Blik 1950/Liðskönnun

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1950



Liðskönnun


Kæru ungu menn og konur, þið ástmegir guðanna og niptir ása.
Drepið var á dyr hjá mér dag nokkurn. Skólastjórinn ykkar stóð utan dyra veðurbarinn og harðhugaður með hyggjur þungar. Hann hugði mig til hjálpar sér í harmi og raun.
Hin árlega liðskönnun skyldi fram fara í þriðju deild Gagnfræðaskólans. Enginn fannst sá, er reyndist vera í nægum kunnleikum við þegna þriðju deildar, svo að hann mætti geta sér góðs orðs fyrir sanndæmi til sæmdar þeim drengjum díakyns og dísum döglingsættar. Hér skyldi ég drýgja dáð vammi firrða, kvað hann. —
Ekki vildi ég undan skorast því vandaverki og skundaði því í skólann.
Bergljótu ina hgumstóru hitti ég fyrsta. Hún er kynjuð af Una kvenhatara í móðurætt og Þormóði rama siglingakappa í föðurkyn. Í æðum hennar streymir prestablóð og bera varir hennar þess gleggstan vottinn. Hún er gáfuð og góðlynd, tízkukær og tilhaldssæl bauga-Hlín og Beggó kölluð.
Nær henni situr Svava in svása af Siglunesi. Hún er gáskafull og gæflynd, orðheppin og skrafsöm. Hún elskar síld og sæta pilta. Hún er augnagaman ungum sveinum og mjög um mittið mær.
Í segulátt af Svövu sitja kempur þrjár kappakyns. Þar er Eiríkur íþróttakappi. Hann þekkir nöfn allra manna veraldar, er stokkið hafa lengd sína eða meira. Sjálfur stekkur hann hæð sína í öllum herklæðum, sem að vanda eru blygðunarbuxurnar einar. Hann varpar kúlu sem Hekla heljarbjörgum. Hann mælir allt í hendingum og er talandi skáld. Hann telur ættir til Eiríks bónda af Oprustöðum. Á hann bíta hvorki járn né beittar eggjar yngismeyja.
Eiríki til vinstri handar situr Sveinn inn spaki eða „Bekkjarins ljós“, er hans virðingarnafn. Hann er horskur maður af höfðingjum kominn í Eyjaættir, og hugvitsmaður mikill.
Þá er þar Jóhann Breiðuvíkurbragni. Hann er þolgóður þjarkur, hamhleypa til allra verka og öllu vanur. Hann sveiflar léttfættum meyjum í ljúfum dansi, svo að list er að.
Síðan Svava in svása skipaði sér gegn segulskautinu, syngur Páll alla jafnan: ,,Við skulum halda á Siglunes“.
Páll er maður mjúkur og málgur, íþróttamaður mikill og óskmögur sinnar móður, enda sonur góður. Verði hann fyrir styggð, þegar hann forvitnast um hulda heima, stekkur hann yfir mannháa múrveggi.
Páli til hægri handar situr Stefán inn sterki. Hann er mikill maður vexti, leggjalangur og læragildur og þrjár álnir danskar og þrjú kvartel um herðar. Er hann áræðismaður mikill en ekki ástnenninn. Stefán er mildur á fé við mæta félaga en gjafmildur á hörð högg við skítlega skálka. Hæglátur er hann og hógvær hversdagslega, en reiðist hann, þá riða fjöll.
En reiðist hún Svanhvít, þá rifna þau öll. Hún er meyja mikillynd og mislynd, en þó gæf og góðlynduð og veit hvað hún vill. Handföst er hún og harðlynd, ef því er að skipta, en annars ástarmild og yndisgjörn. Svanhvít er frækin fimleikamær, mittisgrönn og mjúklimuð. Hún tekur Páli blóð.
