuggu þar.
Á þeim tíma var tíðarhátturinn sá, að vinnumenn og bændasynir sóttu sjóróðra á vetrum í verstöðvar sunnan lands, og þótti frekar frami í því fólginn að kynnast fólki í fjarlægum landshlutum og sjá sig um.
Afráðið var, að föðurbróðir minn færi suður á vertíð. Er í ferðina átti að leggja, var mikill snjór og færi hið erfiðasta. Tveir piltar úr sveitinni vildu verða samferða frænda mínum.
Þeir báru öll nauðsynlegustu fötin, sem þeir gerðu ráð fyrir að nota í þessari löngu fjarveru, á bakinu í þar til gerðum pokum, er nefndust Helsingjapokar. Voru þeir þannig útbúnir, að gat var á miðjum pokanum og fatnaðinum smeygt í sinn hvorn enda. Höfðinu var síðan smeygt í gegnum gatið á pokanum. Lágu þá þyngslin bæði á baki og brjósti. Þótti þetta þægilegt, ef bera átti langar leiðir.
Á bænum var hundur, hvítur að lit; þá orðinn nokkuð gamall og að nokkru leyti óþarfur, því að yngri hundar voru teknir við starfi Fetils, en svo hét hundurinn.
Nú var sú ákvörðun tekin, að frændi minn færi með Fetil suður til Borgarfjarðar, því að þar hafði gengið hundapest, og því vöntun þar á fjárhundum. Var því hugmyndin sú, að frændi og félagar hans létu Fetil þar upp í næturgreiða.
Þeir félagar lögðu af stað og höfðu hundinn með sér. Söknuður mikill ríkti meðal unga fólksins á bænum, er gamli Fetill lagði af stað frá því í síðasta sinn.
Eftir burtför félaganna gerði norðan hríðar, og hlóð þá niður miklum snjó. Ekkert fréttist af ferðamönnunum, enda þess ekki að vænta, þar eð samgöngur voru þá mjög slæmar á Norðurlandi á þeim tíma árs.
Um morguninn á níunda degi eftir brottför félaganna opnar afi minn bæinn í blindhríð og byl. Veltur þá ekki fyrirferðarmikil snjóhrúga inn úr bæjardyrunum! Og út úr hrúgunni kemur Fetill gamli, flaðrar upp um afa og sleikir hendur hans. Það var sem hundurinn vissi ekki, með hvaða hætti hann gæti bezt lýst gleði sinni yfir unnum sigri á öllum þrautum og erfiðleikum, — að vera nú loks kominn aftur heim, — heim til vinanna, sem ekki skildu þó tilfinningar þessa gamla trygga þjóns.
Er Fetill var búinn að hrista af sér snjóinn, heilsa upp á alla á bænum og amma búin að gefa honum mat í gamla dallinn, var farið að veita honum meiri athygli.
Það var sannarleg hryggðarmynd að sjá gamla Fetil. Þegar hann fór, var hann feitur og bústinn, en nú strengdur upp í hrygg og grindhoraður, og svo raunalegur á svip, að hver maður komst við, þegar hann leit á hann.
Beðið var með óþreyju eftir bréfi frá þeim félögum. Loks kom það. Ferðin suður hafði gengið seint; sífelldar hríðar og ófærð mikil. Eftir 6 daga ferðalag gistu þeir á bæ í Hálsasveit í Borgarfirði, og þar var Fetill látinn upp í næturgreiða. Að samkomulagi varð, að Fetill skyldi ekki látinn komast út úr bænum fyrr en eftir 1—2 daga. Svo taldist því til, að Fetill hefði farið á 1 1/2 degi þá leið, sem mennirnir fóru á 6 dögum, en sá var munur, að þessi hvíti ferfætti ferðalangur fór dagfari og náttfari án þess að bragða mat eða njóta hvíldar nokkra stund, þar til að hann kom að gömlu bæjardyrunum sínum í norðan stórhríð. Við dyrnar lét hann fenna yfir sig og beið þess, að opnað yrði. Þá var takmarkinu náð.
Í gamla, norðlenzka bænum hjá afa og ömmu var glatt á hjalla yfir flóaðri mjólk og sykruðum lummum, enda þótt norðan stórhríðin byldi á þekjunni og fyllti allar gluggaborurnar. Þarna var haldin fagnaðarhátíð til minnis um heimkomu Fetils gamla, sem ekki fór varhluta af öllum gæðunum.
Ef til vill hefir einhversstaðar í gömlu brjósti leynzt samvizkubit af því að láta nokkru sinni tilleiðast að gera gamla, trygga þjóninn að verzlunarvöru.

