Blik 1954/Hetjudáð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1954


AÐALGEIR KRISTJÁNSSON, cand. mag.:


ctr


Skjálfandafljót er eitt af lengstu ám þessa lands. Á leið sinni frá upptökum til ósa fellur það um brunahraun og eyðisanda, djúpa dali og blómlegar byggðir. Það mætti ætla, að strengir þess og flúðir kynnu frá mörgu að segja, ef þau mættu mæla á því máli, sem eyru dauðlegra manna geta skilið, en svo er málum þó ekki háttað. Ef til vill lætur niðurinn í strengjum þess, fossum og Flúðum, eins og þungur undirtónn í eyrum birkitrjánna, sem vaxa á bökkum þess, blandast kliði söngfuglanna og rennur saman við skógarþytinn, þegar sunnanblærinn bærir laufin á trjánum, eins og hendur listamannsins hræra hörpustrengi í samstilltum hljóðfæraleik. Í Skjálfandafljóti eru þrír stórir fossar, auk minni fossa og flúða. Þeir eru allir í byggð, nema einn. Síðasta hluta leiðar sinnar til sjávar líður það í lygnum straumi, eins og það sé orðið þreytt af hamförunum og þrái það eitt að öðlast frið í djúpum hafsins. Neðsti stóri fossinn í fljótinu heitir Barnafoss. Sú saga er sögð, að hann beri nafn sitt af því, að eitt sinn hafi tvö börn drukknað í fossinum. Sumir segja, að börnin hafi leikið sér að því að skríða inn í tóma tunnu, en hún hafi síðan oltið af stað og niður í fossiðuna, og af því beri fossinn nafn. Einnig er til frásögn af því, að börnin hafi farið út á ísbrú, sem leggur yfir fossinn í vetrarhörkum og síðan hafi brúin brotnað niður með þau og þau drukknað í fossinum.
Á vesturbakka fljótsins stóð býlið Barnafell, sem nú er í auðn. Þar má heyra fossniðinn ógnþrunginn eða seiðandi, jafnt nótt sem dag. Fossinn fellur af þverhníptri hamrabrún niður í hyldýpið, þar sem síkvik iðan þvær með hvítum löðurhöndum um hrjúfa og svarta klettana, sem gljúfrið er grafið í. Umhverfið er mjög fagurt. Skógivaxnar hlíðar með einstaka klettum og hnjúkum skapa fagra og hlýlega umgjörð um hrikaleik fossins sjálfs.

— — —

Fyrir aldarfjórðungi bjó í Barnafelli fátækur bóndi, sem átti margt barna. Dag nokkurn að vetrarlagi fór hann að heiman til að sækja vörur og annað, sem vantaði, því að jólahátíðin fór nú brátt í hönd. Elzti sonur hans var þá 14 ára að aldri. Hann fór einnig þennan sama dag til bæjar, sem var hinu megin við fljótið. Heima voru þá aðeins móðirin með yngri börnin, sem voru að leik inni og úti, því að veður var gott. Undanfarna daga hafði verið kalt og frost. Bæjarlækurinn hafði runnið út úr farvegi sínum og runnið niður túnið. Svo að nú var samfelld ísgljá heim af bæjarhlaði og niður á fljótsbakkann andspænis fossinum. Einn drengjanna, níu ára gamall snáði, fór út með leikföngin sín í kassa og ætlaði að leika sér þar að þeim, þá vildi svo til, að hann missti kassann út á ísgljána, en kassinn rann nokkurn spöl eftir ísnum, en nam síðan staðar. Drengurinn vildi ekki glata gullunum sínum og hljóp út á gljána til að ná þeim á ný, en missti fótanna og rann óðfluga niður ísinn og stefndi beint í fossinn, en fremst á fljótsbakkanum stóð þúfa upp úr svellinu og þar nam drengurinn staðar, en fyrir neðan var ólgandi iðan, sem virtist bíða þess í gráðugri eftirvæntingu að gleypa hann og binda endi á líf hans. Eldri bróðir hans sá aðeins á eftir honum niður túnið, en hljóp svo inn til móður sinnar og bar henni tíðindin. Hún varð örvita af hræðslu, móðurástin svipti hana allri aðgæzlu. Hún hljóp út, en gætti ekki að því, hvert hún fór, fyrr en um seinan. Hún hljóp út á gljána, missti fótanna og fór sömu leiðina og barnið hennar, en hamingjan skilaði henni upp á sömu þúfuna og syni hennar. Nú voru þau tvö þarna í návist dauðans, sem beið þeirra í vetrarkaldri fossiðunni. Á meðan þetta gerðist heima í Barnafelli, kom elzti sonurinn úr för sinni austan yfir fljótið. Næstelzti bróðir hans fór á móti honum og sagði honum, hvað orðið var, en hann sá þegar, að hér var um lífið að tefla og fljótræði gat orsakað dauða móður hans og bróður. Hann tók öll reipi, sem til voru, hnýtti þau saman og treysti hnútana sem bezt. Því næst hjó hann spor í svellið, þangað til reipið náði alla leið. Þá kastaði hann reipinu til móður sinnar og hnýtti hún því utan um son sinn. Síðan var hann dreginn upp, unz hann var úr allri hættu. Þá leysti bróðir hans af honum bandið og kastaði því til móður sinnar og bjargaði henni einnig úr dauðans greipum. Drengurinn hlaut verðlaun fyrir þetta einstæða afrek og honum var boðið til Danmerkur. En það er önnur saga og verður hún ekki rakin hér.

Aðalgeir Kristjánsson,
kennari