Blik 1938, 1. tbl./Haltu þér starfshæfum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1938


Þorsteinn Einarsson, kennari:



HALTU ÞÉR STARFSHÆFUM.


Það er haft eftir einu mikilmenni heimsins, að áfengið væri líkama mannsins eins og sandurinn væri ganghlutum vélarinnar, ef hann kæmist inn í legur hennar. Í daglegu lífi verður oss oft á að nota vélina sem dæmi upp á líkamsstarfsemi okkar, þó að vér að vísu margir meðhöndlum hana daglega, þá ætti líkaminn sjálfur, sem við hrærumst í, ekki að þurfa neinna dæma við. En svo er nú samt, að athyglinni er hjá fjöldanum oft meira beint að því vélræna en hinu líkamlega og að því, sem er utan við hann fremur en að því, sem gerist innan hans. Margur þekkir vélar betur en sinn eiginn líkama, og hvað þeim er fyrir bestu, fremur en líkamanum.
Eftir Masarik fyrsta forseta Tjekkoslóvakiu eru þessi orð höfð, er hann var spurður að, hvað hefði gefið honum allt þetta þrek og lífsfjör, til þess að berjast fyrir frelsi og viðurkenningu lands síns fram á gamals aldur og halda samt, þrátt fyri erfið­leika og andstreymi, líkams- og sálar kröftum. „Ég bragðaði aldrei áfengi, borðaði aldrei yfir mig og tók mínar æfingar eða göngur á hverjum degi og hafði alltaf nóg að starfa!“
Þetta voru þau meðöl, sem gerðu líkama þessa stórmennis færan til þess að lyfta „Grettistaki“. Frá syni fátæks ökumanns í hrörlegu sveitabýli upp í forseta ríkis, sem hann hafði að miklu leyti skapað, hóf hann sig.
Bæði íþróttahreyfingin, bindindishreyfingin og skátahreyfingin eru aðeins eign síðasta mannsaldurs.
Nú eru þeir menn að verða aldraðir, sem hrifust með út í þessar stefnur sem unglingar. Sérstaklega er þessara áhrifa að gæta á Englandi. Í mörgum enskum blöðum eru birtar myndir af mönnum og konum, sem mikið er talað um á Englandi. Undir hverri mynd eru höfuðatriði æfi þeirra, svo sem lærdómur, störf, og metorð en aldrei gleyma þeir að draga það fram, sé hann íþróttamaður og geta þeirra íþrótta sem viðeigandi sérstaklega leggi stund á. En orðið íþróttamaður er víðtækara orð á Englandi en hér. Merking orðsins kemur best fram í hinu alþekkta enska orðtæki „Keep fit“ sem á íslensku myndi hljóða „Haltu þér (starfs)hæfum.“
Eins og sjá má er ekki aðeins sá kallaður íþróttamaður, sem kastar eða stekkur lengst, hleypur eða syndir harðast, setur flest mörkin eða metin, heldur sá, sem veitir líkama sínum hina nauðsynlegu hreyfingu og kemur þar með á stað meiri innri líkamsstarfsemi, sem svo aftur veldur auknu þreki, þoli og lífsfjöri. Ensk blöð birta því oftsinnis myndir og skrifa kjarnyrtar greinar til þess að festa þetta ofangreinda orðatiltæki í hugum manna og sýna og draga fram dæmi í orðum og myndum, hvernig best verði varðveittur þessi dýrmæti líkami svo orka hans — lífsorkan — best fái notið sín. Haltu þér starfshæfum með því fyrst og fremst að snerta engin nautnameðul og láta líkama þínum í té nóga frjálsa hreyfingu undir berum himni.




ctr