Blik 1948/Þáttur nemenda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1948


ÞÁTTUR NEMENDA



Gamla klettaborgin.

Þegar gengið er hér austur fyrir túnið, er komið að flugvellinum, sem liggur þar rennisléttur frá austri til vesturs. En áður var þarna öðruvísi um að litast. Þá prýddi klettaborgin þennan stað. Háreista álfakirkjan stóð vestast. Beint á móti henni voru tveir álfabæir. Við þennan stað eru margar minningar mínar tengdar. Einn atburður er mér þó minnisstæðastur. Ég man það eins og það hefði gerzt í gær. Það var kyrrt ágústkvöld. Fáeinir litlir skýjabólstrar liðu hægt um himininn. Sólin var komin lágt á loft. Ég gekk hægt áleiðis til klettaborgarinnar. Álengdar heyrði ég niðinn í sjónum. Þegar ég kom að klettaborginni, tíndi ég mér baldursbrár og settist svo undir Álfakirkjunni og ætlaði að flétta krans úr blómunum. Ég var ekki komin langt með kransinn, þegar ég steinsofnaði. Þá dreymdi mig, að kletturinn væri orðinn að stórri og fagurri kirkju. Kom þá til mín kona. Hún var í grænum kjól með stokkabelti. Svart hár hafði hún og var það ákaflega þykkt og sítt. Hún tók í höndina á mér og leiddi mig inn í kirkjuna. Við komum fyrst inn í stóran forsal, en gengum þaðan inn í aðalkirkjuna og settumst þar á bekk aftarlega. Í kirkjunni var margt skrautbúið fólk. Kirkjan var ákaflega fögur og úr marmara. Hvelfingin var há. Það var mjög bjart. Fyrir altari stóð presturinn. Hann var í presta skrúða, sem mér fannst vera mjög einkennilegur. Beggja vegna við altarið stóðu tuttugu til þrjátíu drengir. Þeir voru allir í hvítum kyrtlum. Þegar við gengum inn, voru þeir að syngja. Mér fannst þeir syngja svo vel, að ég hafði aldrei heyrt eins fagran söng. Þegar söngurinn þagnaði, stóðu upp þrjár konur, allar með barn á handlegg, og gengu þær upp að altarinu og lagði presturinn blessun sína yfir börnin. Þegar drengirnir höfðu sungið aftur, var kirkjuklukkunum allt í einu hringt, en um leið laut konan niður að mér eins og hún ætlaði að hvísla einhverju að mér. En í því vaknaði ég.
Sólin var að hníga til viðar. Hún sendi síðustu geisla sína yfir þessa eyju. Þegar ég leit við á leiðinni heim, sýndist mér hún glampa á glugga álfakirkjunnar.

Þórey Kolbeins
Ofanleiti (II. b.)
— o —

Sigga vinnukona.

Þegar ég var lítil, hafði ég sérstaklega gaman af að láta lesa fyrir mig sögur. Sagan, sem ég var mest hrifin af, heitir „Sigga vinnukona“. Hún er í bókinni „Um sumarkvöld“ eftir Ólaf Jóh. Sigurðsson. Ég var alltaf að biðja fólkið heima, og þó sérstaklega afa, að lesa hana fyrir mig. Ég heyrði það á öllu, að bæði hann og aðrir voru orðnir leiðir á sögunni, og ég reyndar líka. En alltaf var afi beztur, þó að hann maldaði oft í móinn. Ég reyndi að blíðka hann með því að segja, að þetta væri í síðasta skipti. Jú, hann féllst á það, en ég verð að segja það, að það var oft, þetta síðasta sinni.
Þessi saga var svo skínandi skemmtileg. Ég lærði hana svo að segja utan að, og þegar afi ætlaði að stytta hana, þá fann ég það undir eins, og lét ekki plata mig. Persónur sögunnar urðu svo ljóslifandi fyrir mér í meðferð afa. Ég sá, þegar Sigga vinnukona hengdi stóra, ljómandi snotra, köflótta öskupoka á rassinn á strákunum. Ég sá, þegar Stína gamla og Sigga voru að skera niður brauðið inni í búrinu og strákarnir stóðu á hleri, án þess að þeir vissu. Og Stína gamla var nærri því tannlaus. Þó sá ég einna gleggst, þegar Sigga og Stína læddust eina nótt að rúminu, sem Lárus unnusti Siggu svaf í, sviptu ábreiðunni af honum og flengdu hann, en ætluðu að flengja strákana.
Það var aðeins eitt atriði, sem ég gat ekki skilið fullkomlega, og það var, þegar Lárus sat á rúminu sínu og kyssti Siggu vinnukonu. Af hverju varð hún ekki vond við hann? Ég veit, að hún hefði ekki leyft strákunum að gera það, ef greyin hefðu vogað sér slíkt. Nei, hún virtist vera hin ánægðasta og hló og skríkti framan í hann. Þetta var meira en ég gat skilið. En nú held ég, að ég skilji það út í æsar.
Ég hefi oft hugsað um það síðan, hvað afi gat verið þolinmóður að lesa upp sömu söguna dag eftir dag, og oft á dag. Og ef ég verð amma, er ég ákveðin í að lesa fyrir barnabörnin mín eins oft og þau vilja, jafnvel þó að það verði sama sagan.

Gréta, III. b.
— o —

Í sumarleyfi.