Sigurbjörg Jónasdóttir, III. bekk verknáms.

Hundurinn Tryggur

Ég dvaldist í Fljótshlíðinni einn mánuð fyrir þrem árum. Á bænum voru 8 manns, 6 krakkar og hjón. Þarna var margt dýra. Meðal þeirra var hundur, sem mér þótti mjög vænt um, enda var hann að mér hændur. Hann hét Tryggur og bar nafn með réttu. Alltaf sótti hann kýrnar með okkur dóttur bóndans.
Eitt sinn var ég inni í kindakofa og lék mér þar við lítið lamb. Allt í einu kemur Tryggur á kasti inn um dyrnar, bítur fast í vinnubuxurnar mínar og vill toga mig fram að dyrunum. Ég lét undan og fór með honum út. Tók Tryggur þá á rás niður túnið og ég hlaupandi á eftir. Hundurinn hljóp niður að tjörn, sem þarna er í túnfætinum. Þarna sá ég, hvað um var að vera: Halldór litli, 6 ára snáði, var að busla úti í vatninu. Ég óð í átt til hans í dauðans ofboði. En tjörnin var djúp og brátt missti ég fótanna. Nú kom það sér vel, að ég hafði lært að synda. Ég greip þegar sundtökin og synti út til Dóra litla, sem var að drukkna. Mér tókst fljótt og giftusamlega að koma honum upp á tjarnarbakkann. Þar helltist upp úr Dóra vatnið, en hann hafði drukkið mikið vatn.
Dóri litli hafði farið með bátinn sinn niður að tjörn til þess að fleyta honum þar. Hann missti hann frá sér og féll í tjörnina, er hann reyndi að teygja sig eftir honum. Þá var það, sem Tryggur tók til fótanna heim og fann mig þegar í kindakofanum.
Dóri var borinn heim, dúðaður niður í rúm og gefin flóuð mjólk. Hann hresstist brátt. En alltaf vappaði Tryggur í kringum rúmið hans, meðan hann var að hressast og jafna sig.

Fríða Einarsdóttir, Gagnfræðadeild.

