Blik 1939, 5. tbl./Starfið er margt

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Starfið er margt.
——————

Æskan, sem landið skal erfa, hefir á ýmsan hátt hlotið dýrar gjafir og hagnýtan undirbúning undir baráttu lífsins. En það má æskunni vera ljóst, að þeim mun starfshæfari, sem hún má teljast, þeim mun meiri kröfur verða til hennar gerðar. — Framtíðarhlutverk hennar er vandasamt og hæfir aðeins dáðríkri, þróttugri kynslóð.
Mestar kröfur verða gerðar þeim hluta æskunnar, sem hlotið hefir gæði menntunar og fróðleiks, — skólaæskunnar á Íslandi, því til hennar hefir mest verið vandað af þjóðfélaginu, og undirbúningur hennar hlýtur að teljast beztur, henni ber að mynda forystu og fylkingarbrjóst. Sú skoðun hefir farið vaxandi í íslenzkum skólum hin síðari ár að leggja beri sterka áherzlu á, að sameina sem bezt hið verklega og bóklega nám, og skapa þannig hæfari menn fyrir athafnalíf þjóðarinnar, með því að sameina starf huga og handar sem bezt.
Þegar ég lít yfir námsár mín við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum, vakna í huga mínum margar bjartar minningar frá samverustundum í jafningahópi við störf og leiki.
Mér er ljóst hið mikla gildi námsins og þekkingarinnar, er við höfum hlotið, en mest um vert tel ég samt þá áherzlu, sem þar hefir jafnan verið lögð á nauðsyn hins verklega náms og hlutverk hinna vinnandi handa, af skólastjóra og kennurum skólans. Þar hefir sú skoðun verið túlkuð, að þeir, sem hagnýta sér með erfiðu, fórnfúsu starfi auðæfi hafsins, frjómagn íslenzkrar gróðurmoldar og önnur náttúrugræði landsins, séu þýðingarmestu þegnar þjóðfélagsins.
Slíkar skoðanir hafa meiri og betri áhrif á íslenzka æsku, og meira gildi fyrir land og lýð, en þekking á flestum öðrum hlutum, því raunhæfni boðskaparins um gildi vinnunnar er einmitt grundvöllur undir afkomu og tilveru hinnar íslenzku þjóðar. Og ég er eindregið þeirrar skoðunar, að sá bezti undirbúningur, sem æskan gæti hlotið, sé hagnýtt, bóklegt nám og túlkun slíks boðskapar.
Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum kemur öllum nemendum sínum til nokkurs þroska, veitir þeim, skapar hjá þeim áhuga fyrir hinum verklegu störfum, skapar þeim mótstöðuorku gegn eiturlyfjanautnum, og gerir þá að starfshæfum þjóðfélagsþegnum, — þessvegna er Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum orkugjafi æskulýðsins og óskabarn bæjarfélagsins.
Við, sem hverfum nú í starf og baráttu lífsins að loknu námi, munum alltaf bera hlýjan þakkarhug til skólans okkar, og óskum þess, að sem flestir megi verða gæða hans og gjafa aðnjótandi í framtíðinni.
Okkur er það ljóst, að landið okkar er gott land, og að okkar hlutverk er að bæta það og fegra. Við eigum að vera samtaka og samhuga um að bera nafn þess, orðstír og hróður lengra fram á leið, lifa og starfa í samræmi við orð skáldsins:

„Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið,
boðorðið, hvar sem þér í fylking standið,
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið;
það er að elska, byggja og treysta á landið.“

Það er von mín og bjargföst trú, að okkur megi öllum takast að verða skólanum okkar og sjálfum okkur samkvæm og trú, — verða góðir Íslendingar.

H. S.