Annáll ÍBV íþróttafélags í 20 ár/Undanfari og upphaf

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Undanfari og upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Eins og nafn Íþróttabandalags Vestmannaeyja gefur til kynna er þetta bandalag margra mismunandi hópa. Mörg félög höfðu verið í Eyjum bæði fyrir stofnun bandalagsins og einnig hafa mörg félög starfað í gegnum árin samhliða ÍBV. Félögin Þór og Týr höfðu verið starfandi frá öðrum og þriðja áratug 20. aldarinnar og hvatt hvort annað áfram með stöðugri samkeppni. Þessi félög, ásamt öðrum sértækari, höfðu haft með sér félög sem kepptu á landsmótum. Hétu félögin Íþróttaráð Vestmannaeyja, ÍRV, og undir stjórn Einars ríka var keppt fyrir hönd KV á landsmótum. Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar varð hnignun í íþróttamálum í Eyjum vegna þess að ungt fólk fékk vinnu hjá hernum og við síldveiðar á Norðurlandi. Með nýjum íþróttalögum var óskað eftir því að samband íþróttafélaga í Vestmannaeyjum væri stofnað. Hinn 6. maí 1945 var stofnað bandalag íþróttafélaga í Vestmannaeyjum, Íþróttabandalag Vestmannaeyja. Félögin höfðu eitthvað keppt í eigin nafni upp á meginlandinu fyrir stofnun bandalagsins en nú skyldi keppa í nafni ÍBV utan héraðs.

Fyrsta sumarið (árið 1945), sem héraðssamband ÍBV var við stjórnvölinn, var vel skipulögð starfsemi og vissu félögin strax um vorið hvenær þau ættu að sjá um mót, hvort sem var í knattspyrnu, handknattleik eða frjálsum íþróttum. Ekki var keppt í sundi þetta sumar því viðgerðir stóðu yfir á lauginni en strax um haustið hófst sundkennsla hjá Friðriki Jessyni.

Knattspyrnan þurfti að heyja baráttu við fiskinn sem laðaði menn á vertíðir. Það var þó á hásumrin sem menn gáfu sér tíma til að sparka í nokkra bolta. Handknattleikurinn var hins vegar mjög vinsæll og þetta tiltekna sumar hafði uppgangur aldrei verið meiri. Mörg mót voru haldin og voru margir áhorfendur og þá aðallega eldri konur. Frjálsar íþróttir höfðu vaxið í vinsældum frá 1930 og á fjórða og fimmta áratugnum voru Vestmannaeyingar stórveldi í frjálsum íþróttum og unnu til fjölda verðlauna.

Eftir að íþróttafélögin Þór og Týr sameinuðust um áramótin 1996-1997 í eitt félag, ÍBV íþróttafélag, hætti Íþróttabandalagið öllum rekstri á eiginlegri íþróttastarfsemi, en knattspyrnudeild hafði verið haldið úti innan bandalagsins um árabil og séð um rekstur á meistarflokki í knattspyrnu. Fluttist öll íþróttastarfsemi til aðildarfélaga bandalagsins. Starfsemi bandalagsins varð þá eins og til hennar var stofnað í upphafi að vera einskonar regnhlífarsamtök allra íþróttafélaganna í Eyjum og er með aðild að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fyrir hönd aðildarfélaganna.

Knattspyrnan hefur verið ein aðalíþróttagreinin sem iðkuð hefur verið í Vestmannaeyjum, en hin síðari ár hefur handboltanum vax mjög ásmegin.

Annáll ÍBV íþróttafélags í 20 ár - Þar sem hjartað slær[breyta | breyta frumkóða]

Gísli Valtýsson tók saman.[breyta | breyta frumkóða]

Í 20 ára sögu ÍBV íþróttafélags er margs að minnast. Í annál félagsins má sjá að félagið er í sjálfu sér stórveldi á íþróttasviðinu, ekki síst í ljósi þess að íbúar Vestmannaeyja eru aðeins 4300 talsins. Í meistaraflokkunum hefur félagið landað 33 titlum, Íslands-, bikar-, Lengju-, Fótbolta.net-, Futsal- og meistarar meistaranna. Þar af 7 Íslandsmeistaratitlum í efstu deildum handbolta og fótbolta.[breyta | breyta frumkóða]
Í yngri flokkunum hefur félagið eignast 24 Íslandsmeistaratitla í hinum ýmsu keppnum í handbolta og fótbolta og  6 bikarmeistaratitla auk annarra titla í hinum ýmsu mótum. Samtals hefur ÍBV íþróttafélag hlotið 87 meistaratitla af ýmsum toga.[breyta | breyta frumkóða]
Þá hefur félagið eignast landsliðsfólk í öllum landsliðum Íslands í handbolta og fótbolta, frá yngstu flokkunum og uppúr, - fleiri en tölu verður á komið og verið Vestmannaeyjum og félagi sínum til mikils sóma.[breyta | breyta frumkóða]
Fimm sinnum hefur karlalið ÍBV íþróttafélags tekið þátt í Evrópukeppnum  í knattspyrnu og tvö skipti komist áfram í 2. umferð.[breyta | breyta frumkóða]
Karlalið ÍBV í handbolta hefur fjórum sinnum tekið þátt í Evópukeppnum og konurnar einnig fjórum sinnum. Árið 2004 komst kvennaliðið alla leið í undanúrslit.[breyta | breyta frumkóða]
En titlar eru ekki allt, félagið hefur rekið gríðarlega umfangsmikið barna- og unglingastarf í handbolta og fótbolta, þar sem allir eru velkomnir. Tvö af stærstu knattspyrnumótum hvers árs á Íslandi eru haldin í Vestmannaeyjum á vegum félagsins, Orkumótið fyrir drengi og TM mótið fyrir stúlkur. Þá er á hverju hausti haldið í Eyjum eitt stærsta handboltamót yngri flokkanna, Eyjablikksmótið.[breyta | breyta frumkóða]
Um hver áramót er gamla árið kvatt með brennu og flugeldasýningu í  Hásteinsgryfjunni og glæsilegasta þrettándahátíð landsins er í Eyjum á vegum ÍBV. Ekki má svo gleyma stærstu útihátíð landsins, Þjóðhátíðinni, sem enga á sína líka. ÍBV íþróttafélag er því gríðarlega stór hluti af mannlífinu í Eyjum og dregur mörg þúsund manns til Eyja á hina ýmsu viðburði sína og bætir efnahag Vestmannaeyja um stórar fjárhæðir.[breyta | breyta frumkóða]
Sennilega er ÍBV það „vörumerki“  í Eyjum, sem flestir landsmenn þekkja.[breyta | breyta frumkóða]

