Blik 1956/Þáttur nemenda, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1956



ctr
(síðari hluti)


Elliðaeyjarför

Það var einn af hinum fáu fögru júlídögum í fyrra sumar, að Elliðaeyjarför var afráðin. Veður var kyrrt, aðeins vestan andvari, svo að varla blakti hár á höfði. Hið ákjósanlegasta leiði var í eyna.
Farkosturinn var v.b. Kap.
Var nú árabátnum hrundið fram með miklum látum, blótsyrðum og formælingum, því að einn vildi hafa það svona en annar hinsegin, svo að úr varð ringulreið og vitleysa. En aldrei fór það svo, að árabáturinn kæmist ekki á flot. Þegar svo var komið, var haldið af stað. Þegar út á Víkina kom, fann maður, hve hressandi var að láta hafgoluna strjúka sér um kinnar og svipta burt svefndrunganum, sem oft vill loða við svona árla dags.
Segir nú ekki af ferðum okkar, fyrr en við komum austur fyrir eyna. Var þá rokið upp til handa og fóta, því að allir vildu komast með fyrstu ferð í land til þess að komast sem fyrst upp á eyna og fá sér eitthvað í svanginn, áður en smölunin hæfist.
Ég beið rólegur, þangað til mestu lætin voru um garð gengin, og horfði á eftir þeim, sem töldu sig svo hamingjusama að hafa komizt í land með fyrstu ferðinni. Þegar báturinn kom aftur út að vélbátnum, tók ég mér stöðu úti við öldustokkinn, því að af þessari ferð ætlaði ég mér ekki að missa.
„Farðu varlega, strákur,“ heyrði ég að kallað var ofan úr stýrishúsinu.
„Aldrei vantar aðvaranirnar hjá þessum skipstjórum,“ hugsaði ég með sjálfum mér.
Þegar að steðjanum kom, var tekið svo hraustlega í hendina á mér, að ég beinlínis flaug upp á steðjann.
Lagði ég svo af stað upp flána, sem var sleip og ill uppgöngu eftir hinar miklu rigningar, sem einkenndu þetta sumar. En það gekk allt slysalaust.
Þegar upp á eyna kom, tókum við til að mynda réttina eða kvíarnar. Að því búnu skiptu menn sér í 3 hópa. Einn hópurinn fór suður á eyna, annar vestur á eftir skipun fjallkóngsins.
Eftir dálítinn tíma mættust báðir hóparnar um miðbik eyjarinnar með féð. Var svo allt safnið rekið þaðan áleiðis til réttarinnar. Hóaði, sveiaði og gargaði nú hver, sem betur gat, í von um, að eitthvað gengi.
Þegar allt féð var komið í réttina, tóku menn að bólusetja lömb og annað fé, sem bólusetja þurfti, en til þess var ferðin farin.
Að því loknu bjuggust menn aftur til heimferðar.

Guðni Alfreðsson, l. bekk C.






Úr leikþáttum í skólanum:
Efri mynd: Gunnlaugur Axelsson „læknir“ hlustar „sjúklinginn“ Hólmfríði Sigurardóttur. „Hjúkrunarkonan“ Theodóra Kristinsdóttir situr við borðið viðbúin að veita „lœkninum“ aðstoð.
Neðri myndin: Úr þættinum „Biðlarnir“. Frá vinstri til hægri: Birgir Sveinsson, Sveinbjörg Óskarsdóttir og Gunnlaugur Axelsson.







Lítill pollur veldur draugagangi

Einu sinni heyrði ég sagða sögu, sem ég ætla að endursegja hér.
Það gerðist á íslenzkum sveitabæ. Gömul sögn sagði, að útburður væri rétt við bæinn. Fólkið þóttist verða vart reimleika. Ekki bar þó neitt á þeim nema í leysingum.
Einu sinni í leysingum þurfti að fara að gæta að fé, en enginn ætlaði að fást til þess að fara, því að þá heyrðist þetta undarlega hljóð, sem allir á bænum héldu að kæmi frá draugnum, er skyggja tók.
Ungur maður var á bænum, sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Hann bauðst til þess að fara og huga að fénu.
Segir ekki af ferðum hans, fyrr en hann kemur til fjárins. Þar var allt með felldu, og snýr hann þá þegar heim aftur. Hugsar hann þá með sér, að bezt sé að athuga gaumgæfilega þetta svo kallaða útburðarvæl. Gengur hann svo á hljóðið og kemur brátt að upptökum þess. Jú, þarna var þá draugurinn ljóslifandi, og hafði ungi maðurinn nærri gengið ofan á hann.
En hvað var þetta þá.
Í lítilli laut myndaðist pollur. Þaðan rann vatn niður í smáholu, og myndaðist þá þetta hljóð, sem allir hugðu stafa frá draug.
Snýr maðurinn nú heim aftur og segir fólkinu, að hann hafi fundið drauginn. Fylltist þá fólkið ótta og forvitni. Segir hann því þá alla söguna. Það vildi ekki trúa honum, fyrr en hann fór með það og sýndi því „drauginn“.
Þannig var sá draugurinn kveðinn niður.

