Anna Andrésdóttir (Seljalandi)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Anna Andrésdóttir frá Syðri-Hóli u. Eyjafjöllum, vinnukona, síðar húsfreyja í Markarskarði í Hvolhreppi fæddist 25. mars 1887 á Syðri-Hóli, bjó síðast á Njálsgötu 41 í Reykjavík og lést 12. nóvember 1928 á Landakotsspítala.
Foreldrar hennar voru Andrés Sighvatsson bóndi á Syðri-Hóli, f. 1849, d. 21. mars 1891 og Valgerður Árnadóttir bústýra hans, f. 1858, d. 24. ágúst 1898.
Fósturforeldrar Önnu voru Ingibjörg Árnadóttir móðursystir Önnu og Sigurður Árnason bændur í Steinmóðarbæ u. V-Eyjafjöllum.

Anna var niðursetningur í Steinmóðarbæ 1890, með fósturforeldrum sínum þar 1901, var um stutt skeið í Eyjum, en kom að Steinmóðarbæ 1910. Hún fluttist til Eyja 1918, var lausakona á Reynivöllum við Kirkjuveg 66 1919, vinnukona með barn sitt hjá sér á Seljalandi hjá Guðjóni Eggertssyni 1920.
Hún flutti að Markarskarði í Hvolhreppi með Lilju, var ráðskona hjá Þorkeli við giftingu 1921. Þau eignuðust ekki börn. Þau bjuggu í Markarskarði enn 1925 með fimm börn Þorkels og Lilju dóttur Önnu. Þau fóru frá Markarskarði 1926 og þá varð Þorkell vinnumaður í Vatnsdal í Fljótshlíð með Önnu og þrjú börn sín og þar var Lilja dóttir Önnu.
Anna fluttist til Eyja 1927, bjó á Vesturvegi 29 með Guðbjörgu Lilju.
Hún varð sjúklingur á Vífilsstöðum, lést á Landakotsspítala 1928.
Guðbjörg Lilja fór til Árna föður síns á Kirkjuveg 26, var þar enn 1937 og fluttist með honum til Reykjavíkur 1938.

I. Barnsfaðir Önnu var Árni Gíslason frá Stakkagerði, síðar kaupmaður í Reykjavík, f. 2. mars 1889, d. 8. september 1957.
Barn þeirra:
1. Guðbjörg Lilja Árnadóttir, f. 23. desember 1919 á Reynivöllum, síðast í Reykjavík, d. 16. september 2003.

II. Maður Önnu, (9. júní 1922), var Þorkell Guðmundsson bóndi í Markarskarði í Hvolhreppi, f. 17. maí 1876 í Gafli í Flóa, d. 17. janúar 1952 í Eyjum.
Þau voru barnlaus.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.