Aðdragandinn að stofnun ÍBV íþróttafélags[breyta | breyta frumkóða]

Stofnun ÍBV íþróttafélags hafði nokkurra ára aðdraganda. Eftir talsverðar byggingaframkvæmdir íþróttafélaganna, Þórs og Týs á árunum eftir 1986, var fjárhagsstaða félaganna orðinn nokkuð þung. Árið 1991 tók  Knattspyrnufélagið  Týr í notkun nýbyggðan íþróttasal við félagsheimili sitt. Sú framkvæmd reyndist félaginu ofviða og var félagið komið í greiðsluþrot á árinu 1996. Sú staða varð til þess að mikill þungi fór í sameiningaviðræður Þórs og  Týs, sem að lokum leiddi  til sameiningar þeirra. Nokkur ár þar á undan  höfðu þau  kastað á milli sín hugmyndum um skiptingu handbolta og knattspyrnu milli félaganna; og/eða að stofna tvö félög, handbolta- og knattspyrnufélag og einnig var rætt um sameiningu Þórs og Týs.  Sýndist  þar sitt hverjum.

Tillögur um framtíðarstarf félaganna[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1993 varð að samkomulagi milli stjórna félaganna Þórs og Týs og stjórnar Íþróttabandalagsins að fara þess á leit við Stefán Konráðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra ÍSÍ, að hann gerði úttekt á starfi félaganna  Þórs og Týs vegna mikillar umræðu sem verið hafði í Vestmannaeyjum um skipulagsmál íþróttahreyfingarinnar.

Á fundi Stefáns með forvígismönnum íþróttahreyfingarinnar í Eyjum, þann 8. nóvember 1993, kom fram að aðaláherslan yrði lögð á að hann mæti hvort til greina kæmi að sameina eða samtengja starfsemi Þórs og Týs,  og ÍBV í flokkaíþróttum þannig að aukinn árangur yrði samhliða hagræðingu í starfi.

Í desember skilaði Stefán síðan af sér úttektinni þar sem nokkrum möguleikum var velt upp, m.a. að félögin sæju áfram um yngri flokkana, þau skiptu á milli sín íþróttagreinum, eða eins og lagt var til í róttækustu tillögunni að félögin yrðu lögð niður í núverandi mynd og stofnuð sérgreinafélög innan Íþróttabandalagsins. Stefán lagði til að reynt yrði til þrautar að halda sig við hinar leiðirnar á tveimur næstu árum, og lagði fram hugmyndir að uppbyggingu. Ef starfsemin léttist ekki og árangur batnaði ekki á þessu tímabili, teldi hann eðlilegt að fara leið B, sem hann nefndi svo, að leggja félögin niður.

78% vildu sameina undir merki ÍBV[breyta | breyta frumkóða]

Í nóvember 1993, áður en tillögur Stefáns Konráðssonar höfðu verið birtar, efndi blaðið Fréttir til skoðanakönnunar í Vestmannaeyjum um viðhorf bæjarbúa til íþróttahreyfingarinnar, en spurt var hvort fólk vildi breytingar á skipulagi hennar. Af 250 aðilum, sem spurðir voru, svaraði 171 og svörin voru nokkuð afdráttarlaus. 78% vildu sameina íþróttahreyfinguna undir nafni ÍBV, 12% vildu halda óbreyttu fyrirkomulagi og 10% vildu að annað félagið tæki að sér handboltann og hitt fótboltann.

Sameining í sjálfu sér einföld[breyta | breyta frumkóða]

Viðræður stjórna Týs og Þórs strönduðu þegar á leið árið 1994. Þar mun mestu hafa um ráðið að stjórn Týs hafði þau skilaboð frá félagsmönnum að Týr yrði að fá fótboltann, yrði greinunum skipt milli félaganna, ekki kæmi til greina að draga um íþróttagreinarnar eins og rætt hafði verið um. Þetta tóku forsvarsmenn Þórs ekki í mál og því var viðræðum hætt.