Árný Guðjónsdóttir, Landsprófsdeild.

Lambið mitt

Það var hvít gimbur. Hún var heimalningur. Ástæðan fyrir því var sú, að mamma hennar átti tvö önnur lömb og vildi ekki sjá hana.
Þegar hún fæddist, var hún svo pínulítil, að hún gat varla staðið. Pabbi minn útbjó sér kró handa henni, og svo gaf ég henni úr pela á daginn. Þegar hún fór að stækka svolítið, kom hún hlaupandi til mín, þegar ég kallaði á hana.
Þegar ég var að sendast í búðir eða annað, þurfti ég að stinga hana af með lagi og feluleik.
Oft kom það fyrir, að hún kom inn, pissaði og sparðaði á gólfið og fór svo út aftur. Stundum heyrði einhver heima, að drepið var á dyr, fór fram og opnaði. Stóð Gibba þá í dyrunum og sparkaði í hurðina með framlöppunum.
Einn dag, þegar heitt var í veðri, kom fín frú inn í stofuna heima hjá sér. Stóð þá Gibba þar á miðju gólfi og hafði gert allar þarfir sínar á hið fagra gólfteppi frúarinnar.
Síðastliðið haust varð að lóga henni vegna þess, að hún stóð alltaf í túnunum og blómagörðunum.

Valgerður Sigurðardóttir 1. b.

Ævintýri vikadrengsins

Þessa sögu sagði mér gamall Bolvíkingur. Hann var einu sinni vikadrengur í Tröð í Bolungarvík hjá Pétri Oddssyni. Það var seint á engjaslætti, þegar flytja þurfti heyið heim. Varð þá að fá lánaða hesta á bæjunum í kring og þar á meðal var einn hestur frá Meirihlíð.
Þegar búið var að flytja heim, átti vikadrengurinn að skila hestinum og hafði honum verið sagt um morguninn að spretta af honum reiðingnum við tiltekið fjárhús, sem stóð uppi í túninu. Þegar að fjárhúsinu kom, ætlaði hann að spretta af hestinum, en þá tekur hesturinn svo mikið viðbragð, að hann setur stráksa af sér og þýtur með reiðinginn upp í fjallshlíð. Strákurinn stendur upp, gætir inn í kofann, en verður einskis var. Eltir hann svo hestinn og nær honum og ætlar að teyma hann að dyrunum, en hann fæst ekki til að fara þangað. Síðan fer hann með hestinn norður fyrir stafninn á fjárhúsinu og sprettir þar af honum, lætur reiðinginn og beizlið inn í fjárhúsið og heldur síðan heim. Daginn eftir fer hann að minnast á þetta ferðalag sitt og þá er honum sagt, að þarna hafi fyrir mörgum árum hengt sig maður.

Guðrún Jónsdóttir, 3. bekk.

Skemmtiferð Gagnfræðaskólans vorið 1955

Bryndís Gunnarsdóttir.