Smyrilsunginn

Ég var í sveit síðastliðið sumar, og ætla ég að segja frá smyrilsunga, er ég fann þar.
Einu sinni í lok sláttar eða um miðjan septembermánuð var ég beðinn um að sækja hesta út í svokallað Arnarnes, sem er um hálftíma gang frá bænum. Þegar ég hafði farið um þrjá fjórðu hluta leiðarinnar, flögraði allt í einu grádröfnóttur fugl upp á milli þúfnanna rétt fyrir framan hestinn, sem ég sat á. Ég stöðvaði hestinn í skyndi og hljóp af baki, og sá ég þá, að fuglinn sat á þúfu skammt frá. Þar sem mig langaði til að athuga fuglinn nánar, gekk ég nær honum. Fór hann þá að flögra þúfu af þúfu. Sá ég fljótlega, að hann gat ekki flogið. Var ég þá ekki seinn á mér og stökk að honum og ætlaði að grípa hann, en hann hvæsti eins og illur köttur og bjóst til varnar með kjafti og klóm, og úr stórum og dökkbrúnum augum hans mátti lesa brennandi hatur. Eftir þóf nokkurt og stimpingar tókst mér að handsama hann. Var ég þá illa klóraður og bitinn á höndunum. Við nánari skoðun hugði ég þetta vera fálka, og var ég mjög upp með mér að hafa náð honum, því að ég hafði heyrt, að þeir næðust sjaldan. Ég stakk honum inn á mig. Var það síður en svo þægilegt, því að hann klóraði og beit eftir megni. Síðan flýtti ég mér sem mest ég mátti, því að ég hafði tafizt nokkuð. Mér gekk vel að koma hestunum heim, og þegar heim kom, sýndi ég fund minn og var hinn hreyknasti. Var mér sagt, að þetta væri smyrilsungi. Hann var lítillega særður undir vinstri væng. Hefur hann líklega lent í bardaga og beðið ósigur. Ég lét það gott heita. Bót var í máli, að hann var mikið skyldur fálka.
Ég lét smyrilinn í járnkörfu og gaf honum kindalifur. Í körfunni undi hann hag sínum hið versta, barðist um sem ólmur væri og vildi ekkert éta. Er svo hafði gengið einn dag, lét ég hann í lítið herbergi. Sefaðist hann nokkuð þar.
Er fjórði dagurinn rann upp frá því ég fann hann, og lifrin lá óhreyfð, tókum við það til bragðs að slátra gömlum hana. Skar ég lærið af honum og lagði fyrir smyrilsungann. Þá fyrst tók hann til matar síns og hélt lærinu með klónum og reif það í sig, og skildi hann ekki við það, fyrr en eftir voru aðeins sinar og bein.
Viku síðar fór ég úr sveitinni, og var hann þá búinn með hanann. Ég fór með bíl til Reykjavíkur og hafði smyrilinn í litlum pappakassa, og var hann mjög bílveikur. Þegar til Reykjavíkur kom, keypti ég honum hænu og gaf honum. Át hann hana með hinni beztu lyst. Við voru tvo daga í Reykjavík. Að morgni hins þriðja dags tókum við okkur far með Esju til Eyja, og var hann leynifarþegi. Hafði ég hann mestan hluta leiðarinnar lausan í klefanum og sat hann oftast við gluggann eða á gólfinu. Einu sinni flaug hann þó upp á hillu fyrir framan spegilinn í klefanum. Þegar hann sá sjálfan sig, varð hann ofsa hræddur, og hver einasta fjöður á skrokknum hans tók að rísa. Að lítilli stundu liðinni var hann kominn í hinn snarpasta bardaga við sjálfan sig í speglinum, sem endaði með því, að ég tók hann og lét hann í gluggann, og sat hann ýmist þar eða á gólfinu, það sem eftir var ferðarinnar. Nálægt speglinum þorði hann ekki að koma aftur.
Í klefanum undi hann sér vel og var ekkert sjóveikur. Þegar ég kom heim, setti ég hann í litla geymslu, meðan verið var að búa honum búr, en það varð bæði að vera stórt og gott. Þegar í búrið kom, lét ég inn til hans hænsnakjöt og vatn í fati, en hann vildi ekkert éta né drekka og var mjög órór. Annan daginn, þegar ég kom inn til hans, var hann önnum kafinn við að baða sig upp úr fatinu, og ég sá, að hann var búinn að éta.
Nú er hann svolítið farinn að temjast, t.d. hef ég búrið í stórum bílskúr, og stundum sleppi ég honum úr því og leyfi honum að fljúga um, en hann kemur alltaf sjálfur í búrið að lítilli stundu liðinni.
Stundum leyfi ég honum að fara út úr búrinu, og verður hann þá alltaf mjög ánægður.
Ég á smyrilinn ennþá. Hann er við góða heilsu og batnað er honum undir vængnum fyrir löngu. Ég veit ekki, hvað ég geri við hann í sumar, því að þá fer ég í sveit. Ég hygg, að ég fari með hann með mér og sleppi honum á bernskustöðvum hans.

Steinn G. Kjartansson, I. C.

Fáir eru smiðir í fyrsta sinn

Eitt sinn er ég var í sveit, var ég spurður að því, hvort ég gæti sólað skó. Ég hélt nú það. Ég vildi þegar taka til að sóla. Mér voru fengnir skórnir og tilsniðnir leðurbútar undir þá og sagt að vera úti í skúr við verkið. Þar var nóg af nöglum, stuttum og löngum, margar lengdir, og ég valdi þá nagla, sem mér sýndist mundu vera hæfilegastir á lengd.
Ég hóf verkið og það gekk vel. Eftir stutta stund var ég búinn að sóla skóna. Þeir litu út fyrir að vera nýkomnir af bezta skóverkstæði, og var ég mjög ánægður með þá. Ég fékk þá bóndanum, og fór hann strax í þá. — Rétt í þeirri andránni hrópaði vinnumaðurinn á bænum, að kindur væru komnar í túnið. Við bóndinn rukum þá út úr bænum og út á tún til að reka kindurnar úr túninu. —
Bóndinn var þybbinn í vexti en hljóp þó hraðar en ég. Er við höfðum hlaupið nokkurn spöl, fór bóndinn að stinga við. Síðan hlykkjaðist hann til og frá, eins og fæturnir væru að bila undir honum. Síðast steinlá hann og lá hreyfingarlaus. Þegar ég kom til hans, heyrði ég, að hann bölvaði mér mikið. Þegar ég spurði hann, hvað gengi að honum, sagði hann: Bölv... tripp... þitt, þú hefir haft allt of langa nagla í skóna.
Eftir þetta lá bóndinn í rúminu í nokkra daga, áður en hann gat farið að ganga aftur, því að flestir naglanna höfðu rekizt upp í lappirnar á honum. Ég hét því að láta ekki ráða mig til að sóla skó aftur.