Einn af forkólfum íþróttahreyfingarinnar í Eyjum og stjórnarmaður í Íþróttabandalaginu,

Stefán Jónsson, tjáði sig um málið í heilsíðugrein Fréttum 1. desember 1994, þegar ljóst var orðið að frekari sameiningaviðræður voru út úr myndinni. Hann mælir með því að bæði félögin verði lögð niður eða sameinuð í einu félagi.  „ÍBV er andlit okkar út á við og að því þurfum við að hyggja og sameina krafta okkar innanbæjar. Þá sameinuðust kraftar þeirra fjölmörgu sem vinna að framgangi íþrótta í einn farveg sem skilaði sér í öflugum íþróttabæ og við ættum möguleika á að tefla fram íþróttafólki í fremstu röð.“

Síðar í sömu grein segir svo:

„Sameining er í sjálfu sér einföld. Félögin Þór og Týr yrðu lögð niður og eignir þeirra rynnu til ÍBV. Um er að ræða tvö félagsheimili, tvo grasvelli og fleira. Bæjarsjóður yfirtæki skuldir félaganna en á móti yrði íþróttahreyfingin að sætta sig við að rammasamningi yrði seinkað um tvö ár.“

Bæjarstjórnin vildi leggja Þór og Týr niður[breyta | breyta frumkóða]

Bæjarstjórn Vestmannaeyja óskaði í nóvember árið 1995 eftir viðræðum við íþróttafélögin tvö um væntanlega lausn á fjárhagsvanda íþróttahreyfingarinnar. Þau skilyrði sem bærinn setti félögunum, voru nokkuð afdráttarlaus, ef af þeim stuðningi yrði, skyldu bæði félögin lögð niður.  Þessi tillaga var felld á félagsfundi hjá Þór.

„Eftir félagsfund hjá okkur sáum við að ekki var hægt að uppfylla það skilyrði og greindum við fulltrúum bæjarins frá því,“ sagði Stefán Agnarsson, formaður Þórs í Fréttum 16. nóvember 1995.  „Við erum opnir fyrir öllu nema að leggja félagið niður. Við sjáum ekki að af því verði sparnaður og svo erum við hræddir við að missa fólk sem borið hefur hitann og þungann af starfinu hjá okkur. Það er hætt við að grasrótin noti tækifærið og hætti, verði félagið lagt niður,“ sagði Stefán ennfremur.

En í herbúðum Týs kvað við annan tón. Helgi Sigurlásson, formaður Týs, sagði ljóst að Þórarar hefðu slúttað þessum viðræðum, hefðu ekki einu sinni viljað sjá hvað væri í pakkanum sem bærinn bauð. Hann bætti einnig við að ljóst væri að dæmið gengi ekki upp hjá hvorugu félaginu.

„Það er út úr kortinu að sýna reikninga frá síðasta aðalfundi og segjast skulda 1,8 milljónir eins og Þórarar gera. En skuldastaða félaganna er aukaatriði, það þarf að efla íþróttirnar í bænum og það verður ekki gert með öðrum hætti en að bærinn komi til liðs við okkur eins og hann hefur boðist til. Hefðu menn verið tilbúnir til að skoða alla möguleika, eins og t.d. þá að leggja félögin niður, hefðum við fengið að sjá hvað það í raun og veru var sem bærinn bauð upp á. En það vildu Þórararnir ekki einu sinni líta á,“ sagði Helgi.

Guðmundur Þ.B. Ólafsson, sem ásamt Guðjóni Hjörleifssyni bæjarstjóra, tók þátt í þessum viðræðum af bæjarins hálfu, sagðist líta svo á að þeim væri lokið. Vegna afstöðu Þórs væri þetta endapunktur þess sem þeim hefði verið ætlað að gera.

Bæjarstjórn gerir félögunum tilboð[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun júlí árið 1996 gerði Vestmannaeyjabær, félagi sem stofnað yrði á grunni Þórs og Týs, kauptilboð í félagsheimili félaganna Þórs og Týs, ásamt og íþróttavöllum,  að upphæð krónur 52 milljónir. Í tillögu bæjarstjórnar segir að þetta sé gert til að greiða fyrir og auðvelda sameiningu félaganna og megi skoðast sem aðkoma bæjarsjóðs að fjármálum hins nýja félags. Og tilgangurinn sé að stuðla að öflugri uppbyggingu á íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Í tilboðinu segir að rammasamningur sem í gildi sé,  um uppbyggingu íþróttamannvirkja milli bæjarstjórnar og Íþróttabandalagsins  falli úr gildi og sé það skilyrði fyrir tilboði bæjarins. Kauptilboðið er tvíþætt, annars vegar býðst bærinn til að kaupa félagsheimilin á 37 milljónir króna á þessu ári og íþróttavellina á næsta ári fyrir 15 milljónir gegn kvaðalausu afsali þeirra annað en áhvílandi veðskuldum. Tilboðið gilti til 18. júlí sama ár.

Samþykkt með tárum[breyta | breyta frumkóða]

Fundur í Knattspyrnufélaginu Tý nokkrum dögum síðar, samþykkti að ganga að þessi tilboði Vestmannaeyjabæjar. Meira hik var á fundi hjá Íþróttafélaginu Þór sem haldin var 5. september. Fannst fundarmönnum að félaginu væri stillt upp við vegg. Á aðalfundum félaganna sem haldnir voru 10.  nóvember samþykktu  bæði félögin formlega að sameinast um stofnun nýs  íþróttafélags. Ekkert hik var á félagsfundi  Týs, tilboðið var samþykkt með samhljóða 38 atkvæðum. Hjá Þór var tillagan samþykkt með 20 atkvæðum gegn 10 og fjórir sátu hjá. Í  fundargerð Þórs  frá aðalfundinum segir  að tár hafi blikað á hvörmum margra félagsmanna, þegar samþykkt var að ganga að tilboði Vestmannaeyjabæjar.

