Blik 1938, 3. tbl./St. Bára nr. 2 fimmtug

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1938


Séra Jes A. Gíslason:

St.  »Bára«  nr. 2 fimmtug.

Það, sem hér er skráð, er dregið saman úr ræðu æðsta templars stúkunnar „Báru“ nr. 2, séra Jes A. Gíslasonar, er hann flutti á fimmtíu ára minningarhátíð stúkunnar, 24. september s.l. (Þ.Þ.V.)

Stúkan „Bára“ nr. 2 var fimmtug 1. ágúst s.l. Hún er stofnuð 1. ágúst 1888. Stofnandi hennar er talinn vera Magnús Pétursson prentari, meðlimur stúkunnar „Einingin“ nr. 14 í Reykjavík. Gísli Lárusson undirbjó stofnunina.
Hinn mæti sóknarprestur Eyjanna, síra Brynjólfur Jónsson, hafði beitt sér fyrir stofnun bindindisfélags hér í Eyjum og var það stofnað 1862 (sumir segja 1864). Hann var forstöðumaður þess í 22 ár eða til dauðadags — 1884. Þá telst svo til, að helmingur allra unglinga hér væri í bindindi. Þannig var jarðvegurinn undirbúinn.
Fyrstu tvö árin hélt stúkan fundi í barnaskólahúsi þorpsins, Dvergasteini. Þann 14. sept. 1890 afræður stúkan að byggja hús, og 30. nóv. sama ár var flutt í húsið. Við það tækifæri mættu allir meðlimir stúkunnar, 45 að tölu, auk fjölda boðsgesta.
Húsið kostaði kr. 880.00 og var meira byggt af vilja en mætti, enda einfaldur timburhjallur ofnlaus. Árið 1901 var húsið mikið endurbætt, en engin ráð voru til að kaupa ofn í það fyr en árið 1907. Þó hafði stúkan eignast hljóðfæri — orgel — 1906. Áður hafði hún haft orgel að láni.
Snemma kom sú hugsun fram í stúkunni að koma á fót líknarstarfsemi til aðstoðar sjúkum meðlimum. Var sú hjálp aðallega í því fólgin að vaka yfir sjúkum meðlimum. Þessa var brýn þörf, þar sem hér voru hvorki sjúkrahús né konur, sem lært höfðu hjúkrun.
Í sambandi við þessa líknarstarfsemi komu fram raddir um það að stofna sjúkrasjóð. Þessu var fyrst hreyft á fundi stúkunnar 21. jan. 1905. Árið eftir (1906) 18. febr. var samþykkt að stofna sjóðinn.
Hafði þá verið undirbúin stofnun hans. Ársfjórðungstillög í sjóðinn voru af karlmönnum fullra 18 ára 10 aurar og 5 aurar af kvenfólki og unglingum. Einnig var sjóðurinn efldur með hlutaveltu og gjöfum. Margur félagi stúkunnar hefir notið styrktar úr sjóði þessum, og sá styrkur oft bætt úr brýnustu þörf og létt sárustu neyð.
Snemma urðu meðlimir stúkunnar þess varir, að þörf mundi þess að auka menningu stúkufélaganna á ýmsan veg. Hún reyndist mjög misjöfn og jafnvel lítil eða engin hjá sumum. Frá öndverðu átti stúkan ýmsum ágætum mönnum á að skipa, sem voru þess megnugir að veita fræðslu á ýmsu sviði. Menningarskortur hér meðal almennings hefir að ýmsu leyti verið sorglegur og nær því óskiljanlegur frá sjónarmiði nútíðarmanna, en tíminn er líka langur, 50 ár, og margt verið gert til að bæta úr þeim skorti á þeim áratugum. Það kemur t.d. fram í fundargerðum stúkunnar, að sumir hafa setið á fundum stúkunnar með höfuðföt sín á höfðinu og jafnvel ekki tekið ofan, þegar bæn var lesin eða söngvar sungnir. Er frá þessu skýrt í fundargerð frá 3. febr. 1896, og þess getið, að einn af forvígismönnum stúkunnar hafi vítt þetta framferði, og er jafnframt tekið fram, að aðfinnslu þessari hafi verið vel tekið og hún borið tilætlaðan árangur. Einnig sést það á fundargerð frá 23. des. 1906, að tillaga hefir komið fram þess efnis, að reykingar væri bannaðar, meðan á fundi stæði, og var hún samþykkt. Til þess að ráða að einhverju leyti bót á þesskonar menningarskorti o.fl., beittu nokkrir áhugasamir meðlimir sér fyrir því, að koma á fót fræðslu í stúkunni, sem m.a. væri í því fólgin að veita ókeypis tilsögn í skrift, réttritun og reikningi. Aðeins einn meðlimur vildi þiggja þessa tilsögn, og þar með var þessi nytsama fræðslustarfsemi eða tilraun til að fræða og manna félagana úr sögunni.
