Blik 1937, 3. tbl./Þess skal getið, sem vel er gert

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937



ÞESS SKAL GETIÐ, SEM VEL ER GERT

Veturinn 1936 hófu nemendur gagnfræðaskólans hér að safna fé fyrir farartæki handa Kristni StefánssyniKalmanstjörn. Eyjabúar brugðust vel við þessu drengilega framtaki nemendanna og sýndu hinum lamaða pilti samúð sína í verkinu með því þá að gefa kr. 370,00 upp í verð hins væntanlega farartækis.
Það kom brátt í ljós við nánari athugun, að farartæki handa Kristni þurfti að vera rafknúið ef að fullu gagni ætti að koma, vegna þess hve lamaður hann er og vegir brattir hér í Eyjum.
Nú er farartækið fengið og kostar samtals rúmar kr. 2100,00. Helstu kostnaðarliðirnir eru í heilum krónum þessir:

Tækið sjálft í Þýskalandi kr. 1652,00
Tollar til ríkisins — 354,00
Flutningsgjald og fleira — 102,00
Samtals kr. 2108,00
Féð hefir fengist á þennan hátt:
Almenn samskot 1936 kr. 370,00
G.Ó. & Co. gefið
sem svarar
flutningsgj. o.fl.
— 102,00
Ríkisstjórnin
endurgreitt toll
— 294,00
Líftryggingafélagið
„Andvaka“
(gamalt loforð)
— 150,00
Ríkisstyrkur
samkv. lögum
um sjúka menn
og örkumla
— 847,00
Tekjur samtals kr.1763,00

Það sem á vantar til þess að geta greitt tækið að fullu er þegar fengið með almennum samskotum nú í nóvember, og munum við gera nákvæma grein fyrir því fé síðar, því að söfnun er enn ekki að fullu lokið.
Hér hafa margir lagt hönd á plóginn; fyrst og fremst allur sá fjöldi Eyjabúa, sem lagt hefur fé af mörkum við hin almennu samskot. Þá hafa margir nemendur gagnfræðaskólans með ánægju og einbeitni fórnað tíma og vinnu frá námi sínu til þess að hjálpa jafnaldra, sem ekki fær að ganga heill til leiks eins og þeir.
Hr. Einar Guttormsson læknir pantaði farartækið og greiddi götu málsins á marga vegu.
Hr. Jóhannes Sigfússon lyfsali gerðist ábyrgur fyrir verði tækisins gagnvart verksmiðjunni og greiddi úr eigin vasa til bráðabirgða um kr. 1200,00 til þess að fullnægja kröfum, þá fé skorti. Á ýmsa lund aðra hefir hann lagt málinu lið.
Þá efndi „Andvaka“ gamalt loforð um styrk til handa Kristni, yrði honum keypt farartæki.
Síðast en ekki síst hefir hr. Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður unnið mikið og vel til þess að hægt yrði að standa fjárhagslegan straum af tækinu. Stærsti tekjuliðurinn, kr. 847,00, er fenginn fyrir atbeina hans og elju.
Að lokum hefir hr. Haraldur Eiríksson rafvirki heitið okkur hjálp sinni um það að kenna Kristni að nota tækið.
Öllum almenningi og þessum einstaklingum þökkum við alúðlega þessa miklu hjálp og samúð með þessari hugsjón okkar. Hér hefir sannast sem oftar, að margar hendur vinna létt verk, og mikið mætti gera fyrir almenn velferðarmál, ef allir legðust á eitt með jafn ljúfum huga og góðum, sem þeim, er ráðið hefir í þessu máli.

Ve. 17. nóv. 1937.
f.h. Gagnfræðask. í Vestm.eyjum
Þorsteinn Þ. Víglundsson.