Vélbáturinn Ársæll lét úr höfn fimmtudaginn 2. júní 1955 með m.a. 23 gagnfræðinga innanborðs. Ferð bátsins var heitið til Þorlákshafnar til að sækja mjólk. Það var því fyrsti áfangi nemendahópsins.
Fyrir þessum blómlega hóp, sem voru 7 stúlkur og 16 drengir, réð Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri.
Veður var ágætt. Aðeins dálítil austan gola, en sólskin. Nokkur veltingur var fyrir klettinn. Þá voru Ægi færðar fyrstu fórnirnar. Þær urðu annars vonum smálegri á leiðinni, sem betur fór. Við hreiðruðum um okkur víðsvegar um bátinn. Margir sóttu kokkinn heim frammi í lúkarnum. Þar var heitt kaffi að fá, brauð, harðfisk og margt annað góðgæti. Veitt var af mikilli rausn. Gagnfræðingarnar af „sterka kyninu“ reyndu getu sína við stýrið. Sumum tókst vel. Hjá öðrum geigaði stefna svo að stundum stefndi á Langjökul en stundum suður og vestur til Brazilíu.
Í Þorlákshöfn beið okkar bifreið frá Ferðaskrifstofu ríkisins. Bifreiðarstjórinn reyndist vera frá Eyjum, Hannes Ingibergsson að nafni. Hann reyndist okkur ágætlega alla ferðina.
Áður en stígið var inn í bifreiðina, gerðum við stórinnkaup hjá útibúi Kaupfélags Árnesinga í Þorlákshöfn, þar sem Cocakolaflaskan kostaði aðeins eina krónu. Einnig fengum við stúlkurnar að skipta um föt og snurfusa okkur lítilsháttar.
Frá Þorlákshöfn fórum við Krýsuvíkurleiðina, og var nú næsti áfangastaður Reykjavík. Þar sem vegurinn liggur nálægt víkum og vogum í námunda við Herdísarvík, sáum við æðarfuglinn upp við landssteina, þar sem hann úaði ástaróð sinn í vorhlýjunni, eins og einhver komst að orði í bifreiðinni.
Numið var staðar við hinn kraftmikla gufustrók í Krýsuvík. Þar snæddum við skrínukostinn okkari í grænni laut, og þótti okkur hann bragðast vel og lífið leika við okkur.
Smávægileg viðdvöl varð í Reykjavík vegna vélbilunar. — Meðan gert var við bifreiðina, spókuðum við stelpurnar okkur á götunum í miðbænum innan um blaðsölustráka og hefðarfrúr.
Klukkan 3 var lagt af stað fyrir Hvalfjörð. Fannst okkur leiðin inn með firðinum mjög löng og laus við alla tilbreytingu. Einhver hafði orð á því, að búið væri að flytja Botninn norður í Borgarfjörð. Svo reyndist þó ekki vera, og fannst okkur Hvalfjarðarbotn mjög fallegur, er hann loksins birtist. Þarna sáust skógiklæddar hlíðar og tignarleg og fræg fjöll svo sem Botnssúlur. Þarna fengum við að fara út úr bifreiðinni, anda að okkur skógarilmi og liðka stirða limi. Svo var haldið sem leið liggur út með Hvalfirðinum að norðan og á veginn, sem liggur til Borgarfjarðar. Á þessari leið sáum við Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og Ferstiklu. Allstaðar var okkur bent á sögustaði og minnzt á, hvað gerði garðinn frægan. Þegar ekið var um Andakílshreppinn, blasti við okkur eitt af stærstu raforkuverum landsins, Andakílsárvirkjunin.