Kristinn Baldvinsson, III. bekk bóknáms.


Myndin til vinstri: KVÆÐAKÓR SKÓLANS 21. desember 1957.
Frá vinstri: María Vilhjálmsdóttir, Edda Hermannsdóttir, Lilja Baldursdóttir, Magnea Magnúsdóttir, Ragnheiður Björgvinsdóttir, Guðrún Jakobsdóttir, Guðrún Þorsteinsdóttir og Þorbjörg Jónsdóttir.
Í kvœðum þeim, sem námsmeyjar þessar lásu, minntust þœr sjómannastéttarinnar, húsfreyjunnar, hins unga, tápmikla sveins og þokkasælu meyjar, og fyrst og síðast fósturjarðarinnar.
Myndin til hægri: Á ársfagnaði skólans léku nemendur leikþáttinn „Brúðargjöfina“, og er myndin af einu atriði þáttarins.
Leikendur: Aðalsteinn Sigurjónsson og Sigrún Þorsteinsdóttir.



Vonbrigði í ástum

Jakob vaknaði laugardagsmorgun við það, að sólin skein inn um gluggann. Hann fór letilega að klæða sig. Þegar hann var búinn að klæða sig í flest öll fötin, finnur hann ekki annan sokkinn sinn. Loksins tekur hann eftir því, að hann hefur farið í báða sokkana á sama fótinn. Nú kallar faðir hans í hann og segir, að hann verði að flýta sér, ef hann eigi að vera búinn að slá túnið fyrir sunnudaginn.
Já, hann varð að vera búinn með það fyrir morgundaginn, því að hann ætlaði að hitta Gunnu, sem hann var orðinn mjög ástfanginn af. Hún var vinnukona í Hvammi. Það var um 20—25 mínútna gangur milli bæjanna.
Hann sló og sló. Hann var orðinn hræddur um, að hann myndi ekki ljúka verkinu fyrir morgundaginn. Svitinn rann í dropatali niður vangana. Jú, loksins var hann búinn.
Sunnudagurinn rann upp. Það var drungi í lofti og súld yfir fjallinu. Hann bað guð í hljóði að gefa gott veður. Hann var bænheyrður. Upp úr miðdegi greiddi til í lofti, regnboginn sýndi sig, svo drottnaði sólin yfir öllu.
„Guð, ég þakka þér,“ hvíslaði drengurinn og lét þess getið, að hann skyldi alltaf vera góður og guðhræddur. Hann ætlaði aldrei að sparka í kýrnar, aldrei að sneypa hundinn Sám og aldrei að svara mömmu sinni skætingi. Aftur á móti ætlaði hann að kaupa henni í kjól fyrir reifið af Snotru. Pabba sínum vildi hann gefa vasahníf til að marka með lömbin, og Sámur skyldi fá vel smurða blóðmörssneið. Hann bað um sparifötin sín; kvaðst ætla að skreppa bæjarleið; það væri veður núna til að viðra sig. Hann þvoði sér vel og vandlega, skóf undan nöglunum, bar brilliantín í hárið og lagði í það bylgjur með greiðubakinu. „Naumast eru það fínheitin,“ sagði móðir hans. Var hann að halda sér til fyrir einhverri? Hann roðnaði og var afar vandræðalegur. Þurftu menn endilega að vera í kvennasnatti, þó að þeir byggju sig upp á? Nei, hann ætlaði bara fram að Hvammi. Þeir væru nýbúnir að fá dráttarvél þar. Hann langaði til að líta á hana.
Hann gekk rösklega úr hlaði.
Þegar bærinn var kominn í hvarf, hægði hann gönguna, því að stúlkan var komin í huga hans.
Hún myndi standa á hlaðinu, þegar hann kæmi, þrýsta hönd hans og þakka fyrir síðast. Og gluggar hússins fylltust af forvitnum andlitum.
Hann herti gönguna og bærinn kom í ljós, nýbyggður úr steini með valmaþaki og háum reykháfi, sem reykti drembilega í himinblámann.
Hvað átti hann að segja, ef hún kæmi ekki til dyra.
Hann kreppti hnefann og beit á jaxlinn.