Fagran sumardag lagði ég af stað frá dvalarstað mínum efst í Biskupstungunum áleiðis til að skoða Gullfoss. Ó, hve fagurt var um að litast. Sólin ljómaði í heiði og loftið ómaði af margrödduðum fuglasöng. Innan um grasið og kjarrið uxu margskonar falleg blóm og reyr. Hvílíkur ilmur! Gaman er að skoða blómin og sjá, af hve miklum hagleik þau eru gerð. Og þau eru lifandi, þau anda og breiða krónuna móti blessaðri sólinni, til að geta drukkið sem mest í sig af hinum lífgefandi geislum hennar. Blómin eru sköpuð til að veita okkur gleði og ánægju.
En kunnum við að meta þau?
Áfram hélt ég og kom brátt að litlu vatni. Hér var fegurðin ekki minni, í dimmbláu vatninu speglaðist fagurblár himinninn með geislandi sól, en í kring var iðgrænt sefið. Þarna voru fannhvít svanahjón með 4 litla unga. Þau höfðu ekki tekið eftir mér og syntu þarna fögur og tignarleg með börnin á milli sín. „Mér sýndist þau vera svo falleg í framan, svolítil álftabörn.“
Allt var kyrrt og hljótt. Aðeins í fjarska heyrðist þungur niður fossins. Það var eins og allt andaði friði. Að baki mér var hátign jöklanna. Þarna stóðu þeir og héldu vörð yfir óbyggðinni, svo traustir og svipmiklir, en framundan mér steyptist fossinn með beljandi krafti. Hér var kyrrlátur staður, þar sem fegurð og friður réðu ríkjum. Ég hélt nú áfram og nálgaðist fossinn. Niður hans varð æ hærri og sterkari, og loks blasti hann við mér í allri sinni hrikalegu fegurð. Ég gekk út á klettasnös og horfði eins og í leiðslu á hans „magnþrungnu mynd“. Þarna beljaði áin fyrir ofan, straumhörð og þung, og steyptist svo hvítfyssandi fram af brúninni niður dimm og þröng gljúfrin. Í úðanum uppi yfir honum myndaðist sú dásamlegasta litfegurð, sem ég hefi séð á ævi minni. Þessar glitrandi úðaperlur dönsuðu þarna í sólskininu, og sjálfur var fossinn eins og sveipaður glitofinni skikkju, þegar sólin skein á hann gegnum úðaslæðuna. Þegar ég hafði notið þessarar unaðsríku fegurðar, sneri ég heim á leið og sá þá aftur svana hjónin með börnin sín, en nú voru þau komin upp á lítinn hólma inni í sefinu og voru farin að búa sig undir nóttina, því að þessi fagri dagur var að kvöldi kominn.
En að hugsa sér! Morguninn eftir frétti ég, að búið væri að ræna yndislegu álftarungunum. Þeir höfðu verið teknir að foreldrunum ásjáandi, sem flugu þarna yfir á meðan og börmuðu sér sáran, en höfðu ekki bolmagn til að verja þá. Morguninn eftir fannst móðirin rétt við tjörnina, með flakandi vængi og brostið hjarta af sorg, vegna missis elsku litlu barnanna sinna. Það var hryggileg sjón að sjá þennan stóra fugl liggja þarna dáinn af sorg.
Munum ætíð, að dýrin hafa tilfinningar og geta elskað alveg eins og við, þó að þau geti ekki talað og séu kölluð skynlausar skepnur. Forðumst að vinna þeim mein, en hjálpum þeim, sem hjálparþurfi eru.

Anna Sigfúsdóttir, II. b.
— o —

Róðrarferðin.

Ég og vinkona mín vorum búnar að ákveða að fara upp í sveit og dvelja þar svolítinn tíma af sumrinu á bæ einum, sem vinkona mín þekkti eitthvað til. Þar bjó bara húsbóndinn einn og ráðskona hans.
Ég hlakkaði svo til sumarsins, að ég hugsaði ekki um annað. Vinkona mín hafði sagt mér, hvernig húsbóndinn liti út. Hún sagði, að hann væri mjög feitur, alveg eins og tunna í vexti og hvíthærður eða ef til vill orðinn gráhærður.
Ég fór nú að gera mér í hugarlund, hvernig hann mundi líta út. Ég hélt, að þetta væri feikna durgur, eigingjarn og ráðríkur, og að allir mundu verða að lúta vilja hans. En svo fór ég að hugsa með sjálfri mér, að ég mætti ekki hugsa svona ljótt um hann, því að ef til vill væri þetta bezta skinn.
Jæja, loksins gátum við lagt af stað. Við fórum með mjólkurbifreið. Þegar bifreiðin nam staðar við hliðið, kemur húsbóndinn ruggandi í allri sinni dýrð niður á stíginn. Ja, sá var nú í góðum holdum. Kinnarnar og ístran gengu upp og niður í takt við ganginn. Hann var í vinnufötum með eitthvert pottlok á höfðinu. Blessaður karlinn heilsaði okkur með mestu virktum og bauð okkur í bæinn til að fá okkur eitthvað í svanginn hjá henni Fínu, en svo kallaði hann ráðskonuna sína. Þegar við komum í bæinn, tók Fína á móti okkur. Hún sagði: ,,Nei, komið þið nú margblessaðar og sælar, skinnin mín; eruð þið ekki voða þreyttar eftir ferðalagið? Mig mundi nú ekki undra það, því einn sinni fór ég í kaupstaðinn og var ekki beysin, þegar ég kom heim aftur, eftir alla þessa löngu leið í bíl. Ég var alveg frá í gigt. Ég dróst varla áfram. Svo ætlaði ég að fara að liðka mig svolítið og busla í vatninu hérna rétt hjá, kemur þá ekki bannsettur húsbóndinn og ætlar að fara að baða sig líka, og ég er ekki með svoleiðis fígúru að vera í sundbol, ég varð því að fara í fötin strax aftur. Viljið þið ekki fá ykkur meiri mjólk, skinnin mín.“ Svona lét hún dæluna ganga meðan við borðuðum og ég var dauðfegin, þegar við komustum út undir bert loft. Við skoðuðum okkur um. Það var stór og fallegur trjágarður fyrir framan húsið, og var vatn dálítið fyrir neðan. Mér fannst reglulega fallegt þarna. Allt í einu dettur mér í hug, hvort það væri ekki gaman að fara út á vatnið og róa. Vinkona mín féllst strax á það og við fengum leyfi hjá húsbóndanum. Síðan var farið af stað og Fína með okkur með köttinn sinn. Það var hennar mesta uppáhald og hafði hún hann með sér, hvert sem hún fór. Ég og vinkona mín rérum eins og herforingjar að okkur fannst, þó að við hefðum aldrei snert árar fyrr.
Allt í einu stekkur kisa upp úr keltu Fínu. „Kötturinn, kötturinn minn!“ hrópar Fína og dembir sér yfir okkur, og það munaði nú það mikið um hana, að bátnum hvolfdi með öllu, sem í honum var. Ég ætla ekki að fara að lýsa óhljóðunum í Fínu, en húsbóndinn hefur ugglaust heyrt í henni, því að hann kom hlaupandi á harða spretti niður að vatninu, þessi líka fitukubburinn. Sem betur fór kunni ég og vinkona mín að synda, svo að við gátum dröslað Fínu greyinu í land og hún var svo aðfram komin, þegar þangað kom, að hún hafði ekki rænu á að spyrja um köttinn.
Svona fór um sjóferð þá.

