Blik 1936, 3. tbl./Hið undurfagra málverk

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1936

HIÐ UNDURFAGRA MÁLVERK


EINU sinni var konungur, sem bjó í gamalli og skuggalegri höll. Stór og fagur skrúðgarður var umhverfis höllina. Víðsvegar í garðinum uxu undurfagrar blómabreiður. Geislar sólarinnar gylltu blómakrónurnar og glitruðu í úða gosbrunnanna. Fjær höllinni óx víðáttumikill skógur með fögrum trjám. Í fjarska blánuðu háfjöllin með snævi þakta tinda.
Konungurinn var gamall; hár og skegg var hvítt. Hann var góður og ríkur konungur. En þrátt fyrir hinn mikla auð og hina glæsilegu hirð, var hann vansæll og einmana.
Dag nokkurn lét konungur þau boð út ganga um allt ríkið, að hver sá, sem gæfi honum svo fagurt málverk, að hann þreyttist aldrei á að horfa á það, skyldi að launum hljóta dýrmætasta gimsteininn í kórónunni hans. Margir voru listamenn í ríki hans. Þeir glöddust stórlega við þessa fregn og tóku til að mála. Hvern dag komu listamenn akandi, ríðandi eða gangandi til konungshallarinnar. Allir höfðu þeir með sér fögur málverk. Hver og einn þóttist viss um að hljóta verðlaunin. Ritari konungsins tók listamönnunum tveim höndum, lét færa konunginum málverkin en skráði sjálfur nöfn þeirra og heimilisfang hjá sér í þykka bók. Listamennirnir fóru heim glaðir og ánægðir.
Konungurinn leit á hin fögru málverk. Hann fann ekki eitt einasta, sem hann þreyttist ekki að horfa á.
Árin líða.
Dag einn kom tötralega klæddur hjarðsveinn arkandi eftir hallarveginum. Hann bar þunga byrði á bakinu. Það virtist vera afarstórt málverk sveipað klæði.
„Ég er langferðamaður,“ sagði drengurinn við dyravörð konungs, og fékk að sleppa inn. Hann kvaddi konunginn virðulega og sagði: „Herra konungur, leyfið mér sjálfum að koma fyrir í salarkynnum yðar hinu undurfagra málverki, sem ég vil sýna yður.“ Konungurinn brosti við þessari bæn drengsins og heyrði hana.
Nokkru síðar gekk konungur til salarins, þar sem sveinninn hafði kosið að sýna honum málverkið. Hann nam staðar í gættinni og horfði undrandi og með aðdáun á það, sem fyrir augun bar. Drengurinn hafði tekið burt litlu gluggaborurnar í blýumgjörðinni. Í staðinn hafði hann látið kristalsrúðu. Gegn um hana sá nú konungurinn töfrandi málverk. Það var skrúðgarðurinn hans sjálfs, blómum skrýddur, með fögrum trjám og gosbrunnum. Í baksýn var skógurinn og snævi þöktu fjöllin. Yfir öllu hvelfdist djúpblár himinninn.
Hjarðsveinninn stóð við rúðuna, laut konunginum og sagði: „Herra minn, hér sjáið þér málverk. Það var hér áður. Ég hefi aðeins stækkað það.“ Þá kyssti konungurinn sveininn og sagði: „Sannarlega ert þú mesti listamaðurinn, því þú notar gáfur þínar til þess að vekja athygli á listaverkum skaparans. Sæll er sá konungur, sæl er sú þjóð, sem kann að meta þau listaverk, hrífast af þeim og samlaga fegurð þeirra sínu eigin líferni. Þú skalt ekki aðeins hljóta fegursta og stærsta gimsteininn heldur einnig allt ríki mitt eftir minn dag. Vertu hjá mér og gakktu mér í sonarstað.“
Í hvert sinn, sem konungurinn var þreyttur og leiður á lífinu, gekk hann að kristalsrúðunni og leit út um hana. Þar sá hann margbreytileik náttúrunnar í stormi og stillu, blíðu og stríðu, hinar ýmsu árstíðir; málverk, sem guð einn getur skapað.