Árans kveif gat hann verið. Feiminn, hálffullorðinn maður! Auk þess trúlofaður. Jæja, það varð þá að hafa það, þó að hann yrði aulalegur. Hann gekk lotinn og uppburðarsmár heim að bænum, knúði hurðina þrem höggum skjálfandi og hélt niðri í sér andanum. Húsbóndinn kom til dyra, þybbinn miðaldra maður með vörtu á kinnbeininu og mikið skegg.
„Góða veðrið í dag,“ sögðu þeir, þegar þeir höfðu heilsazt.
„Þú ert líklega meira upp á kvenhöndina lagsi?“
Hann fór hjá sér og boraði með tánni.
„Heyrðu,“ sagði bóndinn, „útvegaðu mér kaupakonu, greyið mitt.“ „Kaupakonu,“ át pilturinn aulalega eftir. Hafði hann ekki kaupakonu?
„Hún er farin, fjandans tæfan sú tarna,“ bölvaði bóndinn, „kærastinn gat ekki verið án hennar lengur.“
Pilturinn kipptist við, fölnaði og roðnaði og var svo ankanalegur, að bóndinn spurði: „Hvað er að þér, drengur? Ertu ekki hress?“ Hann boraði hraðar með tánni, niðurlútur og kom ekki upp nokkru orði.
„Hvað er að?“ ámálgaði bóndinn hastur. „Ertu klumsa eða hvað?“
Pilturinn leit seinlega upp, reyndi að bera sig mannalega. Nei, hann var ekki klumsa. Átti vanda til að fá smá aðsvif síðan hann fékk flensuna.
„Viltu ekki koma inn?“ spurði bóndinn, því að það væri ekki loku fyrir það skotið, að konan ætti dropa. Nei, pilturinn hafði enga þörf fyrir dropa. Þetta er liðið frá. Hann var að flýta sér.
„En erindið?“ spurði bóndinn. Átti hann ekki að skila einhverju?
„Ja, — jú, — hú“. Honum vafðist tunga um tönn, skotraði augunum umhverfis sig rjóður út að eyrum. Þá sá hann torfristuna. Hún stóð þarna upp við bæjarþilið.
Ga — ga — gat hann lá — lá — lánað? „Lánað hvað?“ spurði bóndinn óþolinmóður yfir þessum vöflum.
„To — to torfuristu.“
„Þú átt við spaðann þann tarna?“ sagði bóndinn og kinkaði kolli til torfuristunnar.
Ætluðu þeir að fara að slétta? Jú, spaðinn er honum heimill. „En í guðanna bænum, gáðu að honum, þetta er dýrt áhald.“
Hann tók við ristunni, stakk henni í handarkrika sinn og rétti fram hönd sína.
„Þú ert ákveðinn að koma ekki inn?“ spurði bóndinn.
Já, hann var búinn að slóra svo lengi, líklega farið að undrast um hann heima.
Sólin hafði setzt og þokan í aðsigi. Úr hlaði gengur álútur, ungur maður, með torfuristu í handarkrikanum og hverfur út í mugguna.

Valgerður Sigurðardóttir, III. bekk verknáms.

Bragð er að, þá börnin finna

Bóndi nokkur var kominn á grafarbakkann. Sonur hans var tekinn við búinu og bjó við góð efni, en honum þótti faðir sinn vera sér til byrði og hrakti hann því frá sér á sveitina.
Einu sinni hittust þeir feðgar af hendingu. Bað þá gamli maðurinn son sinn grátandi að senda sér nú rekkjuvoðir, sem hann hafði skilið eftir. „Þú sérð það, sonur, hvað mér er bráðnauðsynlegt að fá voðirnar,“ sagði gamli maðurinn, „og þó hefi ég aldrei getað fengið þær sendar, hversu oft sem ég hefi beðið um þær.“
Þegar bóndinn kom heim, fékk hann syni sínum ungum rekkjuvoðirnar og skipaði honum að fara með þær til gamla mannsins hans afa síns. Drengurinn fór af stað en skildi eftir aðra voðina. Þegar faðir hans varð þess vís, varð hann fokvondur og sagði: „Hví fórstu ekki með báðar voðirnar til afa þíns, óhræsið þitt?“
Piltur lét sér hvergi bregða og svaraði: „Pabbi, ég ætla að geyma aðra voðina handa þér, þangað til ég fer eins með þig og þú hefir farið með hann afa minn, og ég rek þig frá mér á sveitina.“

