Blik 1939, 6. tbl./Erfið kaupstaðarferð.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Erfið kaupstaðarferð.


Um 1870 var það í fyrstu viku vetrar, að tvö áraskip fóru úr Austur-Landeyjum til Vestmannaeyja. Var ferð þessi gerð til þess að sækja til Eyjanna ýmsan búðarvarning til vetrarins, því að í aðra kaupstaði var bæði löng leið og vegleysur með óbrúuðum stórám. Var varla gerlegt að láta hesta synda yfir þær, þegar vetur var kominn. Þessi tvö skip komust með góðu móti til Eyja. Þegar svo átti að fara af stað til landsins, var komið brim við sandinn, svo að hætta varð við ferðina. Var því ekki um annað að gera fyrir þessa menn, sem á skipunum voru, (yfir 20 menn) en að koma sér fyrir á bæjum hér í Eyjum, þar til leiði kæmi til landsins. Það var nú ekki neinn hægðarleikur, því að á þeim tíma var hér fátt um húsakynni, sem hægt væri að hýsa gesti í yfir vetrartíma. Svo voru og litlar matarbirgðir yfirleitt hér. Vegna þess að tíðarfar var svo slæmt, var ekki hægt að róa til fiskjar og því síður að landleiði væri. Fór því að verða þröngt í búi hjá sumum og voru þá nokkrir af þessum mönnum sendir upp í fjöllin hér til þess að grafa upp hvannarætur til matardrýginda. Fólkið í Eyjum efndi til samskota til þess að gefa þessum gestum sínum sameiginlega kaffi um jólin. En aldrei ætlaði að koma leiði. Á þorranum gerði svo norðan storm í marga daga og dó þá sjórinn við sandinn. Þessir ferðamenn voru þá búnir að vera hér í 16 vikur, gátu þeir nú ekki beðið lengur eftir því, að það lygndi, svo að þeir gætu róið beint upp í Landeyjasand. Tóku þeir því það fyrir að sigla með hálffermi upp undir Eyjafjöll og lentu þar með góðu móti. Komust þeir upp til bæja þá um kvöldið og gistu þar. Morguninn eftir var komið logn og dauður sjór svo hægt hefði verið að róa skipunum vestur með sandinum til Landeyja. En menn þessir voru orðnir svo hrekkjaðir á duttlungum veðráttunnar, að þeir vildu heldur skilja skipin eftir og flutning, en að fara aftur á sjó. Tóku þeir því það ráð að ganga vestur í Landeyjar. Talsverður snjór var á jörðu og tók það allan þann dag fyrir þá að komast að Hólmum í Landeyjum. Markarfljót, sem var á leiðinni, rann á milli skara og var því mjög torvelt að komast yfir það, einnig þar sem þeir voru lítt færir um það, vegna þess hve velktir þeir voru af ferðalaginu. En yfir það komust þeir samt. Þegar að Hólmum kom, var þeim tekið með mestu rausn, því að þeir þóttu úr helju heimtir. Allan þennan tíma (16 vikur) var enginn ferð frá Eyjum til lands, og þá var ekki kominn sími, svo að yfirleitt héldu menn í Landeyjum þá ekki lifandi. Einnig styrktist sú trú, þegar þeir komu ekki á skipum sínum þennan dag, en blíðu veður var og leiði. Seinna sóttu þeir skipin. Svona kaupstaðarferð myndi þykja erfið núna, þegar segja má, að hægt sé að komast til þessa sama staðar á nokkrum mínútum.
Föðurafi minn var í þessari ferð og er þetta ritað eftir því, sem hann sagði söguna föður mínum.

Lilja Guðmundsdóttir,
3. bekk.