Við komum í Borgarnes kl. 7 um kvöldið. Var okkur þar vísað til gistingar í skólahúsi Borgnesinga. Það er hið myndarlegasta hús. Einkennilegt þótti okkur það, að húsið er sem smækkuð mynd af Gagnfræðaskólanum hér. Gerð hússins og snið hið sama. Þar kunnum við strax vel við okkur. Við vorum eins og heima. Við hituðum kakó og smurðum okkur brauð til kvöldverðar. Eftir að hafa snætt kvöldverð, gengum við um kauptúnið og skoðuðum það. Skólastjórinn sagði okkur frá ýmsum söguatriðum og sögustöðum, svo sem Brákarsundi, Brák kerlingu, búskap Skallagríms, og ýmsum sögustöðum í Borgarfirði, sem sjá má úr Borgarnesi. Skrúðgarðurinn í kauptúninu er mjög fagur. Þar er t.d. haugur einn mikill. Sagt er, að þar hvíli Skallagrímur bóndi á Borg. Við vorum öll þreytt eftir langan dag. Gengum til náða klukkan 11, en misjafnlega gekk að festa svefninn.
Einn nemandinn fékk í sig slæmsku um kvöldið. Sóttur var til hans læknir. Snertur af hálsbólgu, sagði læknirinn, sem afréð að gefa nemandanum „eina sprautu“. Nemandinn bjó sig undir athöfnina og fletti klæðum af þjóhnöppum sínum. Við þessa mikilvægu athöfn skyldi skólastjórinn vera einskonar stunguvottur. Læknirinn fyllti nú nál sína „móteitrinu“ við hálsbólgunni og rak hana síðan af krafti miklum í vöðvann. Hún kengbognaði. Þar með var hún úr sögunni. Aftur var fyllt nál, og hún rekin á kaf. Hún skilaði heldur engum vökva úr sér, en kom úr vöðvanum sem gormur. Í þriðja sinn fór á sömu lund. Nú var skólastjóra nóg boðið. Þó að hann sé hugaður maður, gat hann ekki lengur horft á þessar aðfarir og gekk út úr skólastofunni. En læknirinn hélt áfram að beygja nálar sínar í rassvöðvum sjúklingsins. Loks var það sjöunda nálin, sem ekki bognað og skilaði vökva sínum inn í hold hans. Sjúklingurinn var albata næsta morgun, svo að kjarngóður var vökvi læknisins. En trúað gætum við því, að hann hefði ályktað unga menn í Eyjum í meira lagi harðvöðvaða, enda hafði nemandinn stundað fimleika í skólanum allan veturinn. Ekki reyndist hann síður harðhugaður. Þar verður sjálfur skólastjórinn bezti mælikvarðinn.
Annar dagur ferðarinnar, 3. júní, rann upp bjartur og fagur. Við risum úr rekkjum (svefnpokunum) kl. 8 og snæddum árbít úr skrínum okkar. Síðan bættum við á okkur skyri á gistihúsinu í kauptúninu. Kl. hálfellefu ókum við af stað sem leið liggur vestur Mýrasýslu. Ferðinni var heitið vestur á Snæfellsnes. Við námum víða staðar, dvöldumst við stutta stund og virtum fyrir okkur hin fögru fjöll og blómlegar byggðir. Öðru hvoru alla leiðina vestur blöstu við frægir sögustaðir, sem getið er um í Íslendingasögunum, og voru sögð nöfn þeirra og hversvegna þeir væru merkir.
Á Vegamótum, sem er veitingastaður, pantaði skólastjóri einhverja hressingu handa okkur, er við kæmum aftur, en nú var ætlunin að heimsækja Búðir og Stapa.
Á Búðum átum við hádegisverð úti í hrauninu. Okkur til mikillar skemmtunar voru þar tveir kálfar, sem gláptu á okkur eins og naut á nývirki. Alveg sérstaklega beindist þó athygli þeirra að Óla litla, sem tók vinahótum þeirra vel. Þarna á Búðum dvöldumst við í rúman klukkutíma og skoðuðum staðinn allrækilega. Eins og kunnugt er, eiga Búðir sér merkilega sögu frá tímum einokunarinnar. Þarna er m.a. kirkja mjög gömul og fornfáleg. Stórt veitingahús er þarna, en það var nú lokað. Eitt býli er á Búðum. Hjónin þar eiga mörg börn og virtust búa við heldur þröngan efnahag. Okkur var starsýnt á ósinn, þar sem verzlunarskipin sigldu inn í og lágu í öruggu lægi. Þar er bryggja fornfáleg, hlaðin úr grjóti. Og við hana standa fiskskúrar eða krær.