Birgir Þorsteinsson, III. bekk bóknáms.

Eyjan mín, hún Grímsey

Víða, þar sem Grímseyingar hafa komið upp á meginlandið, hafa þeir rekið sig á það, að fólk gerir sér mjög skrítnar hugmyndir um Grímsey.
Margir hafa t.d. spurt mig, hvort ekki væri voðalega kalt þar.
En það er öðru nær. Að vísu getur frost orðið þar nokkuð mikið, en að jafnaði er frekar hlýtt og gott veður, t.d. á vorin er sólskin þar allan sólarhringinn. Í júní var flogið út til að sjá miðnætursól frá Grímsey, og þótti mörgum það stórfenglegt ferðalag; héldu að það væri ekki svona fallegt norður í Grímsey.
Atvinnuvegir eru þar tvennskonar, sjósókn og landbúnaður.
Róa þeir á opnum bátum, jafnhliða sem þeir stunda búskapinn.
Oft á vetrum eru veðrin svo góð, að hægt er að róa á þessum opnu bátum mikinn hluta vetrarins.
Frekar rólegt er í Grímsey á vetrum; bæði eru samgöngur strjálli, póstbáturinn kemur út á þriggja vikna fresti yfir vetrarmánuðina, og eins er síldarflotinn, sem setur svip sinn á Grímseyjarsund yfir síldartímann, horfinn.
Lítið er um skemmtanir í Grímsey að vetrinum; fólk gerir sér til skemmtunar að koma saman og spila, sumir tefla, og oft er skemmtunin aðeins sú að hlusta á útvarpið.
Annars hefur verið siður þar ár hvert að halda upp á svokallað „Fiskes“-afmæli, eru þá ýmis skemmtiatriði og dans, og er þar með minnzt manns nokkurs, sem gaf Grímseyingum bókasafn.
Svo eru stundum haldnir dansleikir.
Þó nokkrar framkvæmdir hafa orðið í Grímsey á síðari árum; búið er að fullgera þar góðan flugvöll, og höfn hefur verið gjörð þar. Næst komandi sumar mun eiga að fullgera þar síldarplan. K.E.A. ætlar að fara að reisa þar nýtt útibú, og eins á að fara að leggja þangað síma. Eyjan er mjög grösug, og eyjarbúar nota ekki rigningarvatn, heldur eru þar uppsprettur og brunnar, því að þar rignir ekki það mikið, að rigningarvatn mundi duga Grímseyingum til daglegrar neyzlu.
Hæst er eyjan að austan og norðan, eru þar samfelld björg og mikið fuglavarp; einnig verpir fuglinn á eyjunni sjálfri.
Byggðin er öll sunnan og vestan á eynni og eru þar nokkrar víkur. Syðsta víkin er Grenivík. Þar á ég heima. Víkin, sem höfnin er í, heitir Sandvík, og sú nyrzta heitir Básavík. Þar er nyrzti bær á Íslandi, Básar.
Þetta eru stærstu víkurnar; svo eru þar nokkrar smærri.
Mér finnst mjög fallegt í Grímsey og gaman að vera þar, og svo finnst öllum, sem eiga þar heima.

Lilja Óskarsdóttir, II. bekk verknáms.