Birna Guðjónsdóttir, II. bekk.
— o —

Bernskuminning.

Í dag er sunnudagur, en hvað það er gaman. — Ég á að fara í nýjan kjól, sem mamma er nýbúin að sauma. Jæja, þarna kemur mamma með kjólinn, og hjálpar mér í hann og áminnir mig um leið að óhreinka mig nú ekki. Já, já, ég lofa öllu fögru. Ég skottast úti fram að hádegi, eða þangað til ég heyri mömmu kalla á mig til matar. Ég varð að gera svo vel að láta á mig svuntu, meðan ég var að borða, því að það getur hent allra bezta fólk að missa eitthvað ofan á sig. Nú er ég búin að borða, og ekkert illt hafði komið fyrir ennþá, kjóllinn alltaf jafn hreinn. En hvert átti ég nú að fara? Nú var komin rigning, svo að ekki var hægt að fara út í nýja kjólnum, og að fara úr honum, nei; það kom ekki til nokkurra mála. Já, hvert átti að fara? Þarna var stofuhurðin alveg galopin og svo tælandi, ætti ég að fara inn? Nei, það var ekki hægt, það var nýbúið að banna mér að fara þangað inn. En hvernig er það, er nokkur, sem sér til mín núna? Nei, engin sála var á ferðinni. Ég læðist inn og lít í kring um mig. Nei, en sú dýrð! Skrifstofuskápurinn hans pabba var opinn. Þarna voru blöð og blýantar og þarna var blek! Loksins fékk ég tækifæri til að skrifa með bleki. En með hverju átti ég að skrifa, hér var ekkert, sem líktist því, sem pabbi notaði, þegar hann skrifaði. Æ, hvað á ég nú að gera, hugsaði ég, því að ég vissi, að þetta var eina tækifærið til þess að fá að skrifa með bleki. Ég varð með einhverju móti að reyna að ná í sjálfblekunginn hans pabba, sem var í jakkavasanum hans. Ég sneri mér við, til þess að ganga út úr stofunni, en æ, nú fór illa, blekbyttan datt ofan í stólinn hennar mömmu og nú bunaði blekið úr henni. Ég flýtti mér að taka blekbyttuna upp og láta tappann í hana og stinga henni inn í skrifborðið. En hvað var þetta? Stór blekklessa var á stólnum hennar mömmu, og nú heyrði ég, að einhver var að koma. Ég flýtti mér að setjast í stólinn. Nú kom pabbi í dyrnar. Hann leit dálítið hvasst á mig og sagði síðan: „Var ekki búið að banna þér að vera hérna?“ „Jú,“ svaraði ég víst með skjálfandi röddu, því að hann blíðkaðist ögn og sagði mér að fara út og gera aldrei það, sem ég ætti ekki að gera. Ég sat kyrr eftir sem áður, því að ég vissi af klessunni í stólnum. Hjartað í mér stöðvaðist og það hljómaði sífellt fyrir eyrunum á mér: Klessan, klessan, en pabbi sá ekkert, fyrr en ég var að sleppa út úr dyrunum, en þá kom það. „Hvað er að sjá aftan á þig? þú ert öll blá?“ Hvað sagði hann? Var nýi kjóllinn minn orðinn blár að aftan? Ó, nú skildi ég, auðvitað hafði blekið komizt í nýja kjólinn, þegar ég settist í stólinn.
Ég rak upp hræðilegt öskur. Mamma og pabbi þutu til mín til þess að vita, hvað að mér gengi. Í fyrstu gat ég hvorki né þorði að segja neitt, en svo sá ég, að ég yrði að segja allt saman, hvernig svo sem viðtökurnar yrðu.
Þau sögðu ekki neitt, en gengu bæði að stólnum.
Ég rétt þorði að líta upp, en hvað var þetta? Pabbi var allur blár að aftan; en hann hafði nefnilega líka setzt í stólinn.

