Blik 1948/Þáttur skáta

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1948


ÞÁTTUR SKÁTA„Ef við lítum yfir farinn veg og finnum gamla slóð,
færast löngu liðnar stundir okkur nær,
því að margar standa vörður þær, sem einhver okkar hlóð
upp um fjöll, þar sem vorvindurinn hlær.“

Það var fyrir 10 árum síðan, þann 22. febrúar 1938, að 24 drengir komu saman hér uppi í Barnaskóla og stofnuðu félag, skátafélag.
Þetta er ef til vill í sjálfu sér enginn merkisviðburður, enda ypptu víst ýmsir öxlum og brostu, þegar skátarnir fóru að „stripplast“ á götunum með ber hné og barðastóra hatta. Samt fór það nú svo, að þetta félag var 10 ára nú fyrir skömmu.
Jón Oddgeir Jónsson, fulltrúi Slysavarnafélags Íslands, sem dvaldi hér um þessar mundir, aðstoðaði við stofnunina, en fyrsti foringi félagsins var Friðrik Jesson.
Þessir 24 drengir hófu síðan skátastarfið af eldlegum áhuga og bjartsýni, en áhugi þeirra og bjartsýni var einasta veganesti félagsins í byrjun.
Margir hinna ráðandi manna innan bæjarfélagsins hafa sýnt félaginu mikinn áhuga og velvild frá upphafi. T.d. varð Páll heitinn Bjarnason skólastjóri nafngjafi þess og nefndi það Faxa.
Þegar Friðrik Jesson lét af störfum sem félagsforingi Faxa, gerðist Þorsteinn Einarsson, núverandi íþróttafulltrúi, forystumaður félagsins. Mun hann eiga drjúgan þátt í, hversu giftusamlega tókst að fleyta því yfir byrjunarörðugleikana.
Þegar Þorsteinn fluttist til Reykjavíkur árið 1941, tók Helgi Þorláksson við starfi hans um hríð, en síðan séra Jes Gíslason. Hann starfaði sem félagsforingi, þar til seint á árinu 1946, er breyting var gerð á lögum „Faxa“ og honum skipt í tvær deildir. Þá varð Sigurjón Kristinsson, einn af stofnendum félagsins, félagsforingi, en séra Jes varð félagsráðsformaður.

Núverandi stjórn skátafélagsins „Faxa“

Árið 1941 hófu kvenskátar að starfa innan félagsins. Þeir störfuðu undir sömu stjórn og drengirnir, og mun „Faxi“ vera fyrst íslenzkra skátafélaga með þesskonar skipulagi.
Eftir að stúlkurnar bættust í hópinn, hafa þær átt mikinn þátt í að gera félagið svo öflugt, sem það nú er.
Félagatalan hefur fimmfaldast frá stofndegi, en nú mun það telja 121 starfandi skáta. Í Reykjavík starfar flokkur úr Faxa. Nefnist hann „Útlagar“. Í honum starfa þeir skátar héðan að heiman, sem dvelja í Reykjavík við nám, eða af öðrum ástæðum.
Frá upphafi hefur félagið átt við mikil húsnæðisvandræði að stríða.
Fyrst í stað fékk það að halda fundi sína í Gagnfræðaskólanum. Enn í dag eru haldnir sveita- og deildarfundir þar. Á skólastjórinn, Þorsteinn Þ. Víglundsson, miklar þakkir skildar fyrir þá miklu hjálp, sem hann hefur veitt félaginu frá byrjun.
Árið 1942 keypti félagið skála sinn, Hraunprýði, hér vestur í hrauni. Voru gerðar á honum talsverðar breytingar og er hann nú hinn glæsilegasti.
Hraunprýði er mjög hentugt til sumarstarfsemi félagsins, útilegu og gönguferða, en vitaskuld getur hún ekki fullnægt þörfum félagsins á fundahúsi sakir þess, hve langt hún er frá bænum. Það hlýtur því að verða takmark félagsins að eignast húsnæði, sem í öllu fullnægi þörfum þess.
Skátafélagið Faxi hefur frá öndverðu reynt að starfa eftir grundvallarreglum skátahugsjónarinnar, skátalögunum og heitinu. Um hitt má vafalaust deila, hvort það hefur tekizt.
Innan félagsins hefir alla tíð verið algert bindindi. Frá fyrstu tíð hefir Faxi haft mörgum ágætis starfskröftum á að skipa og hafa þar ýmsir öðrum fremur skarað fram úr.
Af stofnendum félagsins eru nú fimm eftir, þar af þrír í „Útlögum“.
Þó að flestir af stofnendum Faxa séu þannig horfnir úr röðum félagsins, þá hugsum við hinir yngri, til þeirra með þakklæti.
Þeir ruddu brautina og vísuðu okkur veginn. Nú er það okkar að taka við af þeim og halda merki félagsins á lofti, jafnhátt og þeir hafa gert. Og ef við sýnum sömu fórnfýsi og starfsgleði og þeir, þá er enginn vafi á, að það mun takast.
Megi starf Faxa blómgast og dafna á komandi árum, og skipa sama sess í félagslífi bæjarins og undanfarin 10 ár.

E.V.B.