Blik 1950/Um listfræðslu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1950



ÁRNI GUÐMUNDSSON


Um listfræðslu



Eitt helzta einkenni menningarþjóða er listþroski og hæfni til listnautnar, þ.e.a.s. ekki einasta sköpun fagurra listaverka, heldur og hæfileiki (meðfæddur eða áunninn) til þess að njóta þeirra.
Frá öndverðu hefur sköpun fagurra listverðmæta verið eitt höfuðeinkenni menningarríkja, og einu menjarnar nm mörg slík ríki, sem löngu eru liðin undir lok, eru einmitt slík verðmæti.
Í nútímaþjóðfélagi eru listirnar ríkari þáttur í lífi manna en nokkru sinni fyrr, og ber því brýna nauðsyn til, að almenningur fái sem víðtækasta fræðslu um þau efni, ef hann á að geta átt þess kost að njóta þeirra listverðmæta, sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Og slík fræðsla verður vitanlega að koma þegar í uppeldinu, þ.e.a.s. hún er tvímœlalaust verkefni skólanna.
Nútímamaður, sem ekkert skyn ber á listir, fær ekki notið þeirra að neinu og kærir sig með öllu kollóttan um þær, verður að teljast næsta ömurlegt fyrirbæri — enda naumast til nema sem hugsanlegur möguleiki. En hitt verður að viðurkenna, að listasmekk almennings er á ýmsum sviðum stórlega ábótavant — og stafar það vitanlega fyrst og fremst af þekkingarskorti. Það útheimtir sem sé vissa lágmarks þekkingu að öðlast áhuga fyrir ákveðnum listgreinum, en þó einkum að öðlast skilning á þeim, — en aukinn skilningur leiðir af sér aukinn og þroskaðri smekk og aukinn möguleika til að njóta listverðmætanna.
Nú spyrja menn kannski — og það að vonum — hvernig það geti verið á valdi skólanna með rígskorðaða námsskrá að veita slíka fræðslu. En ég vil svara því til, að með góðum vilja og samstarfi kennaranna eru þar ýmsar leiðir tiltækar. Því miður er ekki rúm til þess í stuttri grein í þessu riti að ræða það mál til hlítar, en ég vil þó benda á nokkur augljós atriði.
Í sambandi við íslenzkunámið er gert ráð fyrir, að unglingarnir læri nokkuð af ljóðum og fái undirstöðuþekkingu í bragfræði. Þarna er gullið tækifæri til þess að vekja og glæða áhuga nemendanna fyrir þeirri listgrein, sem er íslenzkust allra lista, ritlistinni — í bundnu máli og óbundnu. Sem sé vekja áhuga þeirra fyrir og glæða skilning þeirra á því, hvað eru góðar listrænar bókmenntir — gagnstætt reyfurum og öðru ómerkilegu rusli. Þetta er auðveldlega hægt að gera án þess að syndga í nokkru gegn námskránni. —
Frjálsar stundir mætti m.a. nota til þess að lesa upp úr sígildum erlendum bókmenntum og skýra þær jafnframt út fyrir nemendunum. Ég man t.d., að þegar ég var í Unglingaskóla Vestmannaeyja, sem var undanfari Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum, las Þorsteinn Víglundsson skólastjóri fyrir okkur Pétur Gaut og skýrði efni hans. Þetta vakti a.m.k. áhuga minn — ekki einasta fyrir þessu stórbrotna skáldverki — heldur og öðrum snilldarverkum Ibsens og góðum erlendum bókmenntum yfirleitt. Sama sið hafði próf. Ágúst H. Bjarnason og fleiri skólamenn í Reykjavík a.m.k. í minni skólatíð, hvað sem nú er.
Í sambandi við tónlist vil ég taka það fram, að ég tel það óumdeilanlega skyldu söngkennara að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til að auka skilning nemendanna á þeirri list, nota hvert tækifæri, sem gefst, til að auka þekkingu þeirra á tónmennt, sögu hennar, eðli og áhrifum, eftir því sem kostur er. Þá ætti hver einasti skóli að eiga gott plötusafn með sígildri tónlist og góðan grammófón eða plötuspilara. — Hugsum okkur t.d., af því að ég gat um upplestur Þ.Þ.V. á Pétri Gaut, að skólinn hefði þá átt á plötum hina dásamlegu músík Griegs við þetta snilldarverk Ibsens — og að við hefðum fengið að heyra plöturnar leiknar um sama leyti, — hversu stórkostleg atriði hefði það verið til þess að glæða áhuga okkar fyrir góðri tónlist! Það er afmælisósk mín til Gagnfræðaskólans í Eyjum, að hann megi sem fyrst eignast slík tæki til aukinnar tónmenntar í bænum.
Ég tel sjálfsagt og skylt, að teiknikennarar fræði nemendurna um sögu málaralistarinnar svo og um stefnur og strauma í þeirri umdeildu listgrein og hver skóli þarf vitanlega að eiga safn listaverkabóka allra helztu snillinga í þeirri grein.
Mannkynssagan (og Íslandssagan vitanlega líka) gefur ótal tækifæri til alhliða listfræðslu, ekki sízt í sambandi við húsagerðarlist, höggmynda- og málaralist, listiðnað alls konar og bókmenntir.
Hér er aðeins lauslega tekið á málunum, og enn er ótalin sú listgrein, sem nú grípur kannski hvað mest inn í daglegt líf almennings — og sem ekkert er skeytt um í skólunum, en það er kvikmyndalistin. Sé nokkurs staðar þörf fræðslu til handa unglingunum, þá er það í þeirri grein, því að þar er völ á jafnt hinum versta sora, ýmist ómerkilegum eða siðspillandi, og á hinu leitinu stórmerkum og þroskandi listaverkum, sem sameina margar listgreinir, svo sem bókmenntir, leiklist, tónlist, dans, íþróttir o.s.frv. Myndir eins og Jónsmessunœturdraumur Shakespeares með músík Mendelsohns og glæsilegum leik beztu leikara, snilldaruppfærsla og leikur Laurencc Oliviers í Hamlet, Rakarinn frá Sevilla í túlkun beztu óperukrafta Ítala. Rauðu skórnir, byggð á æfintýri Andersens, tónlist Tschaikovskys, ógleymanlegur leikur enskrar balletmeyjar, Symphonie Phantastique byggð á ævi Berlioz með næstum óhugnanlega góðum leik franskra leikara — allt eru þetta snilldarverk, nefnd af handahófi. Þetta er efni, sem ég vildi gera betri skil, en þess er því miður ekki kostur hér. En ég álít nauðsynlegt, að skólarnir veiti staðgóða fræðslu einmitt um þetta efni, sögu kvikmyndanna, eðli þeirra og tæknimöguleika. Og síðast en ekki sízt: að vekja áhuga nemendanna fyrir góðum myndum en vara þá við ruslinu.

— — —

Ég lýk svo þessum orðum með beztu afmælisóskum til Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum — með þeirri ósk, að hann megi verða listaskóli í beztu merkingu þess orðs, því að þá verður hann um leið hagnýtur skóli.

Árni Guðmundsson