Vinstra megin niður síðuna:
1. Gísli, Eiríkur, Helgi verða ástfangnir í Stykkishólmi.
2. Ritari ferðalagsins og skólastjári „brugga“ kakó handa ferðalöngunum. Myndin er tekin í gangi í skólahúsinu í Borgarnesi.
3. Á Fönix á leið til Klakkeyjar. Sjóveikin segir til sín.
Hægra megin niður síðuna:
1. Í bifreiðinni á leið vestur Mýrar.
2. Stuðlabergsstaparnir á Stapa á Snœfellsnesi.
3. Nemendur bera fram frómar óskir sínar í byrginu á Helgafelli.






Veður var yndislegt, logn og hiti. Í þessari lognmollu sótti Óla litla svefn, svo að hann rölti út í hraun og steinsofnaði. — Hans var fyrst saknað, er við vorum öll ferðbúin og setzt inn í bifreiðina. Þeytti þá Hannes bifreiðarstjóri lúður sinn ákaflega. Kom þá Óli þjótandi eins og kólfur, rétt eins og hann ætti von á að verða settur á „svartan lista“ fyrir það að hafa sofið yfir sig.
Frá Búðum lá leiðin vestur að Stapa. Vegirnir versnuðu eftir því sem utar dró á nesið.
Á Stapa var útgerð mikil til forna og er þar nokkur ennþá. Þarna er mjög sérkennileg höfn. Einkenna hana sérstaklega stuðlabergsstapar og hamrar. Við klifum öll upp á drang einn mikinn, sem bryggjan er áföst við.
Að Vegamótum komum við aftur kl. 6 síðdegis eftir mjög ánægjulegt ferðalag þarna vestur undir Snæfellsjökul. Þar snæddum við smurt brauð og drukkum nýmjólk eins og við gátum torgað. Það þykir í frásögur færandi, að Óli litli „sporðrenndi“ þarna fjórtán brauðsneiðum, og gerði enginn betur. Frá Vegamótum var lagt á hálendið til Stykkishólms um Kerlingarskarð. Á leiðinni um skarðið beindist athyglin aðallega að „Kerlingunni“, sem skarðið dregur nafn af. Til þessa höfðu þeir verið pottarnir og pönnurnar í öllum gáskanum, þeir Haukur og Júlli, en nú fór heldur betur um þá. Kerlingin virtist skjóta þeim illa skelk í bringu. Hún er steindrangur einn mikill, sem lítur út eins og tröllkerling með mikla byrði á baki.
Norðan vert við skarðið gengum við á fell eitt, hvorki hátt né stórt um sig. Þaðan gaf þó að líta yfir Breiðafjörðinn alveg norður á Barðaströnd. Það var fögur sjón, sem hreif alla, og þó alveg sérstaklega ljósmyndarana, sem mynduðu nú allt.
Ferðin niður fellið gekk slysalaust, nema hvað Karl okkar litli frá Hjalteyri féll endilangur um smáþúfu og varð það enn ein sönnun um viðskipti litlu þúfunnar og stóra hlassins.
Til Stykkishólms komum við um kvöldið kl. 8. Fengum við þar inni í skólahúsinu. Er við höfðum komið okkur fyrir þar, barst okkur höfðinglegt boð frá sýslumanninum Hinriki Jónssyni og konu hans frú Unni Magnúsdóttur, um að drekka hjá þeim kaffi. Kaffiboðið var í alla staði yndislegt. Sýslumannshjónin höfðu gaman af að vita, hverra manna við nemendurnir værum, því að þau eru hér bæði upp alin, 0g leysti skólastjóri vel frá þeirri „skjóðu“.
Þriðji dagur ferðalagsins rann upp bjartur og fagur, og birti forvitnum ferðalöngum utan úr Vestmannaeyjum fegurð og stórfengleik Breiðafjarðar. Við snæddum morgunverð í skyndi í skólahúsinu. Þutum síðan öll út í veðurblíðuna, ýmist í sundlaugina eða í gönguferðir um bæinn og umhverfi hans.



Vélbáturinn „Fönix“ í Stykkishólmi. Bátur þessi flutti hina ungu Eyverja til Klakkeyja á Breiðafirði.