Ásdís Sveinsdóttir, III. bekk.
— o —

Lærið að synda.

Einn sinni voru tveir drengir, sem áttu heima í afskekktri sveit. Eldri drengurinn, 11 ára, hét Óli en sá yngri, 9 ára, Bjössi. Oft léku þeir sér saman og voru eins og góðir bræður.
Óli hafði farið í næsta kauptún við sveitina, og hafði lært þar að synda og var mjög hreykinn af. Hann stríddi oft Bjössa litla bróður sínum með því, að hann kynni ekki að synda, en Bjössi litli huggaði sig við það, að hann væri svo lítill, að það væri varla von. En hann hét því, að þegar hann yrði eins stór og Óli, skyldi hann læra að synda.
Stórt vatn var skammt frá heimili þeirra bræðra. Eitt sinn var faðir þeirra ekki heima. Hann þurfti að fara til kauptúnsins í ýmisskonar erindagerðum. Voru þá bræðurnir úti að leika sér. Mamma þeirra var að starfa við sín vanalegu eldhúsverk og sinnti þeim náttúrlega ekkert, vegna þess að þeir voru orðnir það stórir, að þess þurfti ekki með. Bræðurnir fóru þá inn í smiðju pabba síns og fundu þar gamlan og fúinn kassa, en þeir hugsuðu ekkert um það, bara eitt, og það var að komast út á vatnið og sigla.
Þeim tókst að ná í kassaræfilinn án þess að mamma þeirra yrði þess vör. Þeir tóku tunnustafi og höfðu þá fyrir árar. Vatnið, sem frá er sagt fyrr í sögunni, var nokkuð djúpt, er komið var frá bakkanum. Þeir settu nú, skipið á flot og fóru upp í og ýttu frá með tunnustöfunum. Dálítil alda var á vatninu og rak þá skjótt frá landi, en eftir nokkra stund vildi svo óheppilega til, að botninn seig úr kassanum og báðir drengirnir fóru í vatnið. Nú var gott að kunna svolítið að synda. Nú sá Óli ekki eftir því og þannig bjargaði hann bæði sér og bróður sínum. Hvernig hefði farið, ef Óli hefði ekki kunnað að synda? Hvernig haldið þið, að mömmu þeirra hefði orðið við? Hún vissi ekki annað, en að þeir væru úti að leika sér í góða veðrinu. Og pabbi þeirra, sem var í kauptúninu, það hefði verið köld heimkoma fyrir hann.
Það er þessvegna nauðsynlegt fyrir alla, eldri sem yngri, að læra að synda. Sumum finnst það óþarfi, en sú íþrótt getur alltaf komið að góðum notum, þegar minnst varir.

Jóna, 1. bekk.
— o —

Skiltið og hrafninn.

Það var árið 1931. Þá áttu foreldrar mínir heima í Stóru-Breiðuvík við Reyðarfjörð.
Eitt sinn fór pabbi út í Vöðlavík til að finna kunningja sinn. Sú leið er um 18 km. löng. Á leiðinni vildi honum það til, að hann týndi nafnskilti af frakkanum sínum. Ekkert er sögulegt við það, en dálítið sérkennilegt, hvar og hvernig skiltið fannst.
Það var hálfu öðru ári síðar, að menn okkur kunnugir unnu við vegalagningu uppi á svonefndri Vöðlavíkurheiði. Þar eru klettastallar. Eitt sinn lagði einn mannanna leið sína fram með einum klettastallinum, og sér hann þá, að glittir á eitthvað fagurt inni á smábergsyllu. Þetta reyndist vera frakkaskilti. Sér hann þá, að það eru upphafsstafir pabba á því og datt honum strax í hug, að hann ætti það, án þess að hann vissi, að pabbi hefði tapað skilti.
Nú er þyngsta gátan óráðin.
Hvernig hefir skiltið borizt alla þessa leið, neðan frá sjó — því að pabbi vissi nokkurnveginn, hvar hann hafði tapað því, — upp í klettana á heiðinni? Engar líkur þóttu til þess, að það hefði borizt þangað af mannavöldum.
Álitið var, að krummi hefði borið það í nefinu þessa leið. Það er vitað, að hann er mjög hrifinn af gljáandi munum.

Jóhann Ágústsson, I. bekk.
— o —

Minnisstæð vökunótt.

