Blik 1957/Ginklofinn í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1957Séra JES A. GÍSLASON:


Ginklofinn
í Vestmannaeyjum


Hvenær ginklofans verður fyrst vart hér í Vestmannaeyjum, verður ekki með vissu sagt, en hans er þar snemma getið. Í Tyrkjaránssögu, bls. 337, er þess t.d. getið, að árið 1630 hafi hér dáið 4 konur úr ginklofa. Ekki er þá vitað um tölu dáinna barna.
Árið 1799 rannsakaði Sveinn Pálsson læknir ginklofann hér. Hann samdi síðan ritgerð um sjúkdóminn eftir þá ferð sína. Einnig var Ólafur Thorarensen læknir sendur hingað árið 1821 í sömu erindagjörðum.
Sá, sem fyrst fyrir alvöru rannsakaði sjúkdóm þennan og réði jafnframt bót á honum, var Dr. P. A. Schleisner, danskur læknir, sem sendur var til Íslands frá Danmörku 1847 að tilhlutan stjórnarinnar til að rannsaka sjúkdóma á Íslandi, heilsufar og lifnaðarhætti landsbúa. Ginklofinn hafði þá um langan aldur deytt flest börn hér í Vestmannaeyjum. Árangurslaust hafði þá verið reynt að ráða bót á þessum sjúkdómi.
Í Landskjalasafninu er skýrsla eftir séra Jón sál. Austmann að Ofanleiti um ginklofann í Vestmannaeyjum. Nær sú skýrsla yfir 25 ár, frá 1817—1842. Á þessum 25 árum fæddust 160 sveinbörn og 170 stúlkubörn í Eyjum eða samtals 330 börn. Af þeim dóu úr ginklofa 128 sveinbörn og 116 stúlkubörn eða samtals 244 börn. Fer hér á eftir kafli úr þessari skýrslu (um árin 1817—1829) :

Ár Fædd Dáin
Svein-
börn
Stúlku-
börn
Svein-
börn
Stúlku-
börn
1817 7 5 7 4
1818 3 3 2 1
1819 6 4 5 4
1820 1 4 1 2
1821 5 4 5 4
1822 8 6 7 4
1823 6 5 5 2
1824 4 10 4 7
1825 6 6 4 3
1826 7 5 6 4
1827 8 4 8 3
1828 6 5 5 3
1829 5 3 4 2

Andreas Iversen Haalland, sem var læknir hér frá 1840—1845, lagði til við dönsku stjórnina, að stofnað væri hér í Eyjum „uppeldishús fyrir ungbörn“, og þar sett lærð yfirsetukona. Árangurinn af þessum tillögum varð ferð Schleisners læknis til Íslands 1847. Danska stjórnin skipaði hann í ferðalag þetta 12. marz þá um veturinn. Hann hét fullu nafni Peter Anton Schleisner og var fæddur 15. júní 1818.
Schleisner kom hingað til Íslands vorið 1847 og ferðaðist það sumar um Norður- og Austurland, en dvaldist um veturinn hér í Vestmannaeyjum. En sumarið eftir, eða 1848, fór hann vestur á Snæfellsnes og vestur í Barðastrandarsýslu.
Schleisner tókst að lækna ginklofann að mestu, svo að hans hefir varla orðið vart síðan hér í Eyjum. Hann ritaði fróðlega bók um ferð sína til Íslands og athugunar, er hann gerði hér, er hann kom aftur til Danmerkur. Sú bók var gefin út í Kaupmannahöfn 1849. Nokkurn kafla þeirrar bókar notaði Schleisner fyrir doktorsdisputats (doktorsritgerð).
Orð lék á því hér í Eyjum um það leyti, sem Schleisner fór héðan, að borið hefði á geðveiki hjá honum líkt og hjá Schneider lækni, er var hér samtímis honum. Álitið var, að Schneider hefði að nokkru verið valdur að þunglyndi Schleisners læknis.
Eftirfarandi frásögn er eftir konu, sem ól barn á „Stiftelsinu“ hjá Schleisner lækni. Móðir mín sagði mér, en konan, sem ól barnið, var móðir hennar en amma mín, Ásdís Jónsdóttir frá Stakkagerði.