Nýi skólinn

Þegar ég og jafnaldrar mínir lukum okkar barnaprófi, áttum við að fara í Gagnfræðaskólann.
Það var bæði tilhlökkun og kvíði að eiga að fara í þennan nýja skóla. Okkur var sagt, að þar giltu svo strangar reglur.
Og svo var líka einhver listi þar, er nefndist „svarti listinn“ og átti að skrifa krakkana á hann, ef þau brytu einhverjar reglur skólans, svo sem að fela sig inni á göngum í löngu kennsluhléunum, því að þá áttum við að fara út, fá okkur frískt loft og leika okkur. Þeir, sem skrópuðu í skólanum, fengu líka að komast á þennan lista, og hjá sumum var þetta gamall vani frá barnaskólanum.
Líka var þarna annar „listi“, er nefndist japllisti og á hann áttum við að komast, ef við kæmum með tyggigúm eða annað sælgæti í skólann, og það hlaut að vera erfitt að sætta sig við það frá gömlum vana að borða oftast sælgæti í skólanum.
Þegar farið var í skemmtigöngur í barnaskólanum, fór kannski einn bekkur upp á Klif, annar inn á Eiði, þriðji upp á Helgafell o.s.frv. og oftast var þetta ekkert skemmtilegt, en í Gagnfræðaskólanum fóru allir bekkirnir saman og þá var oftast farið í leiki eða annað, og það hlaut að vera skemmtilegra.
Og svo voru hugvekjur í þessum nýja skóla. Og þá talaði annaðhvort kennari eða skólastjóri við allan hópinn um skólann og skólalífið. Þar voru líka málfundir haldnir annað hvert laugardagskvöld og það hlaut að vera skemmtilegt. Þá voru umræður og töluðu krakkarnir um eitthvað, sem þeim var sagt. Svo voru kvikmyndir og dans á eftir.
Svo sögðu krakkarnir, sem höfðu verið í þessum skóla áður, að það væri svo mikið að læra, að það væri aldrei hægt að líta upp frá bókinni. Og ef einhver kynni ekki það, sem hann var spurður um, þá væri hann skrifaður í einhverja bók, ef hann lærði ekki heima.
Þó var eitt verst af þessu öllu. Það var, að við yrðum kölluð „pelabörn“, meðan við værum í fyrsta bekk.
Þetta voru meiri raunirnar, en samt lögðum við út í þennan ólgusjó. Og ég held, að flestum hafi gengið vel að sætta sig við bæði listana, lærdóminn og reglurnar.
Svo fórum við í annan bekk. Þá var meiri tilhlökkun en kvíði að byrja um haustið.
Og það bezta af öllu er, að nú erum við ekki kölluð „pelabörn“ lengur.
Við erum að byrja 3. veturinn og ég vona, að hann gangi vel eins og hinir.

Vm. í okt. 1957.
Ásta Kristinsdóttir, III. bekk.

Versti óvinurinn

Bakkus konungur er versti óvinur mannkynsins. Hann hefur „lagt marga að velli“, bæði unga og gamla. Hann hefur lagt mörg heimili í rústir. Flestir, sem leitað hafa á vald hans, má segja að séu að meira eða minna leyti andlegir aumingjar. Margir karlmenn halda, að þeir verði meiri menn, ef þeir neyta áfengis og sæki þangað kjark og karlmennsku, en við, sem hötum áfengi, okkur finnst þetta mesti misskilningur.
Sem dæmi má taka heimili nokkurt, þar sem bæði hjónin drukku, og svo varð ósamkomulag þeirra á milli. Að því kom, að þau skildu og börnin urðu eftir hjá móðurinni og hún sinnti bæði börnunum og heimilinu illa, því að hún hélt áfram að drekka. Börnin voru skilin eftir ein heima á kvöldin (5 og 6 ára) og urðu að hugsa um sig sjálf á morgnana. Meðan móðirin svaf úr sér drykkjuvímuna, voru börnin að reyna að klæða sig sjálf, bæði óhrein og óþrifaleg til reika, þegar þau komu út. Jafnvel á öðrum skónum. En nú er þetta allt liðið hjá, því að móðirin er gift aftur og hætt að drekka og börnin uppkomin, og hún hugsar nú vel um sitt heimili.
Þeir, sem stofnað hafa goodtemplararegluna, hafa svo sannarlega gert gott, og leitt marga inn á rétta braut. Ég get ómögulega skilið, hvaða nautn menn finna, ef þeir drekka áfengi, og ég kæri mig ekkert um að skilja það. Ég vona, að við sem erum að vaxa upp, leggjumst aldrei svo lágt að drekka áfengi. Stígum á stokk og strengjum þess heit, að neyta aldrei áfengra drykkja.

Elísabet Arnoddsdóttir, III. bekk bóknáms.

Síðari hluti