Börnin í Sauðholti í Holtunum voru fjórtán talsins. Það var eins þar og á öðrum bæjum, að vaka þurfti yfir túninu á vorin, því að það var ógirt eins og allsstaðar annarsstaðar. Í Sauðholti voru fjögur yngstu börnin látin vaka til skiptis, en aldrei fengu þau að vaka öll heldur tvö og tvö í einu.
Eitt sinn heyrðu þau, að verið var að tala um „skrímsli.“ Þetta „skrímsli“ átti að hafa gengið upp í Þjórsá þá um vorið. Heyrðu börnin það á samtalinu, að það væri svo grimmt, að það gleypti bæði menn og skepnur, ef það næði í það. Enginn hafði séð það, en sagt var, að það væri ákaflega stórt og það hefði svo stóran hala, að þegar það sló honum til gengu boðaföllin langt upp á bakkana.
Þegar börnin heyrðu þetta, urðu þau ákaflega hrædd, en þó sérstaklega fjögur þau yngstu. Þá um nóttina þorðu þau ekki að vaka ein, þau urðu að biðja pabba að lofa sér að vaka saman, en faðir þeirra var strangur við þau og ætlaði ekki að leyfa þeim það. En nú varð hann að láta í minni pokann fyrir börnum sínum. Þau linntu ekki látum, fyrr en hann gaf samþykki sitt. Þegar fólk var gengið til rekkju, fóru börnin saman út. Þau fóru inn í fjárhúsið, sem var á túninu og settust upp í jötuna. Öll voru að hugsa um skrímslið. Ef það kæmi nú, það væri hræðilegt. Þau máttu ekki heyra minnsta þrusk, svo hrædd voru þau um, að þar kæmi skrímslið. Þau þorðu naumast að fara út og reka úr túninu.
Nú fóru augnalokin að þyngjast.
Hvað var þetta, þarna kom skrímslið askvaðandi. Það var ægilegt á að líta. Það æddi í áttina til barnanna. Þau hentust upp úr jötunni út úr fjárhúsinu og hlupu allt hvað af tók, en það dugði ekki.
„Skrímslið“ hvæsti um leið og það þreif eitt barnið. Og nú vöknuðu þau öll samstundis og heyrðu, að faðir þeirra var að hóa úr túninu. Það var hóið í honum, sem börnunum fannst vera hvæsið í „skrímslinu“.
Það greip þau ótti, ekki við „skrímslið“ heldur við föður sinn. Hvað skyldi hann segja, sjálfsagt flengir hann okkur fyrir að sofna á verðinum.
Þau fóru út skjálfandi af hræðslu við, að nú mundu þau fá flengingu.
„Þið hefðuð átt að vera fimm,“ var það eina, sem hann sagði um leið og hann glotti.
En börnin fengu aldrei að vaka saman upp frá þessu, og þau sofnuðu heldur aldrei eftir þessa minnisstæðu nótt, sem átti að vera vökunótt. —

Kristín Ásmundsdóttir, II. bekk.
— o —

Vofan.

Komið var fram í janúar. Jörðin var hulin miklum snjó, er fallið hafði dagana áður.
Ég og Stebbi vinnumaður vorum nýkomnir frá fjárhúsunum kvöld nokkurt, þegar faðir minn sendi mig með bréf til Hávarðs bónda á Skeggjastöðum.
Ég bjó mig í skyndi, smurði skíðin og tók Kol með mér. Kolur var stór, skozkur hundur með mjög skarpa sjón og heyrn og gat rakið spor. Himinninn var heiðskír og dálítil gola blés úr suðri, er við lögðum af stað.
Nú segir ekki af ferð okkar, fyrr en við komum að klettum nokkrum, sem eru á miðri leið milli Skeggjastaða og Hóla, þar sem ég átti heima. Gjá var í klettunum, er við þurftum að fara um. Mér varð litið á Kol og sá, að hann stanzaði. Hár hans risu og hann gaf lágt ámátlegt ýlfur frá sér.
Mér varð það strax ljóst, að eitthvað hvítt, þokukennt í mannsmynd leið niður gjáarvegginn til okkar.
Kaldur hrollur fór um mig og hjartað barðist í brjósti mér. Ég get ekki lýst því með orðum, hvernig mér var innanbrjósts þessa stundina. Nú varð að duga eða drepast.
Ég spyrnti skíðastöfunum í jörðina og tók á af öllum kröftum. Bilið milli mín og vofunnar var um það bil 10 metrar. Því hraðar, sem ég fór, því hraðar fór vofan og bilið á milli okkar virtist vera það sama og í fyrstu.
Ég beit á jaxlinn og hét því, að ég skyldi sleppa undan djöfsa. Aldrei á minni lífstíð hefi ég farið eins hratt á skíðum og í þetta skipti. Nú nálgaðist hún mig æ meir og ég sá hana greinilega, klær voru á höndum og lófum og það stafaði frá hauskúpunni.
Ég beygði fyrir hæð nokkra, og er ég leit aftur, varð ég einskis var. Ég komst heilu og höldnu til Skeggjastaða og fékk þar góðar viðtökur. Ég sagði frá því, sem komið hafði fyrir mig, og spurði Hávarð út í það.
Eftir því, sem hann sagði mér, hafði einu sinni maður orðið úti við þessa kletta og gengið aftur. Ég gisti á Skeggjastöðum um nóttina, en daginn eftir fór ég heim og fylgdu mér tveir menn og gekk sú ferð vel. Ég sagði föður mínum og öðru heimafólki frá þessu og hrósaði hann mér fyrir snarræði mitt og dugnað.
Ég hefi oft farið þessa leið síðan, en einskis orðið var.

Vigfús Guðmundsson, II. bekk.
— o —

Atburðaríkur dagur.