1957 b 43 A.jpg


Myndir af séra Jes A. Gíslasyni. Frá vinstri: Séra Jes 13 ára. Myndin er tekin fyrsta árið, sem hann gekk í Latínuskólann. Myndin í miðið er tekin af séra Jes sjötugum. Hann hefur langa ævi iðkað útiíþróttir svo sem hlaup og stökk. Á mynd þessari sést hann vera að iðka stökk. Lengst til hægri er séra Jes áttræður.Þegar Schleisner kom hingað til Vestmannaeyja (haustið 1847) var sá læknir hér, sem Schneider hét, eins og áður segir. Hann var maður geðveikur eða mjög þunglyndur. Konur, sem ólu hér börn um það leytið, komu til Schleisners og lögðust inn á „Stiftelsið“, sem svo var kallað. Það var í Garðinum eða í Brydehúsunum. Þær konur voru 3 vikur undir hendi læknisins.
Konur voru þó mjög tregar til að leggjast inn á „Stiftelsið“, þótti vistin þar ill, hvað mat áhrærði. Þær munu ekki hafa verið fleiri en 3—4, sem þar gáfu sig fram. Tveim veit ég nafn á, Ásdísi sál. Jónsdóttur, móður Soffíu Andersdóttur móður minnar, í Hlíðarhúsi hér og Guðfinnu sál. Austmann, sem var kona Árna sál. Einarssonar frá Vilborgarstöðum. Fæddust þau þar sama daginn (8. okt. 1847) Jóhann sál. Jörgen, faðir þeirra Johnsensbræðra, og Soffía, sú, er fyrr um getur. Soffía fékk aðkenningu af ginklofanum þegar eftir fæðinguna.
Fyrsta barnið, sem fæddist í „Stiftelsinu“, dó (var látið deyja). Kvaðst Schleisner þurfa að sjá alla aðferð veikinnar, áður en hann gæti fyrir alvöru byrjað á lækningunni.
Veikin byrjaði þannig, að svo var sem blá slæða legðist yfir andlit barnsins. Bólga kom í ljós kringum naflann. Því næst fengu börnin stífkrampa. Sum þeirra lágu svo lengi með krampann, að sár voru stundum komin í lófa undan hverjum fingri, þegar þau dóu. Svo fast krepptust fingurnir inn í hann.
Schleisner læknir lét baða börnin mjög vandlega þegar eftir fæðinguna og bera naflaolíu svonefnda á nafla þeirra.
Bústýra hjá Schleisner var Guðfinna sál. Austmann, sú er fyrr er nefnd. Hjúkrunarkona var Margrét nokkur, móðir Guðríðar, sem nú býr í Sjólyst hér, og yfirsetukona var madama Guðrún, kona séra Páls sál. skálda, móðir frú Sólveigar, er síðar varð hér yfirsetukona. Sú Sólveig var móðir Matthíasar í Holti í Reykjavík og þeirra systkina. Hún var gift Matthíasi smiði, og bjuggu þau í Landlyst í tíð Kohls sýslumanns. Þess var vandlega gætt, að sængurkonur lifðu á léttmeti, máttu alls ekki kjöt bragða. Þær voru látnar hafa börnin á brjósti.
Einni konu, sem var í „Stiftelsinu“, var færð kjötsúpa á sængina. Schleisner læknir fann brátt lyktina af súpunni, er hann kom inn, en enginn vildi kannast við að hafa neytt hennar. Eftir þetta var tekið fyrir allt það, sem kallað er „að færa á sængina“, og urðu því sængurkonur að þola sultinn við svo búið.
Það var venja hér í Eyjum, er ginklofinn var sem mestur, þegar kona var þunguð á þeim tíma, er vörur voru litlar í búðum, að hlutaðeigendur tóku út efni í líkkistuna og líkklæðin, áður en þryti. Svo viss var dauði barns hvers talinn. Það var heldur ekki óvenjulegt, að þungaðar konur leituðu til meginlands (Landeyja) til þess að ala þar börn sín og koma á þann hátt í veg fyrir dauða barnanna. Ekki er ósennilegt, að þess konar ferðalög mæðranna hafi verið orsök þess, sem segir í annál 19. aldar árið 1825: „Ginklofasýki hafði lengi legið í landi í Vestmannaeyjum og fækkað þar mjög börnum, en eigi annars staðar gjört hér skaða þann, er teljandi væri, en nú færðist hún til meginlandsins og tók að dreifast út um nálægar sveitir þar eystra; dóu úr henni 7 í Vestmannaeyjum, 4 í Árnessýslu og 3 í Gullbringusýslu.“ — Sjá ennfremur Eftirmæli 18. aldar eftir M. Stephensen frá Viðey.
Ýmsir höfundar hafa á umliðnum öldum minnzt á ginklofann hér í ritum sínum.
Séra Gissur Pétursson, sem prestur var að Ofanleiti 1689—1713, kemst þannig að orði í ritgerð sinni: „Lítil tilvísun um Vestmannaeyja háttalag og bygging“:
„Sóttatilfelli falla hér ei til nema almennileg fyrir utan vatnsbjúg og ginklofa. Ginklofann fá hér þau ungu, nýfæddu börnin. Hann er að sjá mjög líkur sinadrætti; afmyndar, teygir og togar sundur og saman limina, gjörir og einnig holdið blásvart. Sjaldan fá hann fullorðnir, en ef það skeður, stíga þeir gjarnan fram,“ þ.e. deyja.
í Eftirmælum 18. aldar segir höfundurinn Magnús Stephensen, þar sem hann lætur Ísland sjálft tala við hina liðnu öld:
,,Á ung-fósturbörn mín lögðust nokkrum sinnum sérlegar sóttir og veikindi. Nefndi ég meðal þeirra til ginklofann í Vestmannaeyjum, sem árlega hefur nú lengi sálgað fjölda þeirra, er fæðast. Get ég til, að óhollt vatn, sífelld, misjöfn fiskæti og óhentug sjófuglafæða fyrir mæður og börn, einkum af fýlunga, sem mér stendur þar helzt stuggur af, valda muni þessum óttalega barnadauða, og gremst mér, að lítil rækt er enn lögð við að minnka hann.“
Séra Jón Austmann, prestur að Ofanleiti frá 1827—1858 og fyrst einn prestur í Eyjum 1837, segir svo um ginklofann hér í Útskýringatilraun yfir Vestmannaeyjar bls. 150: „Að ginklofinn geisi hér óttalaust, er lýðum ljóst, og hefir hinum dönsku læknum hingað til ekki hið minnsta tekizt að lina honum. Sjá töflubrot þar um hér síðar.“
Séra Brynjólfur Jónsson, aðstoðarprestur hér 1852—1860 og sóknarprestur frá 1860—1884, kemst svo að orði í lýsing Vestmannaeyjasóknar, sem hann samdi 1873: „Ginklofi var hér fyrrum mjög almennur á ungbörnum, svo að jafnvel næsta fá nýfædd börn lifðu yfir 10 daga, en frá því að dr. Schleisner að tilhlutan stjórnarinnar kom hingað til Eyjanna árið 1847 og dvaldi hér um stund til að kynna sér og komast fyrir orsakir ginklofans og uppgötva ráð við honum, tók sjúkdómur þessi að réna, og nú ber það varla við, að nokkurt barn fái hann, og eiga menn það að þakka bæði hentugri meðferð á ungbörnum yfir höfuð að tala, er Schleisner kom hér á —, og einkum olíu þeirri, sem almennt er kölluð hér naflaolía, sem strax við fæðingu er borin á nafla barnsins og allt þar til, að gróið er fyrir naflann.“
Fyrir nokkrum dögum fékk hér barn í Eyjum ginklofa. Það var í Garðfjósinu svokallaða, og dó það úr honum. Bað þá Halldór læknir Gunnlaugsson mig að gefa sér þær upplýsingar, sem ég vissi um ginklofann frá fyrri tíð og er þessi grein mín árangur þeirrar athugunar.

