Andrés Bjarnason (gullsmiður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Andrés Bjarnason.

Andrés Bjarnason eldsmiður, gullsmiður fæddist 21. febrúar 1921 á Búðum í Fáskrúðsfirði og lést 28. apríl 2002 á Selfossi.
Foreldrar hans voru Bjarni Austmann Bjarnason verkamaður í Bjarnaborg á Búðum í Fáskrúðsfirði, síðar í Götu, f. 19. ágúst 1876 á Gíslastöðum í Vallaneshreppi á Héraði, d. 30. apríl 1955, og kona hans Stefanía Markúsdóttir húsfreyja, f. 28. ágúst 1884 á Þuríðarstöðum í Fljótsdal á Héraði, d. 10. apríl 1975.

Börn Stefaníu og Bjarna Austmanns:
1. Þórður Bjarnason sjómaður, skósmiður, f. 5. apríl 1905 á Norðfirði, d. 31. mars 1963.
2. Guðrún Björg Austmann húsfreyja á Djúpavogi, f. 28. maí 1906 á Norðfirði, d. 16. nóvember 1946.
3. Ágúst Austmann Bjarnason bóndi á Sauðanesi í Úlfsdölum, f. 10. september 1909 á Hóli í Breiðdal, d. 21. maí 1968.
4. Garðar Bjarnason, f. 30. nóvember 1911 í Víkurgerði á Fáskrúðsfirði, d. 1. janúar 1914.
5. Oddný Guðný Bjarnadóttir fiskverkakona, síðar húsfreyja og forstöðumaður, f. 23. apríl 1914, d. 29. september 2000.
6. Andrea Bjarnadóttir, f. 1. júní 1917 í Fáskrúðsfirði, síðast í Reykjavík, d. 19. nóvember 1986.
7. Andrés Bjarnason gullsmiður í Reykjavík, f. 21. febrúar 1921 á Búðum í Fáskrúðsfirði, d. 28. apríl 2002.
8. Karl Bjarnason, f. 21. febrúar 1921 á Búðum í Fáskrúðsfirði, d. 12. júlí 1935.
9. Hansína Bjarnadóttir húsfreyja í Reykjavík, bjó síðast í Hveragerði, f. 21. febrúar 1921 í Fáskrúðsfirði, d. 26. september 2011.
10. Garðar Björgvin Bjarnason stýrimaður, f. 28. maí 1928 á Fáskrúðsfirði, síðast í Hafnarfirði, d. 29. desember 1980.

Andrés var einn af þríburum foreldra sinna. Hann var með þeim í Bjarnaborg á Fáskrúðsfirði og flutti með þeim til Eyja 1937.
Andrés hélt til Reykjavíkur og nam járnsmíði í Héðni 1941-1945. Síðar lærði hann gullsmíði hjá Aðalbirni Péturssyni og síðar Jens Guðjónssyni.
Hann vann ýmis störf í æsku, vann að járnsmíðaiðn sinni til 1949, en eftir gullsmíðanám vann hann við þá iðn og rak verslun að Laugavegi 58 frá 1959-1972. Síðustu starfsár sín vann hann við bólstrun í Gamla kompaníinu jafnframt gullsmíði.
Þau Ólöf giftu sig 1945, eignuðust tvö börn.
Ólöf lést 1997.
Þau Sveinbjörg giftu sig 1998, eignuðust ekki börn saman, en hún átti fimm börn. Þau bjuggu í Hveragerði frá 1991.
Andrés lést 2002 og Sveinbjörg lést 2020.

I. Fyrri kona Andrésar, (5. maí 1945), var Ólöf Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 18. september 1922, d. 6. júlí 1997. Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðfinnsson læknir, f. 20. apríl 1884 í Arnarstaðakoti í Flóa, d. 30. júlí 1938, og kona hans Margrét Lárusdóttir frá Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd, húsfreyja, f. 25. október 1889, d. 24. október 1966, systir Ólafs læknis.
Börn þeirra:
1. Margrét Andrésdóttir húsfreyja, fiskverkakona, verslunarmaður á Fáskrúðsfirði, f. 2. desember 1945. Fyrrum maður hennar Sigurður Arnþórsson. Maður hennar Helgi Guðlaugsson.
2. Dúi Andrésson matreiðslumaður, f. 7. september 1950. Fyrrum sambúðarkona hans Guðrún Björg Ágústsdóttir.

II. Síðari kona Andrésar, (12. desember 1998) er Sveinbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja, ritari, f. 19. október 1929, d. 13. október 2020. Foreldrar hennar voru Guðmundur Illugason rannsóknalögreglumaður, hreppstjóri á Seltjarnarnesi, f. 21. júní 1899 að Skógum í Flókadal, Borg., d. 25. september 1986, og kona hans Halla Guðrún Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 26. september 1901 að Hafursstöðum í Hnappadal, Snæf., d. 5. júní 1988. Þau voru barnlaus.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.