Ólyginn sagði mér frá eftirfarandi atburðum, og skrifa ég þá eins og þeir festust mér í minni, en frásögnin hljóðaði á þessa leið:
„Í fyrravetur var ég í alþýðuskóla, þar sem heimavist var, og eins og oft vill verða, þar sem margt fólk er samvistum, var þar margt rætt, bæði satt og logið.
Eitt aðal umræðuefni okkar var hinn hræðilegi draugagangur, sem vera átti í skólanum. Það var margsannað, að svo var, eftir því sem sumir vildu halda fram, og átti hann sérstaklega að vera magnaður í stofu þeirri, er yngri deild var kennt í og saumastofu þar inni af, að ógleymdri sundlauginni, en þaðan áttu meðal annars að heyrast hljóð, er bentu til þess, að verið væri að stinga sér í vatnið, þótt vitað væri, að þar gat enginn verið. Ég var ein af þeim fáu, sem töluðu frekar á móti þessu, þar sem ég hafði aldrei orðið vör við neitt yfirnáttúrlegt. En svo var það dag einn, að atburður sá gerðist, er varð þess valdandi, að ég varð að trúa.
Við krakkarnir vorum látin hirða skólann að öllu leyti og var ræstingu hans skipt niður á okkur á þann hátt, að 7 manna flokkur sá um hana í einu.
Dag þann, er þetta gerðist, var það minn flokkur, sem leysa átti verkið af hendi. Ég tók mér því fötu í hönd og hugðist byrja. En þegar ég ætlaði að taka vatnið, var ekkert volgt vatn á efri hæðinni og því ekki um annað að gera en sækja það niður í sundlaug, og gerði ég það. En því er þannig háttað þar, að gegnt dyrum þeim, sem um er gengið, en hinum megin við laugina, eru aðrar dyr inn í sturtuklefa.
Ekkert ljós var í lauginni, aðeins í gangi fyrir framan, og lagði þaðan daufa skímu inn. Ég fer svo þarna inn og krýp niður á barm laugarinnar og eys upp í fötuna, og er að standa á fætur, en hvílík angist gagntekur mig ekki, þegar ég sé, að einhver ljósleit vera þokast hægt fram úr dyrum sturtuklefans og fram á gólfið. Ég verð magnlaus af hræðslu og rek upp angistaróp. En — það er sem hníf sé stungið í hjarta mér, þegar úr hinum enda laugarinnar kveður við álíka skelf­ingarfullt vein frá hinni dularfullu veru.
Ég missi fötuna og hún fellur með ónota skvampi niður í vatnið, og ég veit ekki enn þann dag í dag, hvaða kraftur varð þess valdandi, að ég komst fram á ganginn. En þar stóð ég þá augliti til auglitis við eina skólasystur mína, sem var í mjög svipuðu ásigkomulagi og ég, sem sagt náföl og titrandi frá hvirfli til ilja. „Varst það þú?“ stama ég út úr mér. „Já“, var svarið. Við tókumst í hendur og leiddumst upp í herbergi okkar. Seinna um kvöldið var mikið um þetta talað og mikið hlegið. Vildi ég nú halda því fram fastar en áður, að hinn svokallaði draugagangur ætti alltaf rót sína að rekja til veruleikans. Meðal þeirra, sem tóku þátt í gleðskap þessum, var einn strákur, en þar sem komið var fram yfir þann tíma, sem strákarnir máttu vera inni í herbergjum stúlkna, þá kom ekki lítið fát á okkur, er við heyrðum, að skólastjóri var að ganga á herbergin. Við gripum þá til þess neyðarúrræðis að drífa dreng bak við fatahengi, sem var í einu horni herbergisins. Það mátti heldur ekki tæpara standa, því að nú var knúið á dyrnar og skólastjóri birtist í gættinni og okkur til mikillar armæðu kemur hann inn. Svo fór hann að ganga um gólf og spjalla um alla heima og geima. En allt í einu staðnæmist hann fyrir framan fatahengið, snýr að vísu baki í það, tyllir sér á tær og hlammar sér því næst af voða afli niður á tærnar á vesalings drengnum okkar, og varð þess valdandi, að hann, sem átti sér einskis ills von, rak upp óttalega felmstfullan skræk. Hirði ég ekki um að skýra nánar frá afskiptum þeirra. Eitt er víst, að piltur var fljótur að komast út og ekki minnist ég þess, að hann hafi eftir það brotið skólareglurnar á þennan hátt.
Skömmu síðar gengum við til hvílu, en ekki höfðum við sofið lengi, þegar við vöknuðum við feiknalegan hávaða, sem kom frá neðri hæðinni, þar sem kennslustofurnar eru og heyrist okkur eins og hvað eftir annað sé staðið upp af stólunum í yngri deildarstofunni og ekki batnaði nú, þegar saumavélarnar fara allar af stað af fullum krafti. Við þjótum fram á gang og hittum þar stelpur af næstu herbergjum, sem höfðu heyrt hávaðann og ákváðum við svo nokkrar að fara niður og vita, hvað þessu muni valda. Alla leiðina niður heyrum við sömu lætin þar til við vorum komnar að dyrunum, þá dettir allt í dúnalogn.
Við áræðum að opna dyrnar og líta inn, en þar er ekkert að sjá, allt með sömu kjörum og kvöldið áður.
„Allt er þegar þrennt er,“ segir máltækið, enda kom ekki fleira markvert fyrir mig þann sólarhring. En síðan, er draugagangur er færður í tal við mig, reyni ég að beina umræðunum á aðra braut, því að ég veit, að það sem ég heyrði þetta kvöld, var ekki af mannavöldum, hvað sem það hefir verið.“
Þannig lauk sögumaður minn frásögn sinni og sel ég hana ekki dýrara en ég keypti.

Karólína Jónsdóttir, II. bekk.
— o —

Voðinn mesti.