Samþykktin á aðalfundum félaganna[breyta | breyta frumkóða]

Tillagan sem samþykkt var á fundunum er svohljóðandi: Aðalfundur Knattspyrnufélagsins Týs/Íþróttafélagsins Þórs haldnir sunnudaginn 10. nóvember 1996 samþykkja

samkomulag sem fulltrúar félaganna og bæjarstjórnar Vestmannaeyja undirrituðu þann 22. október 1996 með fyrirvara um samþykki félagsfunda. Efnisatriði samkomulagsins eru eftirfarandi:

Tillaga bæjarstjórnar Vestmannaeyja um aðkomu bæjarins og kaup á íþróttamannvirkjum, þ.e. fasteignum og íþróttavöllum í eigu félaganna.

Að sameina félögin í nýju félagi undir merkjum Íþróttabandalags Vestmannaeyja. Aðrar eignir er tilgreindar eru í tillögu bæjarstjórnar og skuldir sem kunna að standa eftir, verði yfirtekið af hinu nýja félagi. Týr og Þór eru því lögð niður en sameinast við stofnun nýs félags.

Niðurfelling á rammasamningi bæjarins við íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum.

Samkomulag um rekstur og afnotarétt íþróttamannvirkja við Hamarsveg fyrir hið nýja félag.

Samkomulag um rekstur íþróttavalla bæjarins auk þeirra valla sem nú eru í eigu félaganna.

Samstarfssamningur milli Vestmannaeyjabæjar og íþróttabandalags Vestmannaeyja og aðildarfélaga þess.

Samþykkt ofangreindrar tillögu er bundin því að félagsfundir beggja félaganna samþykki öll ofangreind efnisatriði, þ.m.t. sameiningu félaganna.

Fundirnir fela viðræðunefndum félaganna sem unnið hafa að ofangreindum málum að starfa áfram og samþykkir fullt og ótakmarkað umboð til þeirra að undirrita öll nauðsynleg skjöl til að fylgja eftir samþykkt þessari, þ.m.t. að undirrita afsöl fyrir fasteignum og öðrum íþróttamannvirkjum í eigu félagsins. Undir þetta rituðu stjórnir félaganna.

Samstarfssamningur milli  Vestmannaeyjabæjar og Íþróttabandalags Vestmannaeyja og aðildarfélaga þess[breyta | breyta frumkóða]

Hér með gera Vestmannaeyjabær annarsvegar og Íþróttabandalag Vestmannaeyja og aðildarfélög þess hins vegar, með sér eftirfarandi samstarfssamning:

1. grein. Með samningi þessum er leitast við að efla samstarf á milli bæjaryfirvalda og íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum enn frekar, þannig að boðleiðir og samskipti verði einfaldar og árangursríkar. Samningur þessi gildir frá undirskriftardegi og þar til að annar hvor aðili samningsins segir honum upp og skal það þá gert skriflega með 6 mánaða fyrirvara.

2. grein. Vestmannaeyjabær greiðir árlega rekstrarstyrk til aðildarfélaga ÍBV að tillögu íþrótta - og æskulýðsráðs Vestmannaeyja og skal upphæð styrksins ákvarðast af bæjaryfirvöldum við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert. Á árinu 1997 verður gert ráð fyrir (þessi tala er ekki verið ákveðin) ??? krónum.

3. grein. Við úthlutun á rekstrarstyrk ár hvert skal íþrótta- og æskulýðsráð skal leggja til grundvallar tillögur frá Íþróttabandalaginu  um úthlutun og skal meta sérstaklega barna - unglinga- og æskulýðstarf sem fram fer hjá aðildarfélögum bandalagsins. Úthlutanir skulu taka mið af því starfi svo og ber einnig að meta möguleika félaganna á tekjuöflun í reglubundinni starfsemi félaganna og umfang starfseminnar.

4. grein. Aðildarfélög Íþróttabandalags Vestmannaeyja skuldbinda sig til að skila rekstraruppgjöri til íþrótta- og æskulýðsráðs á 6 mánaða fresti, auk ársskýrslu, reikningum og fjárhagsáætlun næsta rekstrarárs, strax að afloknum aðalfundum félaganna. Þar skulu m.a. koma fram launa- og vertakagreiðslur viðkomandi félags. Þetta ákvæði er skilyrði fyrir því að viðkomandi félag eigi möguleika á úthlutun sbr. 3. grein samningsins.

5. grein. Þau aðildarfélög sem hafa með höndum rekstur á íþróttamannvirkjum bæjarins, skulu einnig uppfylla ákvæði 4. greinar, burtséð frá því hvort þau hljóti árlegan rekstrarstyrk eða ekki. Ef rekstur íþróttamannvirkja er ekki tengdur venjubundnum rekstri félagsins skal ákvæði 4. greinar einnig eiga við um þann hluta starfseminnar.

6. grein. Aðilar samnings þessa eru sammála um að móta skuli heildar framtíðarstefnu í íþróttamálum í Vestmannaeyjum, sem taki m.a. mið af því mikla æskulýðs- og forvarnarstarfi sem íþróttahreyfingunni er ætlað að standa fyrir í framtíðinni. Vinna þarf markvisst að verkefninu, m.a. með þátttöku sérfróðra aðila.

7. grein. Íþróttahreyfingin í Vestmannaeyjum mun við ráðningar á leiðbeinendum og þjálfurum gera kröfur um góða hæfileika viðkomandi til starfsins, sem og að viðkomandi sé góð fyrirmynd. Samkvæmt mörgum könnunum sem gerðar hafa verið, þá líta börnin og unglingarnir mikið upp til þjálfara sinna og leita gjarnan tíl þeirra með persónuleg mál. Af þeirri ástæðu er rík áhersla lögð á að umræddar kröfur verði hafðar að meginreglu við ráðningu þjálfara.

