Blik 1941, 1. tbl/Dulrænt fyrirbrigði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1941


Dulrœnt fyrirbrigði.


Að áliðnum vetri 1893 var Sigríður Ólafsdóttir, amma mín, að taka inn þvott um vökulokin. Veður var bjart og heiðskírt, og voru pollarnir á hlaðinu og í tröðinni lagðir þunnum ís, en jörðin þakin hvítu hrími. Það var mjög hljótt yfir öllu, en máninn silfraði láð og lög. —
Amma mín fór sér hægt að taka þvottinn niður af snúrunni, og dáðist með sjálfri sér að þessu fagra kveldi. Þegar hún hafði tekið þvottinn niður af snúrunni, gekk hún heim hlaðið, en þangað lágu traðirnar. Þá heyrir hún glammra í skaflajárnum hesta í tröðunum og heyrir glöggt, hvernig ísinn brotnaði undan hófum þeirra og heyrði snöggan andardrátt margra hesta, eins og hestarnir væru móðir eftir harða reið. Hún sá samt engan hestinn, en rétt í þessu stanza hestarnir og það er engu líkara en stigið sé af baki þeirra, og fótatak tveggja manna heyrir hún glöggt. Það er eins og mennirnir gangi rakleitt til hennar, og þó sér hún engan mann, en hún fann allt í einu andardrátt þessara ósýnilegu gesta á andliti sínu. Amma stóð kyrr í sömu sporum og athugaði allt mjög rólega, en þegar hún fann andardrátt þessara ósýnilegu gesta á andliti sínu, greip hana snöggleg hræðsla og hún hljóp inn í baðstofuna. Varð henni svo mikið um þetta, sem fyrir hafði borið, að hún varð hvít sem nár, en jafnaði sig þó aftur. Er heimilisfólkið spurði hana, hvað fyrir hafði borið, sagði hún allt sem var.
Eftir rúmlega eina klukkustund komu tveir gestir og báðust gistingar. Það voru bændur frá Hvammi í Mýrdalnum og ætluðu til sjóróðra í Vestmannaeyjum. Þeir höfðu nokkuð marga hesta undir farmi sínum. Nú ætluðu þeir að bíða eftir leiði út af söndunum og var útlitið mjög gott, ef sama veður héldist.
Morguninn eftir vöknuðu gestirnir snemma og bjuggu sig til ferða, og þótti nú líklegt, að þeir kæmust þennan dag út af Landeyjasandi, því bátar biðu þar eftir leiði til Vestmannaeyja.
Amma mín lagði mjög fast að gestunum að fara ekki þennan dag fram í Landeyjar, en taka heldur bátsferð frá Stokkseyri eða Eyrarbakka eins og þeir höfðu ráðgert, áður en þeir fóru að heiman frá sér. En það kom ekki til nokkurra mála að þeir vildu sinna aðvörunum ömmu minnar, hvað fast sem hún lagði að þeim. Það þóttist amma vita, að þeir myndu feigir vera.
Þennan dag lögðu bátar út frá Landeyjasandi og fórst einn báturinn með allri áhöfn, og á þeim bát voru bændurnir frá Hvammi.

Bólstaðarhlíð í Ve.
Sigríður Björnsdóttir
(1. b.).


————————
Ábyrg ritstjórn
Stjórn Málfundafélags Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum.
STEINDÓRSPRENT H.F.