Vestmannaeyjum, 16. des. 1915.
J.A.G.

Leiðréttingar

Nokkrar villur slæddust inn í nafnaskrá við skólamyndir þær, sem birtar voru í Bliki í fyrra. Hér verða þær leiðréttar, eftir þvi sem greinargóðir menn hafa tjáð okkur sannast og réttast.
Á bls. 29:
„Jón T.H. Sigurðsson Sigurðssonar“. Les: Sigurðsson Vigfússonar.
Á bls. 31:
„sonur Sigurðar frá Stórumörk“. Les: frá Syðstu-Mörk.
„Gíslína Einarsdóttir Kárasonar.“ Les: Einarsdóttir Einarssonar.
Á bls. 33:
„Ólína Sigurðardóttir“. Les: Ólína Guðnadóttir.
„Þóra Vigfúsdóttir“. Les: Þuríður Vigfúsdóttir.
„Kristjana Einarsdóttir“. Les: Kristjana Þorsteinsdóttir.
Þá mun það sannast mála, er um getur í greinarkorninu um Jón í Gvendarhúsi, bls. 67, að Magnús Stefánsson (Örn Arnarson) skáld mun hafa ort braginn.
Á bls. 75 hafði fallið niður Gideonshróf. Það var á milli Gnoðarhrófs og Áróruhrófs.