8. grein. Aðildarfélög ÍBV skuldbinda sig til við ráðningu þjálfara (þar sem það á við) að hafa ákvæði í þjálfarasamningum sínum að þjálfari eða staðgengill hans skuli vera mættur 10 mínútum áður en æfing hefst, fylgja flokknum til búningsklefa og vera viðstaddur á meðan iðkendur hafa fataskipti. Að æfingastund lokinni skal þjálfari ekki yfirgefa búningsklefa fyrr en allir iðkendur eru farnir úr búningsklefanum. Þetta er gert til að bæta umgengni, hafa betri aga og koma í veg fyrir einelti. Þjálfari skal sjá um að umgengnisreglum mannvirkjanna sé framfylgt í hvívetna á meðan flokkur hans er í íþróttamannvirkjunum. Mæti þjálfari eða staðgengill hans ekki, fellur æfingin niður.

Nýja félagið sér um rekstur íþróttamannvirkjanna[breyta | breyta frumkóða]

Tveir samningar voru gerðir um rekstur íþróttamannavirkjanna milli KH ÍBV og Vestmannaeyjabæjar. Annars vegar um íþróttavellina og hins vegar um Týs og Þórsheimilið. Eru þeir að mörgu leyti samhljóða samningi milli Knattspyrnuráðs ÍBV og bæjarins um rekstur á íþróttavöllunum undanfarin ár. Hafði Vestmannaeyjabær greitt  knattspyrnuráði ákveðna upphæð, um 3 milljónir  króna á ári fyrir að sjá um allan rekstur og viðhald vallanna. Nú verða Týs- og Þórsheimilið í eigu bæjarins og verður gerður sams konar samningur við íþróttahreyfinguna um rekstur þeirra.

Helstu atriðin í samningi um félagsheimilin:[breyta | breyta frumkóða]

„KH ÍBV tekur að sér rekstur á íþróttamannvirkjum Vestmannaeyjabæjar, við Hamarsveg, það er húsnæði sem áður var í eigu Týs og Þórs. Samningur þessi tekur einungis til umræddra fasteigna, en gerður verður sérstakur samningur á milli þessara aðila, um rekstur allra íþróttavalla Vestmannaeyjabæjar, það er Löngulágar- Hásteins- Helgafellsvalla sem og fyrrum Þórs- og Týsvalla," segir í samningnum en enn hefur ekki verið ákveðin upphæð sem hreyfingin fær fyrir að reka mannvirkin. Önnur helstu atriði samningsins eru m.a: „Taka má greiðslur til uppgjörs á sorphirðu - sorpeyðingar- og orkureikningum frá Bæjarveitum, sem til falla vegna mannvirkjanna sem og skuldajöfnunar vegna viðskiptareiknings félagsins við Vestmannaeyjabæ, ef til skuldar hefur verið stofnað, áður en greiðsla til félagsins fer fram og dregst umrædd upphæð frá greiðslum, sem um getur í þessari grein, til félagsins. KH ÍBV annast allar skuldbindingar sem félagið gerir vegna mannvirkjanna og skal greiðsla frá Vestmannaeyjabæ til KH ÍBV, sem samningur þessi getur um, vera endanleg og fela í sér alla rekstrarliði umræddra mannvirkja, þar með talin starfsmannalaun, launatengd gjöld svo og öll opinber gjöld, sem af starfseminni hljótast, nema þess sé sérstaklega getið í samningi þessum, sbr. 6. grein samningsins.

Veðsetning óheimil[breyta | breyta frumkóða]

KH ÍBV er óheimilt að veðsetja mannvirkin eða hluta þeirra, enda um eign Vestmannaeyjabæjar að ræða. KH. ÍBV eru heimil afnot af mannvirkjunum til tekjuöflunar, í svipuðum mæli og verið hefur, svo sem skemmtanir, sýningar og þess háttar. Öllum mannvirkjum skal vel við haldið og þess kappkostað að mannvirkin séu ætíð vel þrifin og tilbúin til notkunar fyrir þá starfsemi sem um getur í 8. grein. vegna afnota er íþrótta - og æskulýðsráð Vestmannaeyjabæjar ákveður, í samræmi við ákvæði þessa samnings. Vísað er sérstaklega í þær kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis. Samningur þessi gerir ráð fyrir að í greiðslum Vestmannaeyjabæjar sé kostnaður vegna venjubundins viðhalds á mannvirkjunum innifalinn. Ef framkvæma þarf umfangsmikla viðhaldsþætti á mannvirkjunum, skal Vestmannaeyjabær sjá um þær framkvæmdir sem og að greiða kostnað sem af verkinu hlýst. Breytingar á mannvirkjunum eru óheimilar nema með samþykki bæjaryfirvalda. KH IBV skal sjá um alla vinnu við mannvirkin, hvort heldur um er að ræða daglegan rekstur, eða að gera mannvirkin notkunarhæf vegna þeirra uppákoma sem fram fara í mannvirkjunum.

Hlutverk félagsheimilanna[breyta | breyta frumkóða]

Sérstakur kafli er um hvaða hlutverki félagsheimilin eiga að gegna. Helsta atriðið er að Þórsheimilið verður stjórnstöð nýja félagsins.