Um tíuleytið var öllum hópnum stefnt saman á eina bryggju þarna. Þar beið okkar stór trillubátur, sem flytja skyldi okkur í ævintýraleiðangur út á milli hinna fögru og óteljandi eyja Breiðafjarðar. Við fengum ágætan leiðsögumann, sem jafnframt stýrði bátnum. Ferðinni var heitið út í Klakkeyjar. Það eru strýtumyndaðar blágrýtiseyjar. Af hæðum þessum gaf yfir að líta. Við sáum inn í Hvammsfjörð, sáum Brokey, Elliðaey og fleiri nafnkunnar eyjar. Æðarvarp er í Klakkeyjum og fundum við mörg hreiður. Ekki er loku fyrir það skotið, að finnast kunni eftir ferðalagið æðaregg úr Klakkeyjum í náttúrugripasafni Gagnfræðaskólans okkar. Úr Klakkeyjum héldum við heim í Stykkishólm um Selasund. Það er austanvert við Hrappsey og Seley. Á leiðinni til lands var glatt á hjalla sem oftar. Við sungum og skemmtum okkur á ýmsan hátt. Þegar í land kom, sagði maginn til sín. Við þustum öll upp í veitingahúsið í kauptúninu og snæddum þar góða máltíð. Við gáfum okkur nú góðan tíma, því að laugardagur var og óskalög sjúklinga á dagskrá. Við hlustuðum á þau með ánægju.
Sjóferðin hafði blásið andagift í brjóst hagyrðinganna, sem voru með í förinni, svo sem Júlli, Kjartan og Óli litli. Eftir borðhaldið voru margar munnþurrkur útkrotaðar. Þar klíndu þeir leirburði sínum, Leirulækjarfúsarnir í förinni, því að engan virtust þeir hafa pappírinn með sér, þessir ástmegir í andans heimi.
Svo hófst þá heimferðin.
Við komum nú við á Helgafelli. Komum að gröf Guðrúnar Ósvífursdóttur undir leiðsögn húsfreyjunnar á bænum og gengum síðan á sjálft Helgafell.
Á Helgafell skal ganga eftir föstum reglum, ef farið er þangað í þeim tilgangi að bera þar fram óskir sínar og fá uppfyllingu þeirra. Húsfreyjan á Helgafelli rifjaði upp með okkur þessar fornu reglur, sem skráðar eru í fornbókmenntum okkar. Uppi á fellinu er lágt grjótbyrgi, sem sagt er að sjálfur Snorri goði hafi hlaða látið. Steinn er þar á vegg. Hann sýnir ferðalangnum, hvert ásýnd skal snúa, meðan óskirnar eru fram bornar. Síðan lögðum við öll af stað í einni halarófu sem leið liggur upp á fellið. Þegjandi skal maður ganga, og aldrei má aftur líta. Við gengum síðan inn í byrgið nokkur í einu og bárum þar fram óskir okkar og innstu þrár. Auðséð þótti á andlitunum, að hugur fylgdi máli. Enginn tjáði öðrum óskir sínar, svo að vitað sé. En flestar munu þær frómar verið hafa, eftir því sem bezt varð vitað. Mjög bráðlega vaknaði þó sá grunur, að sumir hafi óskað sér námsframa í nánustu framtíð, knattleikskapparnir glæsilegra sigra og ástsnortnir æskuhugir ívilnunar örlaganna í þeim efnum.
Á heimleið lögðum við lykkju á leið okkar og komum við í Hreðavatnsskála. Þar mötuðumst við og nutum hins fagra umhverfis. Við gistum í fimleikasal héraðsskólans að Reykholti þessa síðustu nótt ferðalagsins. Næsta dag ókum við til Reykjavíkur. Þar skildu leiðir. Eftir það réði hver sinni heimferð. Ferð þessi tókst sérstaklega vel, jók okkur þekkingu á landinu okkar og veitti okkur yndi við að skoða fagurt landslag og njóta fegurðar og frjálsræðis í faðmi blómlegra byggða. Við erum þakklát öllum, sem greiddu götu okkar og veittu okkur þessar unaðssömu samferðastundir.

Bryndís Gunnarsdóttir, Landsprófsdeild, ritari ferðafélagsins.

Til baka




RITNEFND ÁRSRITSINS SKIPA NÚ:
Hólmfríður Sigurðardóttir frá Þrúðvang, form., 3. bekk.
Guðbjörg Ásta Jóhannesdóttir, 3. b.
Guðjón Herjólfsson, 2. b. B.
Ólöf Óskarsdóttir, 2. b. A.
Alda Kjartansdóttir, 1. b. B.
Haraldur Gíslason, 1. b. C.
Ábyrgðarmaður:
Þorsteinn Þ. Víglundsson.
Prentsmiðja Þjóðviljans h.f.


STJÓRN MÁLFUNDAFÉLAGS
GAGNFRÆÐASKÓLANS
skipa nú:
Daníel Kjartanson formaður,
Hólmfríður Sigurðardóttir ritarí,
og gjaldkerar
Rósa Gunnarsdóttir og
Rósa Martinsdóttir.

PRENTVILLA
í Bliki í fyrra varð prentvilla, sem við viljum vinsamlegast biðja lesendur og unnendur ritsins að leiðrétta. Á blaðsíðu 66 í 5. línu að neðan skal standa: Kinnarnar voru rjóðar og skapið létt.