Blik 1939, 6. tbl./Æskuárin eiga að vera leiðarljós lífstíðar þinnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Æskuárin eiga að vera leiðarljós lífstíðar þinnar.

Ef þú, æskumaður, færð þau orð mótuð í hugsun þína, þá munt þú nota æskuárin þér til þekkingar og lærdóms, og þá munt þú ef til vill eiga fagran framtíðarveg framundan. Í æsku skal veginn velja, veginn til þekkingar og lærdóms, þá munt þú ekki fara villur vegar, ef þú gerir það. Allir menn eru neyddir til þess að velja og hafna, þegar út í lífið kemur. Spurningin er, hvað á ég að velja og hverju á ég að hafna. Ef þú æskumaður hefir notað æskuárin þér til þekkingar og lærdóms, þá munt þú ef til vill fremur vita deili þessara spurninga, heldur en ella hefði verið. Æskuárin eru tímabil margvíslegra ákvarðana. Það er einmitt á þeim árum, sem maður velur sér æfistarf, vini og lífsförunaut og þá ákveður maðurinn að mestu leyti líf sitt og lífsvenjur. Sért þú búinn undir æfistarf þitt, þá muntu taka réttar ákvarðanir, sem verða þér til góðs en eigi ills. Lífið er enginn leikur; lífið er barátta. Ef þú æskumaður ert búinn undir þá baráttu, þá munt þú líka beita sverði þínu rétt og þá munt þú sigra í baráttu lífsins og verða gæfumaður. En til þess að ná því takmarki, þarf fyrst og fremst vilja, dugnað og skapfestu. „Gakk þú fram, æskumaður, en hopa þú eigi.“ Það er markmið hugsjónarinnar, þeirrar hugsjónar, að verða nýtur maður í sínu þjóðfélagi, og um leið þjóð sinni og sjálfum sér til sóma. Það er það veigamesta, að þú notir æskuárin, því þau eru undirbúningurinn undir allt þetta. Hafðu ætíð hugfast, æskumaður, að nota æskuárin þér til þekkingar og lærdóms. „Nýtur sá, er nemur.“ Það mun sannast, er út í lífið kemur, þá munt þú neyta ávaxtanna af þeim trjám, sem þú gróðursettir í æsku og þá hefir þú fundið óskasteininn.

Nemandi í 3. bekk.