Þórsheimili: a) Stjórnsýsla KH ÍBV verður í Þórsheimilinu. Þá verður einnig gert ráð fyrir aðstöðu fyrir Íþróttabandalag Vestmannaeyja, sem verður til húsa í Þórsheimilinu til frambúðar. Aðilar eru sammála um að ekki verði farið út í breytingar í Þórsheimili, vegna breyttrar starfsemi, fyrr en samkomulag liggur fyrir um í hverju breytingarnar felast og hvaða kostnaður fylgi þeim breytingum.

b) Núverandi aðstaða Þórsheimili svo sem búningsklefar, böð og íþróttasalur taka ekki breytingum hvað notkun snertir, enda gert ráð fyrir þeim hlutum hússins, meðal annars í tengslum við æfingar, og ekki síst við keppnir á íþróttavelli.

Týsheimili: a) Aðstaða fyrir KH ÍBV verður einnig í Týsheimilinu, þar sem gera má ráð fyrir að starfsemi félagsins, það er innra klúbbsstarf, fari fram. Vestmannaeyjabær getur óskað eftir afnotum af Týsheimilinu, umfram það sem getið er um í 8. grein, við sérstök tækifæri og án endurgjalds, enda stangist það ekki á við starfsemi félagsins og afnotanna óskað með eðlilegum fyrirvara. Endurgjaldslaus afnot miðast við að mannvirkin séu tilbúin til eðlilegrar notkunar í samræmi við samning þennan. Leiði afnotin, vegna sérstakra tækifæra, til kostnaðar fyrir félagið, skal semja sérstaklega um greiðslu til félagsins, fyrir framlag þess við að gera mannvirkin notkunarhæf. Samningur þessi breytir engu um hlutverk mannvirkjanna í neyðaráætlun vegna þjóðhátíðar, né annarra neyðaráætlana á vegum Almannavarna. Í nóvember 1997 skulu fulltrúar aðila samnings þessa, meta sameiginlega, framkvæmd og áhrif samningsins á starfsemi mannvirkjanna og leggja fram tillögur um framhald þess samstarfs sem samningurinn felur í sér. Mál sem kunna að rísa út af samningi þessum skulu rekin fyrir Héraðsdómi Suðurlands í Vestmannaeyjum.

Starfsfólk starfi hjá nýja félaginu[breyta | breyta frumkóða]

Allt starfsfólk sem til þarf vegna notkunar og reksturs mannvirkjanna, skal alfarið starfa á vegum KH IBV og á kostnað þess. KH ÍBV er ábyrgt fyrir skemmdum eða tjóni sem gestir þess eða starfslið kunna að valda á búnaði eða mannvirkjum og skuldbindur sig til að bæta slíkar skemmdir eða tjón að fullu. Vestmannaeyjabær ber ekki ábyrgð á tjóni eða meiðslum sem gestir eða starfslið KH ÍBV kunna að valda  sjálfum sér eða öðrum. Íþrótta- og æskulýðsráð Vestmannaeyjabæjar ráðstafar tímum í íþróttasal bæjarins við Hásteinsvöll, fyrir kennslu annars vegar og hins vegar til íþróttaæfinga til Íþróttabandalags Vestmannaeyja.  Sú úthlutun verður með sama hætti og við úthlutun á tímum í Íþróttamiðstöð vegna íþróttaæfinga félaganna. Utan þeirra tíma sem Íþrótta - og æskulýðsráð úthlutar, er KH ÍBV heimilt að ráðstafa tímum í umræddu mannvirki sbr. grein þessa, svo fremi sem afnotin séu innan þeirra marka sem KH ÍBV eru sett í samningi þessum. Tekjur sem skapast af ráðstöfun Íþrótta - og æskulýðsráðs samkvæmt þessari grein, til skóla í  Vestmannaeyjum og aðildarfélaga Íþróttabandalagsins, skulu vera eign bæjarins. Tekjur sem skapast af ráðstöfun KH. ÍBV samkvæmt þessari grein skulu vera eign félagsins og hið sama gildir um auglýsingatekjur í umræddum íþróttasal, sem og öðrum mannvirkjum sem samningur þessi tekur til. Allar auglýsingar skulu vera í samræmi við lög og reglur þar að lútandi, hverju sinni. KH ÍBV skal hafa fullt samráð við tómstunda- og íþróttafulltrúa við úthlutun og ákvörðun um afnot félaga og annarra aðila af mannvirkjunum.

Lausn á tilvistarkreppu[breyta | breyta frumkóða]

Í blaðinu Fréttum eftir að niðurstaða aðalfundanna lá fyrir sagði Magnús Bragason, formaður handknattleiksráðs Íþróttabandalagsins að hjá þessu hafi ekki verið komist vegna þróunar síðustu ára. „Vestmannaeyjabær hefði mátt koma inn í dæmið með meiri peninga því einhverjar milljónir standa út af," sagði  Magnús í viðtali við Fréttir og segist óttast að það geti bitnað á hreyfingunni meðan verið er að hreinsa upp skuldir sem eftir eru. „Enn eru nokkrir hnútar óleystir með fyrirkomulag nýja félagsins en ef allir vinna heilshugar að því að leysa þá verður sameiningin til mikils góðs," bætti Magnús við.

Jóhannes Ólafsson, formaður knattspyrnuráðs ÍBV, segir sameiningu hafa verið draum þeirra sem starfa fyrir ÍBV í mörg ár. „Nú er það orðið að veruleika og ekkert eftir nema að bretta upp ermarnar og fara að vinna. Hvet ég alla sem vilja styðja ÍBV til að koma til starfa með okkur," sagði Jóhannes.

Þór Vilhjálmsson, sem situr í samninganefndinni fyrir hönd Þórs, sagði að sú staða sem íþróttahreyfingin var komin í hafi ekki getað gengið lengur. „Það varð að finna lausn á þeirri tilvistarkreppu sem hreyfingin var komin í. Ég ber þá von í brjósti að bæjarbúar séu tilbúnir að leggja okkur lið. Það skiptir ekki bara íþróttahreyfinguna miklu að hún verði virkilega öflug, heldur bæjarfélagið allt,"sagði Þór.