Það, sem hlýtur að vera eitt aðaláhugamál hverrar stúku, er það að fá sem flesta og besta félaga. Á þetta virtist stúkan á fyrstu árum sínum leggja allmikið kapp og nota til þess ýmis meðöl, t.d. gera fundina skemmtilega og leyfa skemmtanir að loknum fundum. Þessar skemmtanir náðu ekki tilganginum nema um stundarsakir. Almennir útbreiðslufundir stúkunnar reyndust aftur mun happadrýgri.
Á fyrstu árum stúkunnar ríkti sú skoðun hjá karlmönnunum, að kvenfólk hefði ekkert í stúkuna að gera, og gæti það jafnvel orðið til þess, að þeir fengju óorð af kvenfólkinu, ef það sæti með þeim stundum saman á fundum í leynifélögum. Þó voru um þetta skiptar skoðanir. Nokkrar konur fengu inngöngu í stúkuna á árunum 1891—1898, en þá var aðeins ein kona eftir í stúkunni. En úr því fór þetta að breytast, og eftir því sem frá leið og skilningur karlmanna á starfi og þrautseigju kvenna fór vaxandi, þá urðu leikslokin þau, að tala systra í stúkunni hin síðari árin hefir stundum verið hærri en bræðranna, t.d. árið 1927. Þá er tala systra í „Báru“ 157 en bræðra 138.
Veturinn 1896 hafði ýmislegt farið í ólestri innan stúkunnar. Voru svo mikil brögð að ýmsum misfellum í þá átt, að ýmsir bestu menn stúkunnar virtust vera að gefast upp. Það komst svo langt, að tillaga kom fram á fundi stúkunnar þann 10. maí 1896 í þá átt, hvort ekki mundi réttast að leggja stúkuna niður og skila stofnskránni. — En þá stóð upp góður og gildur félagi, Gísli Lárusson, og kvaðst algerlega mótfallinn slíkri breytni og sagðist ófáanlegur til að skila stofnskránni, meðan í stúkunni fyndust 10 góðir félagar. Var því horfið frá þessari neyðarráðstöfun.
— — —
Við búum hér úti í hafi, og stúkan okkar „Bára“ hefir verið hér sem bátur á bárum hafs, og orðið að þola bæði mótbyr og hrakninga, svo að bárurnar, sem stundum vögguðu henni svo blíðlega og rólega, hafa stundum ýfst og reist sig svo, að úr þeim hafa orðið geigvænlegar holskeflur, sem ógnað hafa bátnum og sýnt honum í tvo heimana. Skipshafnirnar, sem oft er búið að skipta um á þessum árum, hafa oft skelfst og hlaupið af skipinu, svo að stundum hefir varla verið nóg undir árar. En er veðrinu lægði og sólin tók aftur að skína, þá urðu hásetarnir stundum svo margir, að hvert sæti var skipað. Þannig hefir siglingin gengið hjá „Báru,“ það sem af er leiðinni.
Þegar reglan hér á landi var fjölmennust, árin 1927 og 1928, — en þá taldi reglan 11000 félagsbundna meðlimi, þá voru hér í Eyjum 1100 félagsbundnir meðlimir, þar af í „Báru“ 375. Hér var því sem næst þriðji hver íbúi Good-Templari, en á landinu var þá sem næst 10. hver maður Templari. Við getum því hrósað okkur af þeirri staðreynd, að um eitt skeið voru í Vestmannaeyjum langflestir Templarar á landinu hlutfallslega við íbúatölu Eyjanna, og ef til vill hlutfallslega fleiri hér en nokkurs staðar annars staðar um víða veröld.

Jes A. Gíslason.