Í sólarátt af Stefáni inum sterka situr Víglundur inn vísi. Hann telur langfeðgakyn sitt til Bjarnar breiðskeggs við Breiðafjörð. Víglund skortir ei vaskleik. Hann er röskleikamaður sem stekkur upp á nef sér í hástökki og víst betur, ef snætt hefur hann svið í þann mund, er hann keppir í kappaflokki. Hann er hárprúður og hánefjaður og galdrasmiður kallaður. Stundum fer hann 15 hundruð metra hlaup um öll heimsins höf á „stýrishúshesti“ sínum og fær þá jafnan réttu stóra.
Þorsteinn er maður nefndur af því sægarpakyni, að aldrei svaf und sótkum rafti. Sjálfur er hann sægarpur mætur og meyjayndi. Óvinir hans óttast hann, en vinir hans treysta honum og trúa á kraft hans og sjálfan hann, sérstaklega Fjóla, því að hann er „fjólufús“. Þorsteinn er varðmaður skólans um tíð og tíma; „kveður hann syfjaða sauði til sæmdarstarfa,“ segir Þóra, skáldkona skólans.
Þóra rekur ættir sínar til Oddaverja, enda bóndadóttir af Rangárvöllum. Hún skráir „svartalista“ bekkjarins af myndugleik miklum. Hún er svo slyng í talnafræði, — og töfrabrögðum málfræðinnar, að sögn bekkjarins hlær hugur við, er hún þreytir þessar listir.
Guðmar er maður nefndur af höldakyni. Hann er styrkur vel og stæðilegur. Hann rekur kyn sitt til Ubba Ákasonar af Vermalandi og Gandálfs konungs af Vingulmörk. Hann talar snjallt og slétt, svo að allir, sem á heyra, þykir það eina satt, er hann segir. Eitt skeið var hann berserkur kallaður, því að hvorki eldur né járn orti á hann. Þá var hann náttskjarr, því að mara tróð hann títt. Hans fésæla er mikil og fræknleikur.
Mallý meyjaval er lítil og ljóshærð, létt og liðug og hlær, þegar vel liggur á henni. Hún er af mæringum komin í karllegg, en hár sitt rekur hún til Hallgerðar innar hárprúðu að Hlíðarenda. Mallý er hánorræn að yfirbragði en keltnesk í yndisþrá sinni og ástarhótum. Hún er íþróttamær í anda og stundar fimleika af fágæfinni þolinmæði. Hún er draumlynd og djarftæk til Garðars. Mallý og Svana eru söngelskar og hafa töfrað útvarpsráð með dillandi tónum.
Garðar er garpur mikill nema í nánd Mallýar. Hann er skrítlumeistari bekkjarins og skemmtir stúlkunum. Hann er ástmaður í meira lagi. Honum eru Freyjukettir hættulegir. Hann mun verða frumverr sinnar kvinnu og geta með henni fjóra sonu, hamröm hetjumenni.
Að baki Garðars sitja sprettfiskar deildarinnar, spriklandi fjörugar og sprenghlægilegar trúðmeyjar. Jóna og Helga heita þær. Þær eru háfleygar og hugljúfar öllum, sem þær þekkja. Þær eru svo göfuglegar álitum, að öllum piltum hlær hugur við, þegar þær birtast úr austurátt. Þær eru hirðmeyjar Þorsteins tímavarðar og bréfritarar bekkjarins. No, er það svo?
Sessunautur þessara meyja er Guðrún in gæflynda og gæfusama. Hún er gimsteinn bekkjarins, af görpum komin í alla ættliði, gefin fyrir góðan félagsskap og önnur gagnleg þing. Hún er engin skrafskjóða en skapföst, trygglynd og tröllafæla.
Frá henni í sólarsýn situr Birna in bjartsýna mær. Hún er töfrandi fögur og tilbrigðarík, talandi skáld, sem yrkir leir í ljóðalíki.
Morgunsmyrsl eru hennar mesta yndi. Hún trúir á lífsstýri láðs og lofða.
Bannað er að hafa hátt um hagi hennar, því að hún rekur ættir til Afrodite gyðju ásta og fegurðar með Hellenum.
Ég hef sannað, að hér er samankomið mikið mannval og góð liðsbót, sem mun uppfylla Eyjarnar í fyllingu tímans.
Með ástarkveðju.

Gudda Gez