Það var daginn fyrir „Þjóðhátíðina“. Ég gekk niður á bryggju til þess að sjá fólkið, sem var að koma með ‘Stokkseyrarbátnum‘. Á bryggjunni stóðu gömul hjón, sem ég þekkti mjög vel. Ég gekk til þeirra og fór að tala við þau. Þau kváðust vera að taka á móti syni sínum, sem þau hefðu ekki séð í þrjú ár. Loksins var hann að koma. En hvað þau hlökkuðu til. Þau voru í sínum beztu fötum og gleðin og eftirvæntingin skein af svip þeirra.
Hvað skeður?
Drengurinn þeirra kemur með þeim síðustu upp úr lestinni. Það verður að draga hann upp á bryggjuna eins og hvert annað slytti. Svo útúr drukkinn var hann.
Mér varð litið þangað, sem foreldrarnir stóðu, gamlir og niðurbeygðir við þessa sjón. Aldrei mun ég gleyma hinni átakanlegu og hryggilegu sjón, er ég sá tárin í augum móðurinnar og titringinn, sem fór um hinar breiðu herðar föðurins. Hvílík heimkoma! Gömlu hjónin bjuggust ekki við þessu, því að þau höfðu aldrei heyrt, að þessi elskaði sonur þeirra væri kominn á vald Bakkusi. Seinna frétti ég eftir móðurinni, að hún hefði heldur viljað taka á móti syni sínum liðnu líki, en að fá hann þannig heim.
Þessi sorglega saga er því miður alveg sönn. Við unga kynslóðin verðum að taka höndum saman og vernda okkur sjálf og aðra eftir megni fyrir ofurvaldi eiturlyfjanautnarinnar. Það er okkar helgasta skylda gagnvart okkur sjálfum, foreldrum okkar og íslenzka lýðveldinu.

M.Ó., III. b.
— o —

Ég minnist hryllingsins og viðbjóðsins, sem gagntók mig eitt sinn, er mér varð reikað til veitingatjalds „Þjóðhátíðarinnar“ eina nótt á þriðja tímanum. Þar gat að líta eitthvað það aumasta og mest niðurlægjandi á­stand, sem nokkur maður getur séð. Í einu horninu sat maður dauðadrukkinn og hélt á tómri flösku í hendinni. Við borðin sátu menn á stangli í svipuðu ástandi, lágu fram á hendur sér sofandi og ósjálfbjarga.
Aðrir, ekki alveg „dauðir“, voru að súpa dreggjarnar úr pelum sínum, hentu þeim síðan frá sér með blóti og formælingum og hófu „söng“ eða ráku upp öskur endur og eins til þess að lífga sig við.
Á miðju gólfinu og upp við eina tjaldsúluna hölluðust nokkir menn og héldu hver utan um annan sér til stuðnings og ráku upp ámátleg vein, sem átti víst að heita söngur. Út við dyrnar undir borði lá maður með kápu yfir sér. „Nei, hættu nú drengur!“ Ég var búinn að sjá nóg. Ég gekk út og fyrir eyrum mér hljómaði söngur þessara vesalings manna. Mér fannst ég vera við jarðarför og verið væri að grafa þessa menn. En hvað var nú þetta? Ég datt um eitthvað. Jú, ég hafði reikað í þessum hugsunum mínum inn á milli tjaldanna og hafði dottið um fætur manns, sem lá þarna úti á jörðinni meðal annarra. Ég gekk þangað, sem bifreiðarnar staðnæmast. Við og við mæti ég hópi af strákum, sem halda hver um herðar annars og slaga til og frá og há-„syngja“ eða orga. Ég mæti konu, sem er að bisa við að koma manni sínum heim í tjald eða hver veit hvert. Ég fór heim til að sofa. Fyrst lá ég lengi andvaka og hugsaði um allt böl áfengisins. Ég bað guð að varðveita mig frá þessari eymd. Út frá þeim hugsunum sofnaði ég.

Th.G., III. b.
— o —

Þegar „brennusöfnunin“ stendur hér yfir á haustin, kemur það oft fyrir, að unglingar og jafnvel börn neyta þá fyrsta vindlingsins til þess að sýnast meiri menn. Þetta hefi ég sjálfur horft á. Þetta er mjög varasamt fikt, því að oft vilja vindlingarnir verða fleiri, þegar þessir unglingar eldast og þá jafnvel að ástríðu, sem þeir ráða ekki við.
Hér í skólanum er starfandi bindindisfélag, sem allir nemendur eru í ásamt skólastjóra og kennara. Það er bindindismálum æskulýðsins hér ómetanleg hjálparhella og á skemmtunum skólans sést aldrei tóbak eða áfengi haft um hönd. Ég veit ekki betur, en að svo hafi það verið hér frá upphafi í þessum skóla. Betur, að það væri svo allsstaðar og í öllum skólum landsins.
Við hvað má líkja drukknum manni? Shakespeare svaraði því á eftirfarandi hátt: „Við drukknandi mann, við heimskingja, við vitfirring. Fyrsti sopinn gerir hann heimskingja, annar vitfirring og sá þriðji drekkir honum.“
„Hinn nýi tími krefst reglusemi,“ sagði Georg Brandes og það er satt.

Tr.Þ., III. b.
— o —

Margur æskumaðurinn gengur með þá grillu í höfðinu, að vegsauki sé að því að neyta tóbaks og áfengis. Það er skiljanlegt, að unglingana langi til þess að verða sem fyrst fullorðnir og sjálfum sér nógir. Og þess vegna kappkosta þeir eftir föngum að tileinka sér lifnaðarhætti fullorðna fólksins. Nú vill oft svo illa til, að fullorðna fólkið neytir bæði tóbaks og áfengis og gerir þá ekki ungmennið greinar mun á góðu og illu, réttu og röngu, heldur apar allt eftir þeim fullorðnu.