„Ég er ánægður með að þetta skuli vera gengið í gegn," sagði Guðjón Rögnvaldsson sem var fulltrúi Týs í samninganefndinni. „Sameiningin á eftir að verða til heilla fyrir íþróttahreyfinguna og bæinn í heild. Næst er að finna menn í stjórn til að stýra þeirri miklu vinnu sem er framundan. Ég hef fundið mikinn stuðning við sameininguna og heyri ekki annað en að menn ætli að koma heilsteyptir inn í nýja félagið," sagði Guðjón.

Þar með er lokið kafla í íþróttasögu Vestmannaeyja sem hófst með stofnun Íþróttafélagsins Þórs þann 9. september árið 1913.

Samvinna hafin        [breyta | breyta frumkóða]

Í blaðinu Fréttum þann 27. desember 1996 er greint frá því að þótt ekki væri formlega búið að stofna nýja félagið, þá væru menn þegar byrjaðir að vinna saman. Fyrsta sameiginlega verkefnið væri brennan við Hástein, sem Þór hefði séð um til þessa og hið sama væri að segja um þrettándaskemmtunina sem Týr hefði haft á sinni könnu frá upphafi.

Stofnfundur hins nýja félags, sem varð til við sameiningu Þórs og Týs, var haldinn mánudaginn 30. desember 1996. Félagið fékk nafnið Knattspyrnu- og handknattleiksfélag ÍBV – skammstafað KH ÍBV,  en sú nafngift átti síðar eftir að breytast.

Stofnfundur KH ÍBV[breyta | breyta frumkóða]

„Eins og ykkur er öllum kunnugt hafa staðið yfir nokkur undanfarin ár töluverðar umræður um að þörf væri á því að endurskipuleggja starfsemi íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum. Margt hefur breyst í þjóðfélaginu og ekki síst í því umhverfi sem hreyfingin hefur starfað í. Okkur verður að sjálfsögðu að bera gæfa til að staðna ekki og gera það sem við teljum íþróttunum fyrir bestu með það að takmarki að Eyjamenn verði ávallt í fremstu röð, íþróttafólki og bæjarbúum til heilla," sagði Þór Vilhjálmsson á stofnfundi Knattspyrnu- og handboltafélags ÍBV, skammstafað KH ÍBV sem var vinnuheiti félagsins, -  sem haldinn var í Bæjarleikhúsinu 30. desember 1996.

Um 130 manns sóttu fundinn og var stofnun félagsins samþykkt með lófataki. Sjö manna stjórn var kosin á fundinum og  Þór formaður hennar. Með honum í stjórn voru kosin: Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Óskar Freyr Brynjarsson, Eyþór Harðarson, Jóhannes Ólafsson, Birgir Guðjónsson og Arndís Sigurðardóttir.

Í  ræðu sinni á aðalfundinum rakti Þór aðdragandann að stofnun félagsins. „Það var í mars sl. vetur sem aðilar sem tekið höfðu að sér að stokka upp fjármál knattspyrnufélagsins Týs, þeir Guðjón Rögnvaldsson og Viktor Helgason áttu fund með stjórn Íþróttafélagsins Þórs að frumkvæði formanns Íþróttabandalagsins.  Í framhaldi af þeim fundi skipaði stjórn Þórs þá Björn Þorgrímsson og Þór I. Vilhjálmsson í viðræðunefnd með áðurnefndum fulltrúum Týs. Nefndin hófst þegar handa og hélt nokkra tugi funda bæði formlega og óformlega. Okkur var ljóst þegar við komum að þessu starfi að peningastaða hreyfingarinnar var orðin mjög erfið og nánast útilokað að reka hana í óbreyttri mynd, það er að segja að ef ekki yrði tekið á málunum yrði nánast ekkert fé til að reka íþróttastarfsemi. Þeir peningar, sem hreyfingin aflaði næstu ár, færu til að greiða skuldir. Því boðuðum við tvo bæjarfulltrúa til óformlegs fundar. Í framhaldi af þeim fundi var bæjarráði sent bréf þar sem óskað var eftir viðræðum við þau og skipuðu bæjaryfirvöld þrjá menn af sinni hálfu til viðræðna við okkur, þá Arnar Sigurmundsson, Guðjón Hjörleifsson og Guðmund Þ.B. Ólafsson. Einnig sat flesta fundina Ólafur Elísson bæjarendurskoðandi. Okkur til fulltingis fengum við Jóhann Pétursson lögfræðing og vil ég þakka honum hans störf. Eftir nokkra viðræðufundi gerði viðræðunefnd bæjarins, Þór og Tý, eftirfarandi tilboð:

Tillaga

Vestmannaeyjabær gerir Íþróttafélaginu Þór og Knattspyrnufélaginu Tý Vestmannaeyjum f.h. sameinaðs félags sem stofnað yrði á grunni Þórs og Týs, eftirfarandi kauptilboð í núverandi félagsheimili íþróttafélaganna með tilheyrandi leigulóðarréttindum ásamt íþróttasvæðum beggja félaganna. Kauptilboð þetta er gert til þess að greiða fyrir og auðvelda sameiningu félaganna og má skoðast sem aðkoma bæjarsjóðs að fjármálum hins sameinaða félags. Einn megintilgangurinn með þessari aðkomu Vestmannaeyjabæjar er að stuðla að öflugri uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi f Vestmannaeyjum. Tilboðið er háð því skilyrði að starfsemi félaganna verði sameinuð áður en gengið verður frá formlegum kaupsamningi/afsali vegna hinna seldu húseigna. Þá er tilboðið bundið því skilyrði að íþróttasamningur Vestmannaeyjabæjar og íþróttafélaga innan ÍBV frá 13. mars 1990 sem endunýjaður var 2. október 1991 og 28. júlí 1993 verði felldur formlega og endanlega úr gildi áður en til þessara viðskipta kemur. Fyrir hinar seldu eignir greiðir Vestmannaeyjabær samtals kr: 52.000.000,- krónur fimmtíu og tvær milljónir. Eignirnar verða keyptar í tvennu lagi: Félagsheimili Þórs og Týs verða keypt á kr: 37.000.000 - krónur þrjátíu og sjö milljónir - á árinu 1996 og miðast tilboðið við að kaupverðið verði greitt með yfirtöku áhvílandi veðskulda og skuldajöfnun Týs og Þórs við Vestmannaeyjabæ. Reynist kaupverð umfram uppgreiðsluverð veðskulda á hinum seldu eignum og skuldajöfnun félaganna við Vestmannaeyjabæ greiðist mismunurinn við afhendingu eignanna, sem fram fari 1. september 1996, gegn kvaðalausu afsali þeirra, annað en yfirteknum áhvílandi veðskuldum. Íþróttasvæði félaganna verði keypt og afhent Vestmannaeyjabæ þann 1. mars 1997 og miðast kauptilboðið við að heildargreiðsla Vestmannaeyjabæjar verði kr. 15.000.000 - fimmtán milljónir -. Og greiðist kaupverð íþróttasvæðanna í tvennu lagi á árinu 1997. Nýstofnað Íþrótta- og æskulýðsráð Vestmannaeyjabæjar mun ráðstafa og hafa umsjón með eignunum af hálfu Vestmannaeyjabæjar þ.m.t. afnot íþróttafélaga á eignunum og annast útleigu á íþróttasal.

Kauptilboðið er bundið þeim fyrirvara að Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykki tilboðið og gerðar verði nauðsynlegar breytingar á fjárhagsáætlun Bæjarsjóðs Vestmannaeyja fyrir 1996 og gert verði ráð fyrir kaupum á íþróttasvæðum félaganna í Fjárhagsáætlun Bæjarsjóðs Vestmannaeyja 1997.

Tilboð þetta gildir til hádegis þann 18. júlí 1996.

Vestmannaeyjum 2. júlí 1996. F.h. viðræðunefndar Vestmannaeyjabæjar, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar:

Guðjón Hjörleifsson, Guðmundur Þ.B.Ólafsson, Arnar Sigurmundsson.

Þá sagði Þór að á meðan á þessum viðræðum stóð hefðu  samninganefndir félaganna verið í nánu sambandi við stjórnir þeirra  og voru þessar hugmyndir unnar í samráði við þær. Þórarar óskuðu eftir því að fá frest fram yfir þjóðhátíð til að svara tilboðinu og var fundinn flötur á því. Týrarar héldu almennan félagsfund 11. júlí þar sem gengið var að tilboði bæjarins með fyrirvara um samþykkt aðalfundar. Þórarar héldu svo fund 5. sept. þar sem tilboðið var samþykkt með sama fyrirvara. Var síðan samkomulagið við bæjaryfirvöld undirritað 22. okt. með fyrirvara um samþykkt bæjarstjórnar og aðalfundar Týs og Þórs. Var samkomulagið samþykkt á haustdögum á aðalfundum félaganna og í Bæjarstjórn.

„Ég hef stiklað hér á stóru í starfi þessarar nefndar sem hefur lagt sig alla fram til þess að málin kæmust í höfn. Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum fyrir gott samstarf sem aldrei bar skugga á, þó að sjálfsögðu værum við ekki alltaf sammála náðum við ætíð sameiginlegri niðurstöðu. Eins vil ég þakka nefndarmönnum bæjarins fyrir þeirra hlut. Ég vil láta það koma fram að á síðustu dögum náðum við samkomulagi við bæjaryfirvöld um að Guðmundur Þ. B. Ólafsson yrði lánaður til starfa hjá hinu nýja félagi næstu mánuði og væntum við mikils af hans störfum.“

„ Nú í kvöld stöndum við á miklum tímamótum í sögu og starfi íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum, þeim stærstu frá því að Þór og Týr voru stofnuð fyrir 83 og 75 árum, og við skulum vera minnug þess að Þór og Týr  hafa átt mikið og farsælt starf í gegnum árin, íþróttum, æskulýð og bæjarfélaginu til heilla og á allt það fólk sem þar hefur komið við sögu miklar þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf. Hafa oft lyft Grettistaki, það sýna t.d. félagsheimili og svæði þeirra glöggt. Ég er viss um að ef þau hefðu ekki ráðist í þessar framkvæmdir væri aðstaða til íþróttaiðkana hér í Eyjum ekki sú sem hún er í dag. Það sem við ætlum nú að gera er að byggja eitt stórt og voldugt félag á þeim grunni sem þau byggðu og í þeim farvegi sem þau sáðu í," sagði Þór að lokum.

Guðjón Hjörleifsson tók einnig til máls og lýsti hann yfir ánægju sinni og bæjarstjórnar með að þessum áfanga skuli hafa verið náð í íþrótta- og æskulýðsmálum í Vestmannaeyjum. Að lokum var skrifað undir samning um kaup bæjarsjóðs á eignum Þórs og Týs. Fundi var síðan frestað og verður framhaldsstofnfundur haldinn á næstunni.


Til baka á forsíðu