Blik 1938, 1. tbl./Húsbyggingarmál Gagnfræðaskólans

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1938


HÚSBYGGYNGARMÁL GAGNFRÆÐASKÓLANS.

Við Eyjabúar viljum í engu standa að baki öðrum landsmönnum.
Sjómennirnir hér eru viðurkenndir fyrir dugnað og sjósækni.
Eyjabúar hafa á síðustu árum getið sér góðan orðstír fyrir framtak og áhuga í ræktunarmálunum.
Ýmis fyrirtæki eru stofnuð og starfrækt hér, sem vekja athygli annarra landsmanna og vitna um hyggindi og framsýni forráðamannanna.
Æskulýður Eyjanna hefir marga mæta kosti til brunns að bera. Ýmislegt vitnar um táp hans og framtakssemi. Má þar t.d. nefna íþróttastarfsemina. Einnig má fullyrða, að hann sé vinnugefinn; — og námshvöt hans fer vaxandi.
Eyjabúar hafa byggt barnaskólahús, sem ekki stendur að baki öðrum slíkum skólahúsum, sem byggð voru á svipuðum tíma.
Nú á síðustu tímum hefir vaknað hér áhugi fyrir framtíð unglingafræðslunnar. Allir stjórnmálaflokkarnir í bænum virðast á eitt sáttir um það, að nauðsynlegt sé að hlynna að gagnfræðaskóla kaupstaðarins og byggja yfir hann. Á engan annan hátt yrði honum betur sköpuð vaxtarskilyrði.
Þau þrjú ár, sem við höfum starfað við bætt húsakynni, hefir nemendafjöldinn nálega tvöfaldast.
Nú viljum við kennarar og nemendur í gagnfræðaskólanum taka höndum saman og hefja fjársöfnun í byggingarsjóð skólans. Auðvitað verðum við þar fyrst og fremst að treysta á góðvilja og getu bæjarbúa sjálfra. Okkur er það ljóst, að hið síðara er mjög undir vertíðinni komið. Við vonum, að hún gefi áður en lýkur, mikið í aðra hönd og úr öllu megi rætast hið besta.
Við stofnum nú til happdrættis fyrir byggingarsjóðinn, og treystum því, að hver fjölskylda í bænum vilji leggja í hættu svo sem þrjár krónur, þ.e. kaupa þrjá happdrættismiða í þeirri von að hreppa happ, en annars og fyrst og fremst í meðvitund um það að styðja gott og gagnlegt málefni, sem varðar fram­tíðarheill æskulýðsins hér og alls almennings. Þess vegna eiga hér allir óskiptan hug um þetta mál.
Hugsjón okkar með þessari fjársöfnun er sú að verða þess megnug að geta lagt „hornsteininn“ að skólabyggingu, þar sem ekki aðeins fyrirsjáanlegri húsnæðisþörf gagnfræðaskólans væri fullnægt, heldur einnig húsmæðraskóla Vestmannaeyja, sem væntanlega verður stofnaður áður en mjög langt líður, því að þess er mikil þörf, bókasafni bæjarins og jafnvel fleiri menningarstofnunum Eyjabúa.
Að vísu verður sú bygging dýr, en ef við leggjumst öll á eitt, megnum við mikils.
Vinsamlegast mætti minna utansveitarmennina á það, að þær eru ekki fáar krónurnar, sem síðasta aldarfjórðunginn hafa runnið til annarra sveita héðan frá Vestmannaeyjum. Það væri því drengilega gert og vel hugsað af aðkomumönnum, sem nú hafa atvinnu hér, ef hver þeirra gerði sér að skyldu að kaupa svo sem tvo happdrættismiða byggingarsjóðsins áður en lýkur.
Happdrættismiðarnir verða til sölu í bókabúð hr. Þorsteins Johnson og víðar.
Það er ákveðið, að þeir þrír, sem flesta happdrættismiða selja, fái að ferðast ókeypis með nemendum gagnfræðaskólans upp í sveit næsta sumar. Þó kemur enginn miðasali til greina, fyr en hann hefir selt 50 miða.
Margt smátt gerir eitt stórt. Samtökin flytja fjöll.

Þorsteinn Þ. Víglundsson.