G.H., III. b.
— o —

Á undanförnum árum hefir meira verið rætt og ritað um áfengismálin, en flest önnur mál meðal okkar Íslendinga, og það alls ekki að ástæðulausu.
Ástandið í þessum efnum er sannast að segja hræðilegt, og höfum við Vestmannaeyingar ekki farið varhluta af því.
En hingað til hefir aðeins verið talað og skrifað, öllum ber saman um hættuna, en ekkert er framkvæmt.
Menn horfa á Bakkus leggja hvert heimilið af öðru í rústir, breyta efnilegum unglingum í lífsþreytta og vonsvikna vesalinga, en hví er ekkert að gert, til þess að létta oki hans af þjóðinni?
Hér í Vestmannaeyjum er ástandið í þessum málum svipað og annarsstaðar. Þess eru mörg dæmi, að unglingar á fermingaraldri neyti tóbaks, og ekki líður þá á löngu, áður en áfengið fylgir í kjölfarið.
Tóbakið er einskonar framvörður áfengisins, það veikir viðnámsþrótt mannsins gegn Bakkusi, ryður honum braut.
Það er staðreynd, að fáir dansleikir eru haldnir hér í Eyjum, svo að áfengið setji ekki sinn glögga svip þar á. Menn segjast ekki geta skemmt sér, nema undir áhrifum víns. Þetta er eitt hrópandi dæmi um ástandið, eins og það er nú.
Menn geta ekki skemmt sér, nema undir áhrifum eiturlyfs, sem sviptir þá ráði og rænu. Við Vestmannaeyingar og Íslendingar í heild höfum ekki efni á að fórna fleiri unglingum á altari vínguðsins. Það þarf að hefjast handa og það strax.
„Hvað á að gera?“ segja menn.
Fyrst og fremst þarf að skapa hér heilbrigt almenningsálit, sem ekki dæmir þá menn vitlausa ofstækismenn, sem beita sér gegn Bakkusi.
Og í öðru lagi þarf að stöðva áfengisflauminn í landinu, jafnvel þótt ríkissjóður verði að fórna þeim Júdasarpeningum, sem hann fær fyrir áfengissöluna. Hér dugar ekki innantómt orðagjálfur, hér verða verkin að tala.

E.V.B., III. b.
— o —

Það er hörmulegt til þess að vita, hvað tóbaks og áfengisneyzla hefur aukizt hér á landi á síðastliðnum árum, einkum meðal æskufólks.
Peningaflóðið, sem skapazt hefur á stríðsárunum, á tvímælalaust sinn þátt í því, sem orðið er.
Þegar allir hafa nóg af peningum, kemur einhver lausung á fólkið, mest á hina óhörðnuðu æsku, sem hefur ekki myndað sér neina fasta skoðun ennþá.
Sumir eru svo langt leiddir, að þeir geta ekki farið á dansleik eða þess háttar skemmtanir, nema vera undir áhrifum víns. Fyndist mér sjálfsagt að banna drukknum mönnum aðgang að slíkum skemmtunum. Eins geta stúlkurnar tekið sig saman um, að dansa ekki við mennina, ef þeir eru drukknir, og segja þeim bara hreinskilnislega ástæðuna fyrir því. Ég hugsa, að sumir yrðu sneyptir, þ.e.a.s. ef þeir eru ekki því einfaldari, ef hver stúlkan á fætur annarri neitaði þeim.
En því miður eru sumar stúlkur ekkert betri, svo að þeir geta alltaf að minnsta kosti skemmt sér með þeim. Samt sem áður hef ég heyrt einn ungan mann segja, að það þýddi ekkert fyrir sig að vera ölvaður á dansleikjum, vegna þess að stúlkurnar neituðu sér um dans í hrönnum eða skiluðu sér strax. Þarna er það eitthvað í áttina.
Um tóbaksneyzluna er það að segja, að hún er miklu almennari heldur en vínneyzla. Það er staðreynd, að reykingar og þessháttar eru fyrsta sporið í áttina til neyzlu áfengis.
Flestir, sem byrja að drekka, eru búnir að neyta tóbaks í lengri eða skemmri tíma. Nú er svo komið, að fjöldinn allur af ungum strákum eru svælandi allan daginn, sleppa ekki vindlingnum.
Oftast leiðast þeir út í þetta af einhverju fikti, eða að eldri strákar gefa þeim vindlinga, eða jafnvel vindla, því að þeim þykir auðvitað skemmtun í því að sjá þessa óvaninga vera að reykja. Sumir þeira yngri eru stöðugir fyrir í fyrstu, hafa lofað foreldrum sínum að snerta ekki vindling. En þá er það tíðast, að hinir eldri fara að hæða þá og spotta og segja: „En sá mömmudrengur, að láta karl og kerlingu ráða svona yfir sér, er það vesalingur.“ En það er einmitt þetta, sem fæstir standast, spott, háðung og hlátur hjá hinum eldri. Nei, þeir þola þetta ekki lengur. Það er nóg, byrjaðir að reykja.
Vonandi væri, að æskan tæki höndum saman og reyndi að efla bindindi sem mest hún mætti, og það getur hún, ef hver leggur sinn skerf fram. —

Svanh. Guðmundsd., III. b.
———————

GARÐAR S. (skoðar myndasafnið): Mamma, hversvegna er brúðurin hvítklædd? MAMMA: Af því að hún er glöð. Hvítt er merki gleðinnar, en svart táknar sorgina. GARÐAR S.: Já, nú skil ég, hversvegna brúðguminn er svartklæddur.

———————

GUNNAR (kemur skælandi inn til mömmu sinnar og kallar): Manma, mamma mín, hann Emmi sló mig. M.: Jæja, gjörði hann það? Og hversvegna það? GUNNAR: Ég ætlaði að gefa honum einn undir hökuna, en þá beygði hann sig snögglega, svo að